fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Fá rúmar 38 milljónir í biðlaun

11 aðstoðarmenn ráðherra hættir – Gætu orðið 25 talsins hjá nýrri ríkisstjórn

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 17. janúar 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ellefu aðstoðarmenn ráðherra luku störfum sínum 11. janúar síðastliðinn þegar ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tók við völdum af ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Sá tólfti er að velta vöngum um hvort hann eigi að fylgja sínum ráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, í annað ráðuneyti. Auk Kristjáns færði Bjarni Benediktsson sig um set og fylgdi aðstoðarmaður hans honum í annað ráðuneyti. Biðlaun aðstoðarmannanna ellefu gætu numið um 38,5 milljónum króna.

Fylgja ráðherrum

Samkvæmt lögum um stjórnarráð Íslands er ráðherrum heimilt að ráða til starfa aðstoðarmann eða tvo. Ráðherrar velja sér sjálfir sína aðstoðarmenn og er þeim ekki skylt að auglýsa störf þeirra. Aðstoðarmenn heyra enda beint undir ráðherra og eru í starfi svo lengi sem ráðherrar ákveða og ljúka því störfum þegar ráðherrar fara frá. Samkvæmt leiðbeinandi erindisbréfi forsætisráðuneytisins frá október 2013 skulu aðstoðarmenn meðal annars veita ráðherra aðstoð og ráðgjöf, annast samskipti við aðila utan ráðuneytis, vera tengiliður við þingflokk ráðherra, annast samskipti við kjördæmi ráðherra og eiga í samskiptum við fjölmiðla.

Árið 2014 kom út í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla grein eftir þá Gest Pál Reynisson og Ómar H. Kristmundsson með yfirskriftinni Hverjir verða aðstoðarmenn ráðherra? Í henni kom meðal annars fram að skilgreina megi hlutverk aðstoðarmanna með þrennum hætti. Þeir geti verið pólitískir ritarar, pólitískir ráðgjafar og faglegir ráðgjafar. Tiltekið er að þessi hlutverk geti skarast. Síðan lögum var breytt árið 2011, og ráðherrum þar með heimilað að hafa sér til halds og trausts tvo aðstoðarmenn, hafa ráðherrar gjarnan ráðið sér bæði pólitískan ráðgjafa og faglegan ráðgjafa inn í ráðuneyti sitt. Hvorir tveggja hafa veruleg áhrif á störf og stefnumótun en eðli málsins samkvæmt hafa pólitískir ráðgjafar veruleg áhrif á þá pólitík sem ráðherrar reka. Aðstoðarmenn fara hins vegar ekki með mannaforráð og geta ekki sinnt stjórnvaldserindum fyrir hönd ráðherra.

Með tæpar 1,2 milljónir á mánuði

Laun aðstoðarmanna eru ákvörðuð af kjararáði og eru þau hin sömu og skrifstofustjórar hjá stjórnarráðinu njóta. Samkvæmt úrskurði kjararáðs frá því á miðju síðasta ári hafa aðstoðarmenn því um 1.167.880 krónur í laun á mánuði. Þegar þeir láta af starfi eiga þeir rétt á þriggja mánaða biðlaunum. Því gætu biðlaunagreiðslur ríkisins til aðstoðarmanna numið 38,5 milljónum og raunar um 42 milljónum ef aðstoðarmaður Kristjáns Þórs, Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir, kýs að fylgja honum ekki yfir í menntamálaráðuneytið. Hefji aðstoðarmenn hins vegar störf annars staðar og þiggi laun fyrir meðan á biðlaunatímabilinu stendur skerðast biðlaun sem þeim launum nemur.

Svanhildur Hólm Valsdóttir mun áfram aðstoða Bjarna Benediktsson.
Aðstoðar Bjarna áfram Svanhildur Hólm Valsdóttir mun áfram aðstoða Bjarna Benediktsson.

Mynd: kristinnm@birtingur.is kristinnm@birtingur.is

Eiga eftir að ráða

Nýir ráðherrar hafa í sumum tilfellum þegar ráðið sér aðstoðarmenn. Svanhildur Hólm Valsdóttir mun áfram aðstoða Bjarna Benediktsson í fjármálaráðuneytinu. Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra hefur ráðið þau Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur og Karl Pétur Jónsson til sín. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur einnig ráðið tvo aðstoðarmenn, þau Sigrúnu Gunnarsdóttur og Unnstein Jóhannsson. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur ráðið Borgar Þór Einarsson, Jón Gunnarsson hefur ráðið Vigdísi Ósk Häsler Sveinsdóttur og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra hefur ráðið Gylfa Ólafsson til sín. Aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar höfðu ekki gengið frá ráðningum sinna aðstoðarmanna þegar þetta var skrifað.

Kjósi ráðherrarnir allir að ráða til sín tvo aðstoðarmenn, sem ekki skal fullyrt um að verði niðurstaðan, yrðu aðstoðarmennirnir því 22 talsins. Auk þess er ríkisstjórninni heimilt að ráða þrjá aðstoðarmenn til viðbótar. Aðstoðarmenn geta því að hámarki orðið 25 talsins í þessari ríkisstjórn. Ef svo yrði væri launakostnaður vegna aðstoðarmanna rúmar 29 milljónir króna á mánuði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“