fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Brynjar um ráðherrakapalinn: „Ég er ekki fýlugæinn“

Hafnar því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið fullnaðarsigur og segir gælumál hinna flokkana hafa komist inn: „Þessi helvítis jafnlaunavottun“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 11. janúar 2017 11:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég mótmæli því harðlega að þetta sé stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins.“

„Jú, að sjálfsögðu. Af hverju heldurðu að menn séu í pólitík?“ spyr Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurður hvort hann hefði ekki viljað verða ráðherra í nýrri ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Brynjar tekur skýrt fram að hann styðji það fólk sem valdist til ráðherra flokksins en að honum finnist að þekking og pólitísk umboð eigi að ráða för þegar í ráðherraembætti er valið. „Þetta á að ráða umfram kynjasjónarmið.“

Bjarni Benediktsson hefur valið tvær konur sem ráðherra, Sigríður Á. Andersen verður dómsmálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Fjórir karlar í flokknum verða ráðherrar.

Í hvaða sæti varð Páll?

Brynjar segir að í samtali við DV að hann hefði auðvitað gert eitthvað öðruvísi. Um þetta séu alltaf skiptar skoðanir. Brynjar, sem hefur áratugalanga reynslu úr íslensku dómskerfi, segist þó ekki hafa gert það að skilyrði að verða ráðherra. Hann styðji Bjarna og þá ráðherra sem valdir voru. „Staðan er sú að þetta varð niðurstaðan og þá fylkja menn sér um þetta. Ég er ekki fýlugæinn.“ Hann segist aðspurður helst vilja verða dómsmálaráðherra – þar liggi hans þekking.

Brynjar segir að í prinsippinu finnist honum að reynsla og umboð eigi að gilda umfram kynjasjónarmið við ráðherraskipan. Því kunni einhverjir að vera ósammála. Spurður hvort hann sé þá á því að Sigríður hafi ekki átt að fá dómsmálaráðuneytið segir Brynjar: „ Í hvaða sæti varð hún og í hvaða sæti varð Páll Magnússon? Ég tek þó fram að ég treysti Sigríði mjög vel. En þú ert með kjósendur flokksins.“

Skemmst er að minnast þess að Páll Magnússon lýsti því yfir á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í gær, að hann sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi styddi ekki ráðherraskipan Bjarna Benediktssonar. Brynjar segir aðspurður að fundurinn hafi ekki verið hitafundur.

Vildi verða ráðherra.
Páll Magnússon Vildi verða ráðherra.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„ESB-rugl“

Í umræðunni um stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar hefur heyrst að Sjálfstæðisflokkurinn geti afar vel við sáttamálann unað. Bjarni hafi náð flestu sínu fram. Brynjar, sem er vanur að tala tæpitungulaust, er innilega ósammála því að flokkurinn eigi stjórnarsáttmálann með húð og hári. Engar skattalækkanir sé að finna í plagginu og ekkert sem er til þess fallið að einfalda ríkiskerfið og nýta peningana betur. „Ég mótmæli því harðlega að þetta sé stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Stóru mál Sjálfstæðisflokksins eru ekki þarna inni. Við værum ekki að hafa þetta ESB-rugl inni í þessum sáttmála,“ en í stefnuyfirlýsingunni segir að komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið séu flokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. „Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.“

Brynjar segir Sjálfstæðisflokkurinn gæti aldrei fylgt eftir slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu ef hún félli á þann veg að aðildarviðræðum yrði fram haldið. Þá yrði ríkisstjórnin að víkja.“ Hann segir að það yrði „einsdæmi í vitleysu“ ef Bjarni Benediktsson færi til Brussel til að biðja um aðildarviðræður við Evrópusambandið. „Stjórnin færi frá. Sjálfstæðisflokkurinn yrði að fara frá.“

Sigríður er nýr dómsmálaráðherra.
Ráðherra Sigríður er nýr dómsmálaráðherra.

Mynd: Alþingi

„Helvítis jafnlaunavottun“

Og það er fleira sem Brynjari hugnast ekki við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þó hann segi að 90% af textanum ættu allir flokkar að geta kvittað uppá. „Þarna eru óþarfamál. Til dæmis þessi helvítis jafnlaunavottun. Það er algjörlega fráleitt. Menn á frjálsum markaði semja sín á milli.“ Hann segir galið að láta einkafyrirtæki undirgangast jafnlaunavottun. Markmiðið eigi að vera að skera fituna af í rekstri hins opinbera, en ekki búa til frekara eftirlit. „Menn eru hættir að tala um óútskýrðan mun. Ég veit ekki hvort yfir höfuð sé kynbundinn launamunur til. Gagnsemi af tveimur starfsmönnum getur verið mjög mismunandi.“ Blaðamaður bendir honum á niðurstöður rannsóknar BSRB þar sem fram kemur að hann sé 13,1%. Brynjar hafnar því og segir að menn hafi sýnt fram á að það sé rangt.

Fyrirtæki á frjálsum markaði eigi að geta samið við starfsmenn um laun eftir mikilvægi þeirra og framlagi. Ekki kyni.
Hann segir að engin „gælumál“ Sjálfstæðisflokksins séu í stjórnarsáttmálanum eins og hinna flokkanna. Þá nái flokkurinn ekki sínum stærstu stefnumálum fram. „Stóru pólitísku málefnin eru efnahagsmálin. Hvort skattar séu hærri eða lægri. Það er fráleitt að halda því fram að þetta sé bara [stjórnarsáttmáli] Sjálfstæðisflokksins.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu