fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Seðlabankinn selur 6% hlut í Kaupþingi til vogunarsjóðs

Taconic Capital kaupir megnið af hlutum og kröfum ESÍ – Kaupverðið gæti verið um 15 milljarðar

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 8. nóvember 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Seðlabanki Íslands hefur gengið frá sölu á öllum eignarhlutum og kröfum sem hann átti í eignarhaldsfélaginu Kaupþingi. Eignasafn Seðlabankans (ESÍ), dótturfélag bankans, var fjórði stærsti hluthafi Kaupþings um síðustu mánaðamót með rúmlega 6% eignarhlut. Samkvæmt heimildum DV var það bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, langsamlega stærsti eigandi Kaupþings, sem keypti megnið af bréfunum af Seðlabankanum fyrr í þessum mánuði. Ekki fást staðfestar upplýsingar um kaupverðið en miðað við núverandi höfuðstól breytanlegra skuldabréfa Kaupþings má gróflega áætla að það sé í kringum fimmtán milljarðar króna. Verðmætasta einstaka eign Kaupþings er 87% hlutur í Arion banka.

Vogunarsjóðurinn Taconic Capital hefur á undanförnum mánuðum reglulega komið á framfæri áhuga sínum, með óformlegum hætti, um að kaupa hlut ESÍ í Kaupþingi samhliða því að sjóðurinn hefur verið að auka verulega við eignarhlut sinn með upp­kaupum á hlutum ann­arra í félaginu. Þann 1. nóvember síðastliðinn, áður en vogunarsjóðurinn keypti eignarhluti og tengdar kröfur Seðlabankans vegna Kaupþings, áttu þrír sjóðir í nafni Taconic Capital samtals um 33% hlut í Kaupþingi, samkvæmt hluthafalista sem DV hefur undir höndum. Talið er hins vegar, að sögn þeirra sem þekkja vel til innan eigendahóps Kaupþings, að raunverulegur eignarhlutur Taconic Capital sé nokkuð meiri, líklega yfir 40%.

Með tögl og hagldir

Sá sem stýrir fjárfestingum vogunarsjóðsins hér á landi er Bandaríkjamaðurinn Keith Magliana, sjóðstjóri Taconic Capital í London. Í krafti þess að vera stærsti hluthafinn hefur sjóðurinn haft tögl og hagldir í Kaupþingi eftir að slitabúið lauk nauðasamningum um síðastliðin áramót og eignarhaldið færðist formlega í hendur kröfuhafa gamla bankans. Til marks um áhrif Taconic Capital þá voru Paul Copley, stjórnarmaður og forstjóri Kaupþings, og John P. Madden, framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi, fengnir til liðs við félagið á þessu ári einkum fyrir tilstuðlan Keith Magliana sem hafði haft kynni af þeim vegna fyrri starfa þeirra í London. John Madden var kjörinn í stjórn Arion banka um miðjan septembermánuð, eins og fyrst var upplýst um í DV, og er hann sá eini í átta manna stjórn bankans með bein tengsl við Kaupþing.

Eignasafn Seðlabanka Íslands var fjórði stærsti kröfuhafi Kaupþings þegar nauðasamningar slitabúsins voru samþykktir undir árslok 2015 og nam kröfufjárhæð ESÍ þá ríflega 158 milljörðum króna að nafnvirði. Samkvæmt greinargerð sem Seðlabankinn birti í október sama ár vegna uppgjörs föllnu bankanna þá gerði bankinn ráð fyrir að endurheimtur vegna krafna á hendur Kaupþingi myndu nema að jafnvirði 40 milljarða króna.

Strax í kjölfar nauðasamnings Kaupþings, þar sem gefið var út skuldabréf í erlendri mynt og samningskröfuhafar á borð við ESÍ fengu afhenta nýja hluti í félaginu í hlutfalli við fjárhæð krafna þeirra, fékk Seðlabankinn vel á annan tug milljarða í sinn hlut samtímis því að Kaupþing greiddi út reiðufé til kröfuhafa. Þá hefur stjórn Kaupþings einnig verið að umbreyta eignum í laust fé og greiða út til hluthafa það sem af er þessu ári sem hefur þýtt frekari greiðslur til ESÍ upp á milljarða króna. Ljóst er hins vegar að endanlegar endurheimtur Seðlabankans verða að lokum eitthvað lægri – í krónum talið – en áætlanir gerðu ráð fyrir í fyrra sökum mikillar gengisstyrkingar krónunnar á tímabilinu.

Áfram viðræður við lífeyrissjóði

Heildareignir Kaupþings námu um mitt þetta ár samtals um 475 milljörðum króna og er 87% eignarhluturinn í Arion banka sem fyrr segir verðmætasta einstaka eign félagsins. Viðræður standa nú yfir við íslenska lífeyrissjóði þar sem þeir skoða þann möguleika að kaupa hlut í Arion banka en í kjölfarið hyggst Kaupþing halda almennt hlutafjárútboð og skrá bankann í bæði Kauphöll Íslands og í Kauphöllinni í Stokkhólmi í Svíþjóð á fyrri helmingi næsta árs. Greint var frá því í DV þann 13. september síðastliðinn að áður en að útboðinu kemur þá muni Kaupþing bjóða lífeyrissjóðum að kaupa af félaginu 20 til 40 prósenta hlut í Arion banka en sé tekið mið af eigin fé bankans í dag gæti sá hlutur selst fyrir um 40 til 80 milljarða króna. Vegna afkomuskiptasamnings sem stjórnvöld gerðu við kröfuhafa slitabúsins þá mun stærstur hluti söluandvirðis Arion banka hins vegar falla í skaut ríkisins.

Þeir lífeyrissjóðir sem leiddu viðræðurnar við fulltrúa Kaupþings til að byrja með voru Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna (LIVE), Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og Frjálsi. Þrátt fyrir að LSR og Frjálsi hafi nýlega tekið ákvörðun um draga sig út úr þeim viðræðum þá eru aðrir sjóðir, meðal annars Gildi, LIVE og nýr sameinaður sjóður Stafa og Sameinaða undir nafninu Birta, áfram áhugasamir um að kaupa hlut í Arion banka, samkvæmt upplýsingum DV.

Selja allt fyrir 2019

Auk þess að vera stærsti hluthafi Arion banka er Kaupþing jafnframt helsti lánveitandi bankans vegna skuldabréfs í erlendri mynt til þriggja ára sem var gefið út í tengslum við þau stöðugleikaskilyrði sem Kaupþing þurfti að uppfylla. Samkvæmt viðskiptaáætlun stjórnenda Kaupþings er stefnt að því að búið verði að umbreyta öllum óseldum eignum félagsins í laust fé og greiða út til hluthafa og skuldabréfaeigenda á næstu tveimur til þremur árum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu