fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Vilja kaupa stóran hlut í Kviku banka

Virðing með kauptilboð í hlutabréf í Kviku – Yfirtaka gæti fylgt í kjölfarið

Ritstjórn DV
Föstudaginn 21. október 2016 07:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Verðbréfafyrirtækið Virðing vinnur nú að því að komast yfir stóran eignarhlut í Kviku fjárfestingabanka. Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, og Ármann Þorvaldsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar og einn hluthafa félagsins, hafa þannig á undanförnum vikum fundað með ýmsum af stærstu hluthöfum Kviku og lýst yfir áhuga á að kaupa hlut þeirra í bankanum, samkvæmt heimildum DV. Hefur Virðing, með fyrirvara um fjármögnun, nú þegar sett fram kauptilboð í hlutabréf í Kviku banka.

Gangi kaupin eftir, sem ætti að skýrast á allra næstu vikum, gætu þau meðal annars verið fjármögnuð með aðkomu nýrra einkafjárfesta að Virðingu og með það að markmiði að ráðast í kjölfarið í yfirtöku á Kviku. Hvorki Ármann né Hannes Frímann sögðust geta tjáð sig um málið í samtali við DV. Ríflega fimmtán mánuðir eru liðnir síðan MP banki og Straumur fjárfestingabanki gengu formlega frá sameiningu félaganna og til varð nýr sameinaður banki, sem fékk skömmu síðar nafnið Kvika.

Sameiningarviðræður 2014

Ekki fást staðfestar upplýsingar um hvaða tilteknu fjárfestar í hluthafahópi Kviku séu áhugasamir um að selja hlut sinn í bankanum. Ljóst er hins vegar að Lífeyrissjóður verslunarmanna, stærsti einstaki eigandi Kviku með 9,9% hlut, hyggst ekki selja í bankanum en sjóðurinn er jafnframt næststærsti hluthafi Virðingar með ríflega 8,3% hlut. Þá er talið ólíklegt að eigendur fjárfestingafélaganna Snæbóls og Siglu, sem Finnur Reyr Stefánsson, fjárfestir og varaformaður bankans, fer fyrir vilji selja en samanlagður eignarhlutur þeirra í Kviku er um 9,5%.

Sigurður Atli Jónsson.
Forstjóri Kviku Sigurður Atli Jónsson.

Á meðal annarra helstu hluthafa í Kviku eru Skúli Mogensen (Títan), Ármann Ármannsson (Ingimundur hf.), Guðmundur Jónsson (Mízar), viðkiptafélagarnir Grímur Garðarsson og Jónas Hagan Guðmundson (Varða Capital) og Eggert, Guðný, Halldór og Gunnar Gíslabörn (Eignarhaldsfélagið Mata og Brimgarðar). Þá á Eignasafn Seðlabanka Íslands og eignaumsýslufélagið Klakki, sem er að stærstum hluta í eigu vogunarsjóðsins Burlington Loan Management og íslenska ríkisins, ríflega 3% hlut hvor í Kviku.

Samkvæmt upplýsingum DV höfðu stjórnendur Virðingar nýlega frumkvæði að því að falast eftir því að kaupa út suma af helstu hluthöfum Kviku banka sem kynnu að vera áhugasamur um að selja bréf sín. Miðað við að bókfært eigið fé Kviku nam tæplega 6,2 milljörðum króna í lok september á þessu ári þá gæti tíu prósenta hlutur í bankanum, svo dæmi sé tekið, verið metinn á um 600 milljónir króna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem viðræður, sem tengjast mögulegum samruna fjármálafyrirtækjanna, eiga sér stað milli hluthafa félaganna. Þannig hófust formlegar sameiningarviðræður milli Virðingar og MP banka (forvera Kviku) haustið 2014 en þær runnu hins vegar fljótt út í sandinn þar sem hluthafar höfðu uppi mjög ólíkar skoðanir um verðmat félaganna.

Segir fjárfesta sýna áhuga

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, vildi aðspurður ekkert tjá sig um málið í samtali við DV en sagði að „rekstur bankans gengi gríðarlega vel sem endurspeglaðist meðal annars í því að fjárfestar væru að sýna bankanum áhuga. Ég skil það vel.“

Bankinn sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun eftir lokun markaða í gær, fimmtudag, þar sem fram kom að hagnaður Kviku eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins hafi numið samtals 1.032 milljónum króna. Eftir að hafa skilað afkomu upp á 373 milljónir króna á fyrri árshelmingi, sem var í takt við áætlanir, þá fór hagnaður bankans á þriðja ársfjórðungi aftur á móti „verulega fram úr áætlunum“ og nam 659 milljónum. Í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar segir að horfur séu á að afkoma ársins í heild verði betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. „Helsta ástæða jákvæðra frávika í afkomu ársins er góð afkoma fyrirtækjasviðs, aukin umsvif í gjaldeyrismiðlun og auknar fjárfestingatekjur.“

Hannes Frímann Hrólfsson.
Forstjóri Virðingar Hannes Frímann Hrólfsson.

Lífeyrissjóður þarf að selja

Ármann, sem var forstjóri Kaupthing Singer & Friedlander í Bretlandi á árunum 2006 til 2008, á tæplega 4,7% hlut í Virðingu ásamt meðfjárfestum í gegnum félagið MBA Capital. Auk Ármanns og Lífeyrissjóðs verslunarmanna eru helstu eigendur Virðingar meðal annars Kristín Pétursdóttur, stjórnarformaður fyrirtækisins, Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir. Við sameiningu lífeyrissjóðanna Stafa og Sameinaða undir nafninu Birta, sem stjórnir beggja sjóðanna hafa nýlega samþykkt, mun hinn nýi sjóður að óbreyttu eiga tæplega 15% eignarhlut í Virðingu. Ljóst þykir hins vegar að sameinaður sjóður mun ekki vilja fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki, sem miðast við 10%, og því er fastlega gert ráð fyrir að hann muni selja hluta af bréfum sínum á næstunni.

Á síðasta ári nam hagnaður Virðingar ríflega 100 milljónum króna og jókst um liðlega 40 milljónir frá fyrra ári. Eigið fé félagsins var 807 milljónir í árslok 2015. Þá nema heildareignir í stýringu Virðingar, sem sameinaðist Auði Capital í ársbyrjun 2014, um hundrað milljörðum króna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”