Þetta segir Sten Madsbad, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla en hann vinnur að rannsóknum á sykursýki og offitu. Hann segir að líkaminn geti að mestu leyti séð alveg sjálfur um að léttast.
Madsbad segir að líkaminn byrji sjálfkrafa að draga úr orkuneyslu þegar hann áttar sig á að hann hefur þyngst. Þetta hefur í för með sér að margir léttast aðeins án þess að breyta neinu að ráði í mataræði sínu.
Þetta hljómar eiginlega of gott til að vera satt en boðskapur Madsbad er skýr: Strangir megrunarkúrar eru ekki nauðsynlegir, þeir geta í raun verið skaðlegir því þegar líkaminn áttar sig á að dregið hefur verið úr hitaeininganeyslunni, setur hann lífsbjargandi aðgerðir í gang.
Það veldur aukinni svengd og dregur úr brennslunni. Þetta getur síðan leitt til þess að fólk þyngist enn meira.