Frakkinn Dominique Pelicot hefur fengið viðurnefnið „skrímslið í Avignon“ en hann svarar nú til saka í einu hrottalegasta kynferðisbrotamáli sem upp hefur komið þar í landi. Pelicot hefur játað að hafa í rúman áratug byrlað eiginkonu sinni, Gisele, ólyfjan og bæði brotið sjálfur gegn henni sem og leyft á áttunda tug ókunnugra að gera slíkt hið sama.
Málið hefur vakið mikinn óhug en það er rekið fyrir opnum dyrum sem er óvenjulegt fyrir mál af þessu tagi. Skýringin er sú að Gisele, sem hefur nú sagt skilið við fjölskyldunafn eiginmanns síns, fór sjálf fram á opið þinghald. Þetta gerði hún til að skila skömminni þar sem hún á heima og þykir þannig hafa sýnt ótrúlegt hugrekki. Fyrir vikið hafa áhrifaríkar myndir birst frá réttarhöldunum þar sem Gisele stendur keik, með ekkert til að skýla sér annað en sólgleraugu, á meðan þeir rúmlega 50 menn sem hafa verið ákærðir fela sig fyrir fjölmiðlum. Skömmin er þeirra en ekki hennar.
Lögmenn hennar sögðu Gisele vilja að málið næði augum sem flestra svo ekkert þessu líkt geti átt sér stað aftur. Gisele sagði sjálf fyrir helgi: „Ég tala fyrir allar konur sem hafa lent í byrlun án þess að vita af því. Ég er að endurheimta valdið yfir lífið mínu og ég fordæmi byrlanir. Margar konur hafa engar sannanir. Ég hef sannanir um það sem ég gekk í gegnum.“
Börn Gisele styðja móður sína heilshugar í að stíga fram undir nafni og mynd. Dóttir hennar, Caroline, hefur afneitað föður sínum og skrifað bók um málið. Einn lögmaður fjölskyldunnar sagði í samtali við CNN að málið sé rekið fyrir opnum dyrum svo allir megi heyra afsakanir þeirra manna sem eru ákærðir í málinu.
Þó að Pelicot hafi játað sök í málinu virðist hann þó ekki viðurkenna alvarleika brota sinna. Hann baðst undan því að gefa skýrslu fyrir dómi í dag vegna heilsubrests og var þess í stað rætt við sálfræðing sem hefur rætt við Pelicot í fangelsinu. Sálfræðingurinn segir að Pelicot líti málið þeim augum að það sé lögregla og ákæruvald sem hafi eyðilagt líf hans. Hann hafi átt æðislegt líf sem sé nú rústir einar eftir að ákæra var gefin út í málinu.
Sálfræðingurinn segir að Pelicot, sem er á áttræðisaldri, sé með klofinn persónuleika og skorti samkennd. Hann hafi erfitt skapvonsku frá föður sínum sem var ofbeldismaður. Pelicot haldi því fram að hefði hann ekki verið handtekinn þá hefði hann áfram leyft ókunnugum að nauðga konu sinni og hefðu þau bæði verið hamingjusamari fyrir vikið, enda vissi hún ekki hvað átti sér stað í skjóli myrkurs fyrr en lögreglan sýndi henni myndbönd sem Pelicot hafði tekið af brotunum. Sálfræðingurinn tók þó fram að þrátt fyrir það komi spánskt fyrir sjónir þá hafi Pelicot virkilega elskað konu sína.
„Hann heldur því fram að lífið hefði gengið sinn vanagang líkt og áður hefði hann ekki verið handtekinn. Hann sagði: „Gisele hefði áfram ekkert vitað, og við hefðum áfram verið hamingjusöm“.“
Sálfræðingurinn tók fram að Pelicot hafi verið kynferðislega misnotaður af hjúkrunarfræðing þegar hann var aðeins 9 ára gamall. Faðir hans beitti móður hans hrottalegu ofbeldi og þvingaði Pelicot út á vinnumarkaðinn þegar drengurinn var aðeins 14 ára. Faðirinn hirti svo stærsta hluta tekna hans. Foreldrar hans hafi tekið unga stúlku í fóstur sem faðir Pelicot misnotaði.
„Dominique Pelicot kemur frá óheilbrigðu fjölskyldumynstri þar sem ung börn voru misnotuð. Hann er með tvískiptan persónuleika; hann er heimilisfaðir en hann er líka óábyrgur og heimaríkur. Á bak við luktar dyr virðir hann engin mörk. […] Persónuleiki hans skiptist í manninn sem hann vill vera og manninn sem hann er.“
Sálfræðingurinn útskýrir að þegar hjónin fluttu árið 2013 til að njóta efri áranna í Suður-Frakklandi hafi Gisele einangrast frá fjölskyldu og vinum. Þá hafi Pelicot stigmagnað ofbeldið þar til hann var handtekinn. Pelicot lýsti konu sinni sem dásamlegri konu sem hann hafi kolfallið fyrir aðeins 18 ára gamall. Þau hafi átt gott og hamingjuríkt hjónaband. Þessu eru þó synir hans og bróðir ósammála. Þeir lýsa Pelicot sem reiðum lygara sem hafi ekki þolað fólk sem var ósammála honum og ófær um að gangast við eigin mistökum.
Gisele gaf skýrslu í málinu fyrir helgi þar sem hún lýsti því þegar lögregla tilkynnti henni um ofbeldið. „Mér var fórnað á altari afbrigðileikans. Það er dauð kona sem liggur á rúminu. Þetta er ekki svefnherbergi, þetta er leikhús. Þeir koma fram við mig eins og ég sé ruslapoki, tuskudúkka. Þetta eru ekki kynlífsmyndbönd heldur myndefni af nauðgunum, þetta er óbærilegt.“
Pelicot byrlaði konu sinni róandi lyf ásamt svefnlyfjum með rauðvínsglasinu hennar fyrir svefninn. Gisele hafði ekki hugmynd um að henni hefði verið byrlað heldur taldi sig glíma við alvarlegan heilsubrest og fyrstu merki Alzheimer-sjúkdómsins. Pelicot notaði spjallsvæði fyrir ofbeldismenn á netinu til að auglýsa aðgang að konu sinni. Hann tók svo brotin upp og geymdi á tölvu sinni. Af myndböndunum hefur lögregla greint á áttunda tug karlmanna og tekist að bera kennsl á 51 mann og hafa þeir allir verið ákærðir í málinu. 16 hafa játað sök en 35 segjast saklausir.