Andi hefur fundið fyrir þrengslum í nefi og það hefur verið viðkvæmt í á þriðja áratug en læknar töldu alltaf að þetta væri af völdum ofnæmis að sögn Newsweek.
Hann sagði að þar sem hann er með ofnæmi fyrir köttum, hundum, grasi, mörgum trjátegundum og ryki þá hafi hann alltaf talið að þrengslin í nefinu og viðkvæmni þess væru afleiðing ofnæmisins.
Hann glímdi við sýkingu í ennis- og kinnholum og leitaði til læknis sem ráðlagði honum að reyna að snýta sér á meðan hann væri í heitri sturtu. Eftir margra mánaða tilraunir skilaði þetta árangri þegar „mjög harður“ hlutur skaust út úr annarri nösinni og lenti á gólfinu.
Andi sagðist strax hafa áttað sig á að þetta var LEGO-kubbur og tók hann upp. „Skyndilega rifjaðist svolítið, sem ég hafði steingleymt, upp fyrir mér,“ sagði hann.
1998 var hann að leika sér með LEGO og datt þá í hug að stinga einum kubbi upp í nefið. Hann festist þar. Hann og fullorðnir reyndu að ná kubbnum en allt kom fyrir ekkert.