The Guardian segir að maðurinn, sem heitir Yanyu Mu, hafi verið handtekinn í Melbourne á fimmtudaginn og nær strax framseldur til Sydney.
Lögreglan telur að hann sé forsprakki hóps karla sem neyddi 36 ára konu inn í bíl í Sydney í apríl.
Daginn eftir sagði hún lögreglunni að henni hefði verið byrluð ólyfjan og beitt kynferðislegu ofbeldi. Hún var flutt á sjúkrahús í kjölfarið og lögreglan hóf að rannsaka málið.
Lögreglan fann fatnað hennar, lyf og fjötra, sem eru taldir hafa verið notaðir á konuna, í ruslatunnu við hús í Eastwood í Sydney, ekki fjarri þeim stað þar sem hún var numin á brott.
Mu hefur verið ákærður fyrir að hafa beitt konuna kynferðislegu ofbeldi í samvinnu við fleiri, að hafa byrlað henni ólyfjan og að hafa stýrt aðgerðum hópsins.
Hann á einnig yfir höfði sér ákæru fyrir að hafa tekið kynferðisofbeldið upp og að hafa hótað konunni að birta upptökurnar nema hún greiddi honum sem nemur 27 milljónum íslenskra króna.