fbpx
Laugardagur 25.maí 2024
Pressan

Leit í skólplögnunum kom upp um 20 ára hrylling

Pressan
Laugardaginn 20. janúar 2024 22:00

Joachim Kroll. Mynd:Lögreglan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1933 fæddist Joachim Kroll í Hindenburg í Þýskalandi. Hann ólst upp í tveggja herbergja íbúð með sex systrum, tveimur bræðrum og móður sinni. Faðir hans vann við námugröft og var sendur nauðugur til Sovétríkjanna þegar síðari heimsstyrjöldin braust út. Joachim þótti veikburða, hann var horaður, þunnhærður og pissaði oft undir. Hann var lágvaxinn, sjóndapur og ólæs. Hann var lagður í einelti, bæði af systkinum sínum og í skóla vegna útlitsins og ólæsisins, og flosnaði upp frá námi í fimmta bekk. Hann fór þá að vinna fyrir sér á sveitabýlum.

Þegar hann komst á unglingsárin vaknaði áhugi hans á hinu kyninu en stelpur vildu ekkert með hann hafa að gera, hann eignaðist því ekki kærustu og stundaði ekki kynlíf. Það var honum mikið áfall þegar móðir hans lést 1955. Hann stóð þá uppi einhleypur og ómenntaður. Aðeins tveimur vikum eftir andlát hennar breyttist hann í blóðþyrsta mannætu sem lék lausum hala í um tvo áratugi og myrti, nauðgaði og borðaði að minnsta kosti 14 stúlkur og konur í Ruhr. Yngsta fórnarlambið var fjögurra ára og það elsta 61 árs.

Morðin hefjast

Hin 19 ára gamla Irmgard Strehl var fyrsta fórnarlamb hans. Hún var nýstrokin að heiman og var á göngu í Lüdinghausen þegar hún hitti Joachim. Móðir hans var nýdáin og hann var niðurdreginn. Hann spurði Irmgard hvort hún vildi koma með honum í göngutúr út í skóg. Það vildi hún. Þegar þau voru komin spöl frá veginum reyndi hann að kyssa hana en hún færðist undan. Hann brást við með því að stinga hana fjórum sinnum í hálsinn, því næst kyrkti hann hana og nauðgaði. Á endanum skar hann maga hennar upp og reif innyflin út. Líkið fannst ekki fyrr en fimm dögum síðar.

Lögreglan stóð ráðalaus uppi og taldi að um hópnauðgun, sem hefði farið úr böndunum, hefði verið að ræða.  Ári síðar fannst 12 ára stúlka látin, 50 km frá staðnum þar sem Irmgard fannst, hún hafði verið kyrkt og nauðgað.

Joachim Kroll við sviðsetningu á einu morðanna. Mynd:Lögreglan

 

 

 

 

 

 

 

1957 flutti Joachim til Duisburg þar sem hann fékk starf sem salernisvörður. Næstu tvö árin voru engar konur eða stúlkur myrtar á svæðinu en 1959 byrjaði hann aftur að myrða. Hann þótti furðulegur en góðhjartaður og gaf börnum oft sælgæti og kölluðu þau hann „Joachim frænda“.

Frá júní 1959 fram í september 1962 myrti hann fimm stúlkur og konur á aldrinum 12 til 24 ára. Flestar voru kyrktar og nauðgað. En Joachim komst einnig á bragið með mannakjöt og skar kjötstykki af rassi og lærum tveggja fórnarlamba sinna. Talið er að eina stúlkuna hafi hann borðað upp til agna.

Saklausir menn

Mikið var fjallað um morðin í fjölmiðlum og fólk í Ruhr var hrætt. Mörgum létti því þegar Horst Otto gaf sig fram í febrúar 1960 og játaði eitt morðanna. Drap hann kannski og nauðgaði hinum? Sú spurning sótti að mörgum. Hann dró játninguna síðan til baka en var engu að síður dæmdur í fangelsi fyrir eitt morð.

Á meðan hann sat í fangelsi lét Joachim aftur til skara skríða og myrti og borðaði 13 ára stúlku. Þá fóru yfirvöld að efast um sekt Horst.

Teikning Kroll af stöðum þar sem hann myrti. Mynd:Lögreglan

Fólk fór þá að benda á Walter Quicker sem hugsanlega morðingja. Hann var dæmdur barnaníðingur og lá því undir grun. Hann neitaði sök en fannst sem hann hefði verið dæmdur fyrir fram og tók eigið líf nokkrum mánuðum síðar.

Næstu þrjú árin voru tíðindalaus, engin morð. Gat fólk nú hætt að óttast morðingjann?

Konan í bílnum

Í ágúst 1965 lét Joachim aftur til skara skríða þegar hann var í gönguferð úti í skógi. Þar kom hann að ungu pari sem var að stunda kynlíf í bíl. Hann læddist að bílnum og stakk gat á vinstra framdekkið. Bíllinn seig þá niður og ungi maður reisti sig þá upp en um leið kastaði Joachim sér á hann og stakk hann og drap. Unga konan náði að setjast undir stýri og þeytti bílflautuna til að hræða Joachim. Síðan steig hún bensínið í botn og stefndi á hann. Hann rétt náði að stökkva frá bílnum en konan ók á brott. Lögreglan gerði mikla leit á svæðinu en Joachim var horfinn. Hugsanlega var honum brugðið því ár leið þar til hann lét næst til skara skríða. Þá myrti hann tvítuga konu. Síðan misnotaði hann líkið kynferðislega.

Unnusti ungu konunnar var grunaður um morðið og var yfirheyrður af lögreglunni. Samfélagið útskúfaði honum og taldi hann hafa myrt hana. Á endanum gafst ungi maðurinn upp og tók eigið líf.

Endalokin

Á næstu árum hélt Joachim uppteknum hætti og myrti, nauðgaði og borðaði stúlkur og konur. 1976 kom loks að því að upp um hann komst. Þá rændi hann fjögurra ára stúlku sem var að leik við heimili sitt. Joachim tók hana með heim þar sem hann kyrkti hana og sundurhlutaði líkið. Lögreglan gekk hús úr húsi og leitaði hennar og á sama tíma tók nágranni Joachim eftir því að klósettið í húsinu var stíflað sem og sorprennan. Joachim sagði honum að innyfli stífluðu allt, hann væri nýbúinn að drepa kanínu og hefði hent innyflunum í ruslið og klósettið.

Ilona Harke var eitt fórnarlamba Joachim. Mynd:Lögreglan

Þegar lögreglan knúði dyra sagði nágranninn frá þessari undarlegu sögu Joachim enda fannst honum þetta mjög grunsamlegt. Lögreglan leitaði því í skólplögnunum og sorpinu og fann þar hjarta, lungu, lifur og nýru og þarma. Í íbúð Joachim fannst hönd litlu stúlkunnar í potti en Joachim var að sjóða hana með gulrótum og kartöflum. Í frystinum var restin af líki hennar.

Svona var umhorfs heima hjá Joachim. Mynd:Lögreglan

Við yfirheyrslur sagðist hann hafa myrt 20 til 30 stúlkur og konur auk þess að nauðga þeim og jafnvel borða hluta af þeim.

Hann var fundinn sekur um átta morð og dæmdur í nífalt lífstíðarfangelsi. Hann lést í fangelsi í júlí 1991, 58 ára að aldri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Ertu sannur karlmaður? Val þitt á mat segir til um það

Ertu sannur karlmaður? Val þitt á mat segir til um það
Pressan
Fyrir 2 dögum

Strandgestirnir trúðu ekki eigin augum þegar þeir sáu hvað maðurinn kom með upp úr sjónum

Strandgestirnir trúðu ekki eigin augum þegar þeir sáu hvað maðurinn kom með upp úr sjónum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Eitt mest smitandi kórónuveiruafbrigðið breiðist út

Eitt mest smitandi kórónuveiruafbrigðið breiðist út
Pressan
Fyrir 3 dögum

Myrti 5 manns vegna farsíma

Myrti 5 manns vegna farsíma
Pressan
Fyrir 4 dögum

Konan taldi sig hafa unnið milljónir í spilakassa en þá komu öryggisverðirnir

Konan taldi sig hafa unnið milljónir í spilakassa en þá komu öryggisverðirnir
Pressan
Fyrir 4 dögum

Vendingar í máli móðgaða afans – Barnabörnin sitja eftir stórskuldug

Vendingar í máli móðgaða afans – Barnabörnin sitja eftir stórskuldug