Á laugardaginn fannst beinagreind á bökkum Lake Mead sem er nærri Las Vegas í Bandaríkjunum. Fyrir um viku fannst lík í tunnu á bökkum vatnsins og hafði viðkomandi verið skotinn fyrir einhverjum áratugum síðan. Vegna mikilla þurrka hefur yfirborð vatnsins farið lækkandi og því kemur eitt og annað í ljós sem hefur verið kastað í það fram að þessu.
DV skýrði frá því í síðustu viku að tunna með líki í hefði fundist í vatninu. Þá var haft eftir talsmanni lögreglunnar að hann ætti von á að fleiri lík myndu finnast. Hann hafði greinilega rétt fyrir sér.
Sky News segir að lögreglan rannsaki nú hvort mafían tengist þessum málum.
Í tilkynningu frá yfirvöldum segir að tilkynnt hafi verið að líkamsleifar hafi fundist í Callville Bay um klukkan 14 á laugardaginn. Í kjölfarið voru löggæslumenn sendir á vettvang ásamt réttarmeinafræðingi.
Tveir lögreglumenn á eftirlaunum, sem störfuðu hjá lögreglunni í Las Vegas, hafa heitið 5.000 dollurum í verðlaun fyrir hvert lík sem kafarar finna í vatninu. Þeir segjast þess fullvissir að fleiri lík séu í vatninu og nú sé tækifæri til að finna þau vegna þess hversu lágt vatnsyfirborðið sé.