Ránið átti sér stað í San Antonio í Bandaríkjunum þar sem Shirlene býr. Hún er með slæma áverka og marbletti eftir árásina. Í samtali við WPSD sagðist hún hafa óttast mest að hún myndi ekki hitta börnin sín og barnabörnin aftur.
„Ég sé þennan mann fyrir mér í smáatriðum. Ég er með mynd af honum í höfði mér, hún er bara þar og vill ekki hverfa,“ sagði hún.
Hún sagðist hafa ekið að bensínstöð að morgni til. Þangað fer hún á hverjum morgni til að kaupa sér gosdrykk. En að þessu sinni náði hún rétt að stíga út úr bílnum áður en maður greip í hana og sló hana ítrekað í andlitið.
Hún sagði að sem betur fer hafi þrír menn komið henni til bjargar og reynt að yfirbuga ofbeldismanninn sem hafi þó sloppið á brott í bíl hennar.
Lögreglan kom fljótt á vettvang og ekki löngu síðar fann hún bifreið Shirlene. Inni í bílnum var ofbeldismaðurinn og var hann látinn er að var komið. Hann hafði lent í árekstri.
„Það eru margir sem segja að þetta hafi verið karma. Ég varð mjög leið yfir að hann var látinn. Hann hafði meitt mig en drottni fannst við hæfi að losa hann úr eymdinni,“ sagði hún.
Hún sagðist vera aum og marin eftir árásina en að öðru leyti líði henni ágætlega. Það sem er henni erfiðast er að hún á ekki bíl lengur en án bíls getur hún ekki verið því þrátt fyrir að vera á áttræðisaldri vinnur hún enn úti og þarf að sækja vinnu töluvert langa leið. Hún vill heldur ekki hætta að vinna því tekjur hennar skipta þau hjónin miklu máli.
Barnabarn hennar hefur hrundið af stað söfnun á GoFundMe svo Shirlene geti keypt sér nýjan bíl.