fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Pressan

Andstæðingar bólusetninga innanlands og utan – Hugsjónafólk eða peningafólk?

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 31. júlí 2021 13:00

Samsett mynd DV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það ber mikið á andstæðingum bólusetninga þessa dagana en þeir berjast gegn því að fólk láti bólusetja sig gegn kórónuveirunni sem herjar á heimsbyggðina. En hvað rekur andstæðinga bólusetninga áfram? Er þetta hugsjónafólk eða eru það peningar sem eru drifkrafturinn?

Upphafið

Læknirinn gekk á milli sjúkrarúmanna. Sjúklingarnir voru alvarlega veikir því faraldurinn hafði skollið á Boston af miklum þunga og nú lágu rúmlega 100 smitaðir á Gallop Islands sjúkrahúsinu.

Læknirinn og yfirlæknirinn stoppuðu við eitt rúm þar sem sjúklingurinn barðist fyrir lífi sínu. „Þefaðu af andardrætti hans,“ sagði yfirlæknirinn við hinn lækninn, sem var gestkomandi og hét Immanuel Pfeiffer. Hann var í heimsókn því hann hafði tekið áskorun frá öðrum lækni um að heimsækja sjúkrahúsið því í Boston börðust heilbrigðisyfirvöld við efasemdarfólk um bólusetningar og hafði Peter Durgin, yfirmaður heilbrigðismála í borginni, því spurt hvort einhver úr röðum efasemdarfólksins væri ekki tilbúinn til að heimsækja sjúkrahúsið og þeirri áskorun tók Pfeiffer.

Sjúkrahúsið Gallop Islands. Mynd:Wikimedia Commons

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Atburðarásinni er lýst í vísindaritinu New England Journal of Medicine. Þar kemur fram að Pfeiffer var ekki bólusettur gegn veirunni sem varð þess valdandi að sjúklingarnir á sjúkrahúsinu voru veikir af bólusótt.

Bólusótt er alvarlegur sjúkdómur og getur bólusetning gegn henni skipt sköpum hvað varðar líf eða dauða. Myndin hér fyrir neðan sýnir tvær systur sem smituðust sama dag. Munurinn er sá að sú á eftir myndinni var bólusett, hin ekki. En Pfeiffer var ekki sannfærður og taldi að dáleiðsla og fasta virkaði jafn vel og bólusetning. Það var það sem hann ráðlagði sjúklingum sínum en rétt er að hafa í huga að bólusett varð um þriðjungi smitaðra að bana. Pfeiffer var svo sannfærður um þetta að hann féllst á að þefa af andardrætti sjúklinganna og það var upphafið að skelfilegri atburðarás, fyrir Pfeiffer en einnig fyrir heimsbyggðina.

Á efri myndinni er 21 árs kona sem var bólusett. Á neðri myndinni er 15 ára óbólusett systir hennar. Mynd: Allan Warner.

Pfeiffer var formaður félags dulskyggnra í Boston en hann virðist ekki hafa séð fyrir að hann myndi smitast af bólusett í heimsókninni. En það gerði hann og nokkrum dögum eftir heimsóknina hvarf hann og þá hófst leit fjölmiðla að honum. Hann fannst eftir fimm daga á sveitabýli þar sem hann hafði falið sig, illa haldinn af bólusótt. Verðir voru sendir að húsinu til að tryggja að hann gæti ekki smitað aðra en Pfeiffer náði sér af bólusóttinni og það styrkti hann og aðra andstæðinga bólusetninga enn frekar í þeirri sannfæringu sinni að bólusetningar væru óþarfar og hættulegar.

Staðfest gagnsemi bóluefna

Það að bóluefni bjargi mannslífum var rækilega staðfest og skjalfest 1902. Til dæmis birti breski læknirinn Allan Warner frægar myndir í vísindaritinu Atlas of Clinical Medicine, Surgery and Pathology. Á þeim sjást tveir 13 ára drengir. Sá til hægri var bólusettur gegn bólusótt en hinn ekki. Þeir smituðust af sama aðilanum.

Á síðustu öld létust á milli 300 til 500 milljónir manna úr bólusótt. Þetta eru að minnsta kosti þrisvar sinnum fleiri en létust í báðum heimsstyrjöldunum til samans.

Bólusótt var útrýmt með alheimsbólusetningaráætlun og var verkefninu lokið 1978. En nú hefur ný farsótt skollið á heimsbyggðinni eins og hefur varla farið fram hjá nokkrum manni.

Baráttan gegn bóluefnum

Í yfirstandandi heimsfaraldri hefur mikið farið fyrir andstæðingum bóluefna og þar feta margir í fótspor fyrrnefnds Immanuel Pfeiffer. Samkvæmt samantekt Center for Countering Digital Hate (CCDH), sem fylgist náið með andstæðingum bólusetninga, fylgja um 60 milljónir manna 425 stærstu hópum andstæðinga bóluefna á samfélagsmiðlum. Á síðum þeirra er hægt að horfa á margar klukkustundir af upptökum til að fólk geti „menntað sig sjálft“ eins og andstæðingar bóluefna segja.

Í þessum myndböndum koma læknar og vísindamenn fram sem hafa vit og skilning á hvernig er hægt að nýta sér starf sitt og menntun til að auðgast og láta ekki trufla sig að samstarfsfólk muni líta niður á viðkomandi fyrir vikið.

Ein stærsta stjarnan

Ein stærsta stjarnan í and-bólusetningarbransanum heitir Andrew Wakefield. Hann er læknir og starfaði eitt sinn hjá Royal Free Hospital í Lundúnum. Honum tókst að fá rannsókn birta í hinu virta læknariti The Lancet árið 1999 og er óhætt að segja að það hafi verið örlagríkt. Í rannsókninni kom fram að hið svokallaða MMR-bóluefni  sem flest börn í hinum Vestræna heimi fá gegn rauðum hundum, mislingum og hettusótt geti valdið einhverfu. En öðrum vísindamönnum tókst ekki að staðfesta þessa niðurstöðu Wakefield og skömmu síðar kom fram að lögmannsstofur, sem störfuðu fyrir foreldra sem höfðu stefnt lyfjafyrirtækjum, greiddu kostnaðinn við rannsóknina. Wakefield hafði einfaldlega logið til um niðurstöður rannsóknarinnar. Honum „láðist“ einnig að geta þess að hann hafði sjálfur sótt um einkaleyfi á bóluefni gegn mislingum og lækningu á einhverfu skömmu áður en rannsóknin var birt.

Andrew Wakefield. Mynd:Getty

The Lancet greip til þeirrar óvenjulegu aðgerðar að draga rannsóknina til baka og Wakefield var sviptur læknaleyfi í Bretlandi. Hann þvertók fyrir að hafa gert nokkuð rangt og hélt áfram að deila skoðunum sínum og staðhæfingum í Bandaríkjunum en þar hafa eftirmenn Immanuel Pfeiffer reynt að telja fólk af að láta bólusetja sig síðustu 100 árin.

Orð Wakefield hafa náð eyrum margra og þeirra á meðal Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseta, sem skrifaði á Twitter 2014: „Heilbrigt lítið barn fer til læknis og í það er dælt miklu magni bóluefna, barninu líður illa og það breytist – EINHVERFA. Það eru mörg svona tilfelli.“ Trump og Wakefield hittust síðan 2016 þegar Trump var að berjast um forsetaembættið við Hillary Clinton.

Færsla Trump. Skjáskot/Twitter

 

 

 

 

 

Skortur á vísindalegum sönnunum hefur ekki komið í veg fyrir að kenning Wakefield um tengsl bólusetninga og einhverfu hafi náð fótfestu og fyrir tveimur árum urðu margir mislingafaraldrar í Bandaríkjunum því fjöldi barna hafði ekki verið bólusettur gegn þessum hættulega sjúkdómi.

Enn að

Þann 23. desember 2020 ráðlagði Wakefield fylgjendum sínum að láta ekki bólusetja sig gegn kórónuveirunni. „Þetta er ekki bóluefni. Þetta er óbætanleg breyting á genum,“ sagði hann í myndbandi þar sem hann líkti fyrirhuguðum fjöldabólusetningum við hryllingsmynd. „Þetta er eins og Júragarðurinn sem er að sleppa frá eyjunni,“ sagði hann og vísaði þar til kvikmyndanna um Júragarðinn (Jurassic Park).

Þegar fyrrum læknir og vísindamaður í lyfjaiðnaðinum segir svona hlýtur það að vekja áhyggjur hjá mörgum sem aðhyllast samsæriskenningar og efasemdir um bóluefni.

Mislingar

Tölur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO frá því í nóvember 2020 sýna að 2019 létust rúmlega 207.000 manns af völdum mislinga um allan heim og höfðu ekki verið fleiri frá 1996. Flest fórnarlambanna voru börn. Þessi dauðsföll hefði verið hægt að koma í veg fyrir með bólusetningu með MMR-bóluefninu. En Wakefield og fleiri berjast enn gegn því að fólk láti bólusetja sig og börn sín og skiptir þá engu hvaða bóluefni er um að ræða. Fullyrðingar Wakefield um að hin nýju mRNA-bóluefni gegn kórónuveirunni geti breytt DNA fólks er röng og hefur til dæmis verið sýnt fram á það hér, hér og hér en samt sem áður dreifist þessi fullyrðing út um allan heim.

Mislingasmitað barn.

Bisness

Á bak við fullyrðingar Wakefield og annarra stendur heill iðnaður sem græðir á því að halda fyrirlestra, selja bækur og óhefðbundin lyf. Þetta er her lækna, lögmanna, fyrrum vísindamanna og fjölmiðlafólks sem að CCDH segir að reyni að halda rangfærslum um bóluefni að fólki. Meðal hinna áhrifamestu í þessum hópi er Robert F. Kennedy Jr. Í nýlegri umfjöllun DV er hægt að sjá nöfn tólf áhrifamestu andstæðinga bóluefna. Þetta fólk þekkist nær allt og tengist ákveðnum böndum og starfar saman að því að vekja athygli á hvert öðru því öll umfjöllun er ávísun á peninga.

Robert F. Kennedy Jr er einarður andstæðingur bólusetninga. Mynd:Getty

Í skýrslu CCDH kemur fram að þetta áhrifamikla fólk noti Facebook til að auglýsa sig og flytja hugsanlega viðskiptavini frá innihaldinu á Facebook yfir á vefsíður þar sem það getur skráð sig í áskrift að fréttabréfum og séð ókeypi myndefni og að lokum yfir að greiðslusíðum þar sem þarf að greiða fyrir aðgang eða að síðum þar sem vörur eru seldar. Til dæmis er Rashid Buttar, sem gerir út á óhefðbundnar meðferðir, sagður rukka fylgjendur sína um 99 cent fyrir það eitt að fá aðgang að þeim hluta heimasíðu hans þar sem er hægt að kaupa „lyf“ sem hann segir vera betri en bóluefni. Hann er með hálfa milljón fylgjenda á YouTube.

Ekki er vitað hversu háum fjárhæðum þessi iðnaður andstæðinga bólusetninga veltir en CCDH segir að Josep Mercola, sem talar fyrir óhefðbundnum meðferðum, hafi hagnast um 100 milljónir dollara með þessu. Hann hefur notað hluta af auðæfum sínum til að styrkja hreyfingu andstæðinga bólusetninga og það hefur skilað sér því viðskiptavinum hans hefur fjölgað vegna þess.

Samfélagsmiðlarnir græða líka

Stóru tæknifyrirtækin, til dæmis samfélagsmiðlar, græða einnig á fólki á borð við Wakefield, Buttar og Mercola. CCDH telur að Facebook hafi haft um einn milljarð dollar í tekjur 2019 af þeim 39 milljónum manna sem fylgja helstu andstæðingum bólusetninga á Facebook og Instagram. CCDH telur að Twitter hafi haft sex milljónir dollara í tekjur en YouTube tæplega eina milljón því lokað er fyrir auglýsingar á rásum flestra andstæðinga bólusetninga.

Íslenskir andstæðingar bólusetninga

Hér á landi er að sjálfsögðu fólk sem er andvígt bólusetningum og liggur ekki á skoðunum sínum í tengslum við það. Á síðustu árum og áratugum hefur Þorsteinn Scheving Thorsteinsson verið einna mest áberandi í þessari baráttu en hann hefur skrifað fjölda greina í blöð og netmiðla um hversu hættuleg bóluefni eru að hans mati. Í nóvember 2011 skrifaði hann grein á Vísi.is undir fyrirsögninni „Leghálskrabbamein frekar en eitruð HPV bólusetning“. Greinar eftir hann hafa reglulega birst í Morgunblaðinu. Þorsteinn sendi inn athugasemdir til Velferðarnefndar Alþingis í janúar vegna umræðu um sóttvarnalög og vísaði í þeim í fjölda greina í erlendum fréttamiðlum og YouTube en lítið fór fyrir tilvísunum í vísindarit. Í byrjun júní birti Morgunblaðið grein eftir hann og Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur undir fyrirsögninni „Covid-hræðslunni haldið uppi til að koma inn bólusetningum“.

Það vakti mikla athygli í maí þegar Morgunblaðið birti heilsíðuauglýsingu þar sem fólk var hvatt til að tilkynna aukaverkanir af völdum bólusetninga. Auðveldlega mátti halda að auglýsingin væri frá Lyfjastofnun en svo var ekki. Síðar kom í ljós að það var auðkonan Vilborg Björk Hjaltested sem hafði keypt auglýsinguna í gegnum fyrirtæki sitt bjuti ehf. Hún er andvíg bólusetningum gegn kórónuveirunni eins og kemur greinilega fram á Facebooksíðu hennar. Þar vísar hún meðal annars til þess að lyf séu til gegn COVID-19 og nefnir þar til sögunnar lyfin Ivermectin, sem er notað gegn sníkjudýrum, og Hydroxychloroquine. Evrópska lyfjastofnunin og Bandaríska lyfjastofnunin hafa varað við notkun þessara lyfja gegn COVID-19. Framleiðandi Ivermectin, Merck, hefur einnig sagt að það geti valdið tjóni ef það er notað með röngum hætti og að engar vísindalegar sannanir séu fyrir að það virki gegn kórónuveirunni. Á Facebooksíðu Vilborgar hefur sjálfvirkt kerfi Facebook sett inn viðvaranir við færslur þar sem bent er á að þær innihaldi rangar upplýsingar og einnig eru ábendingar frá Facebook um staðreyndir varðandi bóluefni og bólusetningar.

Einnig eru til nokkrar íslenskar Facebooksíður sem beinast beinlínis gegn bólusetningum og bóluefnum gegn kórónuveirunni. Meðal þeirra eru þessi og þessi. Ekki er alltaf ljóst hver stendur á bak við þessar síður og eflaust eru fleiri slíkar íslenskar síður til.

Þá er baráttuhópur sem kallar sig Covidspyrnuna starfræktur og hyggur hann á framboð til Alþingis nú í haust eins og lesa má um í umfjöllun DV. Hreyfingin starfrækir einnig Facebooksíðu, sem hefur þó ekki verið mjög virk að undanförnu, þar sem ýmsar vafasamar fullyrðingar eru settar fram.

Þá má nefna Sólveigu Lilju Óskarsdóttur en hún var handtekin á fimmtudaginn þar sem hún gerði hróp og köll að barnshafandi konum sem biðu í röð við Laugardalshöll eftir að komast í bólusetningu. Svo er að sjá að Sólveig sé meðlimur í Covidspyrnunni og hún hefur deilt samsæriskenningum og fréttum gegn bólusetningu á samfélagsmiðlum.

Byggt á umfjöllun Vice, TV2, BBC og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Tíu ára drengur játar á sig morð: Var sjö ára þegar hann framdi voðaverkið

Tíu ára drengur játar á sig morð: Var sjö ára þegar hann framdi voðaverkið
Pressan
Fyrir 2 dögum

Blaðamaðurinn Terry Anderson látinn – Gekk í gegnum margra ára martröð

Blaðamaðurinn Terry Anderson látinn – Gekk í gegnum margra ára martröð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Gríðarstórt eldfjall á Mars var fyrir „allra augum“ og gæti geymt ummerki um líf

Gríðarstórt eldfjall á Mars var fyrir „allra augum“ og gæti geymt ummerki um líf
Pressan
Fyrir 3 dögum

Orrustan um Bretland

Orrustan um Bretland
Pressan
Fyrir 3 dögum

Áður óþekktar lífverur fundust við neðansjávarfjall við Páskaeyju – Myndband

Áður óþekktar lífverur fundust við neðansjávarfjall við Páskaeyju – Myndband
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ferðin til Mallorca endaði með nokkurra daga hryllingi og björgunaraðgerð á flugvelli í Afríku

Ferðin til Mallorca endaði með nokkurra daga hryllingi og björgunaraðgerð á flugvelli í Afríku