fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Pressan

„Við þurfum hjálp,“ segir yfirmaður heilbrigðismála í Stokkhólmi – Gjörgæsludeildir nær fullar

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 10. desember 2020 06:06

Sjúklingi sinnt á gjörgæsludeild. Mynd: EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástandið vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar er slæmt í Svíþjóð og lítið sem ekkert hefur gengið að ná tökum á útbreiðslu veirunnar. Nú er svo komið í Stokkhólmi að 99% af gjörgæslurýmum eru full. Í Helsingborg verða margir kórónuveirusjúklingar að vera saman í herbergjum vegna skorts á plássi.

„Við sjáum að það sem við töldum vera kúrfuna að fletjast út og síðan fara niður á við  hefur breyst algjörlega í hina áttina. Það er einmitt þessi breyting sem við vildum ekki sjá,“ sagði Björn Eriksson, yfirmaður heilbrigðismála í Stokkhólmi, á fréttamannafundi í gær. Hann sagði að álagið á sjúkrahúsin í höfuðborginni væri svo mikið að þau þurfi aðstoð, fljótlega verði ekki hægt að veita COVID-19-sjúklingum umönnun á gjörgæsludeildum. „Staðan er alvarleg og við þurfum hjálp,“ sagði Eriksson og beindi orðum sínum síðan til foreldra, fjölmiðla og heilbrigðisstarfsfólks og bað það um að segja fólki hversu alvarleg staðan er. Aftonbladet skýrir frá þessu.

„Nú er nóg komið“

Eriksson var skýrmæltur á fréttamannafundinum og beindi orðum sínum til Stokkhólmsbúa sem hann telur ekki hafa staðið sig vel í að stunda félagsforðun. „Nú er nóg komið. Það getur ekki verið þess virði að hittast eftir vinnu og safnast saman í jólagjafainnkaupum eða hittast yfir máltíð á aðventunni. Afleiðingarnar verða hræðilegar,“ sagði hann.

En það er víðar en í Stokkhólmi sem staðan er slæm. Í Helsingborg eru þrisvar sinnum fleiri smitaðir hlutfallslega en annars staðar í landinu og því verða sjúklingar að deila sjúkrastofum. Ekki er lengur hægt að hafa COVID-19-sjúklinga í einangrun og verða þeir því að vera í herbergi með fleiri sjúklingum að sögn Aftonbladet. „Okkur skortir sjúkrarými og starfsfólk,“ sagði Sören Nordh, sem situr í heilbrigðisnefnd borgarinnar. Í borginni eru 687 smit á hverja 100.000 íbúa sem er þrisvar sinnum hærri tala en landsmeðaltalið.

Rúmlega 7.000 hafa látist af völdum COVID-19 í Svíþjóð og tæplega 280.000 hafa greinst með smit.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt