fbpx
Fimmtudagur 06.ágúst 2020
Pressan

Milljónamæringurinn og dularfulli morðinginn

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 15. september 2019 22:00

Skelfilegt mál Richard var mikill viðskiptajöfur. Mynd: Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í tæpan áratug var morðmál, tengt hinni ríku Oland-fjölskyldu, í New Brunswick í Kanada, eitt heitasta málið þar í landi. Sumir hafa líkt því við söguþráð í sápuóperu, svo ótrúlegt er málið. Það hófst að morgni 7. júlí 2011 þegar Richard Oland, 69 ára, fannst látinn. Hann lá á grúfu með andlitið ofan í blóðpolli, hans eigin blóði. Niðurstaða rannsóknar réttarmeinafræðinga var að hann hefði verið drepinn kvöldið áður með 45 höggum í höfuð, háls og útlimi. Rolex-úrið hans var enn á honum en farsími hans var horfinn og morðvopnið einnig.

Tveimur árum síðar var sonur hans, Dennis Oland, sem er nú 51 árs, handtekinn og ákærður fyrir að hafa myrt föður sinn. Hann var fundinn sekur um morð af tólf manna kviðdómi 2015. En það var aðeins upphaf málsins því eftir það varð það uppspretta margra frétta og umræðu meðal almennings.

Dennis áfrýjaði dómsniðurstöðunni og hafði betur, mál hans var tekið fyrir af hæstarétti og réttarhöldin voru úrskurðuð ógild.

Eins og léleg sápuópera

Íbúar í New Brunswick hafa fylgst vel með málinu allt frá upphafi og hafa margir hverjir skoðun á því, en hver sem skoðun þeirra er þá eru flestir sammála um að það líkist einna helst lélegri sápuóperu. Svo lélegri að sápuróperur, sem sýndar eru í sjónvarpinu, séu eiginlega betri þrátt fyrir að vera ansi lélegar.

Það var hjákona Richards, Diana Sedlacek, sem tók fyrst manna eftir því að eitthvað var að. Í átta ár hafði Diana átt í ástarsambandi við auðjöfurinn. Svo virðist sem samband þeirra hafi verið leyndarmál sem allir vissu um. Þegar Richard svaraði ekki hringingu hennar um kvöldið, en þau voru vön að ræða saman á hverju kvöldi, hringdi hún í eiginkonu hans, Connie, til að spyrja hvar hann væri. Connie varð síðan lykilmanneskja í málinu því hún stóð staðföst við hlið sonar síns og sagði hann „nærgætinn“ og „umhyggjusaman“ en Richard hafi hins vegar haft tilhneigingu til að efna til átaka við aðra fjölskyldumeðlimi.

Richard Oland var áberandi í samfélaginu en það þýðir ekki að öllum hafi líkað við hann. Almenningur skiptist því í hópa hvað varðar skoðanir á málinu. Richard á samúð sumra en Dennis á samúð annarra. Oland-fjölskyldan var ekki aðeins efnuð heldur einnig valdamikil. Hún var ein fárra fjölskyldna í Norður-Ameríku sem hafði áratugum saman, í um eina öld, stjórnað efnahag héraðsins eins og Rockefeller- og Vanderbilt-fjölskyldurnar gerðu í New York á sínum tíma. Oland-fjölskyldan var þó ekki ein um hituna í héraðinu því fyrir ofan hana hvað varðar völd og auð var Irving-fjölskyldan, sem er umsvifamikil í rekstri bensínstöðva, olíuhreinsistöðva, skipasmíðastöðva og timburvinnu. Sú fjölskylda var í umræðunni hér á landi fyrir margt löngu í tengslum við opnun bensínstöðva. Á eftir Irving-fjölskyldunni kemur síðan McCain-fjölskyldan sem stýrir samnefndu matvælafyrirtæki sem sérhæfir sig í frosnum matvælum.

Heldur fram sakleysi Dennis Oland gengur út úr réttarsal. Mynd: Getty Images

Því næst kemur Oland-fjölskyldan, en grunnurinn að auði hennar var lagður í Saint John 1867 þegar Susannah Oland stofnaði Moosehead-bruggverksmiðjuna sem framleiðir samnefndan bjór. Verksmiðjan er í dag stærsta bjórverksmiðjan sem er í eigu Kanadamanna. Oland-fjölskyldan er sögð hafa hafnað mörgum kauptilboðum í verksmiðjuna. Sú staðfesta hefur aflað fjölskyldunni ákveðinnar virðingar í Saint John sem hefur glímt við mikla fólksfækkun samhliða samdrætti í stórum iðngreinum á borð við skipasmíðar. Nú búa tæplega 70.000 manns í borginni en voru um 90.000 á áttunda áratugnum. En auður fjölskyldunnar og áhrif hafa einnig orðið til þess að hún hefur verið á milli tannanna á fólki og ekki dró úr því eftir að Richard var myrtur. Innri málefni fjölskyldunnar, deilur og fjármál hennar hafi verið mikið til umræðu meðal almennings. Sumum stuðningsmönnum Dennis fannst sem hann hefði verið dæmdur af kviðdómi sem vildi eingöngu hefna sín á honum. Að í kviðdóminum hafi setið fólk úr lægri stéttum þjóðfélagsins og hafi það viljað hefna sín á ríka manninum.

Leyndi ekki auð sínum

Þegar Richard lést átti hann eignir upp á sem svarar til mörg hundruð milljóna íslenskra króna og hann fór ekki leynt með auð sinn. Hann tók þátt í kappsiglingum, tók mikinn þátt í starfi mannvina á svæðinu og bjó í glæsilegu húsi ekki fjarri heimili sonar síns, Dennis. Þeir voru nánir en tókust samt sem áður oft á.

Við yfirheyrslur hjá lögreglunni sagði Dennis að faðir hans hefði sífellt verið gjammandi og oft sagt og gert hluti sem særðu fólk. Til marks um skapsmuni föður síns nefndi hann að ein jólin hefði faðir hans öskrað á hann af því að eldurinn á rommkökunni slokknaði áður en búið var að bera eftirréttinn fram.

Það virðist sem deilur á milli feðga hafi eiginlega verið hefð í Oland-fjölskyldunni. Faðir Richards, Philip Oland, þótti mjög strangur og setti orðspor fjölskyldunnar ofar öllu, einnig innri sátt í fjölskyldunni. Þegar hann ákvað að eldri bróðir Richards, Derek, skyldi taka við sem stjórnarformaður bruggverksmiðjunnar 1981 myndaðist óbrúanleg gjá á milli bræðranna. Richard eyddi stórum hluta tíunda áratugarins í réttarsölum við að berjast við bróður sinn um yfirráðin yfir bruggverksmiðjunni. Samband þeirra varð aldrei gott eftir þetta og var við frostmark þegar Richard var myrtur.

Mikið veldi Oland-fjölskyldan stendur til að mynda á bak við Moosehead-bjórframleiðsluna.

Þrátt fyrir auð sinn var Richard nískur við sína nánustu. Eiginkona hans fékk sem svarar til um 250.000 íslenskra króna á mánuði til ráðstöfunar og átti að láta hann fá kvittanir fyrir öllum innkaupum. Á sama tíma var hann að láta byggja nýja snekkju fyrir sig á Spáni, aðeins nokkrum árum eftir að hann keypti þá „gömlu“. Hann var þó reiðubúinn að opna veskið til að aðstoða fjölskylduna. Þegar Dennis skildi var hann við að tapa húsinu sínu en þá lánaði Richard honum 540.000 dollara. Þetta lán varð síðar eitt helsta sönnunargagn saksóknara í málinu gegn Dennis. Hann hélt því fram að Dennis hefði myrt föður sinn út af þessu láni.

Það var rétt hjá saksóknaranum að Dennis, sem er fjármálaráðgjafi, var skuldum vafinn. Hann var með fullnýtta yfirdráttarheimild upp á 163.000 dollara og hafði nýtt alla 27.000 dollara heimildina á kreditkorti sínu. Daginn áður en Richard var myrtur hafnaði banki að innleysa ávísun frá Dennis sem átti að greiða vexti af lánum sínum. Dennis sagði fyrir dómi að fjármálin hafi ekki valdið honum áhyggjum, svona hafi þetta alltaf verið.

Sýknaður

Í sumar var málið tekið fyrir á nýjan leik eftir að því hafði verið vísað til nýrrar meðferðar vegna galla á fyrri málsmeðferðum. Mikið var lagt í vörn Dennis og telja sérfræðingar að lögmannskostnaður hans sé sá mesti sem hefur verið greiddur í morðmáli í Kanada.

Vellauðug Oland-fjölskyldan er með puttana í alls kyns flutningastarfsemi. Mynd: Getty Images

Dennis gekk laus á meðan málið var rekið fyrir dómi og vakti það athygli nokkrum dögum fyrir dómsuppkvaðninguna að hann sást sallarólegur að slá garðinn við heimili sitt. Sjónarvottum gat eflaust dottið í hug að hann hefði meiri áhyggjur af grassprettunni en yfirvofandi dómi.

Hann var síðan sýknaður af Terrence Morrison dómara sem sló þó ákveðna varnagla í dómsniðurstöðunni. Hann sagði að það væri margt sem tengdi Dennis við morðið en það þurfi meira en grunsemdir til að sakfella fólk fyrir morð. Morðvopnið hefur aldrei fundist, dánarstund Richard er ekki vituð með vissu og engin lífsýni, sem tengja Dennis við morðvettvanginn, fundust. Nokkrir blóðblettir úr Richard fundust á brúnum Hugo Boss-íþróttajakka Dennis en ekkert blóð fannst í bíl hans eða á skóm hans. Verjendur hans segja að lögreglan hafi strax í upphafi beint sjónum sínum að Dennis og aðeins honum og því hafi engir aðrir verið grunaðir í málinu. Hann er sá síðasti sem sá Richard á lífi, að því að vitað er. Vitað er að Dennis kom við á skrifstofu föður síns kvöldið sem hann var myrtur til að ræða fjölskyldumálefni. Því næst ók hann heim til sín. Á leiðinni þangað stoppaði hann í skipasmíðastöð. En þetta sannar ekki að hann hafi myrt föður sinn eða eins og Morrison dómari sagði:

„Það vantar alltof mörg púsl í þetta mál.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Pressan
Fyrir 5 dögum

Getur bóluefni bjargað Trump frá ósigri í forsetakosningunum?

Getur bóluefni bjargað Trump frá ósigri í forsetakosningunum?
Pressan
Fyrir 5 dögum

Ungir piltar brutust inn til að stela flöskum – Húsráðandinn lá dáinn í húsinu

Ungir piltar brutust inn til að stela flöskum – Húsráðandinn lá dáinn í húsinu