Eins og fram kemur á vef Veitingageirans var Rúnar Pierre Henriveaux sem sigraði keppnina í ár og er því nýkrýndur Kokkur ársins 2022. Rúnar varð í öðru sæti síðast þegar keppnin fór fram árið 2019. Kristinn Gísli Jónsson varð í öðru sæti og Gabríel Kristinn Bjarnason í því þriðja.

Keppnin var æsispennandi en hún fór fram í sérútbúnum keppniseldhúsum í miðri verslun IKEA og um það bil 10.000 gestir kíktu á keppnissvæðið. „Keppnin gekk ótrúlega vel og var frábært að sjá einbeitinguna sem skein úr andlitum keppenda í allan dag,“ sagði Þórir Erlingsson forseti Klúbbs matreiðslumeistara að keppni lokinni í dag.

Fagnað með forseta Klúbbs matreiðslumeistara.

 

 

 

 

 

 

Það var Sigurjón Bragi Geirsson sem hreppti titilinn Kokkur ársins 2019. Sigurjón er fulltrúi Íslands í virtustu einstaklings kokkakeppni í heimi sem ber heitið Bocuse d´Or, en hún fer fram í janúar nk. í Lyon í Frakklandi.

Mikið var um dýrðir í dag í eldhúsum IKEA og nutu gestir góðs af. Við óskum Kokki ársins hjartanlega til hamingju með titilinn og Kristni og Gabríel með framúrskarandi árangur. Það verður spennandi að fylgjast með þeim öllum og hvað þeir taka sér fyrir hendur í framtíðinni enda allir einstakir kokkar sem kunna að töfra fram það besta fyrir bragðlaukana.

Hér má sjá réttina þrjá sem Rúnar framreiddi, forrétt, aðalrétt og eftirrétt.