fbpx
Miðvikudagur 20.janúar 2021
Matur

Berglind uppljóstrar leyndarmálinu – Svona býrðu til Þristamúsina hans Simma

Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 14. desember 2020 11:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Berglind Hreiðarsdóttir gaf nýverið út uppskriftabókina Saumaklúbburinn en bókin seldist upp hjá útgefanda í nóvember og er nýkomin aftur. „Ég er á fullu að keyra út bækur og hef ekki undan sem er auðvitað bara frábært,“ segir Berglind í samtali við DV. Berglind gerði bókina sjálf frá grunni, hún sá um umbrotið, hönnunina og dreifinguna. „Ég held það séu ekki margir í slíku, enda algjör vitleysa,“ segir hún og hlær.

„Saumaklúbburinn hefur að geyma yfir 140 uppskriftir fyrir hin ýmsu tilefni. Nafnið er tilkomið því oft er talað um að halda saumaklúbb þegar fólk hittist til þess að spjalla saman og snæða góðar veitingar. Í þessari bók er að finna uppskriftir sem henta bæði slíkum tilefnum sem og hversdagslegri matargerð,“ segir Berglind um bókina.

„Uppskriftirnar spanna allt frá salötum yfir í ostagóðgæti, aðalrétti, smárétti, kökur og kræsingar og koma úr ýmsum áttum. Þær eiga það sameiginlegt að vera allar fremur einfaldar um leið og þær eru afar fjölbreyttar. Auk hefðbundinna uppskrifta eru settir fram saumaklúbbar hjá tíu frábærum konum sem bjóða upp á fjölbreyttar uppskriftir og mismunandi framsetningarmöguleika. Saumaklúbburinn er því hafsjór hugmynda þegar kemur að heimboðum og er tilvalin uppskriftabók til að skapa góðar stundir með fjölskyldu og vinum.“

Berlind er annálaður matarbloggari og deilir hér uppskrift að Þristamúsinni svokölluðu en hún hefur verið að gera allt vitlaust hér á landi. Veitinga- og athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson greindi frá því á dögunum að hann væri búinn að selja 15 þúsund stykki af músinni. Berglind uppljóstrar leyndarmálinu á bakvið þristamúsina en hún deildi uppskriftinni á heimasíðu sinni, Gotterí.is. „Simmi Vill á allan heiðurinn að þessari uppskrift,“ segir Berglind.

Hér fyrir neðan má sjá uppskriftina að þessari vinsælu Þristamús:

Þristamús uppskrift

Uppskrift dugar í um 8 glös/skálar

 • 250 g Þristur (+ smá meira til skrauts)
 • 500 ml rjómi
 • 80 g eggjarauður (4-5 stk.)
 • 15 g flórsykur
 1. Skerið Þristinn niður og bræðið í potti við vægan hita ásamt 100 ml af rjómanum. Takið af hellunni þegar súkkulaðið er bráðið en allt í lagi þó lakkrísinn sé enn í bitum. Leyfið hitanum að rjúka vel úr áður en þið blandið saman við önnur hráefni.
 2. Léttþeytið 400 ml af rjóma og leggið til hliðar á meðan þið þeytið saman eggjarauður og flórsykur.
 3. Þeytið eggjarauður og flórsykur þar til blandan fer aðeins að þykkna og bætið þá Þristablöndunni saman við og blandið vel.
 4. Vefjið að lokum þeytta rjómanum varlega saman við allt með sleif þar til ljós og létt Þristamús hefur myndast. Mér finnst gott að vefja fyrst um 1/3 af rjómanum saman við og síðan restinni en þá fær súkkulaðimúsin enn mýkri áferð.
 5. Skiptið að lokum niður í litlar skálar eða glös og kælið í að minnsta kosti klukkustund áður en karamella, Þristur og haframjölstoppur er sett ofan á. Einnig er í lagi að gera músina deginum áður, geyma í kæli og setja restina á næsta dag.

Karamellusósa uppskrift

 • 90 g sykur
 • 65 g sýróp
 • 150 ml rjómi
 • 25 g smjör við stofuhita
 • Salt af hnífsoddi
 1. Hitið saman sykur og sýróp þar til sykurinn leysist upp. Leyfið aðeins að bubbla og hrærið vel í á meðan.
 2. Bætið þá rjómanum saman við og hitið að suðu, takið af hellunni og hrærið að lokum smjöri og salti saman við.
 3. Leyfið karamellunni að kólna niður og þykkna og hrærið reglulega í henni á meðan. Hægt er að gera karamelluna með fyrirvara og geyma í lokuðu íláti í ísskáp, setja síðan yfir músina þegar hún er tilbúin.

Sykraður haframjölstoppur

 • 200 g hafrar
 • 100 g brætt smjör
 • 50 g sykur
 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Blandið öllu saman í skál, hellið á bökunarpappír í ofnskúffu og bakið þar til hafrarnir fara að gyllast (um 15 mínútur), hrærið nokkrum sinnum í á meðan.
 3. Kælið og toppið síðan Þristamúsina með karamellu, niðurskornum Þristi og haframjölstoppi.
 4. Það dugar mögulega alveg að gera 1/2 uppskrift fyrir þessi 8 glös en það er líka gott að eiga hafrana til að nota út á jógúrt eða annað slíkt svo ég myndi klárlega nota tækifærið og gera það.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
25.11.2020

Gómsæt þakkargjörðarmáltíð – Fylltir kalkúnaleggir, sætar kartöflur og trönuberjasulta

Gómsæt þakkargjörðarmáltíð – Fylltir kalkúnaleggir, sætar kartöflur og trönuberjasulta
Matur
24.11.2020

Lágkolvetnamorgunverður Ágústu – „Ég mæli með að þú prófir“

Lágkolvetnamorgunverður Ágústu – „Ég mæli með að þú prófir“