fbpx
Mánudagur 13.október 2025
Fréttir

Reglur borgarinnar um afmælishópa vekja hneykslun og hlátur

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 10. október 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reykjavíkurborg hefur sent frá sér nýjar leiðbeiningar til skóla um hvernig foreldrar eigi að skipuleggja barnaafmæli. Í bréfinu kemur fram að það er mælt gegn því að skipta í afmælishópa út frá kyni. Slíkt getur verið útilokandi og vinnur m.a. gegn markmiðum jafnréttislaga (sjá fyrir neðan). Þess í stað er mælt með kynjablöndun og er bent á tvær leiðir sem hægt er að fara.

„Leið 1: Bekkjarafmæli. Fleiri en eitt barn halda afmæli saman og öllum bekknum er boðið. Sem dæmi geta öll október og nóvember börn haldið sameiginlegt afmæli.

Leið 2: Afmælishópar. Skólinn velur leið til að skipta bekknum í afmælishópa út frá öðru en kyni til að skapa minni og viðráðanlegri hópa. Sem dæmi fer barnið sem á fyrst afmæli á árinu í hóp A, barnið sem á næst afmæli fer í hóp B, þriðja afmælisbarn ársins í hóp A og svo koll af kolli. Best er að skólinn/kennari velji leiðina sem er farin og kynni hana strax í upphafi skólaárs.“

Í bréfinu segir að ástæður fyrir því að við forðumst kynjaskiptingu eru nokkrar:

  • hún er útilokandi fyrir trans börn, sérstaklega kynsegin börn
  • kynjaskipting getur ýtt undir hugmyndir um kynjamun og ýkt upp staðalmyndir kynjanna
  • mögulega útilokandi fyrir intersex börn
  • sumir strákar finna sig illa með strákahópum
  • sumar stelpur finna sig illa með stelpuhópum
  • strákar geta átt stelpuvini og öfugt

Stelpufmæli eiga það til að verða „bleik“ og taka mið af ríkjandi viðmiðum um kvenleika, en strákaafmæli „blá“ og taka mið af ríkjandi viðmiðum um karlmennsku. Með kynjaskiptingu er óbeint verið að gefa þau skilaboð að stelpur og strákar séu og eigi ekki að vera vinir og eyða frítíma sínum saman.

Óhætt er að segja að þetta plagg frá Reykjavíkurborg falli mis vel í kramið hjá fólki.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, deilir því og spyr:

„Jæja, hefur stjórnlyndi borgaryfirvalda ekki náð ákveðnu hámarki núna?“

Margir tjá sig undir færslu hennar.

„Ég á afmæli í nóvember… Ætlaði ekki að halda upp á það en með þennan leiðarvísi treysti ég mér betur til þess“, segir Þórhallur Gunnarsson ráðgjafi hjá Góð samskipti.

„Það þarf fyrst að skilja / hafa upplifað vandann sem er verið að reyna að leysa með þessu áður en að fólk dettur í fordæmingar“, segir Björn Leví Gunnarsson fyrrum þingmaður Pírata.

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins svarar honum og segir: „Það eru ýmis vandræði sem fylgja lífinu. Fyrir votta-börn eru þessar afmælishátíðir t.d. ekki spes, enda mega þau ekki fara í afmæli. Er það ásættanlegt? Eigum við ekki bara að banna afmæli yfir höfuð til að forðast alla núansa? PS. hvernig geeeturðu lesið þennan texta, m.a. bleika/bláa kjaftæðið og lagt nafnið þitt við að verja þetta.“

„Jæja, nú geta þau loksins sofið vel á nóttunni, búin að leysa samskipti krakka til framtíðar! 1 A4 blað og málið leyst!“ segir karlmaður. Annar spyr: „Hvað þurfti mörg stöðugildi til að finna upp á þessu?“ „Forræðishyggjan að ná nýjum hæðum í Reykjavík“, skrifar sá þriðji.

Guðrún Hrönn Jónsdóttir fyrrum æskulýðsfulltrúi hjá KFUM og KFUK segist hafa reynslu af leið 1, og hún hafi ekki reynst vel. Hún telur einnig að þetta sé ekki gott fyrir efnaminni fjölskyldur:

„Þessi leið 1 að allur bekkurinn er saman var farin í bekk sonar míns í tvö ár. Þegar þau voru í 3. og 4. bekk. Það eru alveg einhverjir kostir við þá leið en mér finnst samt ókostirnir fleiri. Sem er líklega ástæðan fyrir því að þegar þau voru í 5. bekk lagðist þetta af. Í þessum skóla er samkennsla og allur árgangurinn því einn bekkur rúmlega 50 börn. Flestum foreldrum fannst erfitt og flókið að skipuleggja svona stór afmæli. Ég fann hvað það hafði verið auðveldara þegar það voru bara strákarnir. Ég tók eftir að þau börn sem áttu undir högg að sækja félagslega voru ekki að njóta sín í svona stórum afmælisveislum. Mér var sagt að stelpurnær væru ekki að njóta sín með strákunum. Það leiddi til þess að margar stelpur fóru líka að hafa mínni afmæli og buðu nánustu vinkonum. Ég er heldur ekki að sjá hvernig þetta sé gott fyrir þá sem eru í fjárhagsvandræðum því það kostar held ég oftast yfir 20 þús að taka þátt í svona afmæli.“

„Það vantar leiðbeiningar um val á leikfélögum barnanna t.d. í frímínútum og hver og hvernig á að fylgjast með því“, skrifar ein kona.

Og önnur spyr kannski augljósustu spurningarinnar: „Hafa kennarar ekki nóg á sinni könnu, ég bara spyr.“

Í leiðbeiningum er rætt um ávinning af kynjablöndun. Og bent á að með því að fara leið 1 (Bekkjarafmæli) geta forsjáraðilar deilt verkum og kostnaði og er um leið tryggt að börn sem hafi ekki jafn tækifæri til að halda afmæli geti tekið þátt, t.d. út frá fjárhag, tungumáli, tengslaneti, vinnutíma o.s.frv.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Umdeilt einbýlishús fær að rísa á Seltjarnarnesi – Átti upphaflega að vera sambýli – Eitt orð hafði úrslitaáhrif

Umdeilt einbýlishús fær að rísa á Seltjarnarnesi – Átti upphaflega að vera sambýli – Eitt orð hafði úrslitaáhrif
Fréttir
Í gær

Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk fjúkandi reitt út í Ölmu

Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk fjúkandi reitt út í Ölmu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svarar Elliða og segir að mögulega hafi mógðunargirnin byrjað hjá stjórnmálamönnum

Svarar Elliða og segir að mögulega hafi mógðunargirnin byrjað hjá stjórnmálamönnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vann 10 milljónir í kvöld – „Er þetta símahrekkur?“

Vann 10 milljónir í kvöld – „Er þetta símahrekkur?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ferðamaður komst að falli Play í morgun og á ekki pening fyrir gistingu – „Ég er að hugsa um að sofa í bílnum“

Ferðamaður komst að falli Play í morgun og á ekki pening fyrir gistingu – „Ég er að hugsa um að sofa í bílnum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ásakanir ganga á víxl meðal fasteignasala og byggingafélagsins – Á milli stendur ekkja sem er búin að selja ofan af sér

Ásakanir ganga á víxl meðal fasteignasala og byggingafélagsins – Á milli stendur ekkja sem er búin að selja ofan af sér