fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Börn í lífshættu hér á landi vegna átröskunar – Ráð fyrir foreldra

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 14. mars 2021 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gífurleg aukning hefur verið undanfarna mánuði á tilvísunum til átröskunarteymis BUGL. Tinna Guðjónsdóttir, teymisstjóri hjá BUGL, segir vandamálið vera stórt og að í fyrsta skipti frá upphafi sé biðlisti.

Það er í fyrsta skipti biðlisti eftir að komast í meðferð hjá átröskunarteymi BUGL frá stofnun teymisins árið 2000. „Það er búin að vera 60 prósenta aukning í tilvísunum til okkar frá því í september 2020,“ segir Tinna Guðjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og teymisstjóri átröskunar Barna- og unglingageðdeildar Landspítala. Það er margt sem gæti spilað inn í þessa gríðarlegu aukningu. „Það hefur verið breytt samfélag í COVID. Við hjá teyminu hugsum það þannig að það hefur verið titringur í rútínu barnanna, foreldrarnir eru meira heima og sjá mynstrið, börnin eiga erfiðara með að fela það. Ég vil ekki henda neinu fram þar sem við erum ekki viss. Mögulega COVID-árið góða. Svo getur það verið að heilbrigðisstarfsfólk sé meðvitaðra um áhættuna. En þetta er mikil aukning og sérstaklega hjá ungum krökkum. Þetta eru alveg ótrúlega alvarleg veikindi og það má ekki myndast biðlisti því börnin veikjast bara á meðan þau bíða, ástandið verður bara verra ef þau fá ekki strax hjálp.“

Tinna segir að það vanti fleira starfsfólk og það þurfi að auka fjárframlög ríkisins til BUGL og átröskunarteymisins. „Við þurfum fleira starfsfólk. Til dæmis eru allar Norðurlandaþjóðir og flestar Evrópuþjóðir með sérdeild eða einhvers konar dagdeild fyrir þennan hóp, því þetta er svo flókin meðferð og þarfnast svo þéttrar þjónustu til að byrja með. Það er öðruvísi meðferð á þessum geðsjúkdómi en öðrum. Þetta snýr að grunnþörfum mannsins.“

Það er ekki aðeins á Íslandi þar sem börnum sem þarfnast aðstoðar vegna átröskunar hefur fjölgað mikið. Þetta er vandamál víðs vegar um heim og tengja sérfræðingar það við COVID. Átraskanir tengjast að hluta til útliti og líkamsskynjunarröskun (e. body dysmorphia) en einnig stjórnun. Ef einstaklingur hefur ekki stjórn á aðstæðum og umhverfinu, eins og í COVID, þá reynir hann að hafa stjórn á einhverju öðru, eins og mataræðinu.

Börn í lífshættu

Tinna segir að það komi fyrir að börn hér á landi séu í lífshættu vegna átröskunar. Hún bendir einnig á að þegar einstaklingur er í sveltiástandi til lengri tíma, getur hann ekki farið að borða eins og venjuleg manneskja þar sem það getur skapað hættu fyrir líffærakerfin.

„Þetta er lífshættulegur sjúkdómur og ef það er ekki gripið inn í snemma þá getur þetta farið mjög illa. Þetta er fljótt að ágerast og það er auðveldara aðgengi að börnum heldur en fullorðnum, því foreldrar hafa enn stjórnina yfir þeim.“

Mismunandi átraskanir

Það er yfirleitt talað um tvær mismunandi tegundir átraskana, lystarstol (e. anorexia) og lotugræðgi (e. bulimia). Undanfarið hefur farið að bregða meira fyrir umræðu um nýlega skilgreindar átraskanir eins og orthorexíu og sértæka átröskun (e. ARFID).

Tinna segir að það sé erfitt að flokka átröskun einstaklinga undir einn flokk, en oft haldast þessar átraskanir í hendur eða þróast saman.

Lystarstol og lotugræðgi

„Lystarstol byrjar með því að þú ferð að taka út matartegundir, hvort sem það er í útlitspælingum eða kvíðastjórnun og það ágerist því heilastarfsemin breytist. Þú hættir að hafa stjórn á því. Um leið og líkaminn fer að léttast þá fer allt kerfið í „survival mode“ og það virkar að mörgu leyti eins og fíknihegðun. Hungurtilfinningin verður „góð“ og þú sækist í hana og léttist. Og svo ágerist þetta og vinnur gegn þér áfram og það er erfitt að komast upp úr því,“ segir Tinna.

„Í lystarstoli kemur oft upp lotugræðgi eða að einstaklingur er í aðstæðum þar sem hann kemst ekki hjá því að borða eða getur ekki falið það á einhvern hátt. Þá losar hann sig við matinn og það er líka hegðun sem getur ágerst.“

Tinna útskýrir lotugræðgi nánar. „Þegar einstaklingur þróar með sér lotugræðgi er hann yfirleitt með snert af lystarstoli og lotugræðgi. Borðar lítið yfir allan daginn og svo verður hann svo svangur að hann tekur átkast og kastar því síðan upp.“

Orthorexía

„Skilgreiningin er sú að þú færð þráhyggju fyrir að borða algjörlega hreinan mat. Allt þarf að vera alveg hreint. Mér finnst erfitt að setja þetta upp í flokka, því þetta tengist allt yfirleitt. Þú byrjar á einhverjum stað og birtingarmyndin er blönduð. En orthorexía er þekktari meðal íþróttafólks sem er í fitness, CrossFit eða annarri íþrótt þar sem næring skiptir máli og þú ert að borða eftir ákveðnum mælieiningum eða fæðutegundum. Þetta er íþróttatengt í grunninn,“ segir Tinna.

Sértæk átröskun

ARFID (Avoidant restrictive food intake disorder), áður þekkt sem Selective Eating Disorder (SED) eða sértæk átröskun á íslensku, er nýlega skilgreind átröskun sem er stundum líkt við fæðu-nýjungafælni (e. food neophobia). Sértæk átröskun einkennist af því að einstaklingur getur ekki neytt sérstaks matar sökum áferðar, lyktar, litar eða hitastigs. Helsti munurinn á sértækri átröskun og átröskunum nefndum hér að ofan er að hugsunin er ekki sú sama, það er ekki verið að hugsa um að grennast eða stjórna heldur getur einstaklingurinn ekki borðað eitthvað vegna til dæmis áferðar.

„Sértæk átröskun heyrir kannski meira undir börn eða einhvern sem er á einhverfurófinu,“ segir Tinna. „Þar sem þú treystir þér ekki í einhverja áferð, færð klígju eða einhverja hugmynd um að þú getir ekki borðað einhvern ákveðinn hlut. En ég held að það sé meira meðal ungra barna, eða hjá einhverjum sem er á einhverfurófinu eða með undirliggjandi vanda.“

Kemur í tískubylgjum

„Flestar stelpur á einhverju tímabili í lífinu fara í gegnum einhvers konar átröskunarhugsun. En svo eru það einstaka stelpur, eða krakkar, sem missa tökin. Þetta kemur alveg í tískubylgjum og er mismunandi eftir skólum og árgöngum, við sjáum það alveg. Það eru kannski tuttugu stelpur sem fara saman í megrun út af einhverri athugasemd í sundi og tvær þeirra veikjast mjög mikið,“ segir Tinna og bætir við að undanfarið hafi orðið aukning í greiningu ungra barna á aldrinum 10 til 13 ára.

„Það eru líka ranghugmyndir í samfélaginu um að þetta sé útlitstengt, vissulega er það kveikja (e. trigger) í einhverjum tilfellum en það er alltaf eitthvað undirliggjandi. Það er alltaf meiri vandi sem er til staðar áður en fólk þróar með sér svona alvarlegan sjúkdóm,“ segir Tinna.

„Í mörgum tilfellum er þetta einhvers konar kvíðastjórnun eða þú býrð í erfiðum aðstæðum eða kröfuhörðum aðstæðum, og svo persónugerðin líka sem skiptir máli.“

Sýnilegri hjá konum

Tinna segir að átröskunarsjúkdómar séu sýnilegri hjá konum en körlum. Hún segir að það sé í raun enginn munur á því hvernig sjúkdómurinn birtist hjá konum og körlum, helsti munurinn sé að ólík líkamsgerð sé samfélagslega samþykkt og hvaða kröfur samfélagið gerir á kynin.

„Það er þetta samfélagsmiðlabrjálæði sem er hjá stúlkum sem einblínir á þetta útlitslega. En það er líka í auknum mæli meðal karlmanna. Það birtist meira í að strákar vilja vera massaðir. Strákar eru meira að horfa á magavöðva en þyngdartölu,“ segir Tinna.

Hvað geta foreldrar gert?

„Hjálpað barninu að borða aftur, hjálpa því að læra að borða. Það er grunnurinn að allri meðferð. Barnið þitt neitar að borða, það eru slagsmál á matmálstímum og þú þarft að hjálpa því að læra að borða. Það skiptir líka miklu máli að vera góð fyrirmynd fyrir börnin, séum með eðlilega matarhegðun sjálf, að við nálgumst mat eðlilega og tölum eðlilega um mat. Mikilvægt er að fjölskyldur setjist niður saman og borði saman og efli eðlilega matarhegðun,“ segir Tinna og bætir við að skólahjúkrunarfræðingar séu að gera mjög flotta hluti í þessum málum.

„Ef foreldrar hafa grun um átröskun hjá barni eiga þeir að leita strax á heilsugæslu og heilsugæslan getur vísað þeim áfram, annaðhvort til okkar eða til sálfræðings á heilsugæslunni.“

Samfélagsmiðlar

Notkun samfélagsmiðla hefur aukist gífurlega undanfarin ár og er samfélagsmiðillinn TikTok sérstaklega vinsæll hjá börnum og unglingum. Tinna segir að þó hún viti það ekki með vissu þá sé líklegt að samfélagsmiðlar hafi einhver áhrif á átröskunarhegðun barna og unglinga. Vinsældir myndbanda þar sem áhrifavaldar og aðrir netverjar deila því sem þeir borða yfir daginn og kaloríufjölda hverrar máltíðar virðast njóta mikilla vinsælda og gera kaloríutalningu að eðlilegu fyrirbæri.

„Það er ótrúlega mikið um kaloríutalningu og núna þetta nýjasta macros-æði,“ segir Tinna. Aðspurð hver hennar skoðun sé á þessu nýja macrostrendi segir hún að þetta sé allt hættulegt.

„Allt sem er svona nákvæmt og sem þú ert að vigta getur verið hættulegt. Þetta snýst allt um með hvaða tilgangi þú ferð inn í þetta og ég hugsa að þetta sé gagnlegt ef þú ert í keppnisíþróttum en ekki í megrunartilgangi. Svo er þetta selt alltaf sem einhver lífsstíll, ketó lífsstíll eða macros lífsstíll, en þú þarft ekki á þessu að halda ef þú ert ekki að fara á heimsleikana í CrossFit eða eitthvað álíka.“

Kveikjur

Tinna segir að vandamálið sé stórt og að kveikjur leynist víða, meðal annars hjá íslenskum fjölmiðlum. „Það eru endalausar megrunarfréttir, þú átt ekki að borða brauð og ekki gera þetta og hitt. Skilaboð sem birtast krökkum og ungum fullorðnum sem verða alvarlegast veik af þessum sjúkdómi,“ segir hún.

Aðspurð hvaða kveikjur fjölmiðlar og aðrir í samfélaginu ættu að forðast segir Tinna: „Bara koma ekki fram með eitthvert kjaftæði. Það þarf bara að vanda orðalag í allri megrunar-, hreyfingar- og matartengdri umræðu. Þetta segi ég af eigin reynslu eftir að hafa hlustað á krakkana tala um hvað þeir hafa lesið í blöðunum og á netinu, eins og að brauð sé óhollt eða allir séu á ketó. Líka bara að vekja foreldra til umhugsunar um að við erum fyrirmyndir barnanna okkar og ef foreldrarnir eru á ketó þá hvaða skilaboð erum við að gefa. Mestu kveikjurnar eru í nærumhverfinu.“

Að lokum hvetur Tinna fólk til að vera meðvitað. „Við sem samfélag þurfum að passa okkur. Við þurfum að hugsa um börnin og ef grunur er um átröskun að leita til heilsugæslu. Það er hægt að sjá þetta á blóðprufum, það er hægt að tala við einhvern og snúa þessu við fljótt ef við erum meðvituð um þetta. Það sem skiptir máli er eðlileg matarhegðun, að borða fjölbreytt og eiga heilbrigt samband við mat. Við verðum að virða fjölbreytileikann og mismunandi líkamsgerðir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni