fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Þráinn líkir Viðari við Donald Trump: „Hvílíkur hroki“ – Enginn feitur starfslokapakki

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 10. október 2019 09:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er mér þvert um geð að ræða mjög persónuleg mál mín á opinberum vettvangi en ég finn mig nú knúinn til að ræða opinskátt um veikindamál mín vegna ósanninda sem Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hefur látið hafa eftir sér víða í fjölmiðlum á síðustu dögum,“ segir Þráinn Hallgrímsson í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag.

Þráinn var skrifstofustjóri Eflingar og eldri félaga frá Dagsbrún frá 1996 til 2018 að honum var sagt upp störfum. Mikið hefur verið rætt um málefni Eflingar að undanförnu og hafa skotin gengið á milli. Þráinn hefur gagnrýnt framkomu Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Eflingar, og Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, harðlega og heldur hann því áfram í grein sinni í dag.

Sjá einnig:

Sólveig skýtur til baka: „Ég get ekki blokkað Þráinn Hallgrímsson út úr lífi mínu en mikið vildi ég óska þess“

Þráinn varpar ljósi á „ógnarstjórn“ Sólveigar: „Lauk þessu þannig að starfsmanninum var fylgt úr húsi fyrir framan aðra starfsmenn“

Enginn feitur starfslokapakki

Þráinn segir að Viðar hafi gefið í skyn á dögunum að hann hafi kvatt Eflingu með „feitum starfslokapakka“ en ekkert sé fjær sanni. „Viðar kýs að nota þetta orðalag í áróðri sínum gegn starfsmönnum Eflingar. Það var enginn feitur starfslokapakki gerður. Sólveig Anna tilkynnti mér brottrekstur minn frá Eflingu á starfsmannafundi og tilkynnti síðan einhliða hvenær ég ætti að hverfa af skrifstofu félagsins. Meginatriði samkomulags um viðskilnað við Eflingu eru um uppsagnarrétt, orlofsrétt, yfirvinnu og álagsgreiðslur vegna mikillar vinnu vegna kosningar í félaginu. Samkomulag mitt var einungis uppgjör samkvæmt ráðningarsamningi mínum. Þau lýsa þessu samkomulagi sem „starfslokasamningi“ þar sem það hentar betur til að sverta mannorð mitt. Þau Sólveig Anna og Viðar vita bæði betur.“

Veiktist í samkvæmi

Þá segir Þráinn að Viðar hafi farið með alvarleg ósannindi í viðtali á Stöð 2 þann 21. september síðastliðinn. Þráinn vitnar svo í orð Viðars í umræddu viðtali: „Við gerðum við hann (Þráin) starfslokasamning og þegar hann var við það að renna út, þá setti hann fram nýjar kröfur um einhvers konar framlengingu og einhvers konar viðbót á réttindum sem skilgreind voru í þeim samningi. Þetta var skoðað með tilliti til þess hvað eðlilegt sé að gefa fordæmi fyrir og hvað sé lagalegur fótur fyrir og niðurstaðan var að svo sé ekki, því miður,“ segir Viðar í umræddu viðtali.

Þráinn segir að Viðar hafi farið með rangt mál sem auðvelt er að afsanna með læknisvottorðum.

„Staðreyndin er sú að ég var orðinn veikur í júlímánuði. Ég veiktist í samkvæmi eins og hópur fólks varð vitni að. Veikindin hófust í sumarleyfi mínu og orlofssjóður Eflingar viðurkenndi veikindin. Þetta gerðist um mitt sumar eftir að ég var rekinn af skrifstofu Eflingar. Ég setti aldrei fram kröfur „þegar starfslokasamningur var við það að renna út“ eins og Viðar margítrekar. Óskir um breytingar urðu til vegna veikinda sem komu upp í sumarleyfi. Gögn mín sýna að ég var óvinnufær á þessum tíma. Þarna er aftur reynt að sverta mannorð mitt með uppspuna um „nýjar kröfur“.

Rekur veikindin til niðurlægjandi framkomu

Þráinn segir að réttinn til veikindalauna sé ekki hægt að taka af launamanni, ekki sé hægt að semja hann frá sér né afsala og hann hafi ekki verið undanþeginn í samkomulagi hans samkvæmt ráðningarsamningi.

„Ég greiddi öll iðgjöld til Eflingar, þar á meðal í sjúkrasjóð, og ég átti öll réttindi launamanns á uppsagnartímanum. Foringjar Eflingar hafa ákveðið í þessum eina þætti, veikindarétti, að uppfylla ekki réttindin. Með því annars vegar að neita að greiða laun í veikindum og hins vegar sálfræðikostnað sem var bein afleiðing veikindanna. Veikindi mín má að mínu mati rekja til niðurlægjandi framkomu á starfsmannafundi þar sem mér var tilkynnt um brottrekstur minn. Sanngjarn atvinnurekandi hefði fallist á sjónarmið mín. Vondir atvinnurekendur beita lagaklækjum til að hrekja réttindin. Þann félagsskap hafa Viðar og Sólveig Anna valið sér,“ segir Þráinn og bætir við að tveir aðrir starfsmenn séu nú í veikindaleyfi vegna „framkomu þeirra“ Viðars og Sólveigar.

Eins og í kalda stríðinu

Þráinn vindur sér síðan að því þegar honum var sagt upp og rekur tvær ástæður þess. „Annars vegar varð ég 70 ára á árinu og því hlyti að vera „yfirvofandi eða á næsta leiti að mér yrði sagt upp“. Engin slík regla er á almennum vinnumarkaði eða á skrifstofum Eflingar. Hins vegar var ég „nánasti samstarfsmaður fyrrverandi formanns“. Hér taka þau upp kaldastríðsaðferðir sem voru tíðkaðar í verkalýðshreyfingunni með brottrekstri starfsmanna við forystuskipti í stéttarfélögum fyrir áratugum,“ segir hann og bætir við að þessar forsendur hafi ekki verið ástæðurnar fyrir brottrekstrinum. Þau hafi verið búin að ákveða að reka hann löngu áður en þau komu inn á skrifstofu Eflingar.

„Allt hófst þetta með óhróðri um starfsmenn félagsins, stjórn og forystu áður en Sólveig var kosin formaður. Sagt var að við sem höfðum helgað líf okkar þessum störfum værum ekkert að vinna fyrir félagsmenn. Það voru ósannindi og óhróður um fyrri stjórn og starfsmenn sem rak þau áfram. Þau þurftu að sýna að þessi málflutningur ætti rétt á sér. Það má öllum vera ljóst að félagið er komið í ógöngur.“

Þráinn segir að þessi mál snúist ekki um starfslokapakka eða starfsfólk hafi snúist gegn Viðari og Sólveigu. Þvert á móti hafi starfsfólk tekið vel á móti þeim þegar þau komu til starfa, þrátt fyrir meintan óhróður á spjallvef Sósíalistaflokksins.

„Þrátt fyrir að Sólveig Anna hafi komið mjög illa fram við mig á starfsmannafundi þar sem hún rak mig fyrir framan 40 manns taldi ég mig hafa jafnað það. Hún reyndi í heilan dag að kenna Sigurði Bessasyni, fyrrverandi formanni, um að hafa ekki tilkynnt mér að ég væri rekinn. Þegar þau Viðar héldu áfram að losa sig við alla leiðandi starfsmenn og reyna að kúga aðra til hlýðni sá ég að ekkert var að marka þessa meintu afsökunarbeiðni. Þau taka á öllu andófi innan sinna eigin raða með hreðjataki,“ segir Þráinn og bætir við að þau hafi engan áhuga á að kynnast fólki sem ekki er af sama pólitíska sauðahúsi og þau.

„Hvílíkur hroki“

„Reiðin er vondur ráðgjafi og heiftin enn verri. En það nægir hvergi að láta Moggann hverfa af kaffistofunni þegar óþægileg gagnrýni birtist. Lygin er lævís meðreiðarsveinn og þegar Viðar Þorsteinsson heldur því fram blákalt að ég hafi kvatt Eflingu sáttur þá er það ósatt og hann veit það. Það er líka ósatt að ég hafi tekið í hönd hans og kvatt hann. Hvorugt þeirra var á vinnustaðnum þegar ég fór síðastur manna eins og oft áður úr húsi mánudaginn 14. maí 2018. Ég skildi lykla mína eftir. Þannig kvaddi ég verkalýðshreyfinguna eftir nærri hálfan fjórða áratug í ábyrgðarstörfum.“

Þráinn segir svo að lokum að á skrifstofu Eflingar þurfi hver starfsmaður að spyrja sig hvort hann sé næstur á „aftökulistanum“ eins og hann orðar það.  Hann líkir svo Viðari við Donald Trump.

„Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri tekur Trump á þetta þegar hann spyr mig hvað mér komi þetta eiginlega við! Hvílíkur hroki. Einfalda svarið er að ég er félagsmaður í Eflingu. Ég hef fullan rétt á því að hafa skoðun á því hvað er að gerast í félaginu. Ég tók þátt í uppbyggingu Eflingar í tvo áratugi. Ég þekki félagið og ég kann að telja fjölda brottrekinna starfsmanna og þá sem þau hafa rekið í langtímaveikindi. Ég veit líka að skaddað orðspor Eflingar fer um allt. Það fer um ASÍ-húsið og það fer um verkalýðshreyfinguna. En það er leið út úr þessum ógöngum. Viðar hefur sagt að forysta Eflingar sé reiðubúin að reyna að leysa málin með lögfræðingi starfsfólksins ef vilji sé til. Þau svari beiðnum um fundi og erindum, segir hann. Lögmenn þeirra hafa hingað til svarað erindum okkar. Svörin hafa verið þau að við starfsmenn og félagsmenn eigum bara að lögsækja félagið okkar. Þau geta hvenær sem er sýnt samningsvilja sinn í verki ef þeim er alvara.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu