fbpx
Mánudagur 18.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Kristján fannst látinn eftir að hann komst ekki inn á Teig: „Ég og litli bróðir, átján ára, komum að honum látnum í herberginu á laugardeginum“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 23. júní 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 9. júní síðastliðinn fannst Kristján Steinþórsson, 26 ára, látinn í herberginu sínu sem hann hafði á leigu í Hafnarfirði. Kristján hafði glímt við þunglyndi og önnur andleg vandamál um langt skeið og hafði sokkið í mikla fíkniefnaneyslu. Á sínum yngri árum var hann afburðanemandi, sá besti í skólanum, og hafði allt til brunns að bera til að eiga gæfuríkt og gott líf en kerfið brást honum á öllum stigum. Þegar hann grátbað um aðstoð á sinni myrkustu stund mættu honum sinnuleysi og hroðvirknisleg vinnubrögð. Afleiðingin er sár, bæði fyrir fjölskyldu hans og vini og samfélagið allt.

Mistök og skeytingarleysi í móttöku geðdeildar

„Kristján heiti ég og er fíkill. Ég mætti niður á geðdeild Landspítalans fimmtudaginn 3. maí í slæmu ástandi vegna vímu. Þá var mér tjáð að það væru engin laus pláss á deild 33a, þar sem ég sótti um að komast inn, en hringt yrði á mánudaginn 7. maí og mér boðin innlögn.“

Þetta eru orð Kristjáns Steinþórssonar, 26 ára, þegar hann var mjög langt niðri þann 15. maí síðastliðinn og sendi DV bréf. Kristján hafði glímt við þunglyndi, kvíða og félagsfælni um langt skeið og sautján ára fór hann að leita í fíkniefni til að deyfa sársaukann. Í kringum jólin árið 2017 var hann farinn að leita í harðari efni og sökk hratt niður í dýpi þunglyndis og fíkniefnaneyslu.

„Við biðum og biðum á mánudeginum og ekkert kom símtalið, þannig að við ákváðum að fara aftur niður á bráðamóttöku. Þar var ekki tekið vel á móti okkur, en ekki illa heldur þannig séð, og okkur tjáð að sú sem tók á móti okkur á fimmtudeginum hefði sent beiðnina á vitlausan stað og ég var ekki kominn inn í kerfið.

Í millitíðinni höfðum við samband við bæði Vog og Hlaðgerðarkot og ég fékk pláss á Hlaðgerðarkoti. Samningur er í gildi á milli Hlaðgerðarkots og geðdeildarinnar um að þeir sem eru með staðfest pláss þar gangi fyrir á biðlistanum á deild 33a.

Þá fórum við aftur á bráðamóttöku geðsviðs á miðvikudaginn og hjúkrunarfræðingurinn þar hafði aldrei heyrt um þann samning. Ég talaði við yfirlækni og hann staðfesti að ég ætti að ganga fyrir. Í dag var hringt og ekkert laust pláss fyrir mig og ég var ekki einu sinni kominn á biðlista til að komast á deild 33a. Ég hótaði þá að hoppa fram af svölunum og fékk aðeins svarið: „Já, það er þá bara þitt mál.“

Í hvert skipti sem ég þarf að mæta á bráðamóttökuna kostar það mig 6.400 krónur, og fyrir fíkilinn mig sem er með skuldir upp fyrir haus er það enginn smá peningur.“

Fannst látinn eftir að hann komst ekki inn á Teig

Dagbjört Þráinsdóttir, móðir Kristjáns, og systir hennar Andrea sögðu blaðamönnum DV frá ævi Kristjáns og hvernig kerfið brást honum. Þær kenna engum einum um og eru ekki að leita að sökudólgi. En samkvæmt þeim er kerfið í rúst og eitthvað verður að gerast því annars verða fleiri aðstandendur í sömu sporum og þær. Dagbjört segir:

„Það voru gerð endalaus mistök á geðdeildinni. Kristján átti að fara á biðlista en hann var búinn að mæta þrisvar sinnum þegar það kom í ljós að það hafði aldrei verið gert og hann var alltaf sendur heim eftir það. Þennan dag áttu þeir að hafa samband við hann en þeir hringdu ekki þannig að hann hringdi sjálfur. Þá fékk hann þær fréttir að hann þyrfti að bíða í einhverja daga til viðbótar.“

Andrea bætir við:

„Þá var hann búinn að gefast upp og missa alla von. Hann vildi komast inn núna og sagði konunni sem hann talaði við að hann gæti ekki beðið lengur.“

Kristján komst loksins inn á geðdeild Landspítalans og var þar í eina viku. Eftir þá dvöl átti hann að komast í fíknimeðferð á Teig og var bjartsýnn á að komast þar inn. Taka átti einn hóp inn á Teig áður en sumarfríin hefðust og meðferðarheimilinu yrði lokað í heilan mánuð. En þegar honum var tjáð að hann hann kæmist ekki inn fyrr en í haust var það slíkur skellur að hann byrjaði aftur í harðri neyslu. Andrea segir:

„Við vorum alveg vissar um að hann vildi hætta í neyslu því að hann var nýbúinn að segja við móður sína að hann væri svo spenntur og hlakkaði svo til að sýna okkur það að hann gæti orðið edrú.“

Kristján bjó hjá móður sinni og systkinum í Grafarholtinu fram á vorið en þá stefndi fjölskyldan á að flytja búferlum austur á Stöðvarfjörð. Hann ákvað þá að flytja að heiman og fékk herbergi á leigu í Hafnarfirði. Fjölskyldan tæmdi íbúðina og Kristján flutti inn í herbergið þriðjudaginn 5. júní, sama dag og hann fékk þær fréttir að ekki væri pláss fyrir hann í meðferðinni á Teig. Dagbjört segir:

„Ég og litli bróðir, átján ára, komum að honum látnum í herberginu á laugardeginum.“

Dánarorsök Kristjáns er ekki enn kunn þar sem krufning liggur ekki fyrir en samkvæmt læknum eru taldar mestar líkur á að ofneysla einhverra efna hafi dregið hann til dauða.

 

Alltaf með bestu einkunnirnar

Kristján hafði allt til brunns að bera til að eiga gott og gæfuríkt líf. Hann átti fjölskyldu sem studdi hann, hann var afburðanemandi í skóla og vinsæll meðal allra sem kynntust honum.  Dagbjört segir:

„Hann þurfti ekkert að hafa fyrir því að læra. Sem dæmi þá sleppti hann áttunda bekknum. Þá vorum við búin að ræða mikið saman um þetta því hann var vanur því að vera langhæstur í bekknum. Ég sagði við hann að nú gæti sú staða komið upp að hann yrði ekkert endilega hæstur í bekknum en hann gerði sér lítið fyrir og varð samt langhæstur þó hann hefði sleppt heilu ári.“

Á unglingsárum Kristjáns bjó fjölskyldan í Vogum og Kristján sótti Stóru-Vogaskóla. Árið 2005 var hann með hæstu meðaleinkunina í sjöunda bekk, 2006 í þeim níunda og árið 2007 var hann verðlaunaður fyrir bestan árangur í tíunda bekk, bæði heilt yfir og í íslensku og stærðfræði.

Kristján tekur við verðlaunum fyrir góðan námsárangur.

Aðrir krakkar sóttust mikið eftir því að vera með honum en Kristján greindist snemma með félagsfælni og var tregur til að vera innan um fólk. Andrea segir:

„Öllum sem kynntust honum líkaði vel við hann strax við fyrstu kynni. Ég þekki ekki neinn sem var illa við hann. Krakkarnir vildu vera vinir hans og voru alltaf að reyna að hafa samband og reyna að fá hann með en hann vildi alltaf vera heima. Það eru mörg ár síðan hann lokaði sig frá umheiminum, hann hitti aldrei neina fyrir utan fjölskylduna og var meira að segja hættur að mæta í fjölskylduboð.“

Kristján sótti einn vetur í Menntaskólanum í Hamrahlíð og nokkrar annir í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en flosnaði þá upp úr námi. Kerfið greip ekki inn í á neinum tímapunkti og greindi að þarna var drengur í miklum erfiðleikum. Þá fór að bera á þunglyndi og miklum kvíða. Í eitt skipti leitaði Dagbjört með hann til geðlæknis en lítið kom út úr þeirri heimsókn. Kristján lokaði sig af í herberginu sínu, hlustaði á tónlist og las mikið á netinu.

Duglegur í vinnu og komst aldrei í kast við lögin

Um sautján ára aldur fór Kristján að nota fíkniefni til þess að deyfa sársaukann, fyrst kannabis og önnur vægari efni. Dagbjört segir:

„Hann var svo klár að hann var búinn að komast að því að magalyf sem hann þurfti að taka, Immodium, var hægt að misnota. Það er hægt að kaupa einn pakka í lausasölu, stundum eru afgreiddir tveir. Þegar hann talar fyrst um þetta við lækna þá trúðu þeir honum ekki því hann var sautján ára. Það er morfínskylt efni í þessu og ef þú tekur nógu mikið þá kemstu í vímu.“

Eftir að Kristján hætti í skólanum fór hann að vinna og starfaði lengi hjá Dominos í lagerstörfum. Hann var duglegur í vinnu og yfirmenn hans voru ánægðir með hann. Honum var treyst fyrir stöðu lagerstjóra í afleysingum.

En reglulega, um það bil einu sinni á ári, kom það fyrir að Kristján gat ekki unnið vegna þunglyndis sem leiddi til fíkniefnaneyslu. Aldrei komst hann í kast við lögin og aldrei var hann handtekinn. Andrea segir:

„Þó hann væri í neyslu þá var hann ekki að fara af heimilinu. Það var ekkert djamm á honum eða neitt svoleiðis.“

Með hverju árinu sökk Kristján dýpra og dýpra í þunglyndi án þess að fá faglega aðstoð. Undir lok ársins 2017 var hann kominn í harða fíkniefnaneyslu lyfseðilsskyldra lyfja á borð við Xanax og Oxycontin. Um tíma í vor náði hann að hætta neyslunni en neyslan var aðeins aukaafurð. Til að sigrast á henni þurfti hann að vinna bug á sínum andlegu veikindum sem voru orsökin og þá brást kerfið honum. Dagbjört segir:

„Í raun finnst okkur viðmót starfsfólksins ekki vera aðfinnsluvert, nema í þetta eina skipti. Það voru skrýtin svör hjá fagaðila. Það þarf að gera meira í þessum málum því við erum að missa fleiri og fleiri. Það virðast ekki vera til úrræði fyrir þetta fólk. Það þarf að vera hægt að grípa fólk sem lendir í andlegri krísu áður en það fer að reyna að lækna sig sjálft með því að reykja gras og prófa hin og þessi efni til þess að deyfa sársaukann.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Nærmynd af Sigríði Á. Andersen: Heldur með KR og drekkur ekki kaffi

Nærmynd af Sigríði Á. Andersen: Heldur með KR og drekkur ekki kaffi
Fréttir
Í gær

Caryna er frá Venesúela: Ríkisstjórnin hatar fólkið í landinu

Caryna er frá Venesúela: Ríkisstjórnin hatar fólkið í landinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn krassaði í snjóflóðinu á Flateyri: „Þetta voru miklar hetjur í leitinni“

Þorsteinn krassaði í snjóflóðinu á Flateyri: „Þetta voru miklar hetjur í leitinni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þegar Árni sparkaði í rassinn á Össuri: „Við Össur vorum bara að grínast“

Þegar Árni sparkaði í rassinn á Össuri: „Við Össur vorum bara að grínast“