fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Kaupa Emmessís með nýju hlutafé

Fjárfestahópur eignast 90% í ísgerðinni – Einar í Nóatúni og Gyða Dan, fjárfestir og eiginkona forstjóra MS, á meðal eigenda

Ritstjórn DV
Föstudaginn 7. október 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hópur fjárfesta undir forystu Einars Arnar Jónssonar, sem oft er kenndur við Nóatún, hefur eignast 90% hlut í Emmessís. Samkvæmt heimildum DV fóru þeir inn í hluthafahópinn í ágúst þegar þeir lögðu ísgerðinni til nýtt hlutafé upp á 50 milljónir króna en fyrirtækið var áður í eigu Sparisjóðabankans (SPB) og Eignarhaldsfélagsins Arev. Rekstur Emmessís hefur verið þungur síðustu ár en fyrirtækið veltir um 850 milljónum króna á ári.

Gyða Dan Johansen situr nú í stjórn Emmessís. Fyrirtækið er til húsa í sömu byggingu og Mjólkursamsalan sem átti og rak fyrirtækið í áratugi. Ari Edwald, forstjóri MS, er eiginmaður Gyðu.
Stjórnarmaður Gyða Dan Johansen situr nú í stjórn Emmessís. Fyrirtækið er til húsa í sömu byggingu og Mjólkursamsalan sem átti og rak fyrirtækið í áratugi. Ari Edwald, forstjóri MS, er eiginmaður Gyðu.

Sitja í stjórninni

Fjárfestahópurinn samanstendur af Einari Erni, Þóri Erni Ólafssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sector viðskiptaráðgjafar, Gyðu Dan Johansen, fyrrverandi rekstrarfulltrúa 365 miðla, og Ragnari Birgissyni, framkvæmdastjóra Emmessís og fyrrverandi formanns Samtaka íslenskra sparisjóða. Einar, Þórir og Gyða settust öll í stjórn fyrirtækisins þann 19. ágúst síðastliðinn. Þann sama dag var samþykkt að hækka hlutafé félagins um 4,5 milljónir króna á genginu 11,11. Söluverð hlutafjárins var því 50 milljónir króna og var greitt með reiðufé samkvæmt tilkynningu Emmessís til fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra.

Hnetutoppur ehf. á nú 77% hlut í Emmessís. Að baki félaginu standa Einar Örn Jónsson, Gyða Dan Johansen og Þórir Örn Ólafsson.
Nýr hluthafi Hnetutoppur ehf. á nú 77% hlut í Emmessís. Að baki félaginu standa Einar Örn Jónsson, Gyða Dan Johansen og Þórir Örn Ólafsson.

Einkahlutafélagið Hnetutoppur, sem var stofnað í júlí síðastliðnum, greiddi 43 milljónir fyrir 77% hlut í Emmessís í hlutafjáraukningunni í ágúst. Ragnar Birgisson greiddi sjö milljónir króna fyrir 13% hlut en samkvæmt heimildum DV hélt SPB eftir um 10% í fyrirtækinu. Einkahlutafélagið SPB, sem varð til í kjölfar þess að slitabú Sparisjóðabankans lauk nauðasamningum fyrr á árinu, er að fullu í eigu Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ). Stjórnarformaður SPB er Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri ESÍ.

Lánum breytt í hlutafé

Eignarhaldsfélagið Arev og SPB áttu Emmessís í gegnum samlagshlutafélagið Arev NI. Félagið fór inn í hlutafahóp ísgerðarinnar árið 2007 þegar Auðhumla svf., móðurfélag Mjólkursamsölunnar (MS), seldi fyrirtækið, sem MS hafði þá rekið frá árinu 1960, til fjárfesta tengdum ávaxtasafaframleiðandanum Sól ehf. SPB átti í árslok 2015 60,1% í Arev NI á móti 39,9% Eignarhaldsfélagsins Arev sem er nú horfið úr hluthafahópnum.

Eignasafn Seðlabanka Íslands, ESÍ, á nú um tíu prósenta hlut í ísgerðinni Emmessís í gegnum einkahlutafélagið SPB.
Seðlabankinn Eignasafn Seðlabanka Íslands, ESÍ, á nú um tíu prósenta hlut í ísgerðinni Emmessís í gegnum einkahlutafélagið SPB.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Rekstur Emmessís hefur verið þungur síðustu ár og fyrirtækið farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Það var rekið með 109 milljóna tapi í fyrra og neikvæðri afkomu upp á 52 milljónir árið 2014. Bókfært eigið fé þess var neikvætt um 150 milljónir í árslok 2015 en skuldirnar námu þá 483 milljónum. Í fundargerð hluthafafundar Emmessís frá 13. júlí síðastliðnum er rakið hvernig lánum frá þáverandi móðurfélaginu Arev NI hafði verið breytt í hlutafé. Í desember 2014 hafi hlutaféð verið hækkað um 118 milljónir króna að nafnverði og hækkunarhlutirnir verið greiddir til félagsins í peningum. Ári síðar hafi verið tekin ákvörðun um að hækka það upp í rétt rúmar 303 milljónir og var þá lánum frá móðurfélagi aftur breytt í hlutafé. Í janúar síðastliðnum hafi svo verið tekin ákvörðun um að lækka það um uppsafnað rekstrartap fyrirtækisins eða niður í lágmarkshlutafé, 500.000 krónur.

Ragnar Birgisson var áður stjórnarformaður Emmessís en er nú hluti af nýjum eigendahópi fyrirtækisins.
Framkvæmdastjórinn Ragnar Birgisson var áður stjórnarformaður Emmessís en er nú hluti af nýjum eigendahópi fyrirtækisins.

Mynd: Omar Oskarsson© All Rights Reserved.

Ragnar Birgisson vildi ekki tjá sig um málið þegar DV leitaði eftir því. Í tilkynningu sem blaðinu barst frá fjárfestahópnum í gær, fimmtudag, segir að nýir eigendur ætli sér að efla rekstur fyrirtækisins með aukinni vöruþróun og frekari markaðssókn.

„Saga Emmessíss liggur aftur til ársins 1960. Um áratugur er liðinn frá því að AREV N1 keypti fyrirtækið af Mjólkursamsölunni og reksturinn hefur frá þeim tíma verið algjörlega aðskilinn og er Mjólkursamsölunni óviðkomandi með öllu,“ segir í tilkynningunni.

Leiðrétting
Í prentútgáfu DV segir að verðbréfafyrirtækið Arev hafi verið hluthafi í Emmessís. Það er ekki rétt. Eignarhaldsfélagið Arev, sem er í eigu breska félagsins Arev Management (GB Limited), var aftur á móti hluthafi í ísgerðinni í gegnum samlagshlutafélagið Arev NI (áður Arev N1).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala