fbpx
Þriðjudagur 07.apríl 2020
Fókus

„Þetta er það erfiðasta sem ég hef gert“

Íris Hauksdóttir
Mánudaginn 3. febrúar 2020 11:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ágústa Eva Erlendsdóttir, leik- og söngkona, hefur verið viðloðandi skemmtanaiðnaðinn í rúman áratug. Hún fer með eitt aðalhlutverkið í norsku þáttaröðinni Beforeigners, sem notið hefur mikilla vinsælda, samhliða því að syngja með hljómsveit sinni Sycamore Tree. Ágústa segist aldrei hafa verið ferilslega drifin þótt hún hafi sannarlega þörf fyrir að skapa það sem skemmti öðrum.

Ágústa leiddist inn á braut listarinnar fyrir talsverða tilviljun. Ferillinn varð langur og ótal verkefnum síðar landaði hún stóru hlutverki í sjónvarpsþáttaseríu sem framleidd er fyrir HBO en fjölmargar leikkonur börðust um bitann. Þættirnir, Beforeigners, hafa notið mikilla vinsælda á Norðurlöndum en þeir verða frumsýndir á amerískum markaði síðar í mánuðinum.

„Þegar ég fékk fyrst boð um að koma í prufu var dóttir mín einungis tveggja mánaða. Mér fannst ég ekki geta farið með hvítvoðung til þriðja landsins á svo stuttum tíma svo ég afþakkaði boðið. Nokkrum mánuðum síðar fékk ég aftur tölvupóst frá framleiðanda þáttanna sem bað mig að endurskoða hug minn. Hann frétti að ég hefði búið í Noregi sem barn og talaði tungumálið – að endingu lét ég undan og mætti í prufuna. Daginn eftir fékk ég símhringingu þar sem þau báðu mig um að koma út með næsta flugi, sem ég og gerði. Þá kom í ljós að það var þeirra allra síðasti dagur til að loka leikaramálum. Þar voru leikkonur sem höfðu verið í ferlinu mánuðum saman og voru orðnar þreyttar og pirraðar. Skiljanlega fannst þeim súrt að bæði ég og finnska leikkonan Krista kæmum nýjar inn á síðasta degi og yrðum ráðnar í hlutverkin. Þær voru ekkert síðri en við, þvert á móti, þarna voru algerar kanónur. Þau voru einfaldlega að leita að afmörkuðum persónueinkennum í þessi hlutverk sem við höfðum frá náttúrunnar hendi. Svona er þessi bransi stundum, hann getur virkað ósanngjarn og óskiljanlegur.“

Súrrealískur heimur býður upp á góða djóka

Ágústa segir fyrsta tökudaginn hafa tekið talsvert á taugarnar.

„Þarna var verið að taka upp atriði í yfirgefnum bæ fyrir utan Ósló. Húsin voru hrörleg og þá ég við brotna glugga og mikinn sóðaskap. Þegar ég gekk niður að tökustaðnum til að forvitnast um hvað væri um að vera heyrði ég margar konur öskra og hlaupa um í annarlegu ástandi, sumar í rifnum fötum frá 1800, sem líktust gleðikvennafötum, sjúskaðar og reyttar eins og taugaveiklaðar hænur. Eftir því sem ég nálgaðist húsið heyrði ég æ betur annarleg öskur og stunur berast út. Þetta líktist helst einhvers konar kynlífsorgíuhljóðum svo ég staldraði við og sneri til baka, en í þann mund mætti ég kviknöktum manni með steinaldar tattú, vígtennur og bein í gegnum nefið. Hann heilsaði mér með djúpum, ógnvænlegum rómi og glotti út í annað. Ég viðurkenni að ég fékk þarna aðeins í magann og furðaði mig á því að hafa samþykkt að taka þátt í þessu verkefni þar sem ég hafði ekki einu sinni lesið allt handritið. Tilfinningin var eins og að ganga á glerhurð. Ég var auðvitað aldrei að fara að viðurkenna fyrir nokkrum manni að ég hefði ekki lesið handritið til hlítar svo ég brosti bara þarna og kinkaði kolli til mannsins, en hljóp svo sveitt beint inn í hjólhýsið mitt og hófst handa við að lesa handritið, með nakta manninn hlaupandi um fyrir utan, felandi sig í runnum.“

Aðspurð hvernig tökuferlið hafi gengið segir Ágústa leikhópinn hafa fallið saman eins og flís við rass.

„Við áttum virkilega gott og ánægjulegt samstarf. Hlógum mikið, enda að leika í súrrealískum heimi sem bauð upp á góða djóka. Við vorum líka heppin með veður þótt það hafi orðið ansi kalt þegar komið var til Litháen. En það voru allir svo ánægðir að vinna fyrir HBO og mikil virðing borin fyrir öllum.“

Dagurinn sem ég dó án efa erfiðastur

Þættirnir fengu eins og þekkt er orðið glimrandi góða dóma og hafa gagnrýnendur keppst við að hæla öllum þeim sem að þeim komu. Ágústa heldur þó fast í hógværðina en segist þakklát fyrir góðar viðtökur. „Við fengum fullt hús stiga bæði í Noregi, Danmörku og Svíþjóð samhliða því að setja áhorfsmet í niðurhali á þáttum í Noregi, en við unnum líka áhorfendaverðlaunin þar í landi. HBO ætlar svo að frumsýna þættina í Ameríku frá og með 17. febrúar svo ég get fullyrt að ég hef aldrei komist í jafn mikla dreifingu og þetta verkefni ber með sér.“

Reyndi eitthvert atriði meira á þig en annað?

„Dagurinn sem ég var skotin var án nokkurs vafa erfiðastur. Þetta var ein löng sena, hlaup, texti, skot, leika að deyja, einræða og dauði – allt í einni töku. Og ég ítreka, þetta var bara ein taka. Tæknilegasta erfiðasta sena sem ég hef gert, leiklistarlega, andlega og líkamlega séð. Ég þurfti að æfa þetta aftur og aftur í huganum og halda mér í undarlega erfiðu ástandi allan daginn. Ég gætti þess að tala ekki við neinn nema áhættusprengjukallinn minn allan daginn sem tökur fóru fram. Ég horfði á alvöru myndbönd af fólki vera skotið og drepið og stúderaði allt sem við því kemur, hvað gerist í líkamanum, hvenær og í hvaða röð. Ég vildi vita hvað lamast, fyrst út frá taugum, útlimum, heila, skynfærum og tali, í raun vildi ég vita hvað gerist þegar þú deyrð. Hvernig sársaukinn er og á hvaða tímapunkti adrenalínið kikkar inn. Hvenær þú raunverulega áttar þig á að þú hafir verið skotin og hvernig tilfinning það er að vita að maður sé að kveðja, hvað þú segir og hvernig þú getir yfirhöfuð komið því frá þér. Leikaralega séð er þetta það erfiðasta sem ég hef gert en á sama tíma eitt af því sem ég er hvað stoltust af á mínum ferli. Ég fann það svo sterkt í eftirvinnslunni að ég grét við að taka upp líkamshljóðin í stúdíóinu, en þá stoppaði hljóðmaðurinn mig af og sagði: „It’s ok, I cried too, everybody cries when they see this“.“

Felur sig ekki á bak við gardínu

Upplifir þú þig sem þekkt andlit?

„Ég upplifi aldrei þessa tilfinningu að ég sé fræg, eins og ég ímynda mér að fólk sem vinnur ekki sambærilega vinnu sem felur í sér að vera áberandi á stórum skala hlýtur að upplifa. Ég er alltaf bara ég og það breytir því ekkert. Bruce Lee sagði einhvern tímann í viðtali þegar hann var spurður að þessu sama að það að vera stjarna eða vera kallaður stjarna væri bara hilling, tálsýn, blekking, það væri ekkert slíkt til. Ég finn að sjálfsögðu fyrir því að fólk þekkir andlitið á mér og sumum finnst jafnvel sem þau þekki mig, sem mér finnst ekkert að í sjálfu sér. Ég hef gaman af fólki og hef gaman af mannlegum samskiptum, en ég hef enga þörf fyrir að vera „idoliseruð“ enda er það bara hégómi sem ég kann alveg sérstaklega illa við. Ég tek takmarkað inn á mig, hvort sem það er neikvætt eða jákvætt. Ég er og verð alltaf bara það sem ég er og á þeim stað sem ég er, það er það sem gerist innra með manni sem skiptir mann mestu máli og ég held að allir geti verið sammála því. Mér líður oftast óþægilega þegar verið er að hylla mig, frumsýningar og annað. Mér finnst meira gaman að skapa eitthvað sem ég er stolt af, ég flýt svo bara í gegnum svona hátíðarhöld, brosi, er kurteis og reyni að vera ég sjálf en ekki fela mig bak við gardínu. Ef ég er með aðgerðarplan og tel verkefnið hafa tilgang og erindi fæ ég alltaf adrenalín svo best megi heppnast og að ég skili mínu til áhorfenda hvort sem það er að leika eða syngja, en þá er fókusinn á verkefninu sjálfu en ekki mér. Ég krullast hins vegar alveg upp í tánum og fæ í magann af meðvirkni ef ég á að ganga um rauða dregla og veifa til fólks, það er bara vandræðalegt.“

Hef aldrei verið með tékklista eða aðgerðaráætlun

Finnst þér þú ferilslega fullnægð?

„Ég hef vissulega þörf fyrir að skapa eitthvað sem skemmtir mér og öðrum, það kveikir í mér. Þegar maður svo lítur til baka sér maður veginn, en þá er það vegur sem maður er búinn að ganga. Ég geng þetta líf til að sjá meira og helst að njóta þeirrar stundar og fólksins sem ég er stödd með á þeim tíma. Það er vissulega oftar hægara sagt en gert, en það er markmiðið. Framtíðin er óskrifað blað og ég er vön að gera það sem mér þykir skemmtilegt, ég vona að ég haldi því áfram á þessari göngu minni.

Ég er kaos í sjálfri mér og stundum líður mér eins og ég sé ekki beint að stjórna sjálf, heldur sé með stillt á „autopilot“ með innsæið sem kompás. Svo verður endalaust af fólki og hugmyndum á vegi manns sem maður hefur hugrekki til að hlusta á og fylgja. Ég hef aldrei verið með neinn tékklista eða aðgerðaráætlun, ef mig langar að syngja, geri ég það, ef mig langar að koma einhverju á framfæri geri ég það. Ef mig langar að leika, þá bara geri ég það líka, en fæst af þessu gerir maður einn síns liðs. Ég hef verið svo lánsöm að hafa hitt fólk sem veitir mér innblástur og mig langar að eyða tíma með og búa til eitthvað skemmtilegt og spennandi. Annars á ég mér ævilangan draum, það er að vera hamingjusöm. Allt sem ég geri miðar að því.“

Einræðisherrann sá eini sem fær að syngja

Ágústa á tvö börn, þau Þorleif Óðin og Rebekku, en þau fylgdu móður sinni eftir meðan á upptökum Beforeingers stóð, bæði í Noregi og Litháen. Hún segir framleiðendur þáttanna strax hafa gert sér grein fyrir því að þeir væru að ráða fjölskyldu í verkefnið en ekki einstakling.

„Börn manns eru mikilvægasti hlekkurinn fyrir innihaldsríkt líf, ástin, kærleikurinn og tilgangurinn sem er innprentaður í okkur til að halda keðjunni. Að því sögðu er ég líka mikilvæg fyrir þau, til að framfleyta þeim á minn besta máta. Ég þarf að vera til staðar fyrir þau en líka fyrir sjálfan mig. Ef ég er ekki í lagi þá skortir ekki bara mig eitthvað heldur þau líka. Þau munu alltaf vera númer eitt, fram yfir vinnu og annað, en þau þurfa mest á mér að halda í góðu standi, því þá gef ég þeim mest af því sem þau raunverulega þurfa. Ég var svo heppin að hafa Davíð Illugason og Bryndísi, sem börnin mín elska og dá, með mér úti sem au-pair. Elínborg og Guðný vinkonur mínar flugu með mér út í prufurnar og Sveinn bróðir, Helga konan hans og mamma voru með mér á æfingaferlinu og önnuðust börnin mín, skemmtu þeim og menntuðu þegar ég var vant við látin. Þetta var því ekki síður auðgandi fyrir þau og allt miðað við þeirra þarfir. Við fengum bíl og íbúð og alla þá þjónustu. Framleiðendurnir gerðu sér fulla grein fyrir að þeir væru að ráða fjölskyldu í vinnu en ekki bara mig eina. Annars hefði ég slaufað þessu verkefni.“

Það er óhætt að segja að Ágústa höfðar mikið til barna enda blés hún ógleymanlega lífi í Línu langsokk samhliða því að syngja eitt lífseigasta lag allra teiknimynda, Þetta er nóg. Hún segir börnin sín lítið kippa sér upp við frægðarsól móður sinnar enda séu þau alin upp í samfélagi þar sem ekki er farið í manngreinarálit.

„Þau vita að þetta er vinnan mín og finnst það bara fínn díll. Ég fæ fleiri frídaga en aðrir foreldar og get unnið mikið heima, við erum þakklát fyrir það. Þeim finnst ég bara vera venjuleg mamma og fólk starfar við ólík störf, en ekkert starf er merkilegra en annað. Ef þau heyra mig syngja í útvarpinu þá er það bara stuð, en ég er frekar pirrandi ef ég er að syngja heima, þar má bara ein manneskja syngja og það er litli einræðisherrann, dóttir mín.“

Mun aldrei upplifa neitt þessu líkt

Næsta verkefni Ágústu byggir einmitt á sönghæfileikum hennar en þann 14. febrúar mun hún efna til minningartónleika tileinkaða söngvaranum Prince sem haldnir verða á Hard Rock Café.

„Mig langaði að syngja eitthvað öðruvísi, eitthvað sem kveikir í mér og veitir innblástur. Mig langaði líka að spila með Ómari Guðjóns, vini mínum, en við höfum spilað mikið saman síðustu tíu ár. Valentínusardagurinn var í sjónmáli og þá dúkkaði Prince upp í hugann. Vissulega verðugt verkefni enda maðurinn með breiðasta raddsvið sem hugsast getur, söng mikið í falsettu og samdi tónlist fyrir aðra söngvara einkum konur. Ég sá fyrir mér að með réttri nálgun og rétta fólkið mér við hlið gæti ég púllað þetta. Prince var ekki mikið í norminu, hann blandaði saman fjöldanum öllum af ólíkum tónlistarstefnum, notaði óhefðbundna hljómasamsetningu og fór óhefðbundnar leiðir í listsköpun sinni og framkomu sem og klæðaburði. Inntak tónlistarinnar var oftar en ekki andlegt og líkamlegt ástarsamband.

Árið 2007 fór ég á fyrstu tónleikana með honum og stóð í um það bil 100 metra fjarlægð frá honum þar sem hann söng öll frægustu lögin sín og svo óheyrt efni inni á milli. Það var þá sem ég féll fyrir honum, líkt og ég hefði hitt Jesú Krist í holdi og blóði. Upplifunin var úr þessum heimi, algjörlega óskiljanleg. Ég veit að ég mun aldrei upplifa annað þessu líkt það sem ég á eftir ólifað. Ég sé fyrir mér að fólk komi í hópum, einstæðir og pör í bland, fái sér eitthvað gott í kroppinn og njóti ástarinnar og fái jafnvel smá innblástur og upplyftingu, höldum upp á ástina, er nokkuð betra en einmitt það?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Goðsögn féll frá
Fókus
Fyrir 2 dögum

Edda Björgvins í sjálfboðavinnu á Hellu – „Hér er mér tekið af kærleika en tæplega treyst“

Edda Björgvins í sjálfboðavinnu á Hellu – „Hér er mér tekið af kærleika en tæplega treyst“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Biggi lögga fékk sérstaka beiðni um daginn

Biggi lögga fékk sérstaka beiðni um daginn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Farðu í bílabíó um helgina

Farðu í bílabíó um helgina
Fókus
Fyrir 4 dögum

Draumur Binna rættist í nótt þegar hann talaði við heimsfræga stjörnu

Draumur Binna rættist í nótt þegar hann talaði við heimsfræga stjörnu
Fókus
Fyrir 6 dögum

Íslensku fitness-konurnar á Instagram

Íslensku fitness-konurnar á Instagram
Fókus
Fyrir 6 dögum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu slær í gegn – „Þið eruð snillingar“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu slær í gegn – „Þið eruð snillingar“