Fjölmenni á frumsýningu Úti að aka á laugardagskvöld
Farsinn Úti að aka var frumsýndur á Stóra sviði Borgarleikhússins á laugardagskvöld. Góður rómur var gerður að sýningunni en leikritið segir frá leigubílstjóranum Jóni Jónssyni sem lifir tvöföldu lífi.
Jón heldur tvö heimili með tveimur konum sem vita ekki af hvor annarri. Hann á eitt barn með hvorri konu, stelpu og strák á sama aldri, og er óhætt að segja að málin vandist þegar þau kynnast óvænt á Facebook og ætla að hittast.
Leikstjóri er enginn annar en Magnús Geir Þórðarson en höfundur verksins er Ray Cooney. Með helstu hlutverk fara Bergur Þór Ingólfsson, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmir Snær Guðnason og Ilmur Kristjánsdóttir.