Úrslitakvöld Eurovision fer fram á laugardag og er ljóst að rafmögnuð spenna verður í loftinu þegar í ljós kemur hver fulltrúi Íslands í Kænugarði í Úkraínu verður.
Keppnin á laugardag hefst klukkan 19.45 og verður sýnd í beinni útsendingu í Sjónvarpinu.
Fyrstur á svið verður Aron Hannes með lagið Tonight, næst á svið verða þau Arnar Jónsson og Rakel Pálsdóttir með lagið Again og þriðji á svið verður Aron Brink með lagið Hypnotised.
Hildur Kristín Stefánsdóttir, sem komst nokkuð óvænt áfram, er fjórða á svið með lagið Bammbaramm.
Akureyringurinn Rúnar Eff er svo fimmti í röðinni með lagið Make Your Way Back Home og Svala Björgvinsdóttir, með lagið Paper, er svo sjötta á svið. Daði Freyr Pétursson með lagið Is this Love? er svo síðastur á svið.
Úrslitakvöldið fer fram í Laugardalshöllinni og mun hinn sænski Måns Zelmerlöw, sem bar sigur úr býtum í Eurovision árið 2015, með laginu Heroes, koma fram. Lag hans vann keppnina árið 2015 með nokkrum yfirburðum, en lagið fékk meðal annars tólf stig frá íslenskum almenningi.