Sex ára gamall fékk Þorleifur H. Kristínarsson heiftarleg ofnæmisviðbrögð við verkjalyfi -Hann missti sjón á öðru auga og 60% af húð sinni
Í helgarblaði DV er rætt við Kristínu Hildi Þorleifsdóttur, móður Þorleifs H. Kristínarsonar, sem hvarf sporlaust í Fredrikshavn í Danmörku fyrir rúmum tveimur árum. Íslenskir fjölmiðlaðar fjölluðu um hvarfið en greindu síðan snögglega frá því að leit hefði verið hætt.
Í viðtalinu kemur fram að danska lögreglan fann myndband þar sem Þorleifur sést stökkva fram af bryggjunni út í opinn dauðann. Það voru síðustu andartök drengs sem hafði glímt við verulegt mótlæti frá unga aldri og átti sér ekki viðreisnar von. Hann hafði fengið nóg. Kristín deilir með lesendum erfiðleikunum sem sonur hennar þurfti að glíma við og þeirri miklu sorg sem hún og fjölskylda hennar hefur þurft að takast á við.
Hér má lesa brot úr viðtalinu:
Mæðginin fluttu til Danmerkur árið 1995 en þá var Þorleifur aðeins eins árs gamall. Bróðurpart þessara tveggja áratuga bjuggu mæðginin í eða í grennd við Hanstholm, litlum útgerðarbæ í Norður-Jótlandi þar sem ferjan Smyril Line kemur að höfn frá Seyðisfirði. Þorleifur var heilbrigður og kátur drengur fyrstu árin þar til ógæfan dundi yfir þegar hann var sex ára gamall. Hann veiktist af vægri flensu og leitaði Kristín Hildur til læknis til að fá bót meina hans. Læknirinn ávísaði hálfri panódíl til að vinna á veikindunum en allt kom fyrir ekki. Ástandi Þorleifs hrakaði stöðugt. Hann var lagður inn á Thisted-spítala tveimur dögum síðar og var þá gríðarlega kvalinn. „Ég horfði á hann brenna upp fyrir framan augun á mér. En ég gat ekkert að gert. Ég get ekki einu sinni reynt að lýsa því með orðum hversu hræðileg tilfinning þetta var. Vanmátturinn var algjör en ég trúði og treysti því að læknarnir vissu hvað þeir væru að gera,“ segir Kristín Hildur.
Fjórum dögum síðar kom í ljós að Þorleifur litli var með heiftarlegt ofnæmi fyrir parasetamóli, sem er lykilhráefni í verkjalyfjum eins og panódíl. Þá höfðu læknarnir meðal annars meðhöndlað Þorleif eins og hann þjáðist af mislingum. Litli drengurinn var að lokum fluttur á sjúkrahúsið í Árósum þar sem læknar uppgötvuðu hvaða amaði að og rétt meðferð hófst. „Þorleifur var við dauðans dyr og lá sofandi í öndunarvél í tæpar sjö vikur. Hann fékk blöðrur, eins og eftir brunasár, um allan líkamann og missti 60 prósent af húð sinni,“ segir Kristín Hildur. Þegar litli drengurinn vaknaði loks upp þá voru kvalirnar óbærilegar. Alls þurfti hann að dveljast í 14 mánuði á sjúkrahúsi.
Sýkingin náði í augu hans og gerði að verkum að hann missti sjón á hægra auga. Það var svo illa farið að taka þurfti húð úr kinn Þorleifs til þess að græða yfir augað. „Augnlokin greru við augað og læknarnir gerðu gat á þau. Það gerði að verkum að hornhimnan á auganu eyddist smátt og smátt upp.“ Litli drengurinn hafði veikindin af en ljóst var að líf hans yrði aldrei samt. „Hann var alsettur örum og sárum um allt andlitið og líkamann. Hann var svo illa farinn að hann þurfti að fara í endurhæfingu og læra að ganga upp í nýtt. Hann þurfti að dveljast í 14 mánuði á sjúkrahúsi en hann stóð sig eins og hetja,“ segir Kristín Hildur. Barátta hans vakti athygli úti í Danmörku og fjallaði Ekstra Bladet um veikindi hans.
Þorleifur missti eðli málsins samkvæmt talsvert úr skóla á þessum erfiða kafla í lífi sínu og þegar hann mætti loks þá var honum ekki tekið hlýlega. Fljótlega hófu krakkar í skólanum að stríða honum og hann fékk að heyra háðsglósur um útlit sitt. Móðir hans sá að þetta gæti ekki gengið og brá á það ráð að taka Þorleif úr almennum grunnskóla og setja hann í einkaskóla þar sem hann fékk frið fyrir grimmd skólafélaganna. Hann bjó hjá ömmu sinni og afa á Mors-eyju í Limafirði virka daga þar sem hann sótti skólann og fór síðan heim til móður sinnar og systkina um helgar. Þorleifur naut sín vel í einkaskólanum og þar hætti áreitið. Hann flutti síðan aftur til Hanstholm um fermingaraldurinn og þá hófst eineltið aftur. „Hann var meðal annars kallaður „Scarface“ og var reglulega fórnarlamb barsmíða. Honum leið mjög illa en sem betur fer átti Þorleifur alltaf góða vini sem hjálpuðu honum í gegnum þetta. En þessi illgirni tók að sjálfsögðu verulega á hann,“ segir Kristín Hildur.