Karólína þreytt á því hvað þau Halldór hafa rekist á marga veggi frá því að hann veiktist
„Stundum er ég alveg uppgefin. Dóri tekur yfirleitt eftir því og byrjar að græja sig í háttinn og fer upp í rúm þrátt fyrir að hann langi ekkert að fara að sofa. En hann gerir það fyrir mig svo ég fái hvíld. Hugsaðu þér ef hann gæti fengið þjónustu sem gerði honum kleift að fara í rúmið þegar hann er þreyttur.“
Þetta segir Karólína Geirsdóttir sambýliskona Halldórs Ásgeirssonar sem getur lítið tjáð sig og er lamaður öðru megin eftir að hann fékk blóðtappa árið 2012.
Áður en Halldór veiktist starfaði hann sem smiður og að sögn Karólínu var Dóri, eins og hann er alltaf kallaður, vinamargur brandarakall sem kunni að njóta lífsins. Dóri hefur tekist á við veikindin með miklu æðruleysi. Þrátt fyrir að vera fangi í eigin líkama er hann þakklátur fyrir að vera á lífi.
Karólína sem vill ekkert frekar en að búa með manninum sínum er orðin þreytt á úrræðaleysinu og fjársvelti í heilbrigðiskerfinu sem gerir þeim erfitt um vik. Ekki er boðið upp á aðstoð til að koma Dóra í sturtu nema á þeim tímum sem hann er dagþjónustunni.
Þá á Karólína ekki rétt á snjómokstri fá bæjarfélaginu en þau eru búsett í Mosfellsbæ.
„Bílaplanið hérna úti er gríðarlega stórt. Bara núna um daginn lentum við í miklum vandræðum þar sem Dóri kemst ekki í dagvistunina ef bíllinn sem kemur að sækja hann kemst ekki upp að húsinu. Ég þurfti sjálf að moka allt planið svo hann kæmist út á hjólastólnum. Nágrannarnir hjálpuðu mér en bæjarfélagið segir að ég eigi ekki rétt á snjómokstri frá bæjarfélaginu sem myndi sannarlega létta okkur lífið.“
Nánar er fjallað um mál Karólínu og Dóra í helgarblaði DV