fbpx
Fimmtudagur 15.maí 2025
Fókus

Heimilisvörur sem skapa hughrif

Erla Gísladóttir starfar við vöruhönnun og sölu á vörulínunni sinni

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 2. október 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erla Gísladóttir er með grunn úr snyrti- og listfræði. Hún hefur alltaf haft þörf fyrir að skapa og búa til eitthvað í höndunum. Í dag freistar hún þess að lifa af sköpunarkraftinum og framleiðir heimilislínu sem ætlað er að skapa góð hughrif. Að baki hverju smáatriði í vörum hennar eru miklar pælingar þar sem hún byrjar oftast nær vöruþróunina í eldhúsinu heima hjá sér hvort sem er að blanda ilm fyrir ilmkerti eða steypa sápur. Erla segist alltaf vera á fullu en að það sé áhuginn og gleðin sem drífi hana áfram.

„Ég hef alltaf verið mikið að búa til í höndunum, gera og græja ýmislegt og vissi að ég vildi vinna við að skapa en ekki alveg hvað. Þess vegna fór ég upphaflega í snyrtifræði því ég hafði mikinn áhuga á snyrtivörum og efnafræði þeirra. Þar vinnur þú líka mikið í höndunum og með fólki.“

Samhliða snyrtifræðinni hafði Erla verið að prófa sig áfram í ljósmyndun og ætlaði jafnvel að leggja hana fyrir sig. Úr ljósmyndunum föndraði hún mismunandi vörur auk þess sem hún heklaði og hannaði eigin hekluppskriftir.

Erla hafði gaman af því að útbúa gjafir fyrir vini og vandamenn í höndunum og eitt leiddi af öðru, þar til Erla fékk boð frá kunningjum um að selja vörurnar sínar í hönnunarbúð sem þeir höfðu nýlega opnað í Reykjavík.

„Ég prófaði það og sá hvað það var gaman að selja vörur sem ég hafði sjálf búið til. Svo þróaðist þetta bara áfram og árið 2010 eignaðist ég mitt fyrsta barn og var mikið föst heima við. Mig þurfti líka að drýgja tekjurnar þannig að ég fór að búa til vörur og ná mér í aukapening. Ég hafði tekið mikið af ljósmyndum í íslenskri náttúru og notaði þær til að líma á glasamottur og mdf-kubba. Þetta vakti lukku hjá ferðamönnum og fyrir vikið leitaði ég til eiganda Hríms og spurði hvort þar væri áhugi fyrir því að selja vörurnar mínar.“

Erla tekur fram að hún hafi oft þurft að taka höfnun og verið beðin um að taka vörur sínar til baka úr búðum þar sem þær seldust ekki. Þessum bransa fylgja aðstæður sem geta dregið kjarkinn úr fólki og Erla leggur áherslu á mikilvægi þess að halda ótrauð áfram þrátt fyrir hindranirnar og að það skipti öllu að hafa gaman af því sem maður gerir.

„Ég man svo vel eftir því þegar ég fór upp í Hrím. Ég hugsaði með mér að þetta væri svo flott búð og hafði efasemdir um að vörurnar mínar myndu passa þar inn. Ég safnaði kjarki, spurði og fékk jákvæð svör. Síðan hef ég verið í stöðugri sölu þar auk þess sem vörurnar mínar eru komnar í fleiri búðir.“

Tekur skrefið til fulls

„Fyrir nokkrum árum sótti ég um í vöruhönnun í Listaháskólanum. Í viðtalinu sýndi ég kraga sem ég hafði heklað og konan sem tók viðtalið við mig sagði: „Þú veist að þetta er ekki föndurnámskeið?“ Ég komst ekki inn og varð fljótlega ólétt að frumburði mínum, lífið greip inn í og breytti plönunum. Síðan hef ég hugsað út í þetta viðtal og hversu skrítið það er að láta eina konu í einhverju viðtali ráða því við hvað maður starfar. Ef mig langar til þess að hanna og skapa vörur til þess að selja þá geri ég það. Það sagði við mig önnur kona seinna meir að maður þyrfti ekki alltaf að fara í skóla til þess að fá góðar hugmyndir. Ég ákvað að fylgja hennar ráðum. Maður þarf að hafa til þess kjark og leyfa lönguninni að drífa mann áfram.“

Nýlega tók Erla skrefið til fulls og starfar nú alfarið við vöruhönnun og sölu á vörulínunni sinni. Hún er í óðaönn við að gera sápur sem hún nefnir Tind og Stein, auk þess sem hún hefur þróað kertalínu sem er í framleiðslu og kemur í verslanir í næsta mánuði.

„Já, ég er búin að þróa línu með fjórum ilmkertum sem öll endurspegla mismunandi árstíðir. Kertin vann ég upphaflega frá grunni en ég byrjaði ferlið á að fara í endurvinnslustöð og fékk gefins heilmargar vínflöskur sem ég sagaði, pússaði og nýtti sem kertaglös. Ég blandaði svo saman hinum og þessum ilm sem ég vildi skapa ákveðin hughrif með. Lykt minnir mann oft á einhverja iðju eða kallar fram minningar og ég vildi skapa ilmkerti sem næðu fram slíkum hughrifum hjá fólki. Úr urðu kerti sem eiga að endurspegla og kalla fram tilfinningu fyrir árstíðunum fjórum. Árstíðarkertin heita íslenskum nöfnum sem eru með vísan í hverja og eina árstíð. Bjarmi táknar aukið dagsljós eftir veturinn, Birta táknar alla birtuna sem við fáum yfir sumarið, um haustið kemur Dimma og að lokum Stormur sem herjar oft á okkur hér á Íslandi að vetrarlagi. Ég hef þróað kertin enn frekar síðastliðna mánuði og mun á næstu vikum kynna og bjóða til sölu kerti með sömu nöfnum en í örlítið breyttum búningi.“

Erla er rétt að byrja. Vörur hennar seljast eins og heitar lummur og það verður spennandi að fylgjast með framgangi og frekari þróun þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Þorsteinn settist inn á ónefnt kaffihús og samskipti tveggja karlmanna vöktu áhuga hans

Þorsteinn settist inn á ónefnt kaffihús og samskipti tveggja karlmanna vöktu áhuga hans
Fókus
Fyrir 2 dögum

Telja þetta sterka vísbendingu um að hún og tengdamamman séu enn í stríði

Telja þetta sterka vísbendingu um að hún og tengdamamman séu enn í stríði
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bubbi segir ofuráhersluna á Eurovision orðna einum of – „Þetta gerir íslenskri tónlist engan greiða“

Bubbi segir ofuráhersluna á Eurovision orðna einum of – „Þetta gerir íslenskri tónlist engan greiða“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nágranni Einars kvartaði mikið undan uppátækjum hans – Brá heldur í brún þegar hann leit út um eldhúsgluggann

Nágranni Einars kvartaði mikið undan uppátækjum hans – Brá heldur í brún þegar hann leit út um eldhúsgluggann