Gunnar opnar sig um raunir sínar í pistli á Vísi.
„Málið er að árið 2014 fjárfesti ég í svona dýnu eins og „fullorðins“ fólk myndi kaupa sér, alveg rándýr og leit ég á það sem merki um gæði, rándýra heilsudýnan. En allan tímann sem ég átti hana skildi ég aldrei af hverju ég svæfi oftast betra annars staðar en heima hjá mér, ég bara skildi það ekki. Ég skildi aldrei af hverju ég væri svona illa hvíldur, stirður og með þessa óþægilegu tilfinningu húðsviða og hita eftir nóttina á rándýru heilsudýnunni minni,“ segir hann.
„Til að gera langa sögu stutta sem eflaust hefur verið sögð hundrað sinnum áður, þá fór svo að vitrun átti sér stað og ég henti „morðdýnunni“ og keypti mér heilnæma dýnu sem unnin var úr 100% náttúrulegum efnum og viti menn, allt lagaðist kviss bamm yfir nótt. Ég lagðist í hana og hún tók á móti mér á hátt sem ég hafði aldrei fundið áður. Ég vaknaði opin og liðugur, engar bólgur sem sérstaklega höfðu komið fram í mjóbaki og útlimum í mínu tilfelli.“
Gunnar ber nýju dýnunni enn góða sögu.
„Svo hafa nokkur ár liðið og ennþá er ég eins og nýr maður miðað við hvar ég var þegar ég baðaði mig í eitruðum rokgjörnum efnum 8 tíma á sólarhring, en nýlega átti ég samtal við hjón sem standa mér nærri. Maðurinn sagðist vakna allar nætur í svita svo að bolir og nærföt límdust við hann og bæði vöknuðu þau illa hvíld, bólgin og þrútin, þar að auki var konan orðin illa haldin af útbrotum og exemi sem læknar virtust enga skýringu hafa á,“ segir hann.
Gunnar kannaðist við einkennin. „Eftir að ég tönglaðist í þeim um mikilvægi náttúrulegra svefnvara létu þau til leiðast og þremur dögum seinna hringdu þau svo í mig. Karlinn, sem í mörg ár hafði ekki upplifað þurra nótt, var allt í einu farin að sofa samfellt alla nóttina og það skráfaþurr. Útbrot, sviði, exem og bólgur hurfu eins og dögg fyrir sól og eftir sátu þau alveg gáttuð á þessu, trúðu þessu varla, að þetta væri það eina, bara að dýnan og koddinn hefði verið að eitra fyrir þeim allar nætur.“
Allt þetta vakti sterka þörf hjá Gunnari að rýna aftur í þetta og benda fólki á „skaðsemi vissra efna sem í óregluvæddu umhverfi leika lýðinn grátt og eru orðin stór orsök slæmrar lýðheilsu“.
„Í því samhengi rakst ég á grein sem skrifuð hafði verið af hjúkrunarfræðingi nokkrum sem gaf mér góðfúslegt leyfi til að vinna úr að einhverju leyti hvað varðar tæknileg atriði. Svo hér kemur partý-púberinn og það skal sagt að ef þú lesandi góður sem málið varðar vilt ekki eyðileggja gott heilsuspillandi partý þá ráðlegg ég þér að stöðva lesturinn hér og gera bara eitthvað allt annað.“
Gunnar ræðir um „memory foam“, hvað skal varast og hvað skal leita eftir að hans mati þegar dýna er keypt.
Hann fer einnig yfir „tvö efni sem eru í þekkt í „heilsudýnunum“. Þessi efni eru ekki eldvörn en þjóna öðrum tilgangi.“
„Eitt helsta eitraða rokgjarna efnið sem kemur frá dýnum sem innihalda minnis-svamp er formaldahyde sem er þekktur krabbameinsvaldur. Formaldehyde er notað sem lím eða binding sem heldur dýnunni saman. Efnið hefur verið tengt við astma, aukna tíðni ofnæmis, aukna tíðni lungnakrabbameins sem og krabbameins í hálsi og nefi. Getur einnig valdið ofþreytu, húðútbrotum og alvarlegu bráðaofnæmi.
Svo er það Naphthalene sem er rokgjarnt efni sem er búið til úr annað hvort kolatjöru eða jarðolíu sem búið er að eima og er að stórum hluta nýtt sem skordýrafæla. Fólk sem andar af sér naphthalene útgufun fær höfuðverki, ógleði, uppköst, svima og ef það fær nógu stóran skammt af efninu getur það fengið blóðlýsublóðleysi. Þegar Naphthalene gufur komast inn í líkamann er efnið brotið niður í önnur efni sem hafa áhrif á frumur líkamans og valda vefja, lifrar og nýrnaskaða,“ segir hann.
Gunnar fer nánar yfir þessi efni í pistlinum, sem má lesa í heild sinni hér.