fbpx
Laugardagur 07.desember 2024
Fókus

Blómstrar í fyrirtækjarekstri eftir atvinnumennskuna

Fókus
Laugardaginn 23. nóvember 2024 13:30

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Kylfingurinn þjóðþekkti blómstrar nú í fyrirtækjarekstri og nýtur fjölskyldulífsins í botn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Texti: Svava Jónsdóttir

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir kylfingur hefur söðlað um og lagt golfkylfuna á hilluna. Hún er nýgift, tveggja barna móðir sem býr til skiptis á Íslandi og í Þýskalandi. Hún stofnaði fyrir nokkrum árum fyrirtækið Kristice sem gengur út á að leigja út dýrar og vandaðar töskur og í haust stofnaði hún ásamt tveimur öðrum fyrirtækið Olala sem er netverslun með barnavörur og er lögð áhersla á að aðstoða fólk og fyrirtæki við að minnka sóun. Ólafía Þórunn blómstrar í dag en lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum þrátt fyrir velgengni í gegnum tíðina. Hún fékk áfallastreituröskun á sínum tíma í kjölfar slyss sem kærasti hennar lenti í og álagið á golfvellinum þróaðist út í kulnun. Þessir erfiðleikar eru hins vegar að baki og Ólafía Þórunn horfir á framtíðina björtum augum.

Eyðir meiri pening í gæði

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir birtist á tölvuskjánum en hún situr við tölvuna á heimili sínu í Koblenz í Þýskalandi. Og það er fyrst talað um fyrirtækin hennar Kristice og nýstofnaða fyrirtækið Olala sem hún rekur ásamt tveimur öðrum konum. Lögð er áhersla á hringrásarhagkerfið hvað bæði fyrirtækin varðar.

„Kristice gengur út á útleigu á handtöskum – til dæmis frá Gucci, Louis Vuitton og Yves Saint Laurent. Í rauninni kviknaði sú hugmynd út frá því að ég hafði aldrei leyft mér að kaupa svona tösku sjálf. Ég ætlaði að fara ákveðna leið með það en svo vaknaði áhuginn á öðru en ég átti von á og þá fór ég í áttina að Olala. Kristice er búið að vera mjög gaman og gengið vel en ég fann þegar ég var ólétt að yngri stráknum mínum að ég var farin að hugsa mikið um barnaföt og hringrásina í þeim og mér finnst hún vera svo sniðug. Þannig að í raun fór ég þá leiðina. Hugmyndin þróast með tímanum og eins og við stöndum núna viljum við hjálpa fólki og fyrirtækjum að minnka sóun. Við einblínum á gæði og góð verð. En verslunin okkar snýst ekki bara um að finna góð kaup; hún snýst um að byggja upp sjálfbærari framtíð. Við viljum líka fræða fólk um gæði á vörum og ýta undir vörumerki sem hugsa um sjálfbærni, vandaða framleiðslu og borga sanngjörn laun svo eitthvað sé nefnt. Ég persónulega hef verið á vegferð að reyna að kaupa hreinni vörur og frekar eyði aðeins meiri pening í gæði sem eru betri fyrir heilsuna og sem endast lengur. En þetta er ekki svo einföld vegferð þegar maður er á byrjunarreit.“

Og netverslunin Olala var stofnuð og opnuð í október.

Meðeigendur Ólafíu Þórunnar í Olala eru þær Auður Íris Ólafsdóttir og Jóhanna Björk Sveinsdóttir. „Við erum með lagersölu. Þá erum við í samstarfi við fyrirtæki og í staðinn fyrir að allir séu með litla lagersölu í sínu horni þá erum við með eina stóra lagersölu á netinu. Við erum með flotta samstarfsaðila og er lykilatrið hjá okkur að hugsað sé um „hæga tísku“.

Ólafía Þórunn segir að viðtökur hafi verið góðar frá því að síðan var opnuð í október. „Maður finnur að fyrirtækin eru mjög ánægð með að geta losnað við eldri lager og þurfa ekki að hugsa lengur um hann og geta einbeitt sér að kjarnastarfsemi sinni. Við fáum þóknun þegar föt seljast og ef stakar flíkur seljast ekki af lager fyrirtækjanna munum við kaupa þær en ef mikið magn selst ekki þá getur fyrirtækið ákveðið hvort það vilji fá til baka eða gefa til góðgerðarstarfsemi. Það eru ýmsar leiðir.“

Fótbolti og prakkarastrik

Ólafía Þórunn fæddist á Íslandi og ólst upp fyrstu árin í Danmörku og svo flutti fjölskyldan til Íslands og hóf hún grunnskólanám í Mosfellsbæ. „Það var geggjað að alast upp í Mosó. Það var einhvern veginn góð stemmning í Mosó.“

Hún var feimin í æsku og segist ennþá vera það. „Ég er svolítið búin að æfa mig í að koma mér út úr skelinni minni. Það var kannski óþægilegt fyrir mig að vera feimin en ég hef alltaf verið þannig að ég vil takast á við áskoranir þannig að stundum var ég að peppa sjálfa mig upp í að gera hluti þó mér fyndust þeir vera óþægilegir. Að sigrast á óttanum; ég hef alltaf verið þannig.

Mér finnst til dæmis ekki vera gaman að vera miðpunktur athyglinnar. Þegar ég átti þrítugsafmæli var það smá „ú“ og svo giftum við okkur í haust og þar vorum við miðpunkturinn og ég var svolítið stressuð yfir því. Mér finnst ekkert gaman að halda ræður en það er gaman eftir á,“ segir hún og hlær.

Hún segist oft hafa verið í fótbolta og að fremja einhver prakkarastrik sem stelpa. „Ég átti nokkra vini og við vorum alltaf að finna upp á einhverju; alltaf úti að leika. Ég var reyndar fræg fyrir að eiga lítið kassettutæki með míkrófóni og ég tók viðtöl og við vorum að gera útvarpsþætti sem voru spilaðir á kassettutækinu. „Velkomin í þáttinn.“ Það var uppáhaldið, held ég. Þannig að ég á endalausar kassettur.“

Svo kenndi faðir hennar henni að spila á gítar þegar hún var lítil. „Ég var að gutla í því.“

Ungu stúlkuna dreymdi meðal annars um að verða læknir, tannlæknir eða dýralæknir þegar hún yrði fullorðin og að gera heiminn að góðum stað.

Félagsskapurinn dró hana í golfið

Ólafía Þórunn segir að fjölskyldan hafi búið við hliðina á golfvellinum í Mosfellsbæ og að bræður sínir hafi oft verið að fara með sig þangað. Hún fór fyrst í golf þegar hún var átta eða níu ára og fór á sumarnámskeið og fannst henni vera það gaman að hún fór að æfa af meiri alvöru 11 ára gömul.

„Það var gaman að vera í hóp og með öðrum krökkum. Það voru margir strákar í golfi í Mosó; það voru ekki margar stelpur í golfi en ég átti mikið af strákavinum og mér fannst það rosa gaman.“ Ólafía Þórunn segir að í upphafi hafi einmitt félagsskapurinn dregið sig í golfið. Þess má geta að á þessum árum var hún líka í badminton og handbolta. „Ég sakna svolítið badminton og ég er að spá í að byrja aftur í badminton; fara kannski einu sinni í viku. Finna einhvern hóp. Það væri gaman.“

Árin liðu og ungi Mosfellingurinn fór í Verslunarskóla Íslands. Hvers vegna sá skóli? „Þau voru markaðssett svo vel. Þau voru með Nemó, 12.00 og svo átti ég vinkonur sem fóru í Versló sem voru að sýna mér sætu strákana í 12.00.“ Um var að ræða þátt sem var gefinn út nokkrum sinnum á ári – sýndur í sal og svo settur á netið; sketsar, grín og skemmtilegt eins og hún orðar það. „Það gaf skólanum góða ímynd og ég ákvað að fara þangað.“ Hún nefnir landsþekktan tónlistarmann í dag sem var einn af strákunum í 12.00. „Við kölluðum hann „strákinn með augun“. Allt svona hafði áhrif.“

Fékk námsstyrk 18 ára gömul

Hún fór á náttúrufræðibraut í Versló en fannst þó námið ekki henta sér. Það varð til þess að hún stökk á annað tækifæri þegar það bauðst.

Þegar Ólafía Þórunn var á öðru ári í Versló og búin að vera á fullu í golfi og gengið vel bauðst henni vegna golfsins námsstyrkur við Wake Forest University í Bandaríkjunum. „Ég var búin að vera í fullorðinslandsliðinu í golfi og búin að vinna nokkra Íslandsmeistaratitla unglinga. Ég var búin að vinna einhver fullorðinsmót líka.“

Hvað var það við golfið hvað hana varðar sem kom henni svona langt? „Ég var að vinna mikið í hugarfarinu og las mikið af bókum um íþróttasálfræði, hugarfar og andlegan styrk og ég var búin að leggja mikið á mig aukalega við að æfa mig. Svo geri ég ekki allt; ég var með frábæra þjálfara, ég á frábæra foreldra og bræður og allt þetta hjálpar mér.“

Hún ákvað að taka boðinu um námsstyrkinn en hún hafði þá lokið verslunarskólaprófi. Hún segir að þau í háskólanum vestanhafs hafi sagt að verslunarskólapróf væri nóg og hún gæti hafið háskólanám um haustið.

„Ég höndlaði það mjög vel að fara út. Það var örugglega meira sjokk fyrir mömmu. Hún var alveg „guð, ertu að fara núna? Getur þú ekki beðið í eitt ár?“. Pabbi var meira „nei, hún fær tækifæri núna, hún á að fara núna“. Þannig að í rauninni var ég líka að hugsa hvað væri best fyrir golfferilinn minn. Það væri betra að fara fyrr. Það voru fullkomnar aðstæður í Bandaríkjunum og ég var þar með líkamsræktarþjálfara, íþróttasálfræðing og golfþjálfara sem sá um allt skipulag fyrir okkur og var á sama tíma í námi. Í rauninni var ég að æfa mig í að vera atvinnumaður en var að mennta mig í leiðinni. Þessi ákvörðun tengdist því að mig dreymdi um að ná langt og þá var ég að gera allt sem í mínu valdi stóð til að komast í þá stöðu.“

Afrekalisti Ólafíu Þórunnar í golfi er glæsilegur

Mikið álag sem vandist

Ólafía Þórunn flaug 17 ára gömul með foreldrum sínum til Winston-Salem í ágúst 2010 með ferðatösku og golfsett. Hún kom sér fyrir í litlu herbergi á stúlknagangi og næstu fjögur árin bjó hún í borginni og stundaði nám í hagfræði með frumkvöðlafræði sem aukagrein og æfði og keppti í golfi. Það var mikið að gera.

„Námið var mjög krefjandi. Maður var að allan daginn. Ég mætti í ræktina um klukkan hálfsjö á morgana, var í skólanum frá klukkan átta til tvö, fór á æfingu hálfþrjú til hálfsex og svo fór ég að læra fyrir næsta dag. Ég man að ég var á bókasafni skólans til miðnættis og fram yfir miðnætti þegar það voru próf og komu tarnir í mótum hjá okkur. Þetta var rosalegt; ég var ekki vön þessu en svo vandist það.

Þegar ég fór að keppa á golfmótum þá fór ég á miðvikudögum og kom heim á sunnudagskvöldum þannig að maður missti alltaf úr skóla og þurfti alltaf að bæta það upp. Þannig að maður var alltaf að reyna að vinna fram í tímann eða bæta eitthvað upp.

Þetta var mikið álag. Ég fékk góðan stuðning en ég gat fengið aðstoð við að ná því upp sem ég missti úr og það var mjög gott. Það var „study hall“ í skólanum og átti ég tíma með „tutor“ þrisvar í viku bara til að hjálpa mér. Svo gat ég fengið glósur úr tímum hjá samnemendum.“

Varð fljótlega skotinn í strák úr hlaupaliðinu

Ólafía Þórunn kynntist fljótlega öðrum nemendum við skólann og sat golfliðið og hlaupaliðið almennt saman í mötuneytinu. Í byrjun annars árs hennar við skólann var stundum sagt við hana að þýskur strákur myndi bráðum byrja í skólanum og fara í hlaupaliðið. Svo byrjaði hann í skólanum og kynntust þau Ólafía Þórunn fljótlega. „Við pössuðum svona vel saman,“ segir hún en hún varð fljótlega skotin í honum. „Hann er svolítið sætur,“ segir hún og hlær.

Þjóðverjinn heitir Thomas Bojanowski og stundaði nám í samskiptafræðum og leið ekki langur tími þar til þau voru orðin par.

Hvað heillaði hana við Thomas?

„Hann er bara rosalega góður og „sneaky“ fyndinn; ætli það sé ekki aðallega það fyrsta sem ég sá. Svo þroskuðumst við eftir því sem við vorum lengur saman og ég kann að meta hann meira og meira með hverju árinu.“

Hvað er ástin? „Bara að vera til staðar og hjálpast að. Ástin breytist líka. Þegar maður er unglingur þá er þetta meira að vera hrifinn, skotinn, og núna erum við bara geggjað teymi. Ástin er einhvern veginn dýpri.“

Ólafía og Thomas kynntust í háskóla og eiga tvo syni saman í dag

Slysið var mikið áfall

Það var eitt kvöldið ári eftir að parið kynntist sem Thomas var að fara að grilla. „Ég reyndi að kveikja á grillinu en það kom ekki blossi þannig að það var ekki að hitna en það safnaðist saman gas. Svo kveikti Thomas á grillinu og þá blossaði upp risa eldur Ég hafði verið að fikta í þessu en kunni ekki nógu vel á það. Ef ég hefði ekki kveikt á grillinu þá hefði ekkert af þessu gerst.“

Thomas brenndist illa í andliti og á fæti. Hann náði sér sem betur fer vel. „Hann er með gott viðbragð þannig að hann stökk í burtu eins og hann gat.“ Enn sjást merki eftir brunann á húðinni á fætinum.

Það tók Ólafíu Þórunni langan tíma að jafna sig andlega. Þetta var mikið áfall og var hún í kjölfar slyssins greind með áfallastreituröskun.

„Það var eins og það væri ský yfir mér og ég var hrædd við allt. Þegar ég var að gera uppáhaldshlutina eins og að leika við frændsystkini mín þá vildi ég bara sitja. Ég var alveg: Vá! Þetta er brútalt! Þetta sýndi mér að það var eitthvað ekki í lagi.

Það var erfitt að borða. Ég var að reyna það en það var erfitt. Ég veit ekki af hverju.“

Hvaða áhrif hafði áfallið á námið? „Það var örugglega erfiðara af því að það var ekki jafngaman. Hlutirnir voru ekki jafnskemmtilegir. Ég var meira að fara í gegnum þetta. Ég var orðin svolítið dauf og ég þurfti að tala mig í gegnum þetta með fagaðila. Það var erfitt fyrst.“

Þögn.

„Það að tala um svona er það besta sem maður getur gert til að geta unnið úr þessu. Ég gat ekki talað um þetta án þess að gráta og þegar ég var komin á þann tímapunkt að geta talað um þetta án þess að gráta þá var ég búin að vinna mig svolítið í gegnum þetta.“

Og jú – það hjálpaði að tala um líðanina og leyfa tilfinningunum að koma út í stað þess að halda þeim inni. Og eftir um ár var henni farið að líða betur.

Hún segist hafa kennt sér um slysið. „Ég veit ekki hvort það muni einhvern tímann alveg fara en það er allavega farið að minnka af því að lengri tími er liðinn.“

Atvinnumaður í golfi

Ólafía Þórunn útskrifaðist með BA-próf í hagfræði með frumkvöðlafræði sem aukagrein vorið 2014. Thomas útskrifaðist sama ár með próf í samskiptafræðum og með sálfræði sem aukagrein.

„Ég fór til Þýskalands eftir útskrift en var alltaf að skoppa á milli Íslands og Þýskalands af því að þá var ég að spila í Evrópu og þá gátum við stundum keyrt á mót þegar við vorum í Þýskalandi og þess vegna var auðveldara að ferðast þaðan. Þannig að í staðinn fyrir að taka kannski tvö flug frá Íslandi þurfti ég að taka eitt frá Þýskalandi. Það hjálpaði til við að halda kostnaði í lágmarki þegar maður var að feta sín fyrstu spor í atvinnumennsku.“

Ólafía Þórunn vann Íslandsmeistaramót sumarið sem hún útskrifaðist og var í kjölfarið valin á heimsmeistramót í Japan og eftir það gerðist hún atvinnumaður. „Heimsmeistaramótið var í ágúst og svo spilaði ég í september á fyrsta mótinu mínu sem atvinnumaður.“

Hún segir að reglurnar varðandi atvinnumennsku hafi breyst síðan. „Þegar ég var að gerast atvinnumaður voru reglurnar þannig að maður mátti ekki taka nema við „x-miklu“ í verðlaunafé og maður mátti ekki taka við styrkjum. Það var fullt af reglum. En núna er búið að gera þetta miklu opnara.

Hringinn í kringum jörðina á nokkrum vikum

Í byrjun var ég á lítilli mótaröð í Evrópu. Þá var ég svolítið að læra hvernig ég ætti að skipuleggja mig og hvernig ég ætti að æfa en þarna var ég farin að bera ábyrgð á öllu. Það var enginn þjálfari að segja mér að mæta. Svo komst ég á Evrópumótaröðina og þá varð dagskráin mín aðeins þéttari og ég fór að keppa út um allt og lærði mikið. Samkeppnin var mikil og ég náði einhverjum árangri. Svo fór ég í úrtökumót í Ameríku og þá byrjaði heljarinnar prógram. Það sem kallaðist áður „þétt prógram“ var miklu meira og ég held ég hafi farið hringinn í kringum jörðina á fjórum til sex vikum. Það var mikið af mótum og klikkuð samkeppni. Þetta var ótrúlegt ævintýri en ég fór til dæmis til Dubai, Ástralíu, Nýja-Sjálands, Japan, Víetnam, Kína og Taipei. Ég var úti um allt. Þetta var rosa upplifun og ég kynntist alls konar fólki. Ég kynntist til dæmis frægustu golfurum heims. Svo var ótrúlega fallegt að fá að upplifa að Íslendingar styddu mig.“

Ólafía Þórunn segir að styrkir fyrirtækjanna sem styrkju hana á þessum árum hafi farið í kaup meðal annars á flugmiðum, hótelgistingu og farið í að borga þátttökugjöld á mót. Þá nefnir hún bílaleigubíla sem háan kostnaðarlið.

Hjónin héldu brúðkaupsveislu á Íslandi

Fjórða sæti á LPGA stendur upp úr

Hún segist hafa æft sig æ meira með hverju árinu og hún fór í æfingaferðir og æfði hún kannski í fimm tíma á dag í þeim ferðum auk þess að vera í líkamsrækt og lesa bækur sem áttu að hjálpa henni að vaxa. „Mér fannst vera best að vakna klukkan sex á morgnana, fara snemma út á völl og klára æfinguna fyrri hluta dags á meðan ég var fersk og hvíla mig svo fyrir næstu törn daginn eftir. Þegar ég var að keppa var ég úti á velli frá kannski sex á morgnana til fjögur á daginn og hvíldi mig eftir það.“

Ólafía Þórunn náði þeim árangri að komast inn á sterkustu atvinnumótaröð veraldar, LPGA. Og besti árangur Ólafíu Þórunnar í atvinnumennskunni er að hennar sögn fjórða sæti á LPGA-mótaröðinni. „Það sem var extra töff við það var að það voru bara stelpur í fyrsta, öðru og þriðja sæti sem voru á topp-10 í heiminum. Þannig að mér fannst það vera það stærsta sem ég hef gert. Svo hef ég verið valin í úrvalslið Evrópu og keppt með því í Japan.

Síðan unnum við Evrópumót landsliða í golfi – ég, Valdís Þóra Jónsdóttir, Birgir Leifur Hafþórsson og Axel Bóasson. Það var risastórt að verða Evrópumeistarar.“

Svo hefur Ólafía Þórunn ein íslenskra kylfinga leikið á öllum fimm risamótunum í keppnisgolfi „Ég hef fengið keppnisrétt á þeim öllum. Ég er mjög stolt af því.“

Þrisvar Íslandsmeistari í höggleik, þrisvar Íslandsmeistari í holukeppni, Evrópumeistari í blandaðri liðakeppni…

Þeir eru margir titlarnir, bikararnir og medalíurnar.

Þá var Ólafía Þórunn kosin íþróttamaður ársins á Íslandi árið 2017, fyrst kylfinga. „Ég átti ekki von á því. Þetta var þegar íslenska karlalandsliðið var að keppa í fótbolta og þeir voru að standa sig eins og hetjur og ég hélt að það væri einhver þar að fara að vinna en svo var nafnið mitt lesið upp og þá var ég mjög hissa,“ segir hún og kímir. Hvaða máli skiptir þetta fyrir hana? „Þetta er bara flott fyrir golfið og sýnir að Íslendingur geti verið á heimsmælikvarða í golfi. Við eigum fullt af stjörnum í hinum boltaíþróttunum sem eru á heimsmælikvarða þannig að það var geggjað að koma golfi upp á þennan stall.“

Ólafía Þórunn bjóst ekki við því að verða fyrir valinu sem íþróttamaður Íslands

Stór aðgerð sem tók á

Ólafía Þórunn er hlédræg og elskuleg og brosið nær til augnanna svo skín í hvítar og beinar tennurnar. Þótt tennurnar hafi alltaf verið beinar þá var bitið skakkt þar til það var lagað í desember 2016 þegar hún var 24 ára. Og það tók á.

„Ég var með skakkt undirbit þannig að með tímanum myndu tennurnar eyðast. Þetta var á strembnum tíma eða þegar ég var nýbúin að komast á LPGA. Ég hafði verið með teina í allavega ár áður en ég fór í kjálkaaðgerð þar sem bitið var lagað og hélt áfram að vera með teina eftir það.

Kjálkinn þurfti að gróa rétt saman og ég mátti ekki opna munninn, sem var lokaður með stífri teygju í teinunum, og ég var á fljótandi fæði í fjórar vikur eftir aðgerðina; mig langaði ekki í súpu í heilt ár eftir þetta en í þessar fjórar vikur fékk ég bara súpu, boozt og ávaxtasafa sem ég þurfti að koma upp í lokaðan munninn.“ Þess má geta að Ólafía Þórunn hafði fengið ráð frá næringarráðgjafa um hvað hún ætti að láta ofan í sig.

Það var mjög óþægilegt að hnerra og hósta.

Hún átti að liggja fyrstu tvær vikurnar eftir aðgerðina sem hún segir að hafi verið erfitt.

„Ég missti alla vöðva og grenntist ótrúlega mikið. Ég þurfti að byggja mig alveg upp á nýtt. Þetta var stór aðgerð.“

Hún fór svo að fá meiri mátt eftir að hún gat farið að borða annað en fljótandi fæði. Hún fór að æfa sig í golfi fyrst í hálftíma á dag, svo klukkutíma og smátt og smátt jókst þrekið.

„Ég fór í aðgerðina í desember og fór á fyrsta mótið mitt í lok janúar. Ég var eins og tannstöngull og mig svimaði þegar ég hallaði mér fram þannig að það var erfitt fyrir mig að æfa golf. Ég náði samt að vinna mig upp fyrir fyrsta mótið.“

Kulnun vegna álags

Álagið var mikið á þessum árum og ungi atvinnumaðurinn vildi standa sig vel.

„Þetta var spennandi en ég hefði átt að taka pásu. Maður þurfti að skipuleggja sig vel og kannski bara gerði ég það ekki nógu vel og setti pressu á sjálfa mig. Það er niðurskurður í golfi; til dæmis hefja 130 manns leik en aðeins 75 komast áfram á lokadagana tvo. Ég missti held ég sex sinnum eitt árið niðurskurðinn með einu höggi og þá er maður eyðilagður. Maður er búinn að vinna alla þessa vinnu og undirbúa sig, maður fær ekki stig á mótaröðinni og fær ekki neitt greitt nema maður nái niðurskurðinum. Kulnun verður þegar maður fær ekki umbun fyrir það sem maður er að gera,“ segir Ólafía Þórunn en hún upplifði kulnun eftir að hafa keppt á LPGA í tvö ár.

„Það var mjög erfitt. Ég var alltaf að reyna. Ég talaði við hugarþjálfara og reyndi að fá hjálp frá alls konar fólki og reyndi að fá ráðgjöf frá fólki sem hafði lent í svipuðu. Ég held að þetta hafi haft áhrif á hvert ferillinn minn fór; golf er þannig íþrótt að ég hefði getað verið atvinnumaður mun lengur. Það var bara svolítið brennt kertið á báðum endum og ég fann á einhverjum tímapunkti þegar ég var búin að eignast Maron, eldri son minn, að það væri kominn tími fyrir mig að snúa mér að einhverju öðru af því að það var ekki alveg eins að vera í golfi og áður.“

Fann ekki fyrir gleði

Átta ár sem atvinnukylfingur voru að baki.

Og hún lýsir þeirri líðan. „Í rauninni var ég alltaf þreytt og ég var ekki jafnskýr í kollinum og áður. Þegar ég tók til dæmis ákvarðanir úti á golfvelli þá hugsaði ég almennt um lengdina og vindinn en það var orðið mjög erfitt fyrir mig að gera það. Það kom ekki jafnmikið flæði. Það var allt erfiðara. Svo var ég að gera alls konar mistök út af þessu úti á golfvelli sem ég gerði ekki venjulega. Síðan var erfitt að finna tilfinningar eins og gleði.“

Hún talar um tómleika, streitu og kvíða. „Það er svo mikil pressa í þessum heimi með niðurskurð og að halda keppnisréttindum sínum þannig að það er mikill kvíði. Minnisleysi var aðaleinkennið mitt og ég man að ég hugsaði oft með mér hvenær allt yrði venjulegt aftur. Það var eins og það væri ský yfir mér. Nú finn ég þetta ekki lengur og það er gott.“

Og eftir að hafa upplifað slíka vanlíðan talaði hún um þetta við íþróttasálfræðing. „Ég spurði af hverju mér liði svona og af hverju ég næði ekki að gera hlutina og hann spurði hvort ég hafi hugsaði út í hvort ég væri kannski með kulnun. Ég fann fyrir létti þegar hann sagði þetta. Nú gat ég sýnt sjálfri mér mildi í staðinn fyrir hörku og nú skildi ég meira hvað ég var að ganga í gegnum.“

Og jú, Ólafía Þórunn fór að sýna sjálfri sér mildi, fór að skilja hvað væri í gangi og þá gat hún tekið réttu skrefin og henni fór að líða betur. „Covid var örugglega það besta sem kom fyrir mig en þá voru engin mót og ég þurfti að hvíla mig.“

Kaus fjölskyldulífið frekar en harkið

Hún segir að kulnunin hafi vissulega haft einhver áhrif á að hún hætti í atvinnumennsku árið 2022 en þó ekki að öllu leyti. „Ég myndi frekar segja að það hafi verið komið að öðru tímabili hjá mér. Nú langaði mig að eiga fjölskyldu; ekki að vera í golfharkinu með fjölskyldu en það væri ennþá meira álag. Það er mikil vinna að eignast barn og að bæta ofan á það atvinnumennsku; ég var ekki tilbúin að gera það. Svo er svo kostnaðarsamt að vera í golfi og vera atvinnumaður. Ég var ekki með jafnmikið af styrktaraðilum og áður og þá velti maður því fyrir sér hvort ég gæti virkilega haldið þessu áfram eða hvort ég færi að keyra mig í mínus sem er ekkert sniðugt. Þetta var ákvörðun úr mörgum áttum. Það var mjög erfið ákvörðun að hætta í atvinnumennsku en samt léttir þegar ég var búin að taka ákvörðunin. Ég var alltaf að reyna að gera mitt besta en það var aldrei nóg og þá varð maður á einhverjum tímapunkti að segja: „Jæja, þetta er komið gott.“ Ég vissi að það væri kominn tími á eitthvað annað sem var líka skemmtilegt og spennandi eins og að eignast fjölskyldu eins og ég sagði sem er eitthvað sem endist út ævina og ég myndi aldrei vilja skipta á því og golfi.“

Ólafía Þórunn kann vel að meta fjölskyldulífið

Ólafía Þórunn er spurð hvort hún hafi kannski verið viðkvæmari fyrir þar sem hún hafði fengið áfallastreituröskun nokkrum árum fyrr og verið þá kannski móttækilegri fyrir að fá kulnun. „Það getur verið.“

Þögn.

„Það munu allir ganga í gegnum eitthvað. Það þarf að sýna öllum skilning. Maður veit aldrei hvað hinir eru að ganga í gegnum. Maður þarf ekkert að skammast sín fyrir það sem maður hefur lent í; maður ræður því ekkert en það er svolítið erfitt. Ég er ekki hrifin af því að maður sé eins og stimplaður eitthvað. Ég talaði einu sinni í viðtali um að ég hafi fengið kulnun og þá var ég allt í einu orðin „burnout-stelpan“. Mér fannst það alveg hrikalegt. Ég held að það hindri fólk í að tala um þetta en ég vil alltaf vera einlæg og ég er ekkert að fela neitt en fjölmiðlar þurfa að tala um erfiðleika á ábyrgan hátt, ekki bara búa til fyrirsagnir. Maður veit ekki hvort maður nái 100% til baka en mér finnst ég hafa náð nokkuð langt en það er bara með hjálp og með að vinna sjálf í alls konar.“

Börnin gera dagana krefjandi en stækka hjartað

Eldri sonur Ólafíu Þórunnar, Maron, er þriggja ára og sá yngri, Alexander, er níu mánaða.

Og fyrrverandi atvinnukylfingurinn talar um móðurhlutverkið.

„Ég fékk þvílíka virðingu fyrir mæðrum. Vá! Að ganga í gegnum þetta! Í fyrsta lagi ólétta, fæðing og svefnleysi. Og ég bara: Vá hvað mæður eru ótrúlegar! Svo er það þessi ást sem maður ber til nýrrar manneskju. Börn geta gert daginn krefjandi en það sem þessi litla mannvera gerir og stækkar hjarta manns um milljón og bætir upp fyrir allt hitt svo sem að vakna átta sinnum á nóttunni. Maron var alltaf að vakna á nóttunni. Ég var alltaf að gúggla hvenær börn hætta að vakna á nóttunni. Svo fór ég í svefnþjálfun og það hjálpaði mjög mikið. Maður lærði um svefnvenjur barna og hvað maður getur gert og ég er búin að hafa það í huga með yngri soninn og það er allt annað líf. Eitt sem ég vissi ekki með eldra barnið er að á mismunandi aldri þurfa börn að hafa vökuglugga og svefnglugga. Vökugluggi fyrir lítið barn er kannski 20 mínútur eða korter en svo þegar þau eldast fer það upp í hálftíma. Og núna er strákurinn minn á tveggja til þriggja tíma vökuglugga og þá þarf hann að fara að sofa eftir það. Það útskýrði margt fyrir mér.“

Og Maron stóð sig eins og hetja þegar hann varð stóri bróðir og voru foreldrar hans búnir að lesa sér til um hvernig það er að eignast nýtt systkini. „Við töluðum alltaf við Maron um að þetta yrði barn okkar fjölskyldunnar; ekki „barn mömmu og pabba“. Og Maron segir „litla barnið okkar“. Þetta hefur gengið vel og við höfum ekki fundið fyrir mikilli afbrýðisemi gagnvart bróðurnum; kannski meira að hann var að deila athyglinni og þá fengum við að finna að við vorum ekki að sýna Maroni nógu mikla athygli af því að hann fékk ekki lengur 100% athygli. Sumir dagar eru þess vegna aðeins erfiðari hjá honum, greyinu litla, en eins og ég segi þá hefur hann staðið sig ótrúlega vel. Hann er mjög góður við bróður sinn og hugsar mjög vel um hann.“

Ólafía Þórunn á brúðkaupsdaginn

Móðurhlutverkið hefur breytt lífinu.

„Það er ótrúlega fallegt líf sem við höfum skapað okkur. Það er gaman að sjá strákana þroskast og maður er stoltur af þeim. Maron fór til læknis og hann stóð sig eins og hetja en hann svaraði spurningum læknisins og ég var með tárin í augunum; ég var svo stolt af honum og hann var svo krúttlegur. Svo fór hann með bangsann sinn til bangsalæknis og hugsaði um hann eins og hann væri pabbi bangsans. Ég fæ gæsahúð af að tala um þetta. Þetta er svo krúttlegt. Það er alls konar svona. Ef ég meiði mig hefur Maron komið hlaupandi til mín og spurt hvort það sé allt í lagi með mig og hefur spurt hvort ég vildi að hann hjálpaði mér. Það er alls konar sem maður er að reyna að kenna honum og maður sér það koma í gegn og hann er þessi fallega og góða manneskja. Maður er mjög stoltur.“

Hjónin eiga hús í Koblenz þar sem fegurðin er mikil og kastalar í nágrenninu minna á ævintýralega tíma. Amma Thomas átti húsið og þar bjuggu hjónin á sínum tíma á efri hæðinni en hún á þeirri neðri en eftir að hún lést keypti Thomas húsið af foreldrum sínum. Hjónin búa á neðri hæðinni sem þau hafa gert upp en gestir frá Íslandi búa gjarnan í íbúðinni á þeirri efri.

Hús fjölskyldunnar í Koblenz

„Þegar það er grámyglumánuðir á Íslandi þá er gott að fara til Þýskalands. Stundum erum við í Þýskalandi um jólin; við skiptumst alltaf á önnur hver jól. Svo getum við verið frjáls á meðan strákarnir eru litlir en þetta mun breytast þegar þeir fara í skóla.“ Maron er í leikskóla þegar hann er á Íslandi og líka í Þýskalandi og Ólafía Þórunn segir að þau muni væntanlega búa á Íslandi í framtíðinni eftir að hann byrjar í grunnskóla.

Og á heimilunum á Íslandi og í Þýskalandi vinna hjónin við fyrirtækjarekstur í sitthvorri skrifstofunni en Thomas rekur fyrirtækið Scholarbook. Hann er með BA-próf í samskiptafræðum með sálfræði sem aukagrein, BA-próf í íþróttastjórnun auk þess sem hann lauk MBA-prófi á Íslandi. „Hann hjálpar íþróttafólki að komast á skólastyrki í Ameríku og margt annað sem tengist íþróttum.“

„Já“

Ólafía Þórunn og Thomas giftu sig hjá sýslumanni í Þýskalandi þegar Covid-heimsfaraldurinn stóð yfir og þegar hún gekk með Maron. „Við vorum búin að vera trúlofuð í nokkur ár og okkur fannst við verða að gifta okkur áður en við eignuðumst barn af því að við erum frá tveimur mismunandi löndum þannig að við fórum til sýslumanns í Þýskalandi og svo ætluðum við alltaf að halda veislu.

Við fórum í brúðkaup til vinkonu minnar í ágúst í fyrra og þá sagði Thomas að við yrðum að láta verða af þessu, þetta var svo fallegt brúðkaup. Brúðkaupið hennar var á laugardegi og á mánudeginum pantaði ég Fríkirkjuna og Iðnó.“ Og í ágúst síðastliðnum giftu þau sig svo við kirkjulega athöfn. „Okkur langaði að eiga fallegan dag með fjölskyldu og vinum. Við vorum með fullt af fólki frá Íslandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum og það var smá súrrealískt að allir myndu hittast á Íslandi.

Þar sem fólk kom úr öllum áttum vildum við vera viss um að við næðum að eyða tíma með öllum af því að maður nær því ekkert á brúðkaupsdaginn sjálfan og daginn fyrir brúðkaupið hittist fólk heima hjá okkur, við fórum í göngutúr í Heiðmörk, borðuðum saman og fórum svo í Sky Lagoon.“

Brúðhjónin og gestir þeirra borðuðu síðan dýrindis rétti í brúðkaupsveislunni og síðan var haldið ball. Og um nóttina svaf fjögurra manna fjölskyldan öll í hjónarúminu á heimili sínu.

Tvö börn og tvö fyrirtæki

Ólafía Þórunn blómstrar í móðurhlutverkinu og sem fyrirtækjaeigandi.

„Mér finnst vera ótrúlega gaman að vera að byggja eitthvað upp alveg frá hugmynd og upp í framkvæmd. Það tekur langan tíma og mikla vinnu. Við Auður og Jóhanna, sem reka fyrirtækið með mér, eigum allar tvö börn og á þessu ári þegar ég var á Íslandi hittumst við á kvöldin þegar börnin voru sofnuð og unnum í þessu. Þannig að við erum búnar að leggja mikinn metnað, tíma og kraft í þetta. Það er gaman að vera í teymi. Í Kristice er ég ein og það er ótrúlega skemmtilegt að vera loksins núna með einhverjum í svona. Það er líka hentugt að við erum allar nágrannar þannig að ég hljóp alltaf yfir til þeirra á kvöldin.“

Hvað með golfið? Spilar Ólafía Þórunn ekki stundum golf? „Þessa dagana hef ég ekki mikinn tíma til þess. Ég tók þó nýlega þátt í góðgerðarmóti, Einvíginu á Nesinu. Nú er ég meira að reyna að láta gott af mér leiða, er í afreksnefnd Golfsambands Íslands og kenni golf. En ég æfi ekki sjálf eða spila golf mér til gamans. Það er eiginlega ekki tími til þess. Pabbi átti afmæli í sumar og langaði að spila golf og ég spilaði með honum.“

Maron hefur að sögn móður hans mikinn áhuga á golfi. Svo kemur í ljós hvort Alexander muni hafa sama áhuga. „Maron á golfkylfur. Ég mun ekki þvinga hann en ég mun hjálpa þeim ef þá langar að læra golf.“

Og fyrirtækjaeigandinn situr heima í húsinu í Þýskalandi eða á Íslandi og lætur sköpunarkraftinn og frumkvöðlamenntunina koma sér áfram. „Stundum fer ég ekki nóg út úr húsi; ég þarf stundum að vera duglegri við það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Guðrún Svava um frægðina: „Nennirðu að byrja á OnlyFans?“

Guðrún Svava um frægðina: „Nennirðu að byrja á OnlyFans?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Andri Ásgrímsson frumflytur „adrie íem“ á útgáfutónleikum

Andri Ásgrímsson frumflytur „adrie íem“ á útgáfutónleikum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hatari rýfur tveggja ára þögn með óþægilegri nærveru gervigreindar

Hatari rýfur tveggja ára þögn með óþægilegri nærveru gervigreindar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórstjarna í hringiðu framhjáhaldsskandals – Grunsamleg hegðun talin staðfesta háværan orðróm

Stórstjarna í hringiðu framhjáhaldsskandals – Grunsamleg hegðun talin staðfesta háværan orðróm
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hálfbróðir Eminem bregst við fráfalli móður þeirra með harðorðri færslu

Hálfbróðir Eminem bregst við fráfalli móður þeirra með harðorðri færslu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þekktur leikari er heimilislaus og grátbiður um hjálp

Þekktur leikari er heimilislaus og grátbiður um hjálp
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kristín Péturs og Þorvar Bjarmi eiga von á barni

Kristín Péturs og Þorvar Bjarmi eiga von á barni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hart tekist á um heimanám á Íslandi – „Manni finnst að það sé verið að fjöldaframleiða agalausar væluskjóður í mörgum skólum í dag“

Hart tekist á um heimanám á Íslandi – „Manni finnst að það sé verið að fjöldaframleiða agalausar væluskjóður í mörgum skólum í dag“