fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Fókus

„Ég vissi alltaf að þetta væri ekki eðlilegt, það væri eitthvað að“

Fókus
Miðvikudaginn 10. júlí 2024 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eva Gunnarsdóttir sálfræðingur og núvitundarkennari er viðmælandi Mumma í nýjasta þætti Kalda Pottsins. Eva bjó lengi í Bretlandi en flutti nýverið aftur heim til Íslands. Hún stefnir á að gefa út bók síðar á þessu ári þar sem hún skrifar um reynslu sína af krabbameini og margvíslegar leiðir til sjálfsstyrkingar. Í þættinum ræða þau Mummi meðal annars hvernig það var að vera barn hippaforeldra og alast upp í kommúnu, árin í London og hvernig veikindin hjálpuðu henni að virkja rithöfundinn hið innra.

Stóð ekki með sjálfri sér

Eva flutti nýlega til Íslands og gekk þá í 12 spora kerfi fyrir meðvirkni sem hefur háð henni lengi. Þessi vinna er henni mikilvæg, sérstaklega þegar hún áttaði sig á því hvernig meðvirknin varð til þess að hún greindist seinna en nauðsynlegt var með krabbamein.

„Þetta var bara rosalega mikilvægt fyrir mig. Sérstaklega þegar ég áttaði mig á tengingunni við veikindin. Þau koma upp 2016 þá bara veikist ég mjög skyndilega af krabbameini.“

Veikindin voru í raun ekki skyndileg heldur hafði hún fundið einkenni af meininu í um ár og leitað með þau til heilbrigðiskerfisins. Hún þótti þó ung og ekki tilheyra neinum áhættuhópum svo einkennin voru ekki tekin alvarlega.

„Ég var búin að vera með virk einkenni í heilt ár. Ég þekki einkenni og hef reynslu af krabbameini. Ég var mjög ung og passaði ekki í neina áhættuhópa. En einkennin voru mjög skýr. Ef ég hefði staðið meira með sjálfri mér, þá hefði ég auðvitað barist meira fyrir því að fá einhverja niðurstöðu í þetta mál. Mitt mál var þannig að ég var svo ólíklegt tilfelli að það hefði þurft að berjast fyrir því.“

Það hvarflaði þó ekki að Evu að hún væri með krabbamein, en hún vissi þó að eitthvað væri að henni.

„Það hvarflaði aldrei að mér að ég væri með krabbamein.[…] Svo bara enda ég í neyðartilfelli á spítala í London. Fæ ristilstíflu, því meinið bara stækkaði og stækkaði þar til það stíflaði meltingarveginn og þá náttúrulega verð ég rosalega lasin.“

Eva sér þó björtu hliðarnar við veikindin líka. Ef meinið hefði ekki stíflað meltingarveginn, þá væru líkur á að það hefði greinst alltof seint.

„Eins og ég var óheppin með margt var ég líka mjög heppin. Meinið óx inn í meltingarveginn þannig það stíflaði og stíflan, þó hún hafi náttúrulega verið hræðileg, þá var hún náttúrulega bara skýrt merki um að eitthvað þurfti að gera strax.“

Sást aldrei utan á henni

Að greinast með krabbamein var Evu mikið áfall. Sérstaklega þegar hún hafði í heilt ár vitað að eitthvað væri að, en ekki hvað.

„Algjört sjokk og þarna aftur, þetta með innsæi manns. Ég vissi alltaf að þetta væri ekki eðlilegt, það væri eitthvað að. En þarna var ég alltaf að hlusta á aðra og treysta öðrum miklu betur en sjálfri mér. Hlusta á dómgreind annarra, fagfólksins.. ég hlustaði ekki á mig þó ég hafi vitað að þetta væri ekki eðlilegt. Það var ekkert eðlilegt við þetta.“

Eva rekur það til meðvirkninnar hvað hún var hikandi við að bregðast. Sem sýni hvað meðvirkni getur verið hættuleg. Hún segir að krabbameinsmeðferðin hafi haft sína kosti og galla.

„Það er reyndar rosalega kaldhæðnislegt með mig að þetta sást aldrei utan á mér. Þarna var ég komin með stoma, hann er bara innanliggjandi, ég var flink með föt svo ég gat klætt þetta af mér. Ég fer í lyfjameðferð en hún var þannig að ég missti ekki hárið. Margt af þessu er blessun, að líta ekki út fyrir að vera lasin, en það getur líka blekkt mikið og fólk áttar sig kannski ekki á því hvað maður er að ganga í gegnum erfiða hluti. Þannig þetta er bæði bölvun og blessun.“

Boxaði frá sér reiðina

Eva notaði þau verkfæri sem hún hefur tileinkað sér í námi og starfi í sálfræði. Hún uppgötvaði að hún gæti ekki treyst alfarið á heilbrigðiskerfið enda ítrekað lent ofan í glufum þar. Hún ákvað að sækja sér endurhæfingu þar sem hún væri að endurhæfa bæði líkama og sál.

Hún fór i box til að fá útrás fyrir reiði eftir að hafa lesið hvernig bæld reiði getur haft áhrif á líkamlega heilsu.

„Þannig endaði ég stressuð fyrir framan einhvern vöðvastæltan boxara í hverfi mínu sem hélt uppi frauðplasti og lét mig kýla í það. Finnst þér ég ekki svolítið dugleg? Ég fann nefnilega strax þessa orku. Þetta var valdeflandi. Svo hef ég verið með einkaþjálfara og í pilates en það er einhver sérstök orka sem kemur með boxinu sem ég fann strax, tengdi strax við þetta.“

Eitthvað frumstætt fylgdi boxinu og fékk Eva góða útrás. Hún segir að reiði geti verið skaðleg en reiði sé aldrei óþörf.

„Reiði hefur fengið á sig slæmt orðspor, sérstaklega í andlega heiminum en málið er að það er ástæða fyrir að við höfum allar tilfinningar. Náttúran væri ekkert að búa til tilfinningar eins og reiði ef hún væri gagnslaus eða skaðleg.  Þá er ég að tala um heilbrigða reiði en ekki þar sem þú ert að beita fólk ofbeldi og slíkt.“

Eva ákvað að ganga lengra eftir að hafa lagst í rannsóknir. Hún fór í söngtíma til að þjálfa flökkutaugina sem hefur áhrif á ósjálfráða starfsemi líkamans eins og blóðþrýsting, öndunarhraða, svitamyndum og meltingu. Hún fór svo að læra á píanó til að byggja upp heilbrigðar taugabrautir í heila.

„Núvitundin kemur þarna líka inn og sjálfsþekkingin því þarna er ég að leita að athöfnum í endurhæfingu sem ég hef náttúrulega gaman að því þá er líklegra að maður endist í því.“

Eva hefur nú lokið krabbameinsmeðferð og hefur notað reynslu sína og þekkingu frá þessari lífsreynslu til að skrifa bók sem byggir á bæði núvitund og sálfræðilegum bakgrunni hennar.

Hlusta má á viðtalið við Evu og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mía sér um afþreyingu fyrir börnin

Mía sér um afþreyingu fyrir börnin
Fókus
Fyrir 2 dögum

Goðsögnin Bob Newhart er látinn

Goðsögnin Bob Newhart er látinn
Fókus
Fyrir 3 dögum

Maðurinn sem borðaði heila flugvél – Svona fór hann að því

Maðurinn sem borðaði heila flugvél – Svona fór hann að því
Fókus
Fyrir 3 dögum

Maðurinn sem var fyrirmyndin að Stjána bláa

Maðurinn sem var fyrirmyndin að Stjána bláa
Fókus
Fyrir 6 dögum

„Hawk Tuah“ stelpan segir að karlmenn séu bara á höttunum eftir einu þegar þeir senda henni skilaboð

„Hawk Tuah“ stelpan segir að karlmenn séu bara á höttunum eftir einu þegar þeir senda henni skilaboð
Fókus
Fyrir 6 dögum

Logi var tekinn af lærisveinunum – „Mér líður eins og kennara sem er stoltur af nemendum sínum“

Logi var tekinn af lærisveinunum – „Mér líður eins og kennara sem er stoltur af nemendum sínum“