Hver er það sem stjórnar heiminum? Eru það þjóðarleiðtogarnir? Ríkisstjórnirnar? Eða er eitthvað að gerast á bak við tjöldin sem enginn á eða má vita um?
Til eru margar samsæriskenningar sem lúta að meintum skuggastjórnendum heimsins, hvort sem þeir eru að mennskum eða framandi uppruna. Félagarnir í hlaðvarpinu Álhatturinn beina í þessari viku sjónum að einni vinsælustu samsæriskenningunni um mennina á bak við tjöldin.
Hvað vilja þessir huldumenn?
Til eru hin ýmsu leynifélög og reglur um allan heim með misjafnlega göfug eða yfirlýst markmið. Næstum öll höfum við einhverntímann heyrt talað um félög eins og Skulls & Bones, templarana, frímúrara ofl. En þekktast þeirra allra, af undanskildum Frímúrurum kannski, er þó eflaust fyrirbærið Illuminati. Hulduhópurinn og meinta valdaklíkan sem samsærissinnum og Álhöttum um víða veröld er svo tíðrætt um.
En þó flest okkar hafi kannski einhverntímann heyrt um Illuminati einhversstaðar á veraldarvefnum eða í sjónvarpsþáttum & kvikmyndum, þá gera sér kannski færri grein fyrir því nákvæmlega hvað Illuminati er. Hvaða fólk er þetta sem stjórnar heiminum bakvið tjöldin líkt og brúðuleikhússtjórar og hvert er endanlegt markmið þeirra? Hvernig er hægt að ganga til liðs við Illuminati og hvernig er ákvarðanatöku og valdastrúktur háttað innan svona leynireglna? Hversu stórir fundir eru þetta og hversu reglulega eru þeir haldnir.
Í þessum þætti af Álhattinum fjalla Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór um þá vinsælu og víðförlu samsæriskenningu að heiminum sé leynilega og skipulega stjórnað bakvið tjöldin, af valdagráðugu fólki sem tilheyrir leynireglunni Illuminati.
Strákarnir ræða m.a um furðuleg og afar óræðin fyrirbæri einsog World Economic Forum, Trilateral Commission, Club of Rome, Bilderberg Group, Bohemian Grove ofl hópa sem virðast allir hafa sameiginleg eða mjög sambærileg markmið.
Af hverju er allt þetta stjórnmalafólk í sífellu að funda með einhverjum vafasömum milljarðamæringum og jakkafatakakkalökkum í reykfylltum bakherbergjum bak við luktar dyr? Snýst þetta í alvöru eingöngu um tengslamyndun og að auðvelda samskipti eða viðskipti milli landa eða býr eitthvað mun dekkra og alvarlegra að baki? Af hverju þarf elítan eiginlega öll þessi mismunandi samtök og félög ef þau ganga í raun öll út á það sama? Hversu mikið og oft er hægt að ræða um alþjóðavæðingu, sjálfbærni og framtíðarskipan efnahagsmála án þess að tala einfaldlega í hringi?
Eru aukin alþjóðleg viðskipti og sjálfbærni kannski af hinu góða og hver veit nema þessir fundir snúist eingöngu um það að gera heiminn að betri stað fyrir alla með aukinni sjálfbærni, hagvexti og alþjóðahyggju? Eða er þetta alltsaman blekking og gildra til þess að hreppa almenning í hlekki? Er raunverulega verið að blekkja okkur öll eða er þetta bara einhver endemis vitleysa og þvæla? Þetta og margt fleira í nýjasta þættinum af Álhattinum.
Illuminati nafnið er dregið af latneska orðinu illuminatus, eða þeir upplýstu. Fyrst var nafnið notað yfir leynisamfélag sem var stofnað í Bæjarlandi, sem nú er Þýskaland, árið 1776. Samtökin börðust gegn hjátrú, uppfræðsluandstöðu, misbeitingu opinbers valds og gegn áhrifum trúarsamtaka yfir almenningi. Allt göfug markmið en engu að síður hefur nafn samtakanna síðar fengið dulrænni merkingu og verið notað yfir ýmsa hópa, meinta og raunveruleika, sem samsæriskenningasinnar telja ætla sér að ná heimsyfirráðum. Telja þeir sem trúa þessari samsæriskenningu að Illuminati hafi komið við sögu í mörgum sögulegum atburðum, svo sem í frönsku byltingunni, baráttunni um Waterloo og í morðinu á John F. Kennedy Bandaríkjaforseta. Samtökin eru einnig talin hafa haslað sér völl í Hollywood og í raun á flestum sviðum þar sem mikið af peningum og valdi er í húfi.
Álhatta-menn lofa góðri skemmtun en þeir segja: „Við mælum því með að koma sér vel fyrir, setja upp álhattinn ykkar og skella þættinum í gang! Þeir sem vilja taka þátt í umræðunum kringum kenningarnar sem fjallað er um geta svo beðið um inngöngu í umræðuhópinn á Facebook! Góða skemmtun!“
Að vanda lögðu félagarnir könnun fyrir hlustendur í aðdraganda þáttarins til að meta afstöðu þeirra til kenningarinnar: „Leyniregla Illuminati er raunveruleg og stjórnarheiminum á bak við tjöldin“. Skoðanir reyndust töluvert skiptar, en 26 prósent eru algjörlega sammála tilgátunni á meðan 21 prósent eru algjörlega ósammála. 21 prósent gáfu tilgátunni 8 stig og eru því töluvert sammála, en þó ekki alveg. Þetta sýnir að aðdáendur hlaðvarpsins hallast fremur að því að tilgátan sé sönn, heldur en að hún sé það ekki. Aftur verður spurningin lögð fyrir hópinn eftir þáttinn til að sjá hvort skoðanir hópsins hafi breyst.
Þátturinn fer í loftið í dag og má nálgast hann á Spotify.