fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Harry opnar sig upp á gátt í sögulegu máli – Sögusagnir um faðerni hans, kærastan sem fékk nóg og „móðurskip nettrölla“

Fókus
Þriðjudaginn 6. júní 2023 15:30

Mynd: Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ef þið hélduð lesendur kærir að þið fengjuð eina heila viku án nokkurrar fréttar af þekktustu hertogahjónum heims, þá skjátlaðist ykkur herfilega. Að þessu sinni er uppáhalds prinsinn okkar, Harry Bretaprins, staddur í Lundúnum til að bera vitni, fyrstur konungsfjölskyldunnar til að gera slíkt í rúma öld, í máli sem hefur verið höfðað gegn útgefanda götublaðsins DailyMail, en fjölmiðillinn er sakaður um að hafa stundað netglæpi og persónunjósnir til að afla sér frétta.

Að sögn erlendra miðla hefur vitnisburður prinsins lítið gert til að bæta samskipti hans við fjölskyldu sína. Heimildarmaður PageSix sagðist ekki geta ímyndað sér að nokkur í konungsfjölskyldunni væri lukkulegur með þá staðreynd að prinsinn sé að gefa skýrslu í málinu og sé fjölskyldan við öllu reiðubúin, en Harry á það til að ræða málefni fjölskyldunnar með beinskeyttum hætti – nokkuð sem konungsfólkið er alls ekki vant.

Annar heimildarmaður hélt þó að Harry væri í raun að berjast bæði fyrir sjálfan sig sem og fjölskyldu sína en málið varði hagsmuni þeirra allra sem og orðspor krúnunnar.

Segja ásakanirnar byggða á sandi

DailyMail er einnig að fjalla um málið, þrátt fyrir að vera sjálft í auga stormsins að þessu sinni, en málið var höfðað af Harry ásamt fleiri þekktum einstaklingum á borð við Elton John, dánarbú George Michael, Cheryl Cole og Liz Hurley, en þau saka miðilinn um að hafa aflað sér gagna og frétta fyrir tilstuðlan tölvuglæpa, svo sem með að fá hakkara til að brjótast inn í tæki og tól í eigu fólks. Málið sem tekið er fyrir núna er eitt af fjölmörgum sem hafa verið höfðuð en miðlinum er líka gert að sök að hafa ráðið til sín einkaspæjara og fengið þá til að njósna um líf þeirra frægu svo sem með því að koma fyrir hlerunarbúnaði á heimilum og í faratækjum og með því að taka upp símtöl þeirra.

Elton John taldi grunsamlegt að miðillinn hefði komist yfir fæðingarvottorð sonar hans og eiginmanns hans, áður en þeir sjálfir höfðu fengið plaggið í hendurnar. Ljóst væri að miðillinn hefði með ólögmætum hætti komist í viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra sem hann átti ekkert erindi til að hafa aðgengi að.

Harry sjálfur heldur því fram að miðillinn hafi sérstaklega tekið hann fyrir og í því skyni brotist inn í talhóf hans, hlerað heimasíma hans, komist yfir sundurliðaða símareikninga og upplýsingar um flugferðir fyrrverandi kærustu hans, Chelsy Davy, en meint brot miðilsins rekur prinsinn allt aftur til ársins 1993.

DailyMail hefur í dag fjallað um vitnisburð prinsins, en lögmaður miðilsins sakaði prinsinn um að byggja ásakanir sínar á sandi. Lögmaðurinn spurði prinsinn út í atvik þar sem fréttir birtust af því að hann hefði slasað sig í háskólanámi sínu, en Harry gat ekki svarað því til hvaða símtæki brotist hefði verið inn í það skiptið.

„Erum við ekki, Harry prins, stödd á vettvangi fullkominna getgátna?,“ spurði lögmaðurinn og rakti svo hvernig þær fréttir sem prinsinn vill meina að eigi rætur að rekja til ólöglega aflaðra gagna, hafi í raun komið frá öðrum fjölmiðlum, þar á meðal frá BBC sem og frá opinberum yfirlýsingum frá konungsfjölskyldunni. Jafnvel hafi ein fréttin byggt á opinberum ummælum móður hans, Díönu prinsessu.

Særandi, andstyggilegar og grimmar fréttir

Harry hafði áður byrjað vitnisburð sinn á harðri gagnrýni á stjórnvöld og fjölmiðla í Bretlandi sem hann sagði hafa náð algjörum botni. Málaferlin mætti kalla tilraun hans til að bjarga blaðamennsku. Breskir fjölmiðlar hafi valdið ómældum sársauka, uppnámi og jafnvel dauða, en þar vísaði Harry til móður sinnar sem lést á flótta undan paparassa-ljósmyndurum. Fjölmiðlar hefðu því blóð á höndunum.

Prinsinn sagði í vitnayfirlýsingu að götublöðin Mirror, Daily Mirror, Sunday Mirror og The People hefðu þröngvað sér inn í barnæsku hans, unglingsár og fullorðinsár. Hann og móðir hans hafi orðið fyrir tölvuinnbrotum sem og fjölskylda hans, vinir og konunglegir aðstoðarmenn. Þó svo Harry væri ekki lengur að gegna konunglegum skyldum bæri hann samt ábyrgð sem meðlimur konungsfjölskyldunnar sem og sem breskur hermaður til að afhjúpa glæpsamlegt athæfi í almannaþágu.

Harry ávarpaði einnig þráláta sögusögn um faðerni hans, en fjölmiðlar hafa ítarlega fjallað um möguleikann á því að hermaðurinn James Hewitt sé blóðfaðir prinsins.

„Þegar þessi grein, og aðrar sambærilegar, komu fyrst út þá var ég ekki meðvitaður um að móðir mín hefði ekki hitt Hewitt fyrr en eftir að ég fæddist. Ég komst ekki að því fyrr en um 2014, þegar ég var um þrítugt. Á þessum tíma var ég 18 ára og hafði misst móður mína aðeins sex árum fyrr, sögur á borð við þessa voru skaðlegar og mjög raunverulegar fyrir mér. Þær særðu, voru andstyggilegar og grimmar. Ég hef alltaf velt fyrir mér hvatanum að baki þessum fréttum.“

Velti prinsinn fyrir sér hvort það hafi verið ætlun fjölmiðla að fá almenning til að efast um að hann væri konungborinn svo honum yrði útskúfað.

Engin önnur skýring

Harry vék einnig að fréttum frá 2005 þar sem greint var frá því að hann hefði klæðst nasistabúning í búningapartý, en fréttirnar ullu töluverðu fjaðrafoki. Harry sagði að vissulega hefði þetta verið heimskulegt val á búning og hann sæi mikið eftir þessu. Tímabilið í kjölfarið hafi verið erfitt, en hann hafi verið ungur og ungmenni gera mistök þegar þau eru að læra á lífið. Hann hafi þó þurft að ganga í gegnum það með mjög opinberum hætti þar sem mistökum hans var básúnað á hverju götuhorni. Harry telur að eina skýringin á þeim fréttaflutningi sé að sími hans hafi verið hleraður. Þáverandi kærasta hans, Davy, hafi hringt bálreið í hann því hún hefði frétt af því að hann væri að daðra við aðra konu á samkomunni. Þetta hafi blaðamenn vitað, en það geti ekki staðist, hafi síminn ekki verið hleraður.

Móðir hans hafi haft sambærilegar áhyggjur.

„Ég hef alltaf heyrt fólk segja að móðir mín hafi verið haldin ofsóknarbrjálæði, en hún var það ekki. Hún óttaðist það sem var raunverulega að koma fyrir hana og nú veit ég að það sama átti við um mig.“

Fréttaflutningurinn hafi gert það að verkum að hann varð tortrygginn í garð þeirra sem stóðu honum næst. Þetta hafi verið óþarfi, því nú viti hann að enginn náinn honum kjaftaði í fjölmiðla heldur hafi fjölmiðlar hlerað þetta sjálfir og svo skáldað upp meinta heimildarmenn sem vísað var til í fréttum.

Vísar prinsinn til margra tilfella, margra frétta, þar sem fjallað var um tilfinningar hans í tilteknum aðstæðum og ljóst sé að þær upplýsingar komi beint úr persónulegum samtölum hans í síma. Eins sé skuggalegt að sjá samstöðu breskra fjölmiðla í kjölfar þess að einn þeirra var fundinn sekur um símahleranir fyrir rúmum áratug, einkum í ljósi þess að þessir miðlar séu „móðurskip nettrölla“.

„Nettröllin bregðast við og hervæða fréttirnar sem þeir búa til. Fólk hefur látist af þessum orsökum og fólk mun halda áfram að svipta sig lífi þegar það sér enga aðra leið út úr aðstæðum.“

Harry átti þó að bera vitni í gær, en var þá ekki kominn til Bretlands. Dómara í málinu þóttu forföllin óafsakanleg og velti fram þeirri spurningu hvort að prinsinn væri að sóa dýrmætum tíma dómstóla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar