fbpx
Sunnudagur 01.október 2023
Fókus

Júlíana vildi hefnd og fjármuni Eyjólfs – Setti eitur í skyr bróður síns og fékk síðasta dauðadóm á Íslandi

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 27. maí 2023 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1913 var Reykjavík þrettán þúsund manna friðsæll bær sem fór ört stækkandi eftir því sem fleiri fluttu á mölina. Meðal þeirra var Eyjólfur Jónsson, tæplega fimmtugur verkamaður frá Snæfellsnesi, oft kallaður Eyjólfur sterki eða „járnhöndurnar”. Það átti fyrir Eyjólfi að liggja að falla fyrir hendi systur sinnar sem í kjölfarið var dæmd til dauða fyrir ódæðið.

Um var að ræða síðasta dauðadóm sem felldur var á Íslandi. Ítarlega var greint frá málinu í fjórða tölublaði Heimsmyndar árið 1992.

Stórefnaður og sérsinna maurapúki

Ári fyrir andlát sitt hafði Eyjólfur flutt til Reykjavíkur til að sinna verkamannavinnu. Hann var ógiftur og barnlaus en átti systur sem bjó í sárri fátækt að Brekkustíg ásamt Jóni Jónssyni, sambýlismanni sínum, og dóttur. Systir Eyjólfs hét Júlíana Silfa og var þremur árum yngri en Eyjólfur, sem fékk að gista hjá systur sinni við komuna til Reykjavíkur. Fljótlega flutti hann þó í leiguherbergi í Dúkskoti, þar sem núna er að finna gatnamót Vesturgötu og Garðastrætis í Vesturbæ Reyjavíkur.

Eyjólfur geymdi áfram koffort með eigum sínum hjá Júlíönu. Hann fékk fljótlega starf við að sækja mjólk fyrir hússtjórnarskólann sem þá var staðsettur í Iðnó auk þess að stunda jarðvinnu vestur á melum.

Eyjólfur þótti sérsinna og var nokkuð þekktur fyrir að vera argasti aurapúki. Svo aðhaldssamur var Eyjólfur að hann hafði aldrei tímt að kaupa á sig föt en gekk árum saman í sömu lörfunum eins og umkomulaus flækingur. Eyjólfur var þó langt frá því að vera fátækur. Hann hafði nurlað saman þrjú þúsund krónum sem hann geymdi á bankabók auk þess að vera stóreignamaður á jarðir fyrir vestan. Hann var stórríkur á þeirra tíma mælikvarða.

Eyjólfur þótti góðlyndur og hæglátur maður, jafnvel fyndinn þegar að svo vildi vera. Hann hafði aldrei verið við kvenmann kenndur en tók að sér munaðarlaust stúlkubarn sem fóstrað var á bæ utan Reykjavíkur.

Skapstór og hávaðasöm

Ekki gátu systkinin hafa verið ólíkari. Júlíönu er lýst sem skapstórri, hávaðasamri og ástríðufullri konu en Jón sambýlismaður hennar þótti latur til vinnu og almennt vafasamur karakter. Báðum þótti þeim sopinn góður en áttu sjaldnast nokkurn aur.

Til deilna kom milli systkinanna þegar að Eyjólfur kom til að sækja skuldaviðurkenningu sem hann þurfti á að halda vegna deilna en var þá skjalið hvergi að finna. Fauk þá í Eyjólf sem sakaði Júlíönu um að brjóta upp koffortið og stela frá sér. Kom til átaka á milli þeirra og gekk á með slagsmálum og hótunum.

Eyjólfur baðst síðar afsökunar og bauðst til að greiða lækniskostnað vegna áverka sem Júlíana hafði hlotið í átökunum en heift Júlíönu var óbreytt.

Krukkan úr apótekinu

Brátt fóru þau skötuhjú, Júlíana og Jón, að ræða hvernig best væri að komast hefna sín á Eyjólfi og komast í leiðinni yfir fjármuni hans. Vissu flestir að Eyjólfur hugðist arfleiða fósturdóttur sína að eignum sínum og gramdist Júlíönu það mjög. Í fyrstu stakk Jón upp á því að Júlíana lokkaði Eyjólf að hafnargarðinum í Örfirisey og hrinti honum fram af. Aftók hann með öllu að taka þátt í verknaðinum og treysti Júlíana sér ekki ein í morðið. Þess í stað hélt hún í Reykjavíkurapótek og keypti krukku af rottueitri á 35 aura.

Nokkrum dögum síðar, þann 1. nóvember, kom Eyjólfur til systur sinnar og þáði kaffi. Bauð hún honum þá að fá sér skyr með sykri sem Eyjólfi þótti hið mesta hnossgæti. Tæmdi hún innihald krukkunnar á skyrið og fleygði henni síðar í eldinn. Eyjólfi þótti óbragð að skyrinu en lét sig hafa það þegar Júlíana færði honum brennivínstár til að skola því niður með.

Sársaukafullur dauðdagi

Þegar heim í Dúkskot var komið kvartaði Eyjólfur yfir magaverk við sambýlisfólk sitt en fátækt og húsnæðisskortur þeirra tíma gerði það að verkum að Eyjólfur deildi herbergi með nokkrum öðrum einstaklingum. Hann sagðist að hugsanlega væri skemmdu skyri um að kenna og lagðist til svefns. Næstu dagana dró mjög af Eyjólfi sem kastaði í sífellu upp. Þegar sambýlisfólkið gekk á hann sagðist hann hafa fengið skyrið hjá systur sinni en neitaði alfarið að trúa upp á hana að hún hefði sett ólyfjan í það. Það breyttist þó á nokkrum dögum eftir að Eyjólfur uppgötvaði að sparisjóðsbók hans var horfin en í veikindum sínum náði Eyjólfur þó að sækja hana til systur sinnar ásamt tveimur félögum þrátt fyrir hávær mótmæli Jóns.

Smám saman virðist Eyjólfur hafa orðið þess fullviss að veikindin mætti rekja til Júlíönu.

Þann 10. nóvember var Eyjólfur fluttur helsjúkur á sjúkrahús þar sem hann dó sársaukafullum dauðdaga nokkru eftir innlögnina.

Gamla konan í garðinum

Við krufningu varð strax ljóst að um morð var að ræða og öllum ljóst að Eyjólf hafði grunað banamann sinn og tjáð það fjölda fólks. Því hélt lögreglan beina leið á Brekkustíginn og handtók með hraði þau skötuhjú Jón og Júlíönu. Voru þau látin ganga í fylgd lögreglumanna gegnum bæinn og að hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og var þeirri för lýst ítarlega í þá nýstofnuðu Morgunblaði. Júlíana öskraði og ýlfraði svo yfirgengilega alla leiðina að hálfur bærinn lagði niður störf til að fylgjast með hersingunni.

Júlíana játaði strax morðið en kvað Jón hafa verið hvatamann að því. Jón neitaði hins vegar allri sök en viðurkenndi að hafa vitað af ætlun Júlíönu. Lögðu fæstir trúnað á orð hans. Júlíana hélt áfram orgi sínu svo erfiðlega gekk við yfirheyrslur. Sagðist hún bæði vera hjartveik og geðveik en geðrannsókn leiddi í ljós sakhæfi.

Fór svo að þegar dómur féll ári síðar var Júlíana dæmd til dauða fyrir bróðumorðið. Ekki þótti sekt Jóns fullsönnuð og var hann því sýknaður. Dómnum var síðar breytt í ævinlangt fangelsi.

Júlíana var illa farin á sál og líkama eftir atburðina og var gripið til þess ráðs að vista hana í eins konar stofufangelsi á Landakotsspítala þar sem hún dvaldi í sautján ár fram að andláti sínu.

Mundu margir síðar með hlýju eftir döpru og umkomulausu konunni í garðinum við spítalann og gaukuðu góðsamar konur stundum að henni góðgæti eða kaffibolla. Jón Jónsson, sem margir töldu hafa verið hugmyndasmiðinn að morðinu, lést á Kleppi árið 1931. Júliana lést sama ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Þrumuguðinn Þór staddur á landinu – „Lítið íslenskt ævintýri með stelpunni minni“

Þrumuguðinn Þór staddur á landinu – „Lítið íslenskt ævintýri með stelpunni minni“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur Dua Lipa trylltir yfir nýju hlutverki hennar

Aðdáendur Dua Lipa trylltir yfir nýju hlutverki hennar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Myndband Brynhildar um kærastann fengið um 500 þúsund „likes“

Myndband Brynhildar um kærastann fengið um 500 þúsund „likes“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Neyðarleg uppákoma á tónleikum Drake – „Múgurinn stundi upp“

Neyðarleg uppákoma á tónleikum Drake – „Múgurinn stundi upp“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Michael Gambon látinn

Michael Gambon látinn
Fókus
Fyrir 3 dögum

Magnea fékk nóg af Birgittu – „Það eru fleiri í þessum heimi“

Magnea fékk nóg af Birgittu – „Það eru fleiri í þessum heimi“