fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Sigrar á filmu með kvenlegu innsæi

Fókus
Föstudaginn 31. mars 2023 11:58

Anna Hints Mynd:Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimildarmyndin Smoke Sauna Sisterhood er sýnd á Stockfish hátíðinni. Leikstjórinn er hin eistneska Anna Hints sem tárast þegar hún hugsar um sigra á ferlinum sem ekki voru sjálfsagðir.
Anna Hints er menntaður ljósmyndari, kvikmyndagerðarmaður og tónlistarkona að auki. Hún er í sinni þriðju Íslandsferð og hittir blaðamanninn Nínu Richter á nýju hóteli í miðborginni.

„Ég fann sterka tengingu við Ísland og ég finn að ræturnar í menningu okkar Eista og Íslendinga liggja að sama kjarna. Að náttúrunni, aftengingu við náttúruna. Mér finnst ég eiga heima hérna,“ segir Anna. Myndin er eistnesk, íslensk og frönsk samframleiðsla.

Myrkur á unglingsárum

Anna er látlaus í fasi, opinská og einlæg. Um leið og samtalið hefst er líkt og undirrituð hafi þekkt hana miklu lengur. Í stað þess að staldra við praktískari spurningar um bransann og eftirskjálfta heimsfaraldurs komum við okkur strax að kjarna málsins: Menningarlegum minnum og sögu kvenna, sem er einmitt aðal viðfangsefnið í verkum Önnu.

Upphafspunkt ferilsins rekur hún til erfiðra unglingsára. „Ég var alvarlega að íhuga að yfirgefa svæðið. Ein af sögunum sem kemur fram í myndinni er sagan mín, saga af nauðgun. Ég var hrædd við fólk og glímdi við mikla félagsfælni,“ rifjar hún upp. „Ég var þess vegna heima að horfa á kvikmyndir, sem björguðu mér á vissan hátt. Þarna gat ég séð aðrar sögur, aðra möguleika og heima en minn eigin,“ segir Anna. Þannig fann hún fyrir löngun til að gera kvikmyndir sjálf, en segist á sama tíma hafa áttað sig á því að hún ætti mikið bataferli fyrir höndum áður en draumurinn gat ræst.

„Þá hófst tíu ára vegferð þar sem ég sótti ýmsar meðferðir og lauk námi í ljósmyndun, fór að gera tónlist og ferðast um heiminn. Ég fór í kvikmyndaskóla þegar ég var 28 ára gömul og síðan þá hef ég verið að gera kvikmyndir,“ segir hún.

Treysti innsæinu alla leið

„Smoke Sauna Sisterhood er fyrsta myndin mín í fullri lengd. Þegar ég vann leikstjóraverðlaun á Sundance kvikmyndahátíðinni, þar sem myndin var frumsýnd, var þetta eins og staðfesting á því að ég ætti virkilega að treysta innsæinu,“ segir Anna og brosir.

„Ég hugsaði til þessarar brotnu fimmtán ára gömlu Önnu og ég gladdist innilega yfir því að hún hafi þrátt fyrir allt ákveðið að lifa og fylgja draumunum sínum, þrátt fyrir þetta djúpa myrkur,“ segir hún. „Að hægt sé að ná bata eftir þung áföll og verða kvikmyndagerðarkona, sem krefst svo margra eiginleika sem þurfa að koma saman á réttan hátt.“
Anna segir í raun ótrúlegt að þessi félagsfælni unglingur sem fór ekki út úr húsi hafi á endanum staðið á stóra sviðinu á Sundance hátíðinni fyrir framan heiminn. „Ég tárast enn þegar ég hugsa um það,“ segir Anna.

Innsæið er þannig helsti vegvísir Önnu í kvikmyndagerð. „Þessi hefðbundna hugmynd um kvikmyndagerðarmanninn er rosalega karllæg. Mín nálgun er mjög ólík. Þegar ég fékk þessi verðlaun, og gríðarlega jákvæð og sterk viðbrögð frá samlöndum mínum, áhorfendum og gagnrýnendum, þá var þetta ekki síður viðurkenning fyrir þessa kvenlægu tegund kvikmyndagerðar,“ segir hún.

Furðulegar fyrirspurnir

Anna, sem er fertug í dag, hóf kvikmyndanám 28 ára gömul. „Ég man þegar ég sótti um í skólann hafði enginn neinar athugasemdir við ferilskrána mína, þeim þótti hún alveg stórkostleg. En þau spurðu út í það að ég væri móðir. Hvernig ég ætlaði að samþætta þetta. Ég velti fyrir mér hvort að þau væru að spyrja feður að þessu,“ segir hún og hlær.

„Það var bannað að vera óöruggur. Ég hugsaði nú bara: Ha? Eru virkilega allir hér svona sjálfsöruggir? Ég sem var stöðugt að efast um sjálfa mig. Núna ræði ég það opinskátt. Ég þarf ekki að þykjast, ég get verið algjörlega gagnsæ í minni nálgun á formið.“

Anna segist upplifa sig utan staðlaðra hugmynda um kvenleika og hinn hefðbundna kvikmyndagerðarmann. „Ég er heldur ekki taugadæmigerð. Ég hef lengi upplifað mig einhvern veginn ranga, í tilraun til að passa inn í þessi fyrirframgefnu rými. En núna hef ég stigið út fyrir það, afþakkað þau rými og fylgt minni eigin gerð. Ég vil boða það erindi, að umfram allt megum vera við sjálf,“ segir hún.

„Kvikmyndaiðnaðurinn þarf að breytast. Fólk er í auknum mæli farið að líta á kvikmyndahátíðirnar sem samfélög, og annað kvikmyndagerðarfólk sem samverkamenn frekar en andstæðinga.“

Leitin að sannleikanum

Anna segir kvikmyndaformið kalla á djúpar spurningar um raunveruleikann og drauminn og teygja hugtökin á töfrandi máta.
„Ég lærði ljósmyndun og man eftir því að í fyrsta tímanum tók kennarinn fram myndavél og sagði: Hér er ekkert huglægt. En hvernig þú stillir upp vélinni, og hvar, er mjög huglægt. Myndavélinni er alltaf beitt með ákveðnu augnaráði. Það er ekkert sakleysi þar.“

Þrátt fyrir það segist Anna finna fyrir sannleika innra með sér. „Ég held að við getum aldrei fangað sannleikann til fullnustu. Eins og gamla sagan sem segir frá fílnum í myrkvuðu herbergi. Nokkrar manneskjur snerta fílinn. Ein manneskja snertir ranann og lýsir honum sem mjúkum, annar snertir maga fílsins og segir að hann sé hrjúfur,“ segir hún og hlær.

„Þessi saga lýsir sannleikanum, þarna er fíll og það er staðreynd. En okkar sýn á fílinn er alltaf huglæg. Til þess að sjá sannleikann þurfum við að sjá allan fílinn og þá þurfum við að kveikja ljós. En hvaðan ljósið kemur er svo stóra spurningin. Kannski náum við aldrei utan um það.“
Anna segir að mikilvægt sé að skilja og greina vinkilinn. „Sem dæmi má nefna það þegar ég var að gera Smoke Sauna Sisterhood, fannst mér gríðarlega mikilvægt að sýna kvenmannslíkamann ekki í kynferðislegu samhengi. Að notast ekki við karllæga sjónarhornið í herbergi fullu af nöktum konum. Það tók þó nokkurn tíma að átta sig á bestu leiðinni til að útfæra það,“ segir hún.

Dreymir fyrir nýjum senum

„Ég er mjög sjónrænn leikstjóri. Stundum koma senur til mín í draumi. Það er gott dæmi um hvernig ég fylgi innsæinu. Ég sá senu í draumi og það var engin rökrétt ástæða fyrir því að hún þyrfti að vera þarna, en mér fannst það rosalega mikilvægt. Henni fylgdi ákveðin orka. Ég treysti því.“
Sögusvið og efnistök Smoke Sauna Sisterhood eiga sér langa sögu sem Anna rekur til barnæskunnar. „Ég var ellefu ára. Minn menningarlegi bakgrunnur liggur í þessari reyksánu-menningu. Reyksánan er staður þar sem konur fæddu börn, þvoðu látna og læknuðust. Þetta var staður þar sem konur gátu verið naktar í öllum skilningi. Þarna þvoðu þær líkamann og sálina,“ segir hún.

„Þegar ég var ellefu ára lést afi minn. Við fórum í reyksánuna með ömmu og frænkum mínum og þarna, í fyrsta og eina skiptið, leyfði amma reiðinni, sorginni, vonbrigðunum og öllu sem tengdist afa að flakka og fá útrás. Hann hafði átt aðra konu og fleira. Við urðum vitni að þessu og þegar amma kom út úr sánunni hafði hún fyrirgefið honum. Við fórum og gerðum bökur fyrir jarðarförina og daginn eftir gátum við jarðað afa í friði,“ segir Anna.

„Þetta hafði djúpstæð áhrif á mig og ég tengdi svo sterkt við þessa tilfinningu, að það væri rými til í þessum heimi þar sem leyfilegt væri að fá útrás fyrir allar tilfinningarnar og óttann. Rými þar sem þessar tilfinningar fá bæði hlustun og viðurkenningu.“

Smoke Sauna Sisterhood er sýnd í Bíó paradís sunnudaginn 2. apríl klukkan 22.00.

Höfundur: Nína Richter

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“