Árið 2008 fékk íþróttafréttakonan Erin Andrews símtal frá vini sínum um að það væri myndband af henni í dreifingu um netheima. Hún fékk áfall, hún hafði ekki hugmynd um hvað hann væri að tala um. Það kom síðar í ljós að karlmaður að nafni Michael David Barrett hafði elt hana á þrjú mismunandi hótel í þremur mismunandi borgum í Bandaríkjunum, pantað herbergið við hlið hennar og reynt að ná myndbandi af henni afklæðast. Honum tókst það í síðasta skiptið.
Andrews, 45 ára, rifjar upp augnablikið þegar hún fékk símtalið og hvernig allt ferlið hafi verið í hlaðvarpsþættinum Making Space á vegum Today Show.
„Fólk hélt að þetta væri einhver skandall. Ég er prúða stelpan í framhaldsskóla, ég geri ekki svona hluti,“ segir hún.
„Ég vissi um leið og ég fékk símtalið frá vini mínum hjá Sports Illustrated, hann sagði: „Það er myndband af þér.“ Og ég sagði: „Nei, það er það ekki. Ég geri ekki svoleiðis. Ég er einhleyp. Það er ekkert svona í gangi í lífi mínu.““
En vinur hennar sagðist vera handviss um að þetta væri hún í myndbandinu. „Ég hringdi í foreldra mína og pabbi hélt að ég hafði lent í bílslysi,“ segir Andrews og þurrkar tárin.
Á þessum tíma var Andrews að fjalla um háskólaíþróttir fyrir ESPN og ferðaðist mikið vegna vinnunnar.
Michael David Barrett, 61 árs, elti hana á Marriott-hótelið í Nashville árið 2008 og breytti gægjugatinu á hurðinni, svo hann gæti fjarlægt það og tekið upp myndband af henni þegar hún var nýkomin úr sturtu.
Hann viðurkenndi fyrir rétti að hafa beðið um herbergið við hlið hennar herbergis. Barrett birti myndbandið af Andrews á netinu og fékk það margar milljónir í áhorf. Hann reyndi að halda því fram að athyglin vegna myndbandsins myndi gagnast Andrews.
Íþróttafréttakonan bar vitni í dómsal árið 2016. „Ég skammaðist mín svo mikið. Ég þarf að þola áreiti vegna þessa á hverjum degi. Stundum fæ ég skilaboð eða einhver segir eitthvað í fjölmiðlum, eða sendir mér skjáskot úr myndbandinu, eða einhver öskrar um þetta þegar ég er að reyna að vinna. Og ég er komin aftur á byrjunarreit,“ sagði hún.
Barrett var ákærður og dæmdur til 27 mánaða fangelsisvistar. Hann þurfti einnig að greiða tæplega 800 þúsund króna sekt og rúmlega milljón krónur í málskostnað.
Hann var síðar dæmdur til að greiða henni 27 milljónir dala í skaðabætur, eða 3,7 milljarða króna. Heildarupphæð skaðabótanna voru 55 milljónir dalir en Marriot hótelið fékk 51 prósent af því, eða 28 milljónir.
„Þetta mál sýndi mér hversu sterk ég er,“ sagði Erin í viðtali við Redbook árið 2015. „Ég gat ekki látið eins og þetta væri ekki mikið mál, þetta var mikið mál.“