The Times, Guardian og Sunday Times eru öll sammála um að Bráðin eftir Yrsu Sigurðardóttur sé í hópi bestu glæpasagna sem komi út í nóvember í í Bretlandi. Hvert blað velur fjórar bækur, nema Sunday Times tiltekur fimm og er Bráðin sú eina sem öll blöðin eru sammála um. Það er Victoria Cribb sem þýðir Bráðina á ensku.
Bráðin kom út árið 2020 og hlaut Blóðdropann 2021 sem besta íslenska glæpasaga ársins 2020.
Guardian segir í dómi sínum að Yrsa sé hæfileikaríkur höfundur og hún hnýti í Bráðinni alla þræði hugvitssamlega saman en það sé hin æsispennandi lýsing á baráttu upp á líf og dauða í jökulkulda, undir himni sem aldrei virðist ætla að lýsast upp, sem veki mestan hroll við lesturinn.
Gagnrýnandi Sunday Times segir sögur Yrsu ævinlega þrungnar óþægilegri tilfinningu og persónurnar í andlegu uppnámi, ásamt því sem þær glími við óblíðar aðstæður. „Ljóðrænar lýsingar á landslagi blandast saman við vísbendingar um hræðilega atburði í fortíðinni í þessari áleitnu sögu.“
Gagnrýnandi The Times segir í sínum dómi: „Bráðin er ótrúlega hrollvekjandi ráðgáta. Yrsa kann að láta hárin á hnakkanum á manni rísa, hvort sem það er lýsing á framandi og vetrarlegu landslagi á suðurhluta Íslands eða ketti sem heitir Kisi. Myrkrið hið ytra endurspeglar það sem ríkir innra með persónunum. Einn af ferðalöngunum sem bíður örlaga sinna spyr sjálfa sig: „Voru engin takmörk fyrir því hvað allt var ömurlegt?“ Svarið sem hún fær lætur blóðið í æðum þínum frjósa.“
Það er skemmtileg tilviljun, í ljósi dómsins í The Times, að nýjasta bók Yrsu sem kemur út í næstu viku nefnist einmitt Frýs í æðum blóð.