fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Fórnum skal fullnægt í blóði – Kaþólski presturinn sem endaði lífið í rafmagnsstólnum

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Mánudaginn 7. mars 2022 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í febrúar árið 1916 var maður að nafni Hans Schmidt tekin af lífi í rafmagnsstól New York fylkis í Bandaríkjunum, dæmdur fyrir morð. Það sem aðgreinir Schmidt frá öðrum þeim sem kvöddu þessa jarðvist á sama hátt, er að hann er eini kaþólski presturinn sem tekinn hefur verið af lífi í Bandaríkjunum.

Stórundarlegt barn

Hans Scmidt fæddist í Þýskalandi árið 1881, inn í fjölskyldu sem átti sér langa sögu geðveilu og ofbeldis, og þótti stórundarlegt barn. Uppáhaldsiðja Hansa litla var að fylgjast með slátrun dýra í sláturhúsi bæjarins á milli þess sem hann þóttist vera prestur og sönglaði latínu við altari sem hann hafði komið upp á heimilinu. Hann átti síðar eftir að sameina þessi tvö áhugamál á óhugnanlegan hátt.

Hans Schimdt

Schmidt gekk í prestaskóla og var vígður árið 1904, 25 ára að aldri. Næstu árin misnotaði hann altarisdrengi, átti í fjölda ástarsambanda við fólk af báðum kynjum og var traustur viðskiptavinur vændiskvenna bæjarins. Smám saman rataði orðspor hans inn á borð kirkjuyfirvalda sem snarlega kipptu að sér höndum og stóð Schmidt nú uppi verkefnalaus. Hann ákvað að flytja til Ameríku.

Guð krefst fórnar

Schmidt hafði lag á koma sér í ónáð hjá flestöllum sem hann hitti og eftir nokkurt flakk endaði hann í New York þar sem hann kynntist ungri  ráðskonu á prestsetrinu, Önnu Aumüller, sem nýflutt var til fyrirheitna landsins frá Austurríki.

Þau hófu ástarsamband í leyni árið 1912. Schmidt var þrítugur og Anna áratug yngri. Hvort sem unnt er að kenna æsku og reynsluleysi Önnu eða öðru, sætti hún sig orðalaust við furðulega hegðun Schmidt sem meðal annars krafðist þess að stunda með henni kynlíf á altari kirkjunnar. Það var einmitt þar sem Schmidt heyrði rödd guðs krefjast þess að fórna Önnu. Hann sagði henni frá vitruninni en Anna mun hafa hlegið og talið að um einhvers konar grín væri að ræða.

Anna Aumüller

Schmidt,,kvæntist“ Önnu í ársbyrjun 1913 í einhvers konar leyniathöfn sem hann hafði sjálfur umsjón með og síðar það sama ár tilkynnti Anna ,,eiginmanni“ sínum að hún væri þunguð. Nú var Schmidt í vondum málum enda væri prestferill hann endanlega fyrir bí ef það spyrðist að kaþólskur prestur hefði ekki bara kvænst ráðskonunni, heldur einnig barnað hana.

Sagaði höfuðið af og búkinn í tvennt

Þann 2. september mætti Schmidt í íbúðina sem hann leigði fyrir Önnu, vopnaður 12 tommu hníf, skar hana á háls, drakk blóð hennar og nauðgaði. Hann sagaði af henni höfuðið, sagaði búkinn í tvennt og setti líkamshlutana í koddaver sem höfðu ísauminn ,,A“. Því næst henti hann líkamsleifum vesalings Önnu í Hudson ána áður en hann sneri aftur til kirkjunnar til að leiða altarisgöngu eins og ekkert hefði í skorist.

Þremur dögum síðar skolaði flestöllum pörtum Önnu á land og var lögreglan snögg að rekja ísauminn til verslunareiganda sem kvaðst hafa selt koddaverin til manns sem með sterkan þýskan hreim. Sá hafði gefið upp sama heimilisfang og Anna hafði búið í. Lögregla hraðaði sér nú til íbúðar Önnu þar sem við blasti hryllileg sjón. Íbúðin var þakin blóði, þrátt fyrir fljófærnislegar tilraunir til þrifa, og á hillu í eldhúsinu fundust hnífur, exi og sög. Leit í íbúðinni leiddi í ljós að Anna hafði verið ráðskona á prestsetrinu og með tengsl við Hans Schimdt. Þegar lögreglan bankaði upp á á prestsetrinu, vakti Schmidt og kvaðst vilja tala við hann, játaði hann umsvifalaust á sig morðið, hinum prestunum til mikillar skelfingar sem sátu náfölir undir frásögninni. Hann endaði játninguna með að segja að hann hefði elskað Önnu en ,,fórnum skyldi fullnægt í blóði“.

Hans Schimdt

Blóðlosti

Réttarhöld yfir Schmidt hófust í desember það sama ár og fylgdust fjölmiðlar náið með. Sekt hans var aldrei í vafa en lögfræðingur hans hélt fram að ,,blóðlosti“ og geðveila hefði valdið því að Schmidt gat ekki greint á milli réttra og rangra gjörða. Málið sínu til sönnunar þuldi lögfræðingurinn upp nöfn yfir 60 ættingja Schmidt sem haldnir væru sama kvilla. Schmidt hafði þó verið með það réttu ráði að hann hafði fengið konu nokkra til að kaupa líftryggingu í nafni Önnu nokkrum dögum fyrir morðið og slá þar með tvær flugur í einu höggi.

Tveir meðlimur kviðdóms trúðu geðveiluvörninni og þurfti því að rétta aftur yfir prestinum. Í þetta skiptið voru kviðdómendur ekki jafn bláeygðir og dæmdu Schmidt til dauða fyrir morðið. Í desember 1914 viðurkenndi Schmidt loksins að geðveiluvörnin væri uppspuni og í febrúar 1916 var dauðadómnum fullnægt, þeim eina í Bandaríkjunum yfir kaþólskum presti. Hans Schimdt var 35 ára gamall.

Fjöldi fórnarlamba óþekktur

En sögu morðóða prestsins lýkur ekki þar. Við nánari athugun kom í ljós að Schmidt hafði ásamt elskhuga sínum, tannlækninum Ernest Muret, stundað peningafölsun auk þess þess að skipuleggja röð morða með tryggingasvik í huga, einnig með tannsa sem vitorðsmann.

,,Old Sparky“, rafmagnsstóllinn sem Schimdt var tekinn af lífi í

Ennfremur vöknuðu spurningur um sundurlimað lík 9 ára stúlku sem hafði fundiðst í kjallara kirkju í Kentucky, þeirri sömu og Schmidt hafði þjónað í við komuna til Bandaríkjanna. Húsvörður kirkjunnar hafði aftur á móti verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir verknaðinn. Þýsk yfirvöld höfðu einnig spurningar um morð á ungru stúlku í heimabæ Schmidt í Þýskalandi en þær bárust því miður of seint þar sem búið var að taka prestinn af lífi.

Kaþólski presturinn Hans Schimdt gaf aldei upp fjölda fórnarlamba sinna. Fjölskylda hans fór fram á að fá líkamsleifar hans sendar heim til Þýskalands en fyrri heimstyrjöldin kom í veg fyrir það.

Hans Schimdt liggur í ómerktri gröf í New York fylki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki