fbpx
Föstudagur 23.apríl 2021
Fókus

Fyrstu blæðingarnar – Þrjár íslenskar konur deila eigin reynslu

Erla Hlynsdóttir
Fimmtudaginn 1. apríl 2021 11:30

Veruleiki flestra kvenna í hverjum mánuði. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er gríðarlega stór stund í lífi hverrar stúlku þegar hún byrjar á blæðingum í fyrsta skipti. Þrjár kjarnakonur deila hér upplifun sinni af því að byrja á túr.

STELPNAFRÆÐARINN VAR BIBLÍAN

Þóra Kolbrá Sigurðardóttir las Stelpnafræðarann eftir Miriam Stoppard af mikilli áfergju og tók mjög bókstaflega boðskap bókarinnar sem var: „Til hamingju! Þú ert orðin kona.“

Þóra Kolbrá Sigurðardóttir, blaðamaður og rithöfundur, var hissa á því að mamma hennar væri ekki jafn brjálæðislega kát og hún sjálf yfir blæðingunum. MYND/ERNIR

„Ég byrjaði á blæðingum á því herrans ári 1990 – nánar tiltekið 16. febrúar. Ég var alveg að fara að fermast og farið að lengja eftir þessu. Nokkrum mánuðum fyrr hafði mér áskotnast bók sem átti eftir að hafa varanleg áhrif á líf mitt.

Bókin hét Stelpnafræðarinn og var eftir Miriam Stoppard. Í henni var farið yfir allt það sem ung stúlka þurfti að vita um unglingsárin, bólur og blæðingar og ég man að ég las þetta af áfergju enda lífsnauðsynlegar upplýsingar á ferðinni. Mér er sérstaklega minnisstæður kaflinn um blæðingar en þar stóð: Þegar þú byrjar á blæðingum ertu orðin kona.

Glatað að vera síðust

Mig var farið að lengja eftir mínum enda alveg að koma að fermingu og mig grunaði að allar vinkonur mínar væru löngu byrjaðar án þess að ég hefði það staðfest. Ég var hins vegar fremur seinþroska og hafði af því þungar áhyggjur enda glatað að vera minnst og síðust. Þetta var fagur febrúardagur og viðbrögð mín voru ofsagleði. Bókstaflega. Ég var loksins orðin kona og ég hringdi sigri hrósandi í móður mína í vinnuna og sagði henni tíðindin. Hún samgladdist mér en ég man að mér þótti undarlegt að hún væri ekki jafn tryllt af gleði og ég.

Gleymdi að fara í búðina

Hún lofaði að koma við í búð á leiðinni heim úr vinnunni og kaupa fyrir mig dömubindi. Ég var mjög skýr í máli. Mig vantaði týpuna í skólapakkningum en þá voru nýkomin samanbrotin bindi í pakkningum en þetta var þó nokkru áður en vængirnir komu til sögunnar. Þegar mamma kom heim úr vinnunni kom í ljós að hún hafði gleymt að koma við í búð og ég ætla rétt að ímynda mér að viðbrögð mín hafi verið allt annað en yfirveguð þar sem hún fór í snarhasti út aftur og út í búð með skottið milli fótanna.

Vesalings mamma hefur enn ekki bitið úr nálinni með þetta og reglulega er það rifjað upp þegar hún gleymdi að fara út í búð og dóttirin fékk nærri því taugaáfall enda ekki á hverjum degi sem ung stúlka verður alvöru kona.“

Mánabikar, dömubindi og túrtappar. Mynd/Getty

FRÍPASSI Í SUND

Eva Ruza skemmtikraftur var aldrei feimin með blæðingarnar eftir að hún byrjaði fyrst. Henni fannst þetta samt hrikalega mikið vesen þó það hafi vanist með tímanum.

Eva Ruza vill engin vandræðaheit tengd blæðingum. MYND/ERNIR

„Ég man svo sannarlega hvar ég var þegar Rósa frænka bankaði fyrst upp á. Ég var nýbúin á handboltaæfingu og skaust á klósettið áður en við vinkonurnar áttum að taka strætó heim. Ég man að ég hugsaði: „Sjitt, nei.“ Kallaði svo á bestu vinkonu mína og við tókum sameiginlega ákvörðun um að ég myndi setja pappír í buxurnar áður en við hlupum að ná strætó.

Ég var aldrei neitt feimin með blæðingarnar og fór náttúrulega til mömmu um leið og ég kom heim. Þetta var vesen. Það var mín upplifun. Mér fannst þetta hrikalega mikið vesen, en eftir því sem tíminn leið þá varð þetta bara partur af lífinu. Ég man samt í grunnskóla, þegar það var sundtími, þá fékk maður að sleppa sundi ef þessi tími mánaðarins var í gangi. Það var samt hrikalega hallærislegt að svara „Já, T“ – já, túr – til að kennarinn vissi að maður færi ekki í sund. Mér var samt svo sem sama. Nýtti það óspart ef sundið hitti ekki á á réttum tíma mánaðarins. Þannig að þetta var hálfgerður frípassi líka í sund.

Ég tala opinskátt um blæðingar við dóttur mína og systurdóttur, því ég vil að þær upplifi engin vandræðalegheit gagnvart þessum gangi lífsins. En ég neita því ekki að ég hugsa enn í dag „þetta er vesen“.

Það er frekar pirrandi þegar það blæðir í nærbuxurnar. Best er að skola það úr sem fyrst með köldu vatni. Mynd/Getty

ÉG HUGSAÐI BARA: HALELÚJA!

Sigga Dögg Arnardóttir ætlar að halda túrpartí fyrir dóttur sína og vinkonur hennar þegar hún byrjar á blæðingum. Sjálf var hún heldur önug við foreldra sína þegar hún byrjaði.

Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur var síðust í vinahópnum til að byrja á blæðingum og beið hún því óþreyjufull eftir því. MYND/VALLI

„Ég var síðust í vinahópnum til að byrja á blæðingum. Besta vinkona mín byrjaði í 6. bekk og ég öfundaði hana svakalega. Allur vinahópurinn byrjaði annað hvort í 6. eða 7. bekk. Í 8. bekk var ég sú eina sem var ekki byrjuð.

Hinar stelpurnar voru með alls konar einkahúmor, sögðust ekki geta borðað rauðan mat og þyrftu alltaf að eiga súkkulaði. Þær sýndu hver annarri hlýju og skilning, en stóðu oft úti í horni og sögðu að ég vissi ekkert hvað þær væru að tala um því ég væri ekki byrjuð. Mér fannst þetta ólíðandi og alveg óþolandi að vera ekki líka byrjuð á túr.

Vinkonurnar með æfingabindi

Einu sinni vorum við úti með strákum sem við vorum skotnar í og ég heyrði einn þeirra hvísla: „Hún er ekki einu sinni byrjuð á túr.“ Ég var ekki gjaldgeng, ég var ekki kona og það var sárt fyrir litla egóið mitt á þessum tíma. Ég spurði eina vinkonu mína sem hafði byrjað á túr tveimur árum áður hvernig ég myndi eiginlega vita hvort ég væri að fara að byrja á túr og hvort hún héldi ekki að ég væri alveg að fara að byrja á túr.

Ég man sérstaklega eftir því í 6. bekk þegar mamma vinkonu minnar sem var hjúkrunarfræðingur sagði að ég ætti að vera með æfingabindi. „Þú verður að æfa þig!“ Mér fannst mamma hennar svo ógeðslega kúl. Ég var svo stressuð, þorði ekki að taka dömubindi frá mömmu til að prófa ef ske kynni að hún myndi sjá að ég hefði tekið bindi – ekki að hún yrði reið heldur vildi ég bara ekki eiga þetta samtal við hana. En þá voru allar hinar stelpurnar í þessu leynisamfélagi og allar búnar að prófa dömubindi nema ég. Ég prófaði ekki að nota bindi fyrr en ég þurfti.

Túrtappa dýft í vatnsglas

Það var samt alveg búið að útskýra þetta í skólanum og sýna okkur dömubindi og túrtappa. Þar var túrtappanum dýft ofan í vatnsglas og ég hugsaði bara: Guð hjálpi mér allir heilagir! Í fyrsta lagi var ég þarna ekki meðvituð um að ég væri með leggöng, hvað þá að ég ætlaði að fara að setja einhvern bómullarhnoðra þarna upp.

Vinkona mín hafði sagt við mig: „Þegar slímið sem kemur í nærbuxurnar fer að verða brúnt, þá ertu að byrja á túr.“ Ég fylgdist því grannt með því sem var í nærbuxunum í hvert skipti sem ég fór á klósettið, var alltaf svaka peppuð yfir því að þetta hlyti nú að fara að koma.

Daginn sem ég byrjaði á túr höfðum við verið úti með nokkrum strákum sem við vorum skotnar í og það hafði komið upp umræða um túrleysið mitt. Ég fór heim frekar bitur, sest á klósettið og bara OMG! Loksins var komið blóð í brókina. Ég hugsaði bara: Halelúja! Ég var svo glöð að það hefði mátt halda að ég hefði unnið í lottóinu.

Síðan fatta ég að ég er ekki með neitt og á ekki neinar túrvörur. Heimilið okkar var á tveimur hæðum og klósett mömmu og pabba var uppi. Ég man ekki alveg hvort ég fór upp til að næla mér í bindi eða hvort ég kallaði á mömmu, mig minnir að ég hafði gert það, og sagt að mig vantaði bindi.

Bannaði mömmu að segja pabba

Mamma ætlaði síðan aldeilis að fara að fagna en ég var sjúklega leiðinleg við hana, bannaði henni að segja pabba frá þessu og vildi ekki tala um þetta aftur. Það er mjög fyndið að ég hafi verið svona leiðinleg við mömmu því ég er núna mamman sem er búin að spyrja dóttur mína hvort ég megi halda túrpartí fyrir hana og vinkonur hennar þegar hún byrjar á túr.

Þarna um kvöldið hafði ég síðan ótrúlega sterka þörf fyrir að vera í hvítum fötum og fór að sofa í hvítum náttkjól.

Þegar ég kem fram um morguninn segir pabbi fallega við mig að nú sé litla stelpan hans orðin að konu og ég bara „Oj! Ég er ekki orðin kona.“ Síðan horfði ég ásakandi á mömmu því hún hefði kjaftað frá.

Þau voru svakalega sæt við mig og tillitssöm, spurði hvernig mér liði. Ég var bara fúl á móti, vildi bara að þau myndu þegja og ekki horfa á mig.

Ég lærði mest um blæðingar frá vinkonum mínum. Þegar ég byrjaði var ég síðan ekki viss um hversu oft ég ætti að skipta, vildi ekki að neinn myndi vita þegar ég var á túr eða hvað ég ætti að gera við notuðu dömubindin í skólanum.

Blóðblettir í nærbuxunum

Ég man að strákarnir fóru stundum inn á stelpuklósettið og hrópuðu: „Oj, hvað það er mikil túrlykt!“ Ég hugsaði hvort það væri túrlykt af mér og hvort það væri rétt túrlykt af mér.

Mér fannst skrýtið að blóðið væri ekki alltaf eins á litinn. Stundum var það brúnt, stundum dökkrautt, vínrautt eða ljósrautt. Ég skildi heldur ekki þegar það komu einhverjir kögglar. Mér fannst pirrandi þegar það komu blóðblettir í nærbuxurnar eða náttbuxurnar, og pirrandi þegar ég gleymdi að skipta og var kannski allt í einu komin í íþróttatíma og fann að það var allt á floti þarna niðri.

Mér finnst mikilvægt að halda umræðunni um blæðingar opinni. Ekki bara tala um þær einu sinni á unglingastigi í skólanum heldur byrja í fjórða bekk og vera með fræðslu á hverju ári upp í tíunda bekk.

Túrinn breytist með árunum, túrverkirnir breytast og upplifunin breytist. Ég fer allt öðruvísi á túr núna en þegar ég var að byrja. Þetta má ekki vera feimnismál.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Jessie Lingard opnar sig
Fókus
Fyrir 3 dögum

Húmorslausir hvattir til að skrá sig á námskeið um húmor

Húmorslausir hvattir til að skrá sig á námskeið um húmor
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslendingar missa það vegna drungalegs húss – „Þegar það er verið að fara að fórna þér“

Íslendingar missa það vegna drungalegs húss – „Þegar það er verið að fara að fórna þér“