fbpx
Mánudagur 27.september 2021
Fókus

„Ég sagði þeim upp á spítala að það væri stærsta aukaverkunin af lyfinu – þessi andlegi léttir og að losna við þennan gamla draug“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 23. febrúar 2021 10:06

Páll Óskar. Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Páll Óskar Hjálmtýsson er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Páll Óskar, sem er löngu orðin goðsögn í íslensku tónlistarlífi segir í þættinum frá tímabilinu þegar kom fram á sjónarsviðið og var í raun verkfæri í miðri mannréttindabaráttu án þess að átta sig á því.

„Upprunalega var planið bara að gefa út diskóplötu, en ég ranka síðan við mér þegar platan er komin út og ég var farinn að túra í öllum félagsmiðstöðum landsins af því að krakkarnir voru fyrstir að pikka upp tónlistina mína. Þá er ég allt í einu staddur í miðri mannréttindabaráttu með einhverja diskóplötu. Þegar maður er staddur í hringekjunni að eiga „hittara“ og síminn hringir 50 sinnum á dag hefur maður um nóg annað að hugsa en að maður sé verkfæri í mannréttindabaráttu. Þannig að ég sé þann vinkil eiginlega ekki fyrr en núna miklu síðar. En þarna kom sýnileiki og ég tróð mér í alla fjölmiðla og gaf þessarri baráttu nafn,“ segir Páll Óskar.

Páll Óskar segist sjálfur hafa verið skjálfandi á beinunum þegar hann kom út úr skápnum.

„Ég mætti upp í samtökin 78 árið 1987. Þá bankaði ég fyrst upp á skjálfandi á hnjánum og sem betur fer kom Þorvaldur Kristinsson til dyra og átti við mig ofsalega fallegt samtal. Ég hafði arkað þarna upp að Lindargötunni og bankað á dyrnar af því að ég vissi ekki að maður gæti bara labbað beint inn í húsið. Og ég bý til þessi læti í gleðigöngunni og öðru sem ég geri vegna þess að ég hugsa um þennan strák sem var skjálfandi á beinunum. Ég geri þetta fyrir hann og svo hugsa ég líka til gaursins sem er úti á gangstétt og er ennþá í skápnum, skíthræddur við að koma út. Ég er alltaf jafnhissa á því hvað það eru enn margir inni í skápnum á Íslandi. Það hefur mikið áunnist, en það er ennþá mikið af fólki sem er allt of óttaslegið og þorir ekki að koma út,“ segir Páll Óskar

„Ég held að margir hommar séu að díla við einhvers konar „trauma“. Ég hef ekkert mikið fyrir mér í þessu, en ég held að áfallið sem við erum að díla við gerist mjög snemma. Einhvern tíma í barnæsku, þegar maður kveikir á því að maður er öðruvísi en hinir. Það er þá sem pínulítil tímasprengja byrjar að tikka inni í okkur og þessi klukka hættir ekki að tifa fyrr en við komum út. Á tímabilinu sem maður er enn í skápnum getur margt gerst og maður heyrir kannski eitthvað ljótt sagt um homma í sjónvarpi eða útvarpi eða annars staðar sem hefur mikil áhrif. Við fáum þetta mótlæti sem börn, það getur gerst í leikfimitímanum, sundkennslunni eða hvar sem er og við hugsum að við séum ekki velkomnir. Jafnvel þótt við lendum ekki í hræðilegu einelti og komum frá góðu heimili, geymum við þetta í maganum í langan tíma og það er svo óafgreitt þegar við komum úr skápnum. Það hefur svo áhrif á sambönd, tilfinningar, sjálfsmyndina og margt fleira. Margir hommar þróa með sér mikla dómhörku í eigin garð og fullkomnunaráráttu. Þú veist ekki hvað ég hef hitt marga brotna homma í lífinu og ég er svo sannarlega einn af þeim!“

Mikill léttir að komast á lyf

Páll Óskar segir að það eigi enn eftir að opna meira á ákveðna hluti þegar kemur að samkynhneigðum karlmönnum.

„Það þarf að mínu mati tvær byltingar í viðbót fyrir samkynhneigða karlmenn. Þær snúa að andlegu lífi og kynlífi. Hommar læra einhvern tíma á leiðinni að kynlíf sé fyrir karlmenn og andlega dótið sé fyrir kerlingar og við forðumst það því. Við strákarnir eigum stundum í erfiðleikum með að láta þetta dansa saman, en það er það sem við verðum að gera ef við eigum að geta átt í nánum samböndum við hvorn annan,“ segir hann.

Páll Óskar fer í þættinum yfir tímabilið þar sem HIV-veiran vofði eins og draugur yfir samfélagi samkynhneigðra.

„Fólk sem maður vissi af var að veikjast alvarlega og jafnvel deyja og þetta hafði mikil áhrif á alla. En eins mikill hryllingur og HIV var fórum við að fá upplýsingar frá ábyrgum aðilum eftir að þessi vírus kom upp. Okkur var öllum stillt upp við vegg og við urðum að byrja að tala, sem þýddi að upplýsingaflæði fór að aukast. Við hommarnir lærðum ýmislegt um okkur sjálfa, en um leið líka restina af þjóðinni. En það sem var verst var öll þessi óvissa og ég man að ég þorði ekki að þvo á mér hendurnar á almenningsklósettum á Hlemmi og þorði ekki að drekka úr sama glasi og ókunnugt fólk. HIV sveif á vissan hátt yfir manni eins og draugur sem kemur alltaf aftur og aftur. Óttinn sem fylgdi því að lifa með þessum vírus er eitthvað sem fór ekki úr maganum á mér fyrr en ég fékk bólusetningu við HIV. Ég tek núna einu sinni á dag hleðslulyf sem verður til þess að ég get ekki fengið vírusinn. Það tekur tvær vikur fyrir lyfið að hlaða sig upp og ég man bara léttinn í maganum eftir að ég byrjaði að taka lyfið. Ég sagði þeim upp á spítala að það væri stærsta aukaverkunin af lyfinu. Þessi andlegi léttir og að losna við þennan gamla draug. Það allt í einu lak af mér 30 ára gamall ótti sem hafði verið inni í mér allan þennan tíma.“

Í þættinum ræða Sölvi og Páll Óskar um magnaðan feril Páls, tímabilið þegar HIV veiran vofði eins og draugur yfir samkynhneigðu fólki, mannréttindabaráttu, andlega heilsu og margt margt fleira.

Horfðu á þáttinn í heild sinni hér að neðan. Þú getur einnig hlustað á hann á Spotify.

https://www.youtube.com/watch?v=MQzSmmyd45w&t=147s

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Sigmundur svarar fyrir stóra brauðtertumálið – „Eftir 12 ár kom loks að því að ég þyrfti að takast á við erfitt mál í pólitík“

Sigmundur svarar fyrir stóra brauðtertumálið – „Eftir 12 ár kom loks að því að ég þyrfti að takast á við erfitt mál í pólitík“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Oscar Leone spilar við opnun þjóðarleikvangs Lúxemborgar

Oscar Leone spilar við opnun þjóðarleikvangs Lúxemborgar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Strippstjarna YouTube leggur hælana á hilluna – Þetta er ástæðan

Strippstjarna YouTube leggur hælana á hilluna – Þetta er ástæðan
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kærastinn talaði upp úr svefni og ljóstraði upp leyndarmáli sem eyðilagði sambandið

Kærastinn talaði upp úr svefni og ljóstraði upp leyndarmáli sem eyðilagði sambandið