fbpx
Þriðjudagur 09.ágúst 2022
Fókus

Renata Sara var strippari í Berlín en starfar nú á OnlyFans – „Ég sagði bara já, að ég væri til í að prófa“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 5. desember 2021 20:30

Renata Sara Arnórsdóttir. Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Renata Sara Arnórsdóttir er 22 ára, fædd og uppalin í Reykjavík. Hún komst ung að ást sinni á dansi og byrjaði í ballett aðeins þriggja ára gömul. Hún æfði til átján ára aldurs og fór þar af í eitt ár í ballettskóla í New York.

Tveimur árum eftir ballettnámið í New York var hún farin að vinna sem strippari í Berlín. Í dag býr hún á Íslandi, er í námi og selur erótískt myndefni á OnlyFans. Hún hefur einnig reynt  fyrir sér sem „sugar baby“ og „cam girl“.

Renata stefnir að því að klára stúdentinn og ætlar svo í lögfræðinám eða listnám. Mannréttindalögfræði heillar hana og eftir að hafa kynnst starfi kynlífsverkafólks brennur hún fyrir réttindum þeirra. Hún segir margt ábótavant í íslenskum lögum þegar kemur að kynlífsvinnu og -verkafólki. Hún vill fyrst og fremst sjá afglæpavæðingu á kaupum og sölu allrar kynlífsþjónustu. Næsta skref væri síðan að setja lög sem tryggja öryggi kynlífsverkafólks.

Skaðsemi núverandi laga

Renata segir það valdi meiri skaða en ella að það sé löglegt að selja vændi en ólöglegt að kaupa. Það skapar meiri hættu fyrir þau sem selja vændi.

„Þegar við erum með kerfi eins og á Íslandi og þá er afglæpavætt að selja kynlíf en ekki að kaupa það. Það gerir það að verkum að viðskiptavinir fara frekar í felur. Oft eru viðskiptavinir af verri gerðinni, því þeir eru frekar tilbúnir að brjóta lög nú þegar og þá einmitt vilja þeir ekki nota sitt rétta nafn, gefa upp neinar persónulegar upplýsingar sem annars gæti kynlífsverkafólk notar til að „screena“ eins og það er kallað, að sjá hver er „öruggur“ og hver ekki. Ef að þeir myndu síðan brjóta á kynlífsverkafólki þá gæti það ekki endilega sagt til um hver þetta væri,“ segir hún.

Þar að auki gera núverandi lög það erfiðara fyrir kynlífsverkafólk að starfa í öruggu húsnæði þar sem viðskiptavinirnir eiga alltaf í hættu að komast í kast við lögin fyrir að kaupa þjónustuna. Þar af leiðandi þarf kynlífsverkafólk að fara ýmsar krókaleiðir til að sinna vinnunni sinni.

Mynd/Ernir

Mikil viðbrigði að fara til New York

Renata byrjaði ung í ballett, um þriggja ára gömul. Þegar hún var sextán ára fékk hún boð um að fara í ballettnám í New York. Hún fór fyrst um sinn í þrjár vikur en sneri aftur út og var í ár í skólanum. Hún segir að það hefðu vissulega verið mikil viðbrigði að fara úr grunnskóla í Reykjavík í ballettskóla í New York, þar sem samkeppnin var hörð og menningin allt öðruvísi.

Það gerði það þó að verkum að það var ekki svo stórt stökk fyrir hana að flytja til Berlínar nokkrum árum seinna.

Renata sneri aftur heim eftir ársnám í ballettskólanum. Nokkrum mánuðum seinna hætti hún að æfa til að huga betur að andlegri heilsu. Hún var komin með mjög slæma átröskun og reyndi að taka eigið líf. „Það er erfitt að ná bata frá átröskun þegar þú ert að æfa fyrir framan spegil alla daga og ert í þannig umhverfi, þar sem þú átt að vera eins lítil og þú mögulega getur „án þess að vera með átröskun,““ segir hún.

Til að byrja með fékk Renata litla hjálp en þegar hún komst inn á Hvíta bandið byrjaði bataferlið fyrir alvöru. Hún er á góðum stað í dag en segir að glíman við átröskun sé eitthvað sem fylgir manni alla ævi.

Hrottalegt ofbeldissamband

Renata lagði stund á nám við MH eftir að hún hætti í dansinum. Eftir um eitt og hálft ár ákvað hún og vinkona hennar að flytja til Berlínar. Þar kynntist Renata karlmanni sem virtist ljúfur og góður við fyrstu kynni en þegar leið á sambandið byrjaði hann að sýna sínar réttu hliðar.

„Ég kynntist honum stuttu eftir að ég byrjaði að strippa. Við kynntumst bara á Tinder. Við vorum saman í eitt ár. Hann byrjaði á því að vera með svona „lovebombing“ þar sem hann sagði alla réttu hlutina, að ég væri svo æðisleg og frábær. Síðan um leið og ég gerði eitthvað sem honum mislíkaði þá kom andlega ofbeldið inn. Síðan breyttist það í líkamlegt ofbeldi sem þróaðist síðar út í andlegt, líkamlegt og kynferðisofbeldi. Ég komst loks út úr sambandinu og kom mér burt,“ segir hún.

Renata fékk áfallastreituröskun eftir sambandið og þróaði með sér agorafóbíu, sem er ofsahræðsla við að fara út úr húsi. Hún ákvað að flytja aftur til Íslands.

„Þegar ég kom til Íslands byrjaði ég á því að leita til Bjarkarhlíðar og fór að reyna að finna sálfræðinga sem sérhæfa sig í áföllum. Þannig fann ég sálfræðinginn minn sem ég er enn með í dag, en hann sérhæfir sig í EMDR-meðferð. Það hefur reynst mér ótrúlega vel, sú meðferð, og hefur gjörsamlega breytt lífi mínu,“ segir hún.

Renata þegar hún vann sem strippari í Berlín. Með henni er vinkona hennar, Blue. Aðsend mynd.

Byrjaði að strippa í Berlín

Þegar Renata flutti fyrst til Berlínar leitaði hún sér strax að vinnu. Hún var að skoða atvinnuauglýsingar og sá að strippstaður var að auglýsa eftir barþjóni. Hún fór í atvinnuviðtal og var ráðin á staðnum. „Hann sagði svo að það vantar alltaf dansara ef ég hefði áhuga. Ég sagði bara já, að ég væri til í að prófa. Hann sagði að ég gæti byrjað sama kvöld, sem ég gerði,“ segir hún.

„Fyrsta kvöldið var svona blanda af spennu og kvíða. Ég hef alltaf elskað að vera uppi á sviði og dansa þannig það var mjög eðlilegt fyrir mér, það var ekki erfiði parturinn. En ég er með félagskvíða þannig erfiði parturinn var að tala við kúnnana. En mjög fljótlega tengdist ég öðrum strippurum sem kenndu mér á þetta, hvernig þetta virkaði. Hvernig maður á að setja mörk og virða þau og fá aðra til að virða þau. Þær hjálpuðu mér með allt,“ segir hún einlæg. „Maður er alltaf að reyna að selja, einkadans eða fá þá til að kaupa handa manni drykk eða eitthvað.“

Renata dansaði ekki lengi á fyrsta staðnum en fyrrverandi kærasti hennar vildi að hún myndi hætta. „Ég bara hlýddi. Síðan fór ég ekki aftur að strippa fyrr en tveimur árum seinna,“ segir hún.

Renata í Berlín. Aðsend mynd.

Auðvelt skotmark

Eftir að sambandinu lauk sótti hún um á öðrum stað. Hún segir að ýmislegt hefði verið varhugavert varðandi öryggi dansaranna og gæslu á staðnum.

„Maður er rosalega auðvelt skotmark, kynlífsverkafólk yfir höfuð er mjög auðvelt skotmark fyrir ofbeldi og ofbeldisfólki. Það eru svo miklir fordómar í samfélaginu og samfélagið er ekki endilega að kippa sér upp við það að það sé verið að beita okkur ofbeldi, heldur horfir þannig á að við völdum okkur þessa stétt og þannig valið okkur þetta ofbeldi,“ segir Renata og segir að hún fór ýmsar leiðir til að tryggja eigið öryggi.

„Ég lét alltaf leigubílinn sækja mig nokkrum húsum neðar og skutla mér síðan að götunni hliðina á minni. Maður hefur heyrt alls konar hryllingssögur um menn sem elta strippara heim.

Vill sjá stað hérlendis rekinn af kynlífsverkafólki

Eftir að hafa starfað sem strippari á tveimur mismunandi stöðum veit Renata hvað hún myndi vilja sjá ef slíkur staður væri opnaður hér á landi.

„Ef það væri opnaður strippklúbbur hérlendis væri ég til að sjá hann rekinn af kynlífisverkafólki því það veit hvað við þurfum. Sérstaklega þegar kemur að öryggi. Það var mjög margt sem vantaði upp á öryggi á staðnum sen ég vann á. Þetta var ekki rekið eins og fyrirtæki, en vinir eigandans voru tíðir gestir og þetta voru bara einhverjir vinir að skemmta sér. Þeir voru kannski að koma inn og ekki að borga eða kaupa neitt, sem var mjög frústerandi. Það var ekki nógu mikið af öryggisvörðum og nógu mikið af myndavélum. Ég hefði líka viljað sjá bannlista sem viðskiptavinir færu á ef þeir kæmu illa fram við starfsmenn. Það er svo mikilvægt að huga að öryggi kynlífsverkafólks. Í Bandaríkjunum er það oft gert að öryggisverðir fylgja dönsurunum út að bíl eftir vakt, svo að það sé engin hætta á því að einhver kúnni sé að bíða eftir að dansararnir komi út og ná þeim meðan þær eru einar. Það eru alls konar öryggisatriði sem eru til staðar sem við erum meðvituð um því við höfum upplifun og reynslu af þessu.“

Mynd/Ernir

Kýld í magann af viðskiptavini

Renata lýsir einu atviki á staðnum sem gerði henni ljóst að eiganda staðarins væri aðeins annt um að græða en ekki öryggi og vellíðan starfsmanna.

„Ég var nýbúin að dansa uppi á sviði og var að ganga hringinn. Þegar maður er búinn að dansa gengur maður hring í kringum sviðið og biður um þjórfé. Ég kem að hópi karlmanna sem voru allir saman og einn þeirra rassskellir mig svo fast að ég fékk handarfar og marblett eftir hann. Mér brá svo og ég snöggreiddist og gaf honum löðrung. Hann kýldi mig þá í magann,“ segir hún.

Enginn stöðvaði manninn eða tók hann afsíðis. Renata fór rakleitt inn í búningsklefa. „Ég var svo reið og í miklu uppnámi. Ég sagði eigandanum að ég gæti þetta ekki, ég gæti ekki klárað vaktina og þurfti að fara heim að ná mér niður,“ segir hún.

Hún segir að manninum var ekki hent út, heldur einungis fengið smá skammir um að þetta væri ekki í lagi en hann mátti halda áfram að skemmta sér á staðnum.

Íslenskir kampavínsklúbbar

Aðspurð hvort hún hefði eitthvað skoðað svokallaða kampavínsklúbba hérlendis þegar hún flutti aftur heim svarar hún játandi en var hikandi vegna skorts á upplýsingum um staðina.

„Ég gat ekki fundið nógu mikið af upplýsingum um þá. Ég hef það á tilfinningunni að þeir séu frekar faldir og starfsemin þeirra er ekki mjög áberandi. Ég í rauninni veit voða lítið um hverjir eru að vinna þar. Sem kynlífsverkakona og kona í samtökunum Rauða Regnhlífin þá langar mig að heyra í konunum sem vinna þar og heyra hvað þær hafa að segja,“ segir hún.

„Þess vegna viljum við afglæpavæðingu svo svona starfsemi þurfi ekki að vera hluti af undirheimunum.“

Renata á klúbbnum í Berlín. Aðsend mynd.

Reyndi fyrir sér sem „sugar baby“

Eftir að Renata flutti til Íslands byrjaði hún á OnlyFans, en áður en hún tók það skref prófaði hún að vera „sugar baby“.

„Ég reyndi það en mér fannst bara of erfitt að tala svona mikið og lengi við karlmenn. En þegar maður er að vinna á strippklúbbi þá gengur maður bara inn á staðinn og síðan fer maður heim og þá er maður ekki í vinnunni, það er meira aðskilið hvenær þú ert að vinna og hvenær þú ert að hvíla þig og gera það sem þér finnst skemmtilegt,“ segir hún.

„Síðan hef ég líka prófað að vera „cam girl“ þar sem ég er að „live stream-a“ heiman frá mér. Fólk getur gefið þjórfé fyrir alls konar hluti.“

Renata segir að henni hefði þótt það ágætt en viðurkennir að skipulagshæfni hennar sé ekki góð og það henti henni mun betur að vera í vinnu þar sem hún getur einfaldlega bara mætt, sinnt vinnunni og farið heim.

Hún starfrækir núna OnlyFans-síðu. „Kynlífsvinna á netinu er mjög erfið fyrir mig því þú þarft að vera mjög regluleg, skipuleggja þig vel eins og hvenær þú deilir hinu og þessu. Og ég er bara ekki góð í því og ég á líka erfitt með það þegar ég er líka í skóla,“ segir hún.

Fyrsta kynlífsmyndbandið væntanlegt

Renata er að fara að taka þátt í sínu fyrsta kynlífsmyndbandi með öðrum á næstu vikum. Hún ætlar að vinna með öðrum íslenskum OnlyFans-stjörnum, Ósk Tryggvadóttur og Ingólfi Valssyni sem vöktu mikla athygli fyrr á árinu fyrir að tala opinskátt og hreinskilnislega um starf sitt í hlaðvarpsþættinum Eigin Konur.

„Við erum að huga að þessu núna í desember. Fyrst og fremst er ég að hugsa um að klára önnina og prófin núna. Svo sjáum við til hvort þetta verði í desember eða janúar. Það er náttúrulega mikið að gera hjá öllum í desember, jólastressið og svona,“ segir hún og brosir.

Renata kallar sig Mia The Art Hoe á samfélagsmiðlum og OnlyFans. Þetta er eins konar annað sjálf sem hún hefur búið til í gegnum kynlífsvinnuna. Það byrjaði á Twitter, en það er hægt að fylgjast með henni á Instagram og Twitter. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr segir íslenskar jarðarfarir leiðinlegar og íhugar nýjan starfsvettvang

Jón Gnarr segir íslenskar jarðarfarir leiðinlegar og íhugar nýjan starfsvettvang
Fókus
Fyrir 2 dögum

Eitraðar pillur í harðskeyttri deilu áhrifavaldanna Þórunnar og Alexsöndru – „Ég mun aldrei fá að segja mína sögu”

Eitraðar pillur í harðskeyttri deilu áhrifavaldanna Þórunnar og Alexsöndru – „Ég mun aldrei fá að segja mína sögu”
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sigurður vaknaði slappur og líf hans gjörbreyttist – ,,Þau ykkar sem halda að Covid sé bara eins og hver önnur flensa vil ég segja – Bítið í ykkur“

Sigurður vaknaði slappur og líf hans gjörbreyttist – ,,Þau ykkar sem halda að Covid sé bara eins og hver önnur flensa vil ég segja – Bítið í ykkur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kalt stríð milli Victoriu Beckham og tengadótturinnar

Kalt stríð milli Victoriu Beckham og tengadótturinnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Simmi opnar sig um kjaftasöguna sem gekk í kjölfar skilnaðarins – „Ég hef stundum verið talinn hommi“

Simmi opnar sig um kjaftasöguna sem gekk í kjölfar skilnaðarins – „Ég hef stundum verið talinn hommi“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ryan Seacrest með allt á útopnu í tveimur neyðarlegum atvikum

Ryan Seacrest með allt á útopnu í tveimur neyðarlegum atvikum
Fókus
Fyrir 5 dögum

Íslendingar á Twitter missa sig yfir eldgosinu – „Held ég hafi séð þessa mynd áður“

Íslendingar á Twitter missa sig yfir eldgosinu – „Held ég hafi séð þessa mynd áður“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Keppandi í Bachelorette biðst afsökunar á óásættanlegri framkomu

Keppandi í Bachelorette biðst afsökunar á óásættanlegri framkomu