fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Melkorka reyndi fyrir sér á barnum með gervirass – Viðbrögðin voru ótrúleg

Tobba Marinósdóttir, Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 30. september 2020 21:30

Melkorka fyrir og eftir rassagervið. Mynd: New York Post

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin hálfíslenska Melkorka Licea er blaðamaður hjá New York Post. Hún fær alls konar hugmyndir sem hún prófar á strætum stórborgarinnar og skrifar um reynslu sína. Allt frá gervirössum og sverðgleypingum upp í sóttvarnavæn pils. Hún segir stefnumót á Covid-tímum flókin og ljóst að ef viðkomandi er ekki með grímu á stefnumótinu að hann sökkar.

Melkorka er fædd á Íslandi en flutti til Bandaríkjanna þegar hún var tveggja ára. Hún er dugleg að heimsækja Ísland og varði sumrunum hérlendis sem barn. Melkorka lærði fjölmiðlafræði í Evergreen State College í Washington og ákvað í kjölfarið að flytja til New York og láta drauma sína um að verða blaðamaður í stórborginni rætast.

„Flestir sem flytja til New York fá að sjálfsögðu ekki draumastarfið sitt um leið. Ég fékk vinnu á veitingastaðnum Pianos með hjálp Hrannar frænku minnar,“ segir Mel-korka og vísar hér í móðursystur sína, Hrönn Sveinsdóttur framkvæmdastjóra Bíó Paradísar. „Eftir vinnu eitt kvöldið var ég á öðrum bar ásamt samstarfskonum mínum og nokkrum viðskiptavinum, og einn þeirra hafði unnið um tíma hjá New York Post. Hann sagðist geta komið ferilskránni minni á borðið hjá þeim.

Nokkrum mánuðum seinna var ég komin í láglaunastarf þar sem „copy kid“ – sem er eins konar lærlingsstaða fyrir nýútskrifaða háskólakrakka sem sjá um að koma útprenti af síðunum í blað morgundagsins til samþykktar til ritstjóranna.“

Lélegt þjórfé í blindbyl

Melkorka hefur mætt fjölda ólíkra verkefna í starfi sínu. Sumum erfiðari en öðrum. Hún rifjar upp kröfuharðasta verkefnið hingað til. „Veturinn 2016 var ég nýbyrjuð að vinna sem viðskiptablaðamaður fyrir The Post. Það var búið að spá snjóbyl í New York um kvöldið. Yfirmenn mínir fengu þessa frábæru hugmynd, að sjá hvort ég gæti verið í samfloti með heimsendingarþjónustu og séð hvernig það væri að afhenda mat í hríðarbyl á Manhattan. Ég fann einhvern veginn fyrirtæki sem var tilbúið að leyfa mér að vinna hjá þeim þetta kvöld og ég fór um alla borgina á hjóli með bakpoka fullan af mat. Ég endaði með að fá virkilega lélegt þjórfé frá bankamanni hjá JP Morgan og það gerði söguna mun betri. Þetta var klárlega líkamlega erfiðasta verkefnið mitt, en vel þess virði.“

Gervirassinn gerði vel

Melkorka hefur einnig fengið alls konar skemmtilegar hugmyndir og sannreynt þær á sjálfri sér. Svo sem að klæðast gervirassi sem hannaður er eftir bakhluta raunveruleika-stjörnunnar Kim Kardashian.

Melkorka skrifaði grein um reynslu sína sem byggði á því að hún fór í hárgreiðslu og förðun að hætti Kim, klæddist svipuðum kjól og Kardashian hefur klæðst og klæddi sig í gúmmístuttbuxur sem stækkuðu bakhluta hennar upp í sömu stærð og lögun og raunveruleikadrottningarinnar.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Karlmenn hreinlega göptu á eftir Melkorku og nokkrir þeirra reyndu að tala við hana á bar eða gáfu henni hýrt auga. Hún segir gúmmíafturendann hafa litið nokkuð eðlilega út undir fatnaði en það hafi verið verulega óþægilegt að klæðast honum.

Melkorka með rasinn fræhga. (Tamara Beckwith/NY Post)

Kim Kardashian of New York

Melkorka lýsir í greininni aðstæðum og samskiptum við mennina á barnum. Ungur maður gaf sig fyrst á tal við hana fullur sjálfstrausts og sagði hana vel geta verið „the Kim Kardashian of New York“.

Hann sagðist ekki hafa haldið að bakhluti Melkorku væri fullkomlega náttúrulegur en tekur þó fram að það hafi ekki gert afraksturinn minna spennandi. „Ég sá hann og hugsaði samt: Vá, þetta lítur vel út,“ hefur Melkorka eftir unga manninum í skrifum sínum. Miðaldra aðdáendurnir voru ekki eins glöggir.

„Þeir héldu að hann væri alvöru,“ sagði starfsmaður barsins mér sem fylgdist með. Ég hugsaði „jeez“ það hlýtur að vera gaman að vera alltaf svona sjóðheit.“

Melkorka lýsir í greininni hvernig barist var um athygli hennar en lokaniðurstaðan sé þó alltaf sú að hún hafi þurft að kveðja mennina, fara heim og reyna að komast úr níðþröngum, óþægilegum gúmmígallanum, sem þykir líklegt til að stúta stemmingunni sé farið heim með manni. Þar að auki hafi hún virkilega meitt sig við að koma sér í og úr ferlíkinu.

Þetta er þó ekki flippaðasta hugmynd blaðakonunnar skemmtilegu. Í miðjum CO-VID-19 faraldrinum ákvað Melkorka að sérpanta sér pils sem tryggði fjarlægðartakmörk og reyna fyrir sér í miðborginni með misjöfnum hætti. Hún hefur einnig reynt fyrir sér sem eld- og sverðgleypir þegar hún gekk til liðs við Coney Island Sideshow School vegna greinaskrifa.

Melkorka með gervirassinn í göngu. Stylist: Nicole Zane, Hair: @marcomaranghello, Make-up: Oscar Caballero.(Tamara Beckwith/NY Post)

Fann nýjar upplýsingar í morðmáli

Þrátt fyrir alls konar hressilega reynslu sem blaðakona í hinum ýmsu verkefnum segir Melkorka að henni þyki vænst um þær greinar þar sem fólk treystir henni fyrir viðkvæmri og erfiðri reynslu úr lífi sínu eða þegar möguleiki er á að varpa nýju ljósi á þung mál.

„Ein af sögunum sem ég hef skrifað og snerti mig hvað mest var um ungan mann sem var sakaður um að hafa myrt samkynhneigðan bekkjarfélaga sinn af gyðingaættum.

Ég rannsakaði málið og uppgötvaði tengsl gerandans við nýnasistagrúppur og tilhneig-ingu hans til þess að skrifa og birta hatursorðræðu tengda því. Hann var seinna kærður fyrir hatursglæpi og morð.“

Melkorka segir viðtöl sem hún hefur tekið við foreldra sem hafa misst börn og fundið lífsviljann á ný hafa snert sig djúpt. „Ég tók viðtal við tvær mæður sem höfðu misst börn. Önnur missti son sinn þegar faðir hans stökk fram af húsþaki með hann og hin hafði reynt að bjarga börnum sínum úr brennandi húsi og brennst sjálf illa. Ég var djúpt snortin að þær skyldu treysta mér til að tjá sig í fyrsta skipti opinberlega um harmleikina sem þær upplifðu og hvernig þær fundu viljastyrk til þess að halda lífinu áfram og sjá tilgang í lífinu á ný.“

Umhyggja rótgróin í íslenskri menningu

Melkorka fékk sinn fyrsta nasaþef af fjölmiðlum hjá Reykjavík Grapevine. Hún vann þar sem nemi í tvö sumur á meðan hún var í háskóla. „Þetta var mín fyrsta reynsla af „fréttastofu“. Ég set þetta í gæsalappir því þó svo að skrifstofan þeirra hafi verið notaleg þá var þetta ekki beint fréttastofa í hefðbundnum skilningi.

Til að vera hreinskilin þá held ég að íslenskir fjölmiðlar séu almennt mannúðlegri. Það er rótgróið í menningu okkar að hugsa um hvert annað vegna íslenskrar nálægðar og stjórnmála, en það er ekki sömu sögu að segja um Bandaríkin.“

Aðspurð hvaða greinar fá mesta athygli hjá New York Post svarar Melkorka: „Allt með bitastæðum vinkli – ef það er bitastætt, þá fylgja smellirnir.“

Hún hefur margsinnis lent í vandræðum vegna greinaskrifa sinna. „Of oft til þess að geta talið. Ég var einu sinni kærð vegna greinar sem ég skrifaði því ég notaði orðið „Grinch“ til að lýsa einhverjum á kaldhæðinn hátt.“

Grinch er tilvísun í einhvern sem er geðvondur og hefur ekki áhuga á að samgleðjast. Melkorka segir að málið hafi verið fellt niður sér til mikillar gleði.

Melkorka reynir fyrir sér í pilsi sem tryggir kurteisisfjarlægð. (Photo by Tamara Beckwith/NY POST)

New York á tímum COVID

Melkorka heillast af stórborgarlífinu og dáist að þrautseigju New York-búa á tímum COVID. „Þetta er þrautseigasta fólk á plánetunni og ég myndi segja að það sé að standa sig prýðilega í að díla við einangrunina, miðað við allt. Það notar grímurnar sínar, hjálpar hvert öðru og lætur hlutina ganga upp. Samt sem áður eru allir mjög tilbúnir í að þessu ljúki. Við þurfum bjórbúllurnar okkar aftur.“

Aðspurð hvernig stefnumótalífið sé í New York á tímum COVID segist hún ekki hafa sjálf reynslu af því þar sem hún sé í sambandi. „En ég hef heyrt frá öðrum að þetta sé frekar áhugaverð upplifun. Í fyrsta lagi, ef einhver notar ekki grímu á fyrsta stefnumótinu þá veistu sjálfkrafa að manneskjan sökkar og stefnumótið er búið áður en það byrjar. Það er líka mikið af fyndnum aðstæðum sem geta komið upp.“

Hún nefnir dæmi. „Takið þið grímuna niður þegar þið hittist fyrst til að sjá andlit hvort annars? Og svo er það vandamál ef þú ert með meðleigjanda sem er á móti því að þú komir heim með einnar nætur gaman í faraldrinum. Mikið af skemmtilegum nýjum vandamálum að díla við.“

Stefnumótalífið á Íslandi hefur sína kosti fram yfir stefnumótalífið í New York að mati Melkorku. „Það litla sem ég hef deitað á Íslandi var mjög skemmtilegt. Ég er hrifin af því að konur, sem skilgreina sig sem konur, eigi það til að vera meira við stjórnina og taka fyrsta skrefið og eiga frumkvæðið, sem er minn stíll.

En það er erfitt að deita í New York. Það er mikið af fávitum, margir munu koma illa fram við þig og síðan hætta að tala við þig án nokkurra skýringa og margir munu yfirfæra skrýtnu vandamálin sín yfir á þig.“

 

Íhugaði að flytja til Íslands

Áður en kórónaveirufaraldurinn hófst var venjulegt kvöld í stórborgarlífi Melkorku nokkuð rólegt. „Ég fór á æfingu eftir vinnu, eldaði kvöldmat, horfði á sjónvarpið eða vann jafnvel í grein. Um helgar fór ég venjulega út að borða eða í bíó með kærastanum mínum og hitti síðan vini mína á nálægum bar og stundum var kíkt eitthvað lengra,“ segir hún.

Melkorka viðurkennir að hún hafi hugsað um að flytja til Íslands á tímum COVID. „Eins mikið og ég elska það, þá heillast ég af stórum borgum og vil búa mér heimili í stórborg.

NEW YORK – February,13 2020: FOR FEATURES. Melkorka tests out the prosthetic Kim Kardashian butt at Taco Dumbo. Stylist: Nicole Zane, Hair: @marcomaranghello, Make-up: Oscar Caballero. (Tamara Beckwith/NY Post)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Fyrir 2 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 5 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla