fbpx
Mánudagur 28.september 2020
Fókus

„Það er eins og hún geti ekki sætt sig við „nýju konuna“ sem er núna orðin stjúpmóðir barna hennar“

Fókus
Sunnudaginn 9. ágúst 2020 20:30

Kristín Tómasdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir, hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem reynir að fóta sig sem stjúpforeldri.

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Ég og sambýlismaður minn erum búin að vera saman í tvö ár. Við eigum eitt barn saman og maðurinn minn á síðan tvö börn frá fyrra sambandi sem eru hjá okkur aðra hvora viku. Mér hefur gengið ágætlega að mynda tengsl við stjúpbörnin mín og sambandið okkar er gott. Samskiptin á milli mín og barnsmóður mannsins míns eru hins vegar mjög stirð og hafa alltaf verið. Það er eins og hún geti ekki sætt sig við „nýju konuna“ sem er núna orðin stjúpmóðir barna hennar. Ég veit að hún hefur talað illa um mig fyrir framan börnin sín og það er eins og hún geti ekki samþykkt það að ég er partur af þeirra lífi. Ég hef alltaf reynt að koma fram við hana af virðingu og sýna henni tillitssemi en núna er mælirinn fullur. Maðurinn minn virðist eiga erfitt með að setja henni mörk og við höfum ósjaldan rifist út af þessu. Ég vil ekki að þetta eyðileggi sambandið okkar en ég er alveg að fara að gefast upp. Hvernig er best að taka á þessu?

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Skýrari mörk

Sælar. Takk fyrir spurninguna sem ég efast ekki um að margir stjúpforeldrar geta tengt við, klassískur stjúpforeldravandi en það gerir hann ekki auðleystan.

Í fyrsta lagi vil ég hrósa þér fyrir að hafa myndað góð tengsl við stjúpbörnin þín. Það skiptir mestu máli en getur verið flókið, sérstaklega ef þú ert ekki með mömmu þeirra á þínu bandi.

Þú nefnir að móðir þeirra geti ekki samþykkt þig og þá spyr ég; er það hennar? Eruð það ekki þú og sambýlismaður þinn sem veljið að vera saman og hans að taka ákvörðun um það hvort þú sért stjúpmóðir barnanna hans eða ekki? Það væri a.m.k. ekki heillavænlegt ef fyrrverandi sambýliskonur ættu að velja núverandi sambýliskonur

Það sem ég hef pínu áhyggjur af er að þetta er að koma upp á milli þín og sambýlismannsins. Þar þarf fókusinn að vera. Hvernig er hægt að skýra mörkin? Hvernig er hægt að auðvelda honum að setja mörk? Getið þið fengið utanaðkomandi aðstoð við það? Stundum hljómar slíkt óyfirstíganlegt en ég leyfi mér að fullyrða að einn tími í fjölskyldumeðferð gæti gert ykkur öll sáttari. Það er hægt að hjálpa ótrúlegasta fólki að bæta samskipti, skýra mörk, tileinka sér aðra samskiptahætti eða afmarka umræðuefni.

Sýna gott fordæmi

Ef þú og barnsmóðirin getið alls ekki rætt saman, þá gæti verið ráð að skoða hvort það sé yfir höfuð nauðsynlegt. Væri kannski best ef þú og sambýlismaður þinn mynduð sammælast um að samskiptin fari alfarið fram í gegnum hann? Þannig stafar fyrrverandi minni ógn af þér og þú þarft ekki að díla við hana. Í ljósi þess að þú ert alveg að gefast upp þá verð ég að benda þér á að þér ber engin skylda til þess að vera í bandi við fyrrverandi konu sambýlismannsins þíns. Mögulega getur þú einfaldað samskiptin eða bara dregið þau mörk að þú sért ekki inni í þeim.

Á hinn bóginn getur þú ekki svo glatt breytt því hvað fyrrverandi kona sambýlismannsins gerir. Ef hún velur að tala illa um þig fyrir framan börnin þá er lítið sem þú getur gert til þess að koma í veg fyrir það. Aftur á móti læra börn betur það sem gert er fremur en það sem sagt er. Ef þú sýnir fordæmi og hegðun sem þú vilt að stjúpbörnin þín kunni að meta þá er líklegra að þau taki mark á þeirri hegðun en þeim orðum sem þau heyra um þig. Á endanum eru það þau sem umgangast þig og þau sem geta lagt raunverulegt mat á það hvaða mannkosti þú hefur að bera.

Finna jafnvægið

Að lokum bendi ég þér á bók sem heitir Stjúptengsl eftir Valgerði Halldórsdóttur. Þar eru hinir ýmsu kimar stjúpfjölskyldna reifaðir, bæði á fræðilegum grunni en einnig út frá reynslu íslenskra stjúpfjölskyldna. Þar kemur meðal annars hugtakið stjúpblinda fram. Þegar rætt er um „stjúpblindu“ er átt við að stjúptengsl eru ósýnileg á öllum sviðum samfélagsins. Hlutverk blóðforeldra er miklu skýrari og um það er skrifað í lög, Biblíuna, lífsleiknibækur og þó víðar væri leitað. Stjúphlutverkið er ekki jafn skýrt og upplifa margir stjúpforeldrar fyrir vikið að þau séu vanmetin, ofmetin og að þeirra staða sé annað hvort tekin sem sjálfsögð eða að eftir kröftum þeirra sé ekki óskað við ákveðnar aðstæður. Það er erfitt að finna jafnvægið í tengslum við hvenær stjúpforeldrar mega skipta sér af og hvenær ekki, hvenær þau mega taka ábyrgð og hvenær það er óæskilegt.

Mögulega ættuð þið hjónin að nýta uppgjöf þína í að spyrna við fótum. Þá á ég við setja ykkur skýran ramma um hvernig þið viljið hátta þessum málum, fá þá aðstoð sem þið þurfið og reyna að njóta þess sem vel gengur og tækla það sem betur má fara. Ég veit þið getið það!

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Þetta eru bestu skáldsögurnar að mati álitsgjafa DV

Þetta eru bestu skáldsögurnar að mati álitsgjafa DV
Fókus
Í gær

Uppáhaldsbílar Sigríðar Elvu

Uppáhaldsbílar Sigríðar Elvu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Notaðir smokkar seldir sem nýir í ótrúlegu magni

Notaðir smokkar seldir sem nýir í ótrúlegu magni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þóranna krafðist þess að Síminn fjarlægði teiknimynd: „Mér gersamlega blöskraði“

Þóranna krafðist þess að Síminn fjarlægði teiknimynd: „Mér gersamlega blöskraði“