fbpx
Þriðjudagur 11.ágúst 2020
Fókus

Dularfullt hvarf þriggja bræðra

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 18. júlí 2020 20:00

John Skelton árið 2015. MYND/ DEPARTMENT OF CORRECTION, IONIA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 27. júlí næstkomandi kemur maður að nafni John Skelton fyrir nefnd vegna beiðni um reynslulausn. Árið 2011 var hann dæmdur í 10 til 15 ára fangelsi fyrir mannrán og ólöglega frelsissviptingu. Þolendur þess glæps voru synir hans þrír, Andrew 9 ára, Alexander 7 ára og Tanner 5 ára. Mál þetta er allt hið undarlegasta en ekki hefur sést til drengjanna síðan 26. nóvember árið 2010.

Hjónin John og Tanya Skelton bjuggu í smábænum Morenci í Michigan og þau eignuðust þessa drengi upp úr aldamótum. Sambúð hjónanna var ekki stormasöm á yfirborðinu, en erfiður ágreiningur um lykilatriði var hjónunum þó fjötur um fót: John vildi flytja með fjölskylduna til Flórída. Það vildi Tanya ekki heyra minnst á. John gerði sér hins vegar lítið fyrir, skráði drengina úr skólanum í Morenci, og hélt með þá til Flórída án þess að segja Tönju frá því. Hún hafði samband við lögreglu er hún komst að því hvað hafði gerst, alríkislögreglan gekk í málið og drengirnir voru endurheimtir af föðurnum. Í kjölfarið sótti Tanya um skilnað og var veittur skilnaður að borði og sæng. Hún fékk jafnframt fullt forræði yfir sonunum, en John fékk takmarkaðan umgengnisrétt. Hjónin bjuggu áfram í smábænum Morenci, en hvort í sínu lagi, eins og liggur í augum uppi.

Bræðurnir þrír. MYND/NATIONAL CENTER FOR MISSING & EXPLOITED CHILDREN

Örlagarík helgi

Helgina í kringum þakkargjörðarhátíðina árið 2010 voru strákarnir hjá John, sem bjó nokkrum götum frá barnsmóður sinni Tönju. Á mánudeginum mættu drengirnir hins vegar ekki í skólann og Tönju var gert viðvart. Er hún náði símasambandi við John hafði hann ótrúlegar fréttir að færa. Hann sagðist hafa komið drengjunum í fóstur hjá fólki sem ræki leyniathvarf (e. underground sanctuary) fyrir börn. Þegar Tanya krafðist þess að hann næði í börnin, sagðist hann ekki geta gert neitt í málinu í bili þar sem hann lægi á spítala, veikur eftir sjálfsvígstilraun! Sem vænta má varð Tanya viti sínu fjær af skelfingu og hafði samband við lögreglu.

Í lögregluyfirheyrslum skömmu síðar sagði John að fólkið sem hann hefði komið drengjunum fyrir hjá tengdist Amish-söfnuði. Hann sagðist hafa tekið þessa örvæntingarfullu ákvörðun vegna þess að hann vildi bjarga drengjunum undan ofbeldi móður þeirra. John hafði áður sakað Tönju um – og ítrekaði nú þær ásakanir – að hún beitti drengina andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Vísaði hann jafnframt til þess að hún væri dæmdur kynferðisbrotamaður. Það var raunar rétt. Árið 1998 var Tanya sakfelld fyrir samræði við 14 ára dreng, en á þeim tíma var hún sjálf nálægt þrítugu. Fékk hún fangelsisdóm og lenti á lista yfir kynferðisbrotamenn.

Hins vegar leiddu rannsóknir barnaverndaryfirvalda ekki í ljós neitt sem benti til þess að Tanya hefði nokkurn tíma beitt syni sína ofbeldi. Raunar voru niðurstöðurnar þær að hún væri frábær móðir.

Tanya Zuvers vill svör frá John. MYND/ YOUTUBE

Hvað gerði hann við drengina?

„Hvað gerðirðu við syni mína?“ hrópaði Tanya á barnsföður sinn. Við þeirri spurningu hafa aldrei fengist svör. Um fimm hundruð manna leitarlið fínkembdi svæðið í kringum Morenci og meðal annars fór fram víðtæk leit í skóglendi. En án árangurs.

Húsleit var gerð heima hjá John. Tölva hans var gerð upptæk og kom í ljós að hann hafði skömmu fyrir hvarf drengjanna aflað sér upplýsinga um eiturbyrlun. Enn fremur hafði hann skrifað: „Guð og Tanya fyrirgefi mér!“

Upplýsingarnar sem John gaf um fólkið sem hann sagðist hafa sett drengina í umsjá hjá, reyndust gagnslausar. Ekki tókst að hafa uppi á neinum sem passaði við lýsingar hans. Rannsókn lögreglu breyttist brátt úr rannsókn á mannshvörfum í morðrannsókn. Ekki tókst þó að afla nægilegra gagna til að ákæra John fyrir morð. Hann var ákærður og fundinn sekur um mannrán og ólöglega frelsissviptingu og dómurinn var 10 til 15 ár.

Tanya, sem nú ber eftirnafnið Zuvers, viðurkennir að John hafi verið góður faðir. Hún telur hins vegar að hann hafi verið skelfingu lostinn og gert eitthvað hræðilegt. Hún hefur reynt að halda athygli almennings á málinu með viðtölum við fjölmiðla, auk þess sem hún hefur skrifað mikið um syni sína og hvarf þeirra á Facebook-síðu sína.

Í viðtölum við fjölmiðla hefur John sagt að hann geti ekki fundið drengina, vegna þess að hann sé fastur í fangelsi. Hann hefur haldið fast við sögu sína um að hann hafi komið drengjunum í hendur á leynilegum samtökum til að vernda þá fyrir móðurinni.

Mögulegt er að John losni úr fangelsi fyrir lok þessa árs, en sem fyrr segir verður umsókn hans um reynslulausn tekin fyrir hjá fangelsismálanefnd síðar í sumar.

Jafnt rannsóknarblaðamenn sem rannsóknarlögreglumenn í Michigan hafa enn mikinn áhuga á hvarfi drengjanna og freista þess að ráða gátuna. Íbúar í smábænum Morenci hafa ekki gleymt bræðrunum þremur og þrá að málið upplýsist.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 4 dögum

Hrafnhildur Gunnars: Áður fyrr óhugsandi að tvær lesbíur og tveir hommar myndu eignast barn saman

Hrafnhildur Gunnars: Áður fyrr óhugsandi að tvær lesbíur og tveir hommar myndu eignast barn saman
Fókus
Fyrir 4 dögum

Góður undirbúningur skilar sér í vel heppnaðri útilegu

Góður undirbúningur skilar sér í vel heppnaðri útilegu
Fókus
Fyrir 6 dögum

Óttaðist að enda sem versta martröð súkkulaðinuddarans

Óttaðist að enda sem versta martröð súkkulaðinuddarans
Fókus
Fyrir 6 dögum

„Ok svo þið vitið það fyrirfram þá er ég að stela hugmyndum af…“

„Ok svo þið vitið það fyrirfram þá er ég að stela hugmyndum af…“
Fyrir 1 viku

Dóttir mín er alltaf í iPadnum

Dóttir mín er alltaf í iPadnum
Fókus
Fyrir 1 viku

Ég var alltaf að fresta hlutum því allt yrði betra þegar ég yrði grönn

Ég var alltaf að fresta hlutum því allt yrði betra þegar ég yrði grönn