fbpx
Mánudagur 26.júlí 2021
Fókus

Sakamál – Starfsmannafundurinn breyttist í martröð

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 17. október 2020 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Amy Bishop var 45 ára fjögurra barna móðir og háskólaprófessor í taugavísindum. Engan grunaði að þegar henni var neitað um fast- ráðningu myndi það hafa banvænar afleiðingar í för með sér.

Hinn 12. febrúar 2010 byrjaði sem hefðbundinn skóladagur í háskólanum í Alabama í Bandaríkjunum. Amy Bishop, prófessor í taugavísindum, mætti til vinnu að venju, kenndi nemendum sínum og mætti svo á starfsmannafund með kollegum sínum í líffræðideild skólans.

Amy var 45 ára gömul. Dökkhærð og fölleit. Hún þótti afburðagreind og státaði af doktorsprófi í taugavísindum frá hinum virta Harvard háskóla. Hún átti eiginmann og fjögur börn og dreymdi um að verða rithöfundur.

Hún sat þögul á fundinum, sem var nokkuð ólíkt henni. Hins vegar gaf fas hennar ekkert til kynna um þann hrylling sem fram undan var.

 

Neitað um fastráðningu

Ljóst var að skólaárið 2009- 2010 yrði síðasta ár Bishop við skólann, þar sem henni hafði verið neitað um fastráðningu tæpu ári fyrr. Bishop var vonsvikin vegna þess, en virtist þó taka tíðindunum af yfirvegun.

Mikil harka getur verið í bandaríska vísindasamfélaginu og eru fastráðningar við háskóla eftirsóttar, enda fylgir því mikið starfsöryggi. Að sama skapi þykir það setja blett á feril vísindamanns þegar honum er neitað um fastráðningu.

Þegar um klukkustund var liðinn af fundinum lét Amy til sín taka. Hún stóð á fætur, greip byssu upp úr handtösku sinni, miðaði henni á sessunaut sinn og tók í gikkinn. Alls voru tólf starfsmenn líffræðideildarinnar viðstaddir þennan fund. Bishop skaut sex þeirra og áttu þrír eftir að láta lífið af sárum sínum.

Baðst vægðar

Á fundinum var stödd kona að nafni Debra Moriarity. Henni og Bishop var ágætlega til vina. Moriarity leitaði skjóls undir fundarborðinu eftir að Bishop hóf skothríðina

Hún reyndi af veikum mætti að koma viti fyrir kunningjakonu sína. Hún greip í fætur Bishop undan borðinu og baðst vægðar: „Hugsaðu um dóttur mína, hugsaðu um barnabarnið mitt.“

Amy Bishop var þó hvergi af baki dottin. Hún beindi byssunni að höfði Moriarity og enn og aftur greip hún í gikkinn.

En ekkert gerðist. Byssan stóð á sér. Þetta veitti Moriarity færi á að koma sér út úr fundarherberginu. Bishop fylgdi í humátt á eftir og greip ítrekað í gikkinn, án árangurs.

Moriarity tókst að komast undan Bishop, aftur inn í fundarherbergið. Þá gafst loks færi á að hringja eftir aðstoð.

Hringdi í eiginmanninn

Þegar lögreglu bar að garði stóð Amy Bishop fyrir utan skólann. Hún hafði losað sig við byssuna og hringt í eiginmann sinn, sem hún bað um að sækja sig í vinnuna eins og hann var vanur. Virtist Bishop illa áttuð og ekki gera sér grein fyrir gjörðum sínum. Taldi hún sig meðal annars ekki hafa verið á staðnum og neitaði að trúa því að kollegar hennar væru látnir

Vegna þessa töldu margir ljóst að Bishop ætlaði sér að bera við geðveiki í málsvörn sinni fyrir dómi, en hún var ákærð fyrir manndráp af einbeittum ásetningi, auk þriggja morðtilrauna og fór ákæruvaldið fram á dauðarefsingu.

Fortíðin grafin upp

Skotárásin vakti mikinn óhug. Hvernig gat þetta gerst? Bishop var 45 ára, fræðimaður og móðir. Hvað fékk slíka manneskju til að fremja jafn svívirðilegan glæp?

Fyrst um sinn töldu margir að mál Bishop væri sláandi dæmi um þær hörðu kröfur sem gerðar eru til vísindamanna innan bandaríska háskólasamfélagsins og hvað baráttan fyrir fastráðningu getur verið krefjandi.

Flestir skiptu þó snarlega um skoðun eftir að farið var að grafast fyrir um fortíð Bishop. Fortíð sem varpaði ljósi á myrka hlið vísindakonunnar.

Banaði bróður sínum

Árið 1986, þegar Amy Bishop var 21 árs gamall háskólanemi, hringdi móðir hennar viti sínu fjær í lögregluna. Amy hafði skotið bróður sinn til bana í eldhúsi fjölskyldunnar. Móðir hennar var vitni að harmleiknum og hefur alla tíð haldið því fram að um slys hafi verið að ræða.

Amy hafði verið að fikta með haglabyssu sem faðir hennar átti og óvart hlaðið vopnið og kunni ekki að tæma það aftur. Þegar Amy ætlaði að sýna bróður sínum, Seth, vopnið, reið af skot sem hæfði Seth í magann, og lést hann úr sárum sínum á eldhúsgólfinu fyrir framan systur sína og móður. Hryllilegt slys var niðurstaða lögreglunnar.

Eftir skotárásina 2010 var harmleikurinn frá 1986 rifjaður upp og fóru þá að renna á menn tvær grímur. Ef um slys var að ræða, hvers vegna brást Amy við með því að flýja af vettvangi og reyna að að ræna bíl af bílasölu í nágrenninu – enn vopnuð haglabyssunni? Samkvæmt vitnum kom hún inn á bílasöluna, með haglabyssuna og heimtaði að þeir afhentu henni bíllykla. Eftir að lögreglu bar að garði þurftu lögreglumenn ítrekað að skipa henni að leggja frá sér vopnið, áður en hún varð við því. Við skoðun á vopninu kom í ljós að eftir að Amy skaut bróður sinn, hlóð hún byssuna aftur og auk þess fannst aukaskot í jakkavasanum hennar.

Rörasprengja

Árið 1993 hafði Bishop einnig verið yfirheyrð vegna rörasprengju sem var send á heimili leiðbeinanda hennar í doktorsnáminu, en þau höfðu átt í útistöðum. Vitni höfðu heyrt Bishop og eiginmann hennar ræða um hvernig hægt væri að útbúa rörasprengju, auk þess sem vitað var að Bishop hafði aðgang að efni sem er notað til að búa til sprengiefni. Ekki voru næg sönnunargögn til að ákæra Amy og er málið óupplýst enn í dag.

Ákæruvaldið hóf aftur skoðun á andláti bróður Bishop, eftir að hún var handtekin árið 2010. Kom þá á daginn að lögregluskýrslur hefðu verið ófullnægjandi og ákæruvaldið aldrei fengið allar upplýsingar um meint slys, upplýsingar sem hefðu gefið fullt tilefni til að ákæra Amy Bishop fyrir að hafa banað bróður sínum af ásetningi. Árið 2010 var of seint að gefa út slíka ákæru, þar sem brotið var fyrnt.

Rannsókn á andláti bróður Amyar hefur verið harðlega gagnrýnd undanfarin ár. Er talið að ef rétt hefði verið staðið að verki, hefði Amy Bishop verið ákærð fyrir morð þegar hún var 21 árs gömul. Þá hefði hún aldrei fengið vinnu við háskólann í Alabama og hefði aldrei mætt á þennan örlagafulla starfsmannafund þann 12. febrúar og þeir þrír kollegar hannar sem hún myrti væru enn á lífi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 1 viku

Vikan á Instagram – Hakkarinn setti strik í reikninginn

Vikan á Instagram – Hakkarinn setti strik í reikninginn
Fókus
Fyrir 1 viku

„Þegar ég var lítill lék ég mér með hvítt efni í poka, ég ætlaði að verða eiturlyfjasali þegar ég yrði stór“

„Þegar ég var lítill lék ég mér með hvítt efni í poka, ég ætlaði að verða eiturlyfjasali þegar ég yrði stór“