fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Reykjarvíkurdóttur misbýður orðræðan: „Ég hef aldrei upplifað mig jafn valdalausa og niðurlægða“

Jón Þór Stefánsson
Miðvikudaginn 18. september 2019 20:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, meðlimur hljómsveitarinnar Reykjavíkurdætur birti fyrr í kvöld langan pistil á Facebook-síðu sinni. Pistillinn kemur í kjölfar brandara uppistandarans Önnu Svövu Knútsdóttir um hljómsveitina.

Líkt og DV greindi frá fyrr í dag þá var mikið rætt um þennan brandara Önnu Svövu. Bæði Steiney Skúladóttir og Þura Stína skutu föstum skotum á Önnu í dag, en bæði Steiney og Þura eru meðlimir Reykjavíkurdætra.

Pistil Þórdísar lítur þó á brandarann í talsvert stærra samhengi. Hún fjallar meðal annars um áhugaverða normalíseringu varðandi gagnrýni og grín í garð Reykjavíkurdætra. Í því samhengi minnist Þórdís sérstaklega á gagnrýni Emmsje Gauta á sveitinni sem vakti mikla athygli á sínum tíma.

Þórdís tekur það þó skýrt fram að eðlilegt sé að gagnrýna og yfir höfuð ekki fýla tónlist Reykjavíkurdætra. Það sem virðist vera að fara í taugarnar á Þórdísi er orðræðan í heild sinni frekar en grín Önnu Svövu.

„Bara svo það sé á hreinu, það er hið besta mál að gagnrýna RVKDTR. Reyndar höfum við sennilega fengið meira magn af gagnrýni heldur en flest tónlistarfólk á Íslandi. En gagnrýnin þarf að vera á málefnalegum grundvelli. Og það á við um alla, hvort sem það eru listamenn, stjórnmálamenn eða hvað sem er. Af hvaða kyni sem er. Það er allt í fína að fýla ekki tónlistina okkar. Það er bara smekksatriði. Það þurfa ekki allir að ELSKA RVKDTR enda er það ekki okkar markmið. Það má líka alveg gera grín. Þetta er bara ekki spurning um þennan “eina litla brandara” hjá Önnu Svövu. Þetta er ekki spurning um að við “kunnum ekki” að taka gríni. Þetta er svo miklu, miklu stærra en það.

Orðræðan um RVKDTR á Íslandi hefur aldrei verið málefnaleg. Og það er staðreynd. Þess vegna kemur þetta grín hennar Önnu Svövu mér ekki beint á óvart. (Þetta snýst ekki um Önnu Svövu eða hennar uppistand, heldur viðhorf almennings sem mér finnst kristallast í þessu “gríni”). En mér finnst þetta samt sorglegt. Það hryggir mig raunar að við í RVKDTR séum ennþá að díla við stimpilinn sem við fengum þegar við gáfum út fyrsta lagið okkar fyrir 6 árum. SEX ÁRUM.“

„Við, sem konur, þurfum að fá tækifæri til að vera ófullkomnar og láta vaða án þess að vera teknar af lífi fyrir það. Þegar RVKDTR byrjuðu þá vorum við flestar að stíga okkar fyrstu skref og ég held að ég tali fyrir okkur flestar þegar ég segi að fyrstu lögin okkar hafi bara alls ekki verið góð. En það er líka bara allt í góðu. Allir eru einhverntímann byrjendur. Ég persónulega fann fyrir mikilli pressu á að við “mættum ekki” vera lélegar, alveg frá byrjun. Og einmitt þess vegna var kannski nauðsynlegt að segja fokk this og þora að vera skapandi. Ég veit ekki hvort að þessi pressa sem við upplifðum sé eingöngu vegna þess að við erum konur. Að uppeldið sem við fengum eða samfélagið geri það að verkum að okkur finnst við “þurfa” að vera fullkomnar. Það er ekkert meira heftandi en einmitt það, í listsköpun. Að líða eins og maður þurfi að vera fullkomin. Það er frábært að fá uppbyggilega gagnrýni og ræða það sem betur má fara og fá að vaxa sem listamaður. En maður þarf að fá pláss og frelsi til þess að vaxa. Maður þarf að þora að vaxa.“

„Oftast læt ég svona athugasemdir sem vind um eyru þjóta. Afþví að hverjum er ekki drull. Við viljum heldur ekki vera einhver fórnarlömb. Og við upplifum okkur ekki sem fórnarlömb. Við höfum fengið vægast sagt frábær tækifæri erlendis og við erum mjög þakklátar fyrir það. Þar liggur okkar sigur.

Ástæðan fyrir því að þessi hljómsveit var stofnuð, var til þess að gefa konum pláss. Ryðja brautina fyrir konur í tónlist, sérstaklega hiphop-i. Hafa gaman, gera tilraunir, þora að gera eitthvað nýtt. Markmiðið okkar var ekki að vera mainstream og þess vegna get ég alveg sofið rótt þó að tónlistin okkar sé ekki spiluð á Fm957 eða Bylgjunni. Einsog ég segi, hverjum er ekki drull. En ég bara skil ekki orðræðuna á Íslandi. Ég skil ekki afhverju við fáum mjög særandi og órökstudda gagnrýni á borð við “vond tónlist er vond tónlist” “það eru engir góðir kvenkynsrapparar á Íslandi” “fólk neyðist til þess að fýla ykkur því þið eruð svo PC” eða “þið eruð krabbameinsvaldandi helvítis femínistarnir ykkar” (mitt persónulega uppáhald). Ég bara skil þetta ekki. Þetta eru mjög háværar raddir og ég veit að þetta hefur haft mikil áhrif á okkur. Og já – meira að segja grjótharðir rapparar einsog við, eru líka með tilfinningar.“

„Mér líður stundum pínulítið einsog ég sé með áfallastreituröskun. Ég man eftir því að hafa verið stödd í strákahóp daginn eftir að Emmsjé Gauti tvítaði um RVKDTR. Það er óhætt að segja það að ég hef aldrei upplifað mig jafn valdalausa og niðurlægða. Þarna voru strákar sem voru vinir mínir sem hlógu að þessu. Og ég þorði ekki að segja neitt. Þeim fannst þetta bara fyndið og sögðu “ég meina, þið sökkið náttúrulega!”. Ég held að þetta tvít hafi normalíserað á einhvern hátt hvernig fólk leyfði sér að tala um okkur og VIÐ okkur. Og ég held líka að þetta tvít hafi haft mjög djúpstæð áhrif á okkur sem tónlistarkonur. Þetta hafði amk. áhrif á mig og ég hef nú marga fjöruna sopið, andskotinn hafi það.

En jæja. Stundum þarf maður bara að fá að losa. Við í RVKDTR höfum einsett okkur að gefa konum pláss. Að þora. Að segja það sem okkur sýnist og gera það sem okkur sýnist, þið vitið – bara svona einsog strákarnir gera. Og kannski hafa allir brautryðjendur þurft að þola svipaðan skít og við. Og já – ég sagði brautryðjendur. Því það er það sem við erum.“

„Getum við plís gefið ungum konum, alveg sama á hvaða sviði – tækifæri til þess að vera. Bara vera. Peppa þær, stutt við bakið á þeim og gefið þeim uppbyggilega gagnrýni. Leyft þeim að þroskast og dafna og taka pláss. Annars er ég hrædd um að þessar ungu og upprennandi konur missi áhugann á því sem þær brenna fyrir – vegna þess að þær fá ekki pláss til að vera ófullkomnar.“

„Nú fer ég til Hamburg með hljómsveitinni minni að spila fyrir mörg þúsund manns. En ég meina, það eru auðvitað engir góðir kvenkynsrapparar á Íslandi. Ætli þau viti það ekki þarna á meginlandinu?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar