fbpx
Miðvikudagur 21.október 2020
Fókus

Bubbi segir sjálfum sér reglulega að halda kjafti: „Hégóminn er harður húsbóndi“

Íris Hauksdóttir
Þriðjudaginn 24. desember 2019 09:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bubbi Morthens er fyrir löngu orðinn þjóðareign og í raun erfitt að fanga orð sem lýsa þeim litríka karakter sem hann býr yfir. Hann sér lífið í litum og segir sýninguna sem senn verður sett á fjalir Borgarleikhússins vera gula, enda sé það fyrir góðu.

Blaðakona DV hittir Bubba fyrir í Borgarleikhúsinu á einhverjum snjóþyngsta morgni þessa árs. Hann lét veðurofsann ekki stöðva sig við að komast í bæinn úr Kjósinni, enda vanur því að vera með vindinn í andlitinu.

Fyrstu áheyrendaprufur standa yfir sama dag og allir sem kunna að syngja Stál og hnífur eru velkomnir að mæta. Aðstandendum sýningarinnar var fljótt ljóst að mikill áhugi var fyrir hendi og margir sem vildu spreyta sig á þessum söngtexta, sem óhætt er að segja að risti djúpt í þjóðarsálina.

Bubbi er með ótal járn í eldinum, jólatónleikar bókaðir hvert kvöld samhliða undirbúningi fyrir sýninguna 9 líf, sem er í fullum gangi, hann segir lykilatriði að halda í rútínuna. „Ég er annaðhvort í skyrtu eða bol á sviðinu, svo er ég alltaf með djúsana mína, en ég fasta 18 tíma á sólarhring og hef gert núna í tvo mánuði. Ég ætla að fasta til 16. apríl, og borða eina máltíð yfir daginn.“ Spurður hvers vegna sú dagsetning hafi orðið fyrir valinu segir Bubbi hana vera fallega tölu. „Apríl er silfraður og talan 16 er Afríkubrún, þannig smellur þetta. Samhliða er ég að æfa mikið, ég mætti til dæmis klukkan sex í morgun og æfði mjög hart í tæpa tvo tíma, sippaði og boxaði, þetta er alveg geggjað.“

Mynd: Eyþór Árnason

Ólafur Egill Egilsson er staddur með okkur. Hann sér um leikstjórn ásamt því að semja verkið sem frumflutt verður í mars og byggir á ævi Bubba. Hann segir aðdragandann hafa verið dálítið langan. „Ég frétti fyrir nokkrum árum að Bubbi væri opinn fyrir hugmyndinni um að gera einhvers konar sviðsverk byggt á höfundarverki hans. Við erum að tala um meira en 800 lög, svo það er auðvitað af nógu að taka, en ég fann ekki alveg hver nálgunin ætti að vera og þetta datt upp fyrir – svo fór ég að lesa ljóðabækurnar hans og þær sprengdu á mér hausinn. Ljóðin hans opna inn á djúpið, sálarlífið og manneskjuna á bak við „Bubba“, og þá hugsaði ég: þarna er þetta – ef hann er til í að opna á allt þetta, og það merkilega var, að Bubbi var til,“ segir Ólafur.

„Hégóminn er harður húsbóndi, við skulum ekkert vera að þykjast neitt með það,“ staðfestir Bubbi. „Auðvitað er þetta langt út fyrir minn þægindaramma, en á sama tíma er ég svona innréttaður. Ég er búinn að vinna með „Bubba“ innan gæsalappa, semja, syngja, yrkja og tala um líf mitt – allt á úthverfunni, svo þetta var ekki langt frá því sem ég hef verið að gera. En það er forvitnilegt að sjá hvað hægt er að gera úr þessu konsepti. Þegar Óli fór að tala um ljóðabækurnar fann ég að hann myndi vinna þetta á einhverju dýpi. Svo segir maður já og þá er ekki aftur snúið. Maður verður að taka því að einhver skoði þig og þín verk og, ofar öllu, passa að blanda sér ekki í það. Bubbi í núinu verður að vera eins fjarlægur og hægt er.“

Fæ lánaða dómgreind hjá fólki
Þrátt fyrir að vera að eigin sögn agaður viðurkennir Bubbi að ferlið hafi tekið á. „Mér fannst erfitt að lesa þetta. Það komu upp alls konar tilfinningar sem rifja upp vandræðaleg og afhjúpandi augnablik og þótt þetta sé skáldskapur byggður á raunveruleika er hann það nálægt sannleikanum að ég fæ alveg sting. Að sama skapi hef ég vit á að fá lánaða dómgreind hjá fólki sem ég tek mark á og þegar það segir að þetta sé flott, segi ég sjálfum mér að halda kjafti,“ segir Bubbi.

„Bubbi segist ekki vilja blanda sér of mikið í þetta,“ staðfestir Ólafur. „Hann hefur verið mjög æðrulaus og gefið mér frjálsar heldur en hann lagði samt línuna strax í upphafi. Hann sagðist vilja hafa þetta alvöru og ég ætti ekki að hlífa honum með neitt. Og ég geri það ekki. Í sýningunni förum við í gegnum ferilinn, æskuna, áföll og sigra en ekki síst íslenska samfélagið. Ég grínast stundum með það, en meina það auðvitað um leið þegar ég segi að við erum öll Bubbi. Hann er partur af sögu okkar allra og þannig erum við öll partur af hans sögu. Bubbi endurspeglar líka á vissan hátt íslensku þjóðarsálina. Hann er ákveðinn fasti – eiginlega eins og fjall í landslaginu, þarna er Esjan, þarna er Hvannadalshnjúkur og þarna er Bubbi. En ég hef góða tilfinningu fyrir þessu. Það fyrsta sem Bubbi sagði við mig var að þetta yrði gul sýning, sem ég held að sé gott mál, eða hvað Bubbi?“ spyr Ólafur.

Mynd: Eyþór Árnason

„Jú, gulur er heilandi litur, hann dregur fram það besta í fólki, þú sérð það best hvernig munkar klæða sig. Gulur hefur jákvæða orku og fyrir mér er gulur alltaf góður á bragðið. Strákarnir sem sjá um hljóðfæraleik í sýningunni eru þeir sömu og tóku þátt í uppfærslunni á Elly, en þeir unnu einmitt með mér að Regnbogans stræti. Í dag kalla þeir sig Tvista, sem passar vel því talan tveir er líka gul. Ég var svo glaður þegar ég komst að þessu því ég er með fötlun sem heitir samskynjun, ég sé allt í litum, alla tóna, orð og nöfn. Þetta truflaði mig svolítið þegar ég var að læra nótur sem lítið barn, því sumar nótur hafa sömu liti og þá geta komið frávik, alveg eins og með skrifblinduna, þar renna saman svo margir stafir sem hafa svipaða áferð að ég greini ekki á milli. Það var ekki fyrr en ég var í rannsókn uppi á Grensás að taugasálfræðingur uppgötvaði þetta hjá mér og ég tek greiningunni fagnandi,“ segir Bubbi.

„Þegar ég byrjaði rannsóknarvinnuna um Bubba vissi ég ekkert um litina og þessa erfiðu upphafskafla í lífi hans,“ segir Ólafur. „Æskan er svo mótandi tími og þegar Bubbi var að alast upp var samfélagið öðruvísi, hann lenti á vegg í sinni skólagöngu, skrifblindur og sennilega með einhvers konar athyglisbrest. Þegar hann er 14 ára heldur hann svo til Danmerkur þar sem fræðslan er komin lengra, þeir skilja strax að hann þarf aðra nálgun við lærdóminn, en svo snúa þau mæðginin aftur heim til Íslands og þá fellur allt í sama, gamla farið. Hann segir nei takk við skólanum og fer að vinna,“ segir Ólafur.

„Skólinn var algjör martröð,“ segir Bubbi alvarlegur í bragði. „Gríðarlegt ofbeldi af hálfu kerfisins á ótal vegu og auðvitað mótar þetta mann. Börn sem verða fyrir áföllum, það getur leitt fólk út í ýmiss konar fíknivanda. Kennararnir hæddust að mér, en það voru tveir sem reyndust mér vel. Annar þeirra, Sigfús Johnsen heitinn, uppgötvaði að ég gæti spilað á gítar. Hann lét mig spila Bob Dylan fyrir bekkinn og þá fann ég fyrst kraftinn sem fylgir því að koma fram.“

„Þessi verður eitthvað“
Hinn áhrifavaldurinn í lífi Bubba var íslenskukennari, en á þeim tíma gengu kennarar á milli borða og afhentu nemendum próf. „Ég hafði skrifað sögu og gleymi því aldrei, hún hallaði sér að mér og sagðist ætla að gefa mér níu í einkunn, en ætlaði að eiga prófið mitt. Mörgum árum síðar kom bróðir minn með sendingu til mín frá þessum kennara. Hún hafði rammað söguna mína inn og haft upp á vegg í öll þessi ár og skrifað á bakhliðina: „Þessi verður eitthvað“ – Ég fann alltaf að hún hafði trú á mér.“

Ólafur grípur orðið. „Það er dálítið spes að tala um þetta með Bubba hérna við hliðina á mér, en það er einmitt þetta sem ég heillast svo af við sögu hans,“ segir Ólafur. „Hún er svo einstök en líka almenn. Æskan er á ákveðinn hátt alltaf sársaukafull, fyrir okkur öll. Við erum ómótuð, viðkvæm, lendum í hlutum, miserfiðum auðvitað, en við þurfum öll að vinna úr okkar æsku. Bubbi fær í vöggugjöf mikla hæfileika en líka stóran skammt af erfiðleikum á löngu tímabili. Hann er á flótta, tekst ekki á við neitt, reynir bara að grafa sársaukann, kæfa hann í reyk, moka yfir hann kóki, ríða hann í kaf. En svo tekst honum að snúa þessu við, sér ljósið, eða hvað menn vilja kalla það. Og í dag stendur hann sterkur í báða fætur. Elskar og er elskaður, sendir frá sér jákvæða strauma, heggur sinn eldivið í Kjósinni og ræktar garðinn sinn. Menn gera ekki mikið betur en svo í heiminum. Sú saga hlýtur að eiga erindi við okkur öll og ætti að geta hvatt okkur til dáða – hjálpað okkur að finna Bubbann í okkur sjálfum, hjóla óttalaus í að gera þær breytingar sem við kannski þurfum að gera á lífi okkar.“

Ólafur segist stundum furða sig á því æðruleysi sem hafi umvafið Bubba á æfingaferlinu. „Fólk heldur gjarnan að hann sé andandi ofan í hálsmálið á mér, en staðreyndin er sú að hann hefur verið mjög afslappaður, það er frekar ég sem trufla hann. Ef ég set mig í hans spor hlýtur að vera erfitt að lesa texta um sjálfan sig, til dæmis senuna þar sem hann er að skilja. Öllum þeim sársauka hefur verið þjappað saman í eina hressandi leiksenu. Þetta hlýtur að vera dálítið fríkað að lesa.“

Þeir fá blámann en almúginn fær grámann
Ferilinn er óhjákvæmilega fjölbreyttur enda hefur Bubbi gengið í gegnum ýmiss konar tímabil sem speglast í textunum. Hann þvertekur þó fyrir að brunnurinn sé að tæmast. „Ég sem alveg stöðugt. Ég vakna oft með melódíur í höfðinu og held að það sé eðlilegt, en allar hugmyndir sem ég fæ tek ég upp á símann minn,“ segir Bubbi og sýnir til staðfestingar símann sinn, stútfullan af upptökum. „Ég er með ákveðna tækni svo þetta trufli mig ekki áður en ég sofna. Það sem ég þarf bara að passa, er hversu mikið ég get þanið streng fólksins sem er búið að borga sig inn á tónleikana mína, ég get ekki frumflutt tuttugu ný lög og verið með þrjú gömul. Í ár verða nokkur ný, byggð á atburðunum í ljósi Samherja, um það hvernig menn geta stolið regnboganum frá börnum, þeir fá blámann en almúginn fær grámann. Þannig er ég, ég syng um ástina og dauðann, sem eru jú þeir meginþættir sem mér finnst skipta mestu máli, en svo eru alltaf einhver herbergi þar á milli,“ segir Bubbi.

Mynd: Eyþór Árnason

„Mér finnst Bubbi oft súmmera upp það sem er í deiglunni hverju sinni. Hann veður áfram og segir það sem býr í hjarta hans, sem oftar en ekki er það sem fólk er að hugsa, en enginn þorir að segja. Eins og þegar hann gerði lagið Strákarnir á borginni þegar eyðnifaraldurinn var að læsa klónum í kvíðann hjá fólki og fordómarnir að blossa upp. Á þessum tíma voru límdir miðar í hurðirnar á skemmtistöðum þar sem hommum var meinaður aðgangur, en þarna steig Bubbi fram og reif kjaft, ögraði og lamdi í borðið. Og því fer fjarri að það sé eina málefnið sem Bubbi hefur hjólað í,“ segir Ólafur.
Bubbi segir: „Mér áskotnaðist USB-lykill á dögunum, frá 1983, þar sem ég var að skemmta grunnskólakrökkum. Þarna var ég ekki bara að syngja heldur líka að halda fyrirlestur um ofsóknir í garð homma og uppgang nasisma 1933, sem ég tengdi við íslenska skemmtistaði. Þetta var alveg magnað að sjá, því ég held að enginn hafi rætt svona mál áður við grunnskólakrakka.“

Stærsti listamaður samtímans
Ekki er langt síðan tónlistarmaðurinn Auðunn Lútersson var gagnrýndur fyrir að syngja um fíkniefnanotkun á tónleikum sem haldnir voru í viðurvist ungra áhorfenda. Bubbi var einn þeirra listamanna sem tók upp hanskann fyrir Auðun og fullyrðir að hann sé án efa einn stærsti listamaður samtímans. „Þarna er maður sem yrkir á gríðarlega flottu máli og hefur heilmikið fram að færa. Hann gerir það í fallegum pakka og ég spegla mig í honum. Ég hugsaði þegar ég sá hann fyrst, vá, er þetta að gerast aftur, því á sínum tíma voru haldnar ráðstefnur um mig í Háskólanum þar sem menn sögðu að ég væri hættulegur tungumálinu og væri hreinlega skaðlegur, en svo mætti fjöldi fólks og varði mig.“

Á þessum tíma áttu sér stað mikil greinaskrif um skáldskap Bubba og þá bragfræði og málfarsreglur sem hann væri að brjóta. Bubbi benti á að þetta væri eins og að fara á málverkasýningu og gagnrýna rammann en pæla ekkert í myndunum. „Þú tókst nú hassið fyrir, eins og Auðunn, og þá átti aldeilis að tjarga þig og fiðra,“ segir Ólafur og uppsker mikinn hlátur frá Bubba. „Þarna var Bubbi að fara frá því að vera innangarðstrúbador, í uppáhaldi hjá mokkaelítunni, vinstra liðinu, stúdentunum og herstöðvarandstæðingunum, yfir í að verða utangarðsmaður. Þarna, 1981, var hann búinn að syngja um verkamanninn og stéttabaráttuna, en menn verða alveg brjálaðir þegar hann syngur: „Ég ætla með kíló af hassi að fíla grasið þar sem það grær“. „Er þetta það sem alþýðan þarf, að sljóvga sig með dópi?“ sögðu ýmsir spekúlantar. Þetta er í raun umræðan um vald, menn vilja stjórna því hver má tjá sig um hvað í í nafni hverra. Sumir vildu þannig eigna sér Bubba, aðrir moka honum út, afvopna hann. Þetta er síendurtekið stef í hans listamannslífi. Hann er utangarðsmaðurinn, hrár og slorlyktandi trúbador alþýðunnar, sem verður uppáhald vinstraliðsins, sem er svo allt í einu orðinn pönkari, sem verður svo ástfanginn poppari að gera Kúbuplötur, sem verður gæi í hvítum jakkafötum að syngja með stórsveitinni, og svo framvegis.“

Forvarnir gildishlaðið og skaðlegt orð
Í beinu framhaldi er ekki úr vegi að ræða forvarnir í fíkniefnaneyslu ungmenna og hvaða skoðun Bubbi hefur á umræðunni. „Við skulum henda þessu orði, enda er það bæði gildishlaðið og skaðlegt. Það eina sem þú getur gert ef þú vilt ala börnin þín rétt upp er að vera góð fyrirmynd. Ef þú vilt ekki að þau drekki skaltu ekki láta sjá á þér vín, sama gildir um tóbak, ekki hafa það nálægt þeim. Foreldrar eiga að ala börnin sín upp í kærleika, en ekki í boðum og bönnum. Hrósa þeim eins mikið og hægt er og byggja upp í þeim sjálfstraust. Leyfa þeim að finna sinn farveg, hvort sem þau eru átta eða átján. Ef þau langar að verða fegurðardrottning þá frábært, svo kannski breytist það og það er líka æðislegt. Ég held að þetta skipti gríðarlegu máli. Svo verða þau unglingar og þá ferð þú í hlutlausan gír, setur æðruleysið upp og hugsar, það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer. Textarnir hans Auðuns eru svo flottir því hann er þar að syngja um sín stóru vandamál, geðræn og aðra hluti sem hann hefur lent í. Hann rífur úr sér hjartað og hendir því á borðið. Þetta hef ég ekki séð í íslensku tónlistarlífi hjá neinum nema sjálfum mér, enda spegla ég mig í honum. Þegar ég sá hann fyrst hugsaði ég hvaðan kemur þessi kjarkur, því þetta er blíðasti og feimnasti strákurinn sem ég hef hitt, en svo fer hann á sviðið og breytist, ber að ofan og alveg geggjaður. Ég hugsaði strax vá, hann minnir mig á mig – hann er geggjaður tónlistarmaður. Og aftur hvað varðar forvarnir, ef við viljum vera góðar fyrirmyndir, ef við viljum að börnin okkar lesi, þá lesum við fyrir þau og þegar þau eru fær um að lesa sjálf hvetjum þau þá til að lesa fyrir okkur. Dögun mín les með tilþrifum og ég spring úr hlátri því hún gerir það svo vel. Við lesum alltaf saman uppi í rúmi á kvöldin, en þá fær Aþena mín að velja bækurnar. Það skiptir svo miklu máli að bregðast við börnunum sínum, og leggja símann frá sér, ég mætti gera meira af því sjálfur.“

Mynd: Eyþór Árnason

Hvernig er að útskýra svo skrautlega fortíð fyrir börnunum sínum?

„Það er á einum stað í verkinu sem ég hugsaði, úff þarna er mikið kók, og þá er ég ekki að tala um gosdrykkinn. En ég hef aldrei falið neitt fyrir börnunum mínum, þeim finnst að vísu mjög merkilegt að sjá myndir af mér með hár og Aþena, sem er gríðarlega hvetjandi, horfði á mynd af mér tvítugum og sagði svo: „Mér finnst þú flottari núna“. En ég hef aldrei falið þessa fortíð. Í hinu lífinu mínu var ég einu sinni kallaður á fund með kennara, þá var spurt í bekknum hvort það væri ofnæmi í fjölskyldunni og Gréta mín rétti upp hönd og sagði að pabbi og við værum með ofnæmi fyrir hassi, brennivíni og kókaíni. Þá hafði ég verið að útskýra fyrir henni að alkóhólismi væri einhvers konar ofnæmi. Mér fannst þetta bara bera vitni um þroska og vitsmuni hjá barninu og bað kennarann vel að lifa. En Gréta sá í gegnum hlutina, einu sinni vorum við mamma hennar að fara á árshátíð og ég sá á svipnum á henni að henni stóð ekki á sama. Mamma hennar var nýkomin úr lagningu, í kjól og stórglæsileg. Þegar hún var svo að leggja lokahönd á varalitinn sagði Gréta skelfingu lostin: „Vita hinar konurnar ekki að þú ert að plata?“. Þarna hugsaði ég, þau sjá í gegnum holt og hæðir.“

Ógæfufólk á allt gott skilið
Að lokum verður ekki hjá því komið að forvitnast um jólahátíð þessara uppteknu manna. „Ég byrja aðfangadag alltaf á því að spila fyrir fangana á Litla-Hrauni. Í ár verður svakalegt lið með mér og ég reikna með að Hraunið verði fokhelt eftir þessa tónleika. Svo fer ég heim í gufubað og í betri föt, þá reyni ég að taka þátt í þeim undirbúningi sem hefur hvílt á Hrafnhildi, en við borðum alltaf kalkún. Eftir það hefst þessi dásamlega stund að lesa upp TIL … og það getur tekið tíma. Einhver af eldri börnunum mínum verða mögulega með okkur og það er hreinlega ekkert betra en að lesa upp nöfnin á pökkunum handa börnunum sínum sem fara í kjölfarið í einhvers konar núvitundar brjálæði þótt þau reyni að hemja sig. Ég finn aldrei fyrir meira þakklæti en þegar ég kem heim eftir að hafa spilað fyrir ógæfufólkið sem á allt gott skilið frá okkur, kærleika og ást – sjá svo börnin mín í jólafötunum með fallega tónlist, myrkrið algjört því við búum uppi í fjalli, svo glittir í ljós hinum megin við vatnið. Hrafnhildur sýður alltaf hrísgrjón handa hænunum, enda vita þær fátt betra, en kötturinn, hann Moli músamorðingi, fær kalkún, svo það fá allir sitt.“
Og nú verður pakki til afa?

„Já, dóttir mín fer út um jólin svo við höldum jólin um helgina fyrir hana. Þau mega opna pakka, en ekki við og það er aldrei að vita nema afi Bubbi fái pakka.“

Mynd: Eyþór Árnason

„Ertu nýbakaður afi?“ spyr Ólafur áhugasamur. „Já, er það ekki svakalegt! Hún er að vísu orðin ársgömul en hún er alveg með skoðanir á afa sínum. Hún fer í fangið á Hrafnhildi og hinni ömmu sinni en alls ekki í fangið á öfunum sínum. En það mun koma – minn tími mun koma. Þetta er geggjað líf og við getum ekki kvartað. Um leið og jólin eru yfirstaðin veit ég svo að garðurinn fer að hreyfast og svo koma fuglarnir. Ég er líka með gríðarlegan fjölda músa sem kötturinn sér um að komist ekki inn, en ég gef þeim að borða. Stundum er ég með tíu mýs og fugla að borða saman á pallinum, sem gaman er að horfa á. Þá eru mýsnar í ytri hring og fuglarnir í miðjunni. Þeir koma í þyrpingum þegar maður gefur þeim, en kötturinn er fjárans raðmorðingi. Hann hefur étið að okkur sjáandi tvær mýs og ótal fugla og étur þá með húð og hári, skilur ekki eftir eina fjöður, fer svo inn og étur úr dallinum sínum,“ segir Bubbi.

„Ég á líka kött sem heitir Moli,“ segir Ólafur og hlær. „Hann var einmitt að fara á kattahótel því ef veður leyfir fljúgum við í fyrramálið til Indlands þar sem við ætlum að verja jólunum. Tengdamóðir mín hefur verið að kenna tónlist þar síðustu mánuðina og verður sextug á aðfangadag og þá ætlum við stórfjölskyldan að vera hjá henni í 35 stiga hita. Ég tek nú samt hangikjötslæri með mér út, sennilega fátt betra en tvíreykt, norðlenskt með naan-brauði í mollunni. Annars byrja æfingar strax á nýju ári svo hausinn á mér er alveg þar. Hér er verið að kynda í mikið karnival og setja inn nýja vídeóvarpa sem og uppfæra hljóðkerfið, enda verður allt sett í botn, partur af þessu öllu saman, burtséð frá dramatík, pólitík og ljóðum, er auðvitað að gera geggjað „show“ – og sjá hvað Borgarleikhúsið þolir mikinn Bubba.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Varar við leðurbuxum úr Zöru – Ástæðan sprenghlægileg

Varar við leðurbuxum úr Zöru – Ástæðan sprenghlægileg
Fókus
Í gær

Nektarmynd Ashley Graham vekur athygli

Nektarmynd Ashley Graham vekur athygli
Fókus
Fyrir 4 dögum

Máni ræðir hæðirnar og lægðirnar – „Sá er líklegast einhver leiðinlegasti aðili í heiminum“

Máni ræðir hæðirnar og lægðirnar – „Sá er líklegast einhver leiðinlegasti aðili í heiminum“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sigrún yngdist við að fá barnabörnin í fóstur – Verkurinn í mjöðminni hvarf

Sigrún yngdist við að fá barnabörnin í fóstur – Verkurinn í mjöðminni hvarf