fbpx
Miðvikudagur 12.ágúst 2020
Fókus

Stystu hjónabönd í Hollywood – Hveitibrauðsdagar frá helvíti: „Ég drep mig ef þú giftist mér ekki“

Ritstjórn Bleikt
Laugardaginn 5. október 2019 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brúðkaup stjarnanna eru oft ríkmannleg en vara sum ansi stutt – Hér eru þau allra stystu.

Britney Spears og Jason Alexander
55 klukkutímar

Söngkonan Britney Spears bar heldur óhefðbundinn höfuðbúnað þegar hún gekk að eiga æskuvin sinn, Jason Alexander – nefnilega derhúfu. Vinirnir tóku hvatvísa ákvörðun í janúar árið 2004 og giftu sig í litlu, hvítu kapellunni í Las Vegas. 55 klukkustundum síðar sótti Britney hins vegar um ógildingu sökum þess að hún skildi ekki fyllilega hvað hún var að gera þegar hún samþykkti hjónaband.

Britney og Jason.

Nicolas Cage og Erika Koike
4 dagar

Samband leikarans Nicolas Cage og Eriku Koike er með þeim skrautlegri. Þau sáust fyrst saman á Púertó Ríkó í apríl árið 2018 og gengu í það heilaga 23. mars sama ár í Las Vegas. Aðeins fjórum dögum síðar sótti leikarinn um ógildingu og sagðist hafa verið of fullur til að kvænast. Þá fauk í Eriku sem sagðist í samtali við Daily Mail vera mjög sár því leikarinn hefði „smánað“ hana opinberlega.

Nicolas og Erika.

Dennis Hopper og Michelle Phillips
8 dagar

Tónlistarkonan Michelle Phillips lék í kvikmyndinni The Last Movie í leikstjórn leikarans Dennis Hopper. Eftir að tökum lauk á myndinni gengu þau Michelle og Dennis í það heilaga, nánar tiltekið þann 31. október árið 1970. Átta dögum síðar var ballið búið, en Dennis var í mikilli neyslu á þessum tíma og alræmdur fyrir ófarir í kvennamálum.

Michelle og Dennis.

Carmen Electra og Dennis Rodman
9 dagar

„Eitt ráð sem ég myndi gefa hverjum sem er: Ekki gifta þig í Vegas,“ sagði fyrirsætan Carmen Electra eitt sinn þegar hún var spurð út í hjónaband hennar og körfuboltagoðsagnarinnar Dennis Rodman. Þau djömmuðu mikið saman og játuðust síðan hvort öðru í Las Vegas þann 14. nóvember árið 1998. Hjónasælan dugði skammt og var hjónabandið ógilt níu dögum síðar.

Carmen og Dennis.

Cher og Gregg Allman
9 dagar

Söngkonan Cher og rokkarinn Gregg Allman heitinn gengu í það heilaga í júlí árið 1975. Brúðkaupið átti sér stað í Las Vegas (kemur á óvart) nokkrum dögum eftir að skilnaður Cher við Sonny Bono gekk í gegn. Níu dögum síðar þurfti Cher aftur að sækja um skilnað þegar hún komst að því hve djúpt Gregg var sokkinn í áfengis- og vímuefnaneyslu.

Cher og Gregg.

Eddie Murphy og Tracey Edmonds
2 vikur

Hveitibrauðsdagar frá helvíti fylgdu þessu brúðkaupi í paradís. Leikarinn Eddie Murphy gekk að eiga Tracey Edmonds þann 1. janúar árið 2009. Þetta var strandarbrúðkaup í Frönsku Pólýnesíu og öllu tjaldað til. Hins vegar heyrðu brúðkaupsgestir þau Eddie og Tracey gráta og rífast eftir athöfnina. Sem betur fer var athöfnin ekki lagalega bindandi og þegar hjónin sneru aftur til Bandaríkjanna hættu þau saman.

Tracey og Eddie.

Sinead O’Connor og Barry Herridge
18 dagar

Vandræðin byrjuðu nokkrum klukkustundum eftir að söngkonan Sinead O’Connor giftist kærasta sínum til þriggja mánaða í Las Vegas þann 8. desember árið 2011. „Innan við þremur klukkustundum eftir athöfnina var hjónaband mitt eyðilagt vegna hegðunar vissra manneskja í lífi eiginmanns míns,“ skrifaði Sinead á bloggsíðu sína þann 26. desember þar sem hún staðfesti skilnaðinn.

Sinead og Barry.

Axl Rose og Erin Everly
26 dagar

Guns N’ Roses-söngvarinn Axl Rose kvæntist Erin Everly þann 28. apríl árið 1990, en Erin er hvað þekktust fyrir að veita Axl innblástur til að semja lagið Sweet Child o’ Mine. Sagan segir að Axl hafi farið á skeljarnar klukkan fjögur um nótt og sagt: „Ég drep mig ef þú giftist mér ekki.“ Þau giftu sig í Las Vegas og fjórum vikum seinna sótti rokkarinn um skilnað. Axl og Erin byrjuðu hins vegar aftur saman en ári síðar var hjónabandið ógilt vegna grafalvarlegra ásakana Erin um heimilisofbeldi.

Axl og Erin.

Drew Barrymore og Jeremy Thomas
29 dagar

Leikkonan Drew Barrymore bað bareigandann Jeremy Thomas um að giftast henni aðeins sex vikum eftir að þau byrjuðu að deita árið 1994. Þremur klukkustundum seinna hafði leikkonan náð að koma saman brúðkaupi og það var miðill í Hollywood sem gaf þau saman. 29 dögum seinna sótti leikkonan um skilnað.

Jeremy og Drew.

Pamela Anderson og Rick Salomon
2 mánuðir

Strandvörðurinn Pamela Anderson tók skyndiákvörðun í október árið 2008 og gekk að eiga pókerspilarann Rick Salomon. Tveimur mánuðum seinna sóttu Pamela og Rick um skilnað og sökuðu hvort annað um svik og pretti.

Rick og Pamela.

Kim Kardashian og Kris Humphries
72 dagar

Þetta er líklega eitt frægasta stutta hjónaband sögunnar. Ekkert var til sparað þegar raunveruleikastjarnan Kim Kardashian og körfuboltaspilarinn Kris Humphries giftu sig þann 20. ágúst árið 2011. En þegar að Kim sótti um skilnað sakaði Kris hana um svik og vildi ógildingu.

Kim og Kris.

Lisa Marie Presley og Nicolas Cage
3 mánuðir

Aftur kemst leikarinn Nicolas Cage á blað, en hann hefur alla ævi verið mikill aðdáandi tónlistarmannsins Elvis Presley. Það virtist því skrifað í skýin þegar hann gekk að eiga dóttur kóngsins, Lisu Marie Presley, árið 2002 á Havaí. Þremur mánuðum síðar, þegar 25 ár voru síðan kóngurinn sjálfur dó, sótti leikarinn um skilnað. „Ég er leiður en við hefðum ekki átt að gifta okkur,“ sagði Lisa Marie síðar.

Lisa og Nicolas.

Bradley Cooper og Jennifer Esposito
4 mánuðir

Leikaraparið var búið að deita í ár þegar það gifti sig í desember árið 2006. Fjórum mánuðum seinna sótti Jennifer um skilnað. Jennifer minnist á fyrrverandi maka í æviminningum sínum, sem margir telja að sé Bradley, og segir hann vera afar stjórnsaman. „Hann var fyndinn, klár, rogginn og stjórnsamur,“ skrifar hún. „Mér fannst hann ekkert sérstaklega aðlaðandi en taldi að ég gæti haft gaman af húmornum hans og vitleysunni um stund.“

Bradley og Jennifer.

Renée Zellweger og Kenny Chesney
4 mánuðir

Það var sannkallað draumabrúðkaup þegar leikkonan og tónlistarmaðurinn giftu sig á Bandarísku Jómfrúaeyjum í maí árið 2005. Ástarloginn slokknaði þó fljótt, nánar tiltekið eftir fjóra mánuði. Seinna meir lýsti Renée hjónabandinu sem „mjög dapurlegri reynslu.“

Renée og Kenny.

Shannen Doherty og Ashley Hamilton
5 mánuðir

Shannen og Ashley ákváðu að láta pússa sig saman eftir aðeins tveggja vikna samband árið 1993. Þau komu vinum og fjölskyldu í opna skjöldu þegar þau giftu sig í bakgarði við heimili leikkonunnar. Fimm mánuðum síðar var gamanið búið og þau skildu.

Shannen og Ashley.

Jennifer Lopez og Cris Judd
8 mánuðir

Jennifer giftist dansara sínum þann 29. september árið 2001. Jennifer tjaldaði öllu til enda var hún nýbúin að græða á tá og fingri eftir útgáfu lagsins Love Don’t Cost a Thing. Hún klæddist brúðarkjól frá Valentino og lét skreyta með tíu þúsund rósum. Allt þetta dugði ekki til og entist hjónabandið aðeins í átta mánuði. Jennifer og Chris staðfestu skilnað sinn í júní árið 2002.

Jennifer og Cris.

Liam Hemsworth og Miley Cyrus
8 mánuðir

Sambandi Liams og Miley mætti helst lýsa sem „haltu mér, slepptu mér“, en þau deituðu við og við síðan þau kynntust árið 2009. Þann 23. desember í fyrra giftu þau sig við litla athöfn. Miley klæddist kjól frá hönnuðinum Vivianne Westwood og kostaði dressið ríflega milljón. Þann 10. ágúst síðastliðinn gaf Miley út yfirlýsingu þar sem hún staðfesti sambandsslitin, en grunur vaknaði um að þau væru hætt saman eftir að söngkonan deildi myndum af sér án giftingarhringsins. Þetta kom Liam í opna skjöldu og vissi hann ekkert um skilnaðinn fyrr en hann sá yfirlýsinguna á samfélagsmiðlum. Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að yfirlýsingin kom út, fóru myndir af Miley og nýju kærustu hennar, Kaitlynn Carter, í birtingu. Þær er nú hættar saman.

Liam og Miley.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 3 dögum

Einn virtasti fjölmiðill heims fjallar um íslenska fasteign – Metin á 108 miljónir

Einn virtasti fjölmiðill heims fjallar um íslenska fasteign – Metin á 108 miljónir
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sakamál: Neyðaróp um kvöld

Sakamál: Neyðaróp um kvöld
Fókus
Fyrir 5 dögum

Stjörnuspá vikunnar – „Veðrið speglast í þér og ég held að það sé rigning mest alla vikuna“

Stjörnuspá vikunnar – „Veðrið speglast í þér og ég held að það sé rigning mest alla vikuna“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Daði Freyr tekur Jaja Ding Dong „í fyrsta og eina skiptið“

Daði Freyr tekur Jaja Ding Dong „í fyrsta og eina skiptið“
Fókus
Fyrir 1 viku

Bríet komin með kærasta – Nældi sér í gítarleikara Kaleo

Bríet komin með kærasta – Nældi sér í gítarleikara Kaleo
Fókus
Fyrir 1 viku

Óttaðist að enda sem versta martröð súkkulaðinuddarans

Óttaðist að enda sem versta martröð súkkulaðinuddarans
Fókus
Fyrir 1 viku

Vikan á Instagram: „Var að læra að taka bossa speglamynd 24 ára“

Vikan á Instagram: „Var að læra að taka bossa speglamynd 24 ára“
Fókus
Fyrir 1 viku

Svala Björgvins einhleyp á ný

Svala Björgvins einhleyp á ný