Sumir Íslendingar sem búa á landsbyggðinni telja KitchenAid gróflega mismuna landsmönnum í Facebook-leik sem var kynntur í síðustu viku. Til að fá að vera með í leiknum þá krefst fyrirtækið þess að fólk taki ljósmynd af risahrærivéli. Hún er hins vegar staðsett í Kringlunni og margir á landsbyggðinni kæra sig ekkert um að fara til Reykjavíkur. Í athugasemdum á Facebook er talsverður fjöldi sem gagnrýnir þetta harðlega.
Soffía nokkur virðist sármóðguð fyrir hönd þeirra sem búa í dreifbýli. „Það er ekki verið að hugsa um þá sem búa fjarri höfuðborginni og þessu fyrirtæki til skammar að bara hluti landsmanna geti þátt og svo eru ekki allir á instagram,“ skrifar hún.
Málmfríður nokkur segir það engan veginn á færi allra að skreppa til Reykjavíkur. „Hafa annan leik fyrir landsbyggðina… ekki allir sem hafa tök á því að „renna“til rvk til að taka mynd af sér með vélinni,“ skrifar hún. Birna nokkur segir þetta grófa mismunun hjá fyrirtækinu. „KitchenAid á Íslandi: Mér finnst þetta ljótur leikur og ójafn. Aðeins hluti landsmanna á möguleika á að taka þátt. Ykkur stórlega til vansa,“ segir hún.
Ein kona tekur undir og skrifar: „Segi það sama..við erum bara utanbæjarpakk.“ Önnur segir það ekkert nýtt að litið sé á landsbyggðarfólk sem annars flokks borgara. „Alltaf sama sagan með okkur utanbæjar fólk, við fáum aldrei að vera með,“ skrifar sú kona. Ingibjörg nokkur segist svo ekki ætla hætta lífi sínu fyrir eldhúsapparat. „Á ekki leið í borg óttans,“ segir hún.
KitchenAid á Íslandi svarar þessari gagnrýni í athugasemdum: „Allir okkar leikir eru undir venjulegum kringumstæðum opnir öllu landinu. Hinsvegar kemur risavélin hingað til landsins undir sérstökum kringumstæðum og vegna umfangs hennar er bara hægt að sýna hana á einum stað þessar 3 vikur sem hún stoppar hér. Það væri óskandi að geta sýnt hana á fleiri stöðum en vélin verður að halda áfram í heimsreisu sinni í nóvember.“
https://www.facebook.com/Kitchenaidisland/photos/a.1496415087274354/2351364595112728/?type=3&theater