fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Malín Brand horfir sátt fram á veg – „Samfélagsþjónustan var stórkostleg blessun“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 9. janúar 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Malín Brand er 37 ára og hefur þrátt fyrir ungan aldur upplifað meira á ævinni en margur annar. Hún var alin upp við stranga trú Votta Jehóva og þekkti ekki jól, afmæli eða annað slíkt í æsku og á unglingsárum og giftist ung manni sömu trúar. Í dag er hún nýlega trúlofuð ástinni í lífi sínu og komin í draumastörfin með kærleika og endurvinnslu að vopni.
Í viðtali við blaðamann DV ræðir Malín uppeldið og trúna, atvikið sem umturnaði lífi hennar, bíladelluna, Parkinson-sjúkdóminn, sem hún greindist með í fyrra og ástríðuna fyrir nýjum verkefnum og áskorunum.

Þetta er það sem ég kalla stórkostleg og dásamleg refsing,“ segir Malín um nýja starfið sitt, ritstjórn blaðs ABC barnahjálpar, sem hún hefur sinnt frá því í ágúst. „Ég er búin að taka út minn dóm, mína refsingu, sem fólst í samfélagsþjónustu hjá ABC barnahjálp.“

Eftir að hafa hlotið dóm árið 2017 vegna fjárkúgunarmálsins sem skók þjóðina árið 2015, sótti Malín um samfélagsþjónustu og var boðið að starfa hjá ABC, en fyrst hélt hún að hún ætti að starfa á nytjamarkaðinum. „Sem hefði verið dásamlegt líka, en út af Parkinson-sjúkdómnum þá hefði ég ekki verið góð í afgreiðslu.“ Í staðinn fór hún á skrifstofuna í að skrifa og þýða greinar og þegar samfélagsþjónustunni lauk var henni boðið hlutastarf sem ritstjóri blaðsins. Blaðið kemur út tvisvar sinnum á ári, er sent til styrktaraðila auk þess að vera aðgengilegt á netinu og sér Malín um að taka viðtöl, þýða greinar úr sænsku og skrifa greinar.

„Það er svo mikil snilld að hafa fengið að vera hjá þeim, ég er búin að læra svo margt, ég vissi ekkert um ABC áður, vissi ekki hvernig það virkaði,“ segir Malín sem segir starfsfólkið frábært og ekki dæma neinn. „Tíminn hjá þeim leið svo hratt af því að ég var alltaf að fást við eitthvað sem var svo gefandi. Eins og kemur fram í ritstjórapistlinum mínum byggist starfið á kærleika og það er svo fallegt.“

Aðspurð hvort hún telji eitthvað annað en tilviljun hafa stýrt henni í starfið brosir hún og segir marga hafa haft orð á því. „Þetta var stórkostleg blessun og hver veit nema eitthvað æðra hafi stýrt mér í starfið.“

Malín er ekki lærð í blaðamennskunni, en titlar sig sem blaðamann og hefur gert síðan árið 2011, þegar Björn Ingi Hrafnsson bauð henni vinnu á Pressunni. „Þar var ég til ársins 2012, síðan fór ég á RÚV í eitt og hálft ár og síðan á Morgunblaðið.“

En af hverju valdi hún að byrja í blaðamennskunni?

„Af því að ég hef svo mikinn áhuga á fólki. Ég er forvitin, en ekki hnýsin. Það hafa allir sögu að segja og það eru allir merkilegir. Sumir eru skúrkar og allt það, en það eiga allir sögu og það er hægt að finna góðu söguna hjá öllum. Þetta er það sem mig hefur alltaf langað að gera. Í dag, hjá ABC, þá er ég bara að skrifa um jákvæða hluti, vissulega er örbirgð hjá mörgum, en starfið snýst um menntun barnanna og þegar þau eru búin með sitt nám, jafnvel háskólanám, þá eru þau svo þakklát og mörg þeirra gefa af sér áfram,“ segir Malín og nefnir sem dæmi mann sem útskrifaðist sem barnalæknir og ferðast í dag í fátækustu þorpin þar sem hann sinnir fólki endurgjaldslaust.

Heilluð af endurvinnslu og rekur bílapartasölu með unnustanum

Starfið hjá ABC er þó ekki það eina sem Malín sinnir, því í ágúst opnuðu hún og unnusti hennar, Þórður Bragason, bílapartasölu. Auk þess eru þau með vefsíðuna motorsport.is. Líkt og margir muna þá áttu bílar hug Malínar allan þegar hún starfaði á Morgunblaðinu, en af hverju er hún með þessa svakalegu dellu fyrir bílum?

„Ég kalla þetta ekki dellu af því að della kemur og fer,“ segir Malín og brosir. „Ég er með meðfæddan bílaáhuga og man eftir mér pínkuponsulítilli að leika mér með bíla.“

Hún hefur átt marga bíla í gegnum tíðina, „frekar marga,“ eins og hún segir, en man hún eftir þeim fyrsta? „Fyrsti bíllinn var ótrúlega hræðilegur, Fiat Uno 1987, 61 hestafl og á honum brunaði ég út um allt.“

Unnusti Malínar er líka mikill bílakarl. Þau kynntumst í gegnum sportið, keppa saman í rallí og núna vinna þau líka saman alla daga, í bílapartasölunni.

„Fyrst hugsuðum við hvort það væri góð hugmynd, en það gengur rosa vel,“ segir Malín.

„Fólk hugsar um bílapartasölu sem eitthvert ógeð, eitthvað skítugt, en þetta er ekki þannig því þetta er endurvinnsla í sinni björtustu mynd, því við erum alltaf að nota aftur hlutina í stað þess að kaupa nýtt.

Þetta er umhverfisvænt, ef maður fjarlægir spilliefni þá er hægt að endurnýta og endurvinna heilan helling.“

Þórður er tölvunarfræðingur og hefur hannað kerfi til að halda utan um bílaparta. „Þetta háspennukefli kemur úr þessum bíl, hann var rifinn þarna og síðan er mynd af bílnum, þannig að það er alltaf hægt að vita uppruna partanna. Sem dæmi má nefna að þegar bílar eru lagaðir eftir tjón þá er eðlilegt að fá að vita hvaðan hluturinn kemur.“

Það er opið allan daginn og Þórður á vakt, auk Malínar, þótt hún sé líka að sinna fleiru. „Og það er nóg að gera! Ég held að fólk sé að kveikja á því að það er engum til góðs að vera sífellt að kaupa eitthvað nýtt, að flytja yfir hafið hluti sem eru til hér heima.

Ég vil trúa því að við getum gert miklu betur með plastið, eins og á meðalstórum bíl þá eru 9 prósent þyngdarinnar plasthlutir, um 115 kíló. Stærri hluti eins og stuðara má endurvinna, ég er ekki að tala um að plokka allt plast af bílnum, en það munar um stærri hlutina,“ segir Malín, sem segist alltaf hafa haft áhuga á umhverfismálum og endurvinnslu. „Á RÚV var oft sagt: „Þarna kemur Malín hlaupandi á eftir ruslabílnum.“

Varstu kannski byrjuð á undan öllum hinum með endurvinnslu?

„Ég veit það ekki, en fyrir svona 10 árum var ég mikið að velta fyrir mér af hverju við endurynnum ekki plast. Ég er ánægð með að endurvinnsla, sérstaklega með plast, er komin inn í vitund fólks. ABC rekur tvo nytjamarkaði og í fyrsta blaðinu mínu sem ritstjóri þá skrifa ég til dæmis um að endurnýta jólaskrautið, þú getur til dæmis keypt jólakúlu þar á tíkall. Þú getur líka farið með þitt dót og endurnýtt, það er svolítið skemmtilegt. Einnig finnst mér í lagi að gefa eitthvað notað, til dæmis bækur, sem jólagjafir,“ segir Malín og verður hæstánægð þegar blaðamaður bendir henni á að bókaútgefendur séu að mestu hættir að plasta bækur.

Spáir ekkert í aldursmuninn – „Fyndið þegar fólk heldur okkur feðgin“

Líkt og fyrr sagði kynntist Malín unnusta sínum í gegnum bílasportið. „Ég og Þórður kynntumst árið 2014 og erum búin að vera saman í eitt ár. Hann er töluvert eldri en ég, 16 árum.“

Er aldursmunurinn ekkert vesen?

„Nei, alls ekki. Doddi er ekkert karlalegur og ég pæli ekkert í þessu. En það er stundum fyndið þegar fólk spyr hvort við séum feðgin. Það hefur ekki gerst oft, en fólk verður mjög vandræðalegt.“

Parið trúlofaði sig núna um jólin. Malín á einn son, Óðinn, sem er tíu ára, og Doddi á þrjú börn, öll rúmlega tvítug, og býr miðjusonurinn hjá þeim. Aðspurð hvort það sé erfitt að vera orðin stjúpmamma fullorðinna barna, segist Malín ekki líta á sig sem stjúpmóður þeirra, en allir séu sáttir og samrýndir.

Bílar eru fjölskyldusportið. Bragi, sonur Dodda, sem býr hjá þeim gerir Mótorsportþættina fyrir RÚV. „Þannig að á sumrin erum við öll saman, við að keppa og hann að taka upp. Þegar við erum ekki að keppa, erum við öll í torfærunni: ég að mynda, Bragi að kvikmynda og Doddi tekur einnig myndir fyrir vefinn okkar. Bragi gerir einnig þætti fyrir erlendan markað.“

Eldri sonur Dodda er bílasmiður og það er því nokkuð ljóst að bílar eru fjölskylduáhugamálið. „Við Óðinn erum í góðum málum, hann er líka mikill bílakarl.“

Malín er fædd með ólæknandi bílaáhuga og sá áhugi kemur sér vel í bílapartasölunni sem hún á og rekur með unnusta sínum.

Yngsta konan sem greinst hefur með Parkinson hér á landi

Í hittifyrra greindist Malín, 35 ára gömul, með Parkinson-sjúkdóminn, yngsta konan sem greinst hefur hérlendis. Segist hún fram að því hafa talið sjúkdóminn „gamalmennasjúkdóm,“ en flestir þeirra sem greinast eru komnir yfir sextugt. Sjúkdómurinn gengur ekki í erfðir og fyrir utan einn ættingja, er Malín sú eina í sinni fjölskyldu með sjúkdóminn.

„Það eru margir sem halda sjúkdóminn ættgengan, en ekki hefur verið sýnt fram á það og það veit enginn af hverju einhver einn fær sjúkdóminn frekar en annar. Þegar ég var 32 ára þá byrjaði vinstri handleggurinn að hristast einn daginn og ég hugsaði bara: hvað er í gang? Svo leið dagurinn og aldrei hætti hristingurinn,“ segir Malín aðspurð hvenær einkenni gerðu fyrst vart við sig.

„Þegar ég var á RÚV árin 2012–2013 þá var fólk að benda mér á að ég væri svo skjálfhent. Ég fór að leita til læknis og einn taugalæknir sagði mér að ég væri bara móðursjúk, „já, ókei, lýsir það sér svona?“, ég er ekki hjá honum lengur,“ segir Malín og hlær.

„Einhverjir héldu að ég hefði fengið taugaáfall og ég heyrði fólk pískra um það eða jafnvel skjóta að mér hvort ég hefði verið að fá mér kvöldið áður.“

Árið 2017 fékk hún síðan greiningu á sjúkdómnum, fimm árum eftir fyrstu einkenni, og segir það hafa verið gott, þar sem í dag tekur hún lyf sem slái á einkennin. „Ég er yngsta konan sem greinst hefur hérlendis, en allavega þrír karlmenn, yngri en ég, hafa greinst á eftir mér. Einn þeirra sætti sig ekki við að fá ekki greiningu hér og fór til útlanda og sótti sér hana. Það er mikil sóun að eyða bestu árum ævi sinnar í að geta ekki lifað og gert það sem mann langar til að gera.

Maður verður svo stífur af Parkinson, fer í keng, er illt alls staðar, hefur ekki kjark til að gera hluti. Jafnvægið er skrýtið líka og sumir missa jafnvel röddina. Sjúkdómurinn háir mér í daglegu lífi, en vegna lyfjanna þá hef ég meiri kraft en áður. Óðinn man eftir tímabili þegar mig langaði út að leika með honum, en einfaldlega gat það ekki. Svo jafnvel fórum við út að leika, en ég komst ekki heim, sat bara í snjónum og óskaði þess að þyrla kæmi og flytti mig heim.“

Í dag þekkir Malín betur á líkamann og takmörk sín hvern dag. Og er farin að læra að biðja um hjálp við hluti sem hún ræður ekki við að gera sjálf. „Það getur allt gerst, en ég fagna bara hverjum góðum degi. Það er skrýtið að geta ekki gert hluti sem ég gat gert áður. Ég er líka stolt og allt það, en er að læra að biðja um aðstoð. Ég er með gott teymi á Landspítalanum og svo æðislegan sjúkraþjálfara, hina dönsku Annette.

Hún fór með mig í frítíma sínum og lét mig gera æfingar sitjandi á hestbaki, á feti. Hreyfingin og jafnvægið er svo gott fyrir mann, maður er með lausa fætur, finnur jafnvægið og er að hreyfa sig með. Snertingin við dýrin, hitinn frá hestinum, útiveran, þetta er alveg geggjað og hefur allt svo góð áhrif á mann,“ segir Malín, sem segir velferðarkerfið hins vegar ekki styðja svona óhefðbundnar aðferðir. „Þessi aðferð er hins vegar mikið notuð í Danmörku og mér finnst það mikil blessun að hafa kynnst Annette, hún er alveg yndisleg og sinnir starfi sínu ekki fyrir peninga, heldur af manngæsku. Ég myndi vilja að fleiri Parkinson-sjúklingar ættu þess kost að fara á hestbak, ég þarf bara að finna út úr því hvernig ég kem því í kring. Jafnvel hvort Parkinson-samtökin vilji taka þátt í því.“

Hvernig var að vera ung, 35 ára, einstæð móðir og fá greininguna um Parkinson-sjúkdóm?

„Veistu það hafði svo margt gengið á í lífinu að þetta var bara svona allt í lagi,“ segir Malín einlæg. „Ég man að læknirinn var mjög varfærinn þegar hann sagði mér niðurstöðuna og benti hann mér á að það væri í lagi að gráta. Ég brotnaði ekki niður, en auðvitað var þetta áfall. Margir verða leiðir, jafnvel þunglyndir, en ég hugsaði með mér að slíkt væri ekki að fara að hjálpa mér.“

Malín hélt áfram að keppa í rallí eins og fyrr, en leitaði til Parkinson-samtakanna með ráðgjöf. Segir hún starfsfólk Landspítalans ekki aðstoða með réttindi eða aðstoð, og því sé gott að geta leitað til fjölskylduráðgjafar Parkinson-samtakanna, sem veiti fría ráðgjöf um réttindi sjúklinga, mataræði og fleira.

Síðastliðið sumar voru samtökin með átak til að vekja athygli á sjúkdómnum en þau safna fyrir húsi sem er ekki til staðar í dag, miðstöð fyrir sjúklinga þar sem hægt væri að halda fundi og bjóða upp á fræðslu, en fundir eru í dag haldnir í sal í Hátúni, sem samtökin fá afnot af.

„Ég og nokkrar aðrar konur fórum inn á völlinn með landsliðskonunum í fótbolta og aftan á treyjunum stóð Parkinsdóttir, sama gerðu strákarnir og á treyjum þeirra stóð Parkinson. Þannig vöktum við athygli á sjúkdómnum. Auk þess höfum við vakið athygli á þeirri skelfilegu staðreynd að dánartíðni vegna sjúkdómsins er næsthæst í heimi á Íslandi, sem er ægilegt, en ekki er vitað af hverju svo er. Hvort það er loftslagið, myrkrið, mataræðið. Sem dæmi má nefna þá þekkist Parkinson varla í Mið-Austurlöndum. Það er margt sem er órannsakað.“

Spennt, en hrædd vegna stofnfrumumeðferðar

Malín hefur verið í sambandi við lækna erlendis, sem vilja fá hana í stofnfrumumeðferð, meðferð sem ekki hefur verið reynd enn sem komið er á mönnum. „Fyrst þetta virkar á mýs, þá virkar þetta á Malín,“ segir hún og hlær.

„Ég er spennt fyrir meðferðinni og langar að fara, þetta væri mikill séns sem ég væri að taka en maður vill reyna allt þegar maður er með ólæknandi sjúkdóm. En meðferðin kostar um fimm milljónir og það hefur enginn Parkinson-sjúklingur farið og ég þori ekki að fara fyrst. Læknarnir geta auðvitað engu lofað um árangur, en ég myndi vilja fara fyrr en seinna, ef meðferðin yrði til að stoppa sjúkdómsferlið. Ég verð kannski betri, allavega ekki verri held ég. Ég myndi samt vilja sjá að svona meðferð yrði niðurgreidd í framtíðinni.“

Alin upp í Vottum Jehóva – Lögð í einelti alla barnæskuna

Malín er alin upp í vottatrú, en móðir hennar, sem fædd var árið 1947, tók trúna árið 1971. „Það vissi enginn af hverju hún gerði þetta, hún hafði sem dæmi búið í Mið-Austurlöndum. Síðan kynntist hún pabba. Hann var aldrei í vottunum, var bara hlutlaus í þessu. Þau gerðu samkomulag, mamma fékk að ala okkur upp með þessu trúardóti og pabbi var alltaf í vinnunni og í flugbjörgunarsveitinni.“

Vottar halda ekki upp á afmæli eða jól með tilheyrandi hátíðlegheitum og veisluhöldum: mat, skrauti, pökkum og svo framvegis. Hvernig var að alast upp sem vottur  Jehóva?

„Ég átti enga vini í skóla, mér var strítt og ég var lögð í einelti, gróft einelti, alla skólagönguna,“ segir Malín. „Ég talaði aldrei um vottana að fyrra bragði, en ef ég var spurð þá sagði ég ekki ósatt. Sumir héldu einfaldlega að ég væri að fíflast.“

Vottarnir flúðu oft um jólin í sumarbústaði og segir Malín hennar fjölskyldu hafa gert það: „Eitthvert vottaþorp í Ölfusborgum í Hveragerði, fyndið.

Ég hef talað um það áður, að það að alast upp í vottunum sé trúarofbeldi. Maður er svo áberandi í að skera sig út úr hópnum. Þessar aðstæður kalla bara á að börnum sé strítt. Ég var oft með hnút í maganum við að fara í skólann, hann var eitthvað ægilegt í mínum augum.“

Malín segir umburðarlyndi orðið meira í dag í fjölmenningarsamfélagi og þrátt fyrir erfiða æsku segist hún engu vilja breyta úr uppeldinu. „Ég er hér út af þeirri krókaleið sem ég hef farið. Eftir sem áður finnst mér dapurlegt að hugsa til þeirra barna sem eru út undan, sem fá ekki jóla- og afmælisgjafir, ekki páskaegg, þau mega ekki mæta í afmæli til annarra barna, það er bannað. Svo sitja þau í tónmennt og mega ekki syngja með jólalögunum. Þegar ég var í kristinfræði, þá var ég tekin út úr þeim.“

Eftir grunnskólann fór Malín í Menntaskólann í Reykjavík og segir menntaskólaárin hafa verið góð og enginn leiðinlegur við hana þar. En hún skar sig þó enn úr fjöldanum. „Ég var gift kona, ég gifti mig þegar ég var 18 ára, manni sem var líka vottur,“ segir Malín. „Samnemendum mínum fannst skrítið þegar ég sagðist þurfa að fara heim að elda fyrir fjölskylduna.“

Úr MR hélt Malín síðan í Háskóla Íslands, þar sem hún lærði mannfræði og málvísindi. Þar lærði hún meðal annars gagnrýna hugsun og á sama tíma losaði hún sig undan hlekkjum vottanna og hjónabandsins. „Við skildum á sama tímabili. Það var auðvitað illa séð að ég væri að mennta mig. Ég sá að ég gat ekki gert sjálfri mér þetta lengur,“ segir Malín, sem var í Vottum Jehóva þar til hún var 23 ára.

Í kjölfarið skráði hún sig í Ásatrúarfélagið. „Þetta var pínu yfirlýsing hjá mér, svona ég ræð mér sjálf og ég má skipta um skoðun. Mér finnst heiðin arfleifð okkar mjög merkileg og Ásatrúarfélagið er mjög flott félag. Ég er ekki rosa virk, en ég fylgist samt með,“ segir Malín.

„Ég er ekki trúuð, ég segi stundum að ég sé guðleysingi, en ekki trúleysingi, fólk heldur oft að það sé eitt og hið sama. Það er svo margt ótrúlegt búið að gerast að ég get ekki neitað því að það fyllir mig auðmýkt. Eins og allt þetta stórkostlega fólk sem ég hef kynnst, til dæmis í gegnum ABC. Ég get ekki neitað því að hugsa að það sé til eitthvað æðra og það væri hrokafullt af mér að halda því fram að svo sé ekki.“

Malín og sonurinn Óðinn eru einstaklega samrýnd. Sonurinn deilir bílaáhuganum með öðrum fjölskyldumeðlimum.

Uppeldið mótaði móðurhlutverkið

Í dag elskar Malín jólin, sem hún fékk ekki að njóta sem barn. „Við Óðinn erum mikið jólafólk og mér sýnist bæði Doddi og Bragi sáttir við það. Ég er ekki á síðustu stundu með neitt, því ég vil njóta þess í desember að japla á jólunum.“

Mótaði æskan hvernig þú ólst eigið barn upp?

„Ég held ég sé pínu öfga jóla og afmælis, af því ég vil ekki að eitthvað úr minni æsku skyggi á. Mitt uppeldi er víti til varnaðar og ég leitast við að veita Óðni vitsmunalega örvun,“ segir Malín, sem segist ekki hafa þolað þegar hún sem barn, fékk sama svar við spurningum sínum: „Þú færð að vita það seinna, þegar þú verður stór“.

„Ég svara honum alveg óhikað með að ég viti ekki eitthvað, en þá förum við saman og leitum upplýsinga. Óðinn er tíu ára og við ræðum mikið málin; trúmál, pólitík og margt fleira. Ég legg líka ríka áherslu á að þó að ég trúi ekki á guð, þá hefur hann frelsi til að velja og frelsi til að hafna.

Sem barn mátti ég ekki lesa allar bækur sem ég vildi, ég man til dæmis að mamma fór með Veröld Soffíu og skilaði henni á bókasafnið, sagði bókina heimspeki og ég mætti ekki lesa svoleiðis.“

„Þetta var mín versta martröð“

Það er ekki hægt annað en spyrja Malín um atburðinn sem kollvarpaði lífi hennar árið 2015, þegar hún og systir hennar voru handteknar í júní fyrir að kúga fé af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra.

„Mig langar alls ekki að tala um þetta mál, það snýst um veika manneskju sem ég er í engum samskiptum við í dag. Það er agalegt að hafa blandast inn í þetta,“ segir Malín, en dómur féll í apríl 2017 og eins og áður segir hefur Malín tekið út sína refsingu.

Verður þú fyrir aðkasti í dag vegna málsins?

„Já, það gerist, fólk er stundum að benda á mig og þekkir mig úti á götu. Ég hefði viljað vera þekkt fyrir eitthvað jákvætt, ekki þetta. En svona er þetta, ég gerði mistök, stór mistök og ég er búin að taka út refsingu fyrir það,“ segir Malín, sem var fyrir þetta atvik þekkt andlit, allavega hjá hluta þjóðarinnar.

„Það er afspyrnu neikvætt að vera þekkt fyrir svona, ég verð ekki fyrir skítkasti, en ég fer til dæmis í afmæli og heyri svo eftir á að fólk hafi verið að spyrja hvort ég væri ekki konan sem var í málinu með Sigmundi. Ég vil geta sagt við fólk: „Ef þetta er að trufla þig, þá skulum við bara klára að ræða það og höldum svo áfram,“ ef fólk vill það ekki þá fer ég bara.

Það er stór og mikil spurning af hverju við gerum það sem gerum og af hverju við segjum það sem við segjum. Og hvernig í ósköpunum gerðist þetta? ef ég ætti „konkret“ svar við því þá væri ég búin að svara. Þetta eru aðstæður sem ég kom mér í og sem ég kom mér ekki út úr. Þetta var mín versta martröð.“

Í kjölfar málsins missti Malín vinnuna í maí 2015 og einangraði sig mikið. „Það var allt gjörsamlega sturlað í samfélaginu, þetta var bara hamagangur eins og með Klaustursmálið núna. Það var stöðugt hringt í mig og ég var bara hrædd. Mér leið svo illa með þetta allt saman, en sem betur fer er ég komin í gegnum það.“

Langar þig ekki að fara aftur í vinnu í blaðamennskunni?

„Mér finnst það ekki við hæfi, þetta var dásamlegur vinnustaður og frábært fólk. En trúverðugleikinn og traustið fór og ég held að það verði að líða lengri tími. Ég gæti ekki bara gengið þar aftur inn eins og ekkert hefði gerst. Líka út af virðingu við lesendur, en svo sannarlega væri ég til í að vinna þar aftur einhvern tímann.“

Aðspurð hvort að hún sé í einhverju sambandi við systur sína í dag, sem hlaut einnig dóm fyrir málið, svarar Malín að svo sé ekki. „Ég hef ekki talað við hana síðan 29. maí 2015, en ég vona heitt og innilega að það gangi vel hjá henni. Auðvitað ber ég alltaf kærleika til hennar, en ég held að það sé ekki góð hugmynd að við séum í samskiptum og hún hefur ekki teygt út sáttarhönd til mín. Ég er þó löngu búin að fyrirgefa systur minni, þó að hún hafi ekki beðið mig afsökunar. Ég gæti líklega sagt eitthvað ljótt um hana, en ég sé engan tilgang í slíku, það væri bara að lýsa mínu innra rusli. Ég el ekki á reiði og gremju, og ef slíkar hugsanir eða tilfinningar koma upp, þá klára ég þær strax. Slæmar hugsanir og neikvæðni kemur manni fyrr í gröfina og ég er ekkert að flýta mér þangað.“

Finnst þér fólk eiga rétt á öðru tækifæri eftir að hafa tekið út sína refsingu?

„Ég tel að þegar einstaklingur er búinn að taka út sína refsingu, þá sé ekki fallegt að rifja mál hans endalaust upp, en málið mun alltaf loða við viðkomandi. Ég þarf ekki að skammast mín fyrir að vera sú sem ég er, mín gildi eru á hreinu, ég er að sýna með verkum mínum í dag hver þau eru.

Fólk á skilið annað tækifæri í lífinu, ég fæ sting í hjartað þegar mál er tekið upp í fjölmiðlun og fólk drullar yfir viðkomandi einstakling. Mér líður illa fyrir hönd viðkomandi af því að ég hef verið sjálf í þessum sporum og þetta á enginn að þurfa að ganga í gegnum. Við eigum ekki að gera svona, þannig byggjum við ekki hvert annað upp. Með mannkærleika að leiðarljósi þá getum við ekki gert svona.

Hver sá sem ætlar að dæma mig fyrir mistök sem ég gerði í fortíðinni verður bara að eiga það við sig,“ segir Malín og bætir við að hvað varðar þetta mál, líkt og uppeldið, vildi hún þrátt fyrir allt engu breyta.

„Ég myndi engu vilja breyta þótt þetta hafi verið erfitt tímabil, vegna þess að ég er rosalega hamingjusöm þar sem ég er núna og mér hefur aldrei liðið betur. Þrátt fyrir öll áföllin; andlát mömmu og pabba, þetta hryllilega mál, Parkinson, ég er á svo góðum stað. Við,“ bætir hún við og lítur á Óðinn, sem kom með móður sinni í viðtalið og hefur lesið í bók, meðan það fer fram.

„Þetta er bara stormandi lukka, Doddi, þetta er bara yndislegt. Stundum finnst mér þetta vera of gott til að vera satt, ef þetta er draumur þá vil ég ekki vakna, allavega ekki strax,“ segir Malín einlæglega.

Hvað ber framtíðin í skauti sér, hvað langar þig að gera?

„Mig langar að þýða fleiri bækur, en ég hef áður þýtt bók, bæklinga og greinar. Ég er að læra þýðingafræði núna í Háskóla Íslands til að vera með tæknina og verkfærin rétt. Námið er svo skemmtilegt, en ég tek bara eitt fag í einu til að ofgera mér ekki. Ég var hálfnuð með lögfræði í Háskólanum í Reykjavík, en ég held ég klári hana ekki. Stundum er ég líka beðin um að taka myndir fyrir aðra, ég tek líka myndir fyrir vefinn okkar.

Mig langar að breyta heiminum og bæta hann, til dæmis með umhverfisvakningunni og bílaendurvinnslunni. Þetta er svo jákvætt, þú ert að hugsa um jörðina og að gera heiminn að betri stað fyrir næstu kynslóð. Það er framtíðin, að halda áfram að gera gott,“ segir Malín, sem hefur háð marga hildina í lífsins ólgusjó, unnið sumar og tapað öðrum, rétt eins og við flest, en horfir nú sátt til framtíðar, nýtrúlofuð og í starfi sem gefur af sér kærleik til komandi kynslóða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sérfræðingar völdu bestu elskhuga Íslands: „Það var mikil kynorka á Kaffibarnum á þessum tíma“

Sérfræðingar völdu bestu elskhuga Íslands: „Það var mikil kynorka á Kaffibarnum á þessum tíma“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sigurður Árni með mikilvæg skilaboð: „Minning um rosalegan þjófnað hefur sótt á mig síðustu daga“

Sigurður Árni með mikilvæg skilaboð: „Minning um rosalegan þjófnað hefur sótt á mig síðustu daga“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslendingur gerði Ólaf Darra „starstruck“: „Þig langar að heilsa og segja takk“

Íslendingur gerði Ólaf Darra „starstruck“: „Þig langar að heilsa og segja takk“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Við erum Kolfinna, Nói og Baldur Ingi

Við erum Kolfinna, Nói og Baldur Ingi