fbpx
Mánudagur 09.september 2024
Fókus

Bréf til Maríu Lilju – „Baráttan snýst um að standa með öllum þolendum alltaf. Ekki bara þegar að það hentar“

Babl.is
Sunnudaginn 11. nóvember 2018 15:10

Sólrún Freyja Sen skrifar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

babl.is

„Um daginn kom í ljós að Orri Páll Dýrfjörð, fyrrverandi trommari Sigurrósar, var ásakaður um nauðgun af Meagan Boyd. Meagan birti sögu sína á Instagram síðu sinni, og sagði að #Metoo byltingin hafi hvatt hana til að segja frá. Hún segir að nauðgunin hafi átt sér stað fyrir sex árum þegar hún hitti Orra fyrir utan nektardansklúbb og gisti hjá honum,“ skrifar Sólrún Freyja Sen í grein sinni á Babl.is.

María Lilja Þrastardóttir, eiginkona Orra, er þekkt fyrir baráttu sína fyrir því að þolendum nauðgana sé trúað. Sönnunarbyrðin vegur gríðarlega þungt í nauðgunarmálum en langoftast er erfitt að sanna að nauðgun hafi átt sér stað.

Svo á fólk það til að misskilja. Þegar nauðgunarmál eru felld niður eða ekki sakfellt í þeim, þá er réttarkerfið ekki endilega að segja að nauðgun hafi ekki átt sér stað. Það er munur á ónógum sönnunum og að ákærðir séu saklausir.

Fyrir utan það hvað mörgum finnst erfitt að trúa að einhver nákominn manni hafi verið nauðgað, þá er ekkert auðveldara að trúa að ættingi eða vinur hafi gerst sekur um slíkt. Sönnunarbyrði þolenda er ekki bara mikil í réttarkerfinu, heldur líka gagnvart þeim sem eru fyrir utan réttarkerfið.

Þess vegna er þessi vitundarvakning svo mikilvæg. Byltingar eins og Druslugangan, #Þöggun og #Metoo fjalla um að standa með þolendum þar sem enginn eða lítill stuðningur var fyrir. Á meðan kerfið getur ekki tekið á móti þolendum nauðgana þá verður einhver annar að gera það.

Eins og undirrituð skilur það, þá var María að benda á þetta og þess vegna ætti maður að trúa sögum þolenda. Þetta snýst ekki alltaf um hvernig er dæmt í þessum málum, ef þau eru kærð yfir höfuð. Þetta snýst um að sýna samstöðu og stuðning við þolendur. Ef einhver segir þér að hann hafi verið laminn í æsku þá ferðu ekki að draga í efa og spyrja út í smáatriði til að reyna að gera lítið úr frásögninni.

Ef einhver segir að hann hafi verið rændur ferðu ekki í rannsaka málið á eigin vegum. Af hverju verða allt í einu allir einkaspæjarar þegar kemur að nauðgunarmálum?

Þessi vitundarvakning og umræðan sem hefur átt sér stað varðandi þolendaskömmun og nauðgunarmenningu er gríðarlega viðkvæm. Umræðan um Orra Pál sýnir það skýrt. Það er fáránlega stutt síðan að þessi vitundarvakning átti sér stað og hún stendur alls ekki traustum fótum. Þess vegna hryggir mig að sjá Maríu Lilju birta opinberlega að hún trúi ekki Meagan. Að hún sé að ljúga þessu öllu. María reynir að sanna það með því að benda á hliðar af sögu Meagan sem hún grefur undir eða setur spurningamerki við.

Það sem ég er hrædd um er að María grafi ekki bara undan sögu Meagan heldur sögum allra þolenda nauðgana sem María hefur staðið með í gegnum tíðina. Hún grefur undan sögum þolenda sem hafa verið birtar opinberlega og ekki, verða birtar og verða ekki birtar.

Það er það sem baráttan snýst um. Að standa með öllum þolendum alltaf. Ekki bara þegar að það hentar.

Fólk sem er nákomið mér hefur verið sakað um nauðganir og kynferðislega áreitni. Eins erfitt og það er þá trúi ég þolendum þeirra. Því hvernig get ég þóst standa með þolendum nauðgana og kynferðislegu áreiti ef ég dreg sögur þeirra í efa um leið og þær tengjast mínu fólki? Hvernig get ég staðið með sjálfri mér? Hvernig gæti ég þá ætlast til þess að aðrir standi með mér og trúi mínum sögum?

Enginn okkar getur vitað hvað fer fram á milli meintra nauðgara og meintra þolenda. Hvort sem þú trúir þolandanum eða nauðgaranum. Þú varst ekki þarna þegar meint nauðgun Orra gegn Meagan átti sér stað, ekki ég heldur. Ef ég þarf að velja þá stend ég samt með henni. Því ég ætla að veita henni þann ofurlitla stuðning sem ég get veitt henni, stuðning sem María barðist fyrir með blóði svita og tári. Þetta er það litla sem ég get gert.

En engar áhyggjur María, Orri verður eflaust kominn aftur á sviðið innan fárra ára. Það verða allir búnir að gleyma þessu því ásakanir á hendur frægum einstaklingum virðast sjaldnast meitlaðar í stein heldur skrifaðar í sandinn. En þó ég og aðrir sem koma þessu máli ekki við verða búnir að gleyma þessu get ég trúað því að Meagan muni seint gleyma orðum Maríu til hennar.

Afstaða Maríu hefur eflaust haft áhrif á þolendur nauðgana og hvort þeir þori að tala um sín mál opinberlega. Hennar orð vega þúsund sinnum þyngra en stuðningsorð hennar til þolenda. Það þarf bara eitt atvik til að María missir traust og trúverðugleika. Það þarf bara eitt atvik til að draga öll hennar orð í efa.

María Lilja til vinstri og Meagan Boyd til hægri

María gefur drusluskömmurum og nauðgurum sem iðrast einskis og neita sökum byr undir báða vængi. Undir grein Vísis um bréf Maríu til Meagans má lesa komment frá skoðanabræðrum Maríu sem má sjá hér fyrir neðan

,,Eitt sinn var María Lilja inni á spjallsvæði þar sem talað var um að meintir þolendur ættu að njóta vafans. Að trúa ætti þeim sem settu fram svona ásakanir. Réðst María Lilja að karlmönnum sem einhver sagði að hefði gert eitthvað, og líka einstaklingum sem voru jafnvel ekki sakaðir um neitt áður en þeir voguðu sér að vera í réttindabaráttu barna inni á #DaddyToo. Þetta gerði hún inni á umræðuþræði AGN. En svo í þessu bréfi er hún farin að velta upp ástæðum þess að kona ljúgi til um nauðgun, eitthvað sem var óhugsandi nokkrum mánuðum áður. Hvað hefur breyst?”

„Ég skal hinsvegar taka undir með henni, breyttri manneskjunni. Ásökun hefur litla sem enga þýðingu nema eitthvað sé lagt fram henni til stuðnings. Hver sem er getur sakað hvern sem er um eitthvað.”

„Fyndið…þegar það hafa verið svona umræður í gangi þá hefur María verið með þeim fyrstu að taka upp hanskann fyrir fórnarlambið, úthúða ætluðum geranda ásamt því að nánast vilja krossfesta þá án þess að þeir hafi verið sakfelldir. Þegar hennar eigin maður er grunaður um nauðgun þá á fólk bara að láta þau í friði, ekkert minnast á þetta því það ruggar bátnum hennar. Femínísk hræsni í sinni skærustu mynd dömur mínar og herrar.“

„Þarna fær María að kenna svolítið á eigin meðali, sem er bara mjög miður. Þá á ENGINN það skilið að vera sakfelld/ur án allra sannana og krossfest/ur án þess að fá að svo mikið sem verja sig. Ég persónulega trúði þessari ásökun ekki, en þarna fær hún sem hefur predikað af mikilli hörku að öllum konum skuli trúað, skilyrðislaust, alltaf, að finna fyrir af eigin raun hversu hættulegt slíkt er því eins mikið og enginn vill trúa að nokkur aðili færi að skálda slíkt upp, þá einfaldlega er það ekki raunveruleikinn.”

Fyrir utan þessar athugasemdir rigna stuðningsorð og lof undir yfirlýsingu Orra Páls vegna málsins á Facebook. Þessar athugasemdir eru opnar öllum, þar á meðal þolendum nauðgana sem hafa lent í því að þeim sé ekki trúað. Þessar athugasemdir hafa áhrif á þá alla. Hafa áhrif á það viðkvæma þor að koma fram og segja sína sögu. Að kæra sín mál til lögreglunnar. Að hafa betur en þeir sem ekki trúa. Að hafa umræðuna um þessi mál í sínum höndum en ekki missa hana aftur til þeirra sem vilja ekki trúa þeim.

Við erum rétt byrjuð að krafsa yfirborðið á því ógrynni af skít sem fyrirfinnst í samfélaginu. Það mun taka ómælda vinnu og tíma að eyða nauðgunarmenningunni og öllu sem henni tengist, á meðan það tekur bara eitt lítið skref aftur á bak til að hylja aftur yfir og slétta úr yfirborðinu.

Sólrún Freyja Sen skrifaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fær borgað fyrir að borða – Opnar sig um skuggahliðarnar

Fær borgað fyrir að borða – Opnar sig um skuggahliðarnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórleikari hótaði að berja mann og annan um síðustu helgi

Stórleikari hótaði að berja mann og annan um síðustu helgi